6.10.2020 | 13:57
Miðaldra konan skráir sig aftur í Landvættina
Hvað er málið með það? Er ekki nóg að taka þessa Landvætti einu sinni?, jú fyrir flesta. Ég á reyndar vini sem hafa tekið Landvættina 4-5 sinnum en flestir gera þetta einu sinni. Ég skráði mig í Landvættina 2018 og markmiðið var skýrt. Klára Landvættina 2019 og finna mér svo kærasta. Einfalt og þægilegt. Eins og mörg frábær plön þá gekk þetta plan ekki alveg upp og viku fyrir aðra þrautina sem er 60 km fjallahjólakeppni kennd við Bláalónið datt ég á hjóli, lenti í gifsi og gat því ekki tekið þátt í Bláalónsþrautinni. Ég sleppti svo sundinu þar sem sundið var mín langversta grein og þegar ég losnaði við gifsið þá var komin smá villisundsótti í mig og ég hreinlega treysti mér ekki í sundið. Mér fannst líka að ég gæti alveg eins tekið sundið og fjallahjólið 2020. Skipti kannski ekki öllu máli hvort að ég myndi klára Landvættina í Bláalónsþrautinni eða Urriðavatnssundinu. Ég sá líka einn stóran kost við að klára Urriðavatnið seinast. Ég myndi fá heilt ár í viðbót til að æfa mig og okkar á milli þá veitti mér ekkert af því. Sund hefur alltaf verið mitt akkilesarhæll og ég var ennþá að leita að sundgleðinni þegar þarna var komið við sögu.
Planið endurskrifað
Ég ákvað því að endurskrifa planið. Þegar ég skráði mig í Landvættina vissi ég að ég þyrfti að setja allan fókus á æfingar fyrir Landvættina þar sem það eina sem ég kunni þegar ég skráði mig var að hlaupa. Ég hafði hlaupið einu sinni 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu en annað var óskrifað blað. Ég skráði mig í Fossavatnsgönguna sem er 50 km gönguskíðakeppni án þess að hafa nokkurn tímann stigið á gönguskíði. Ég skráði mig í Bláalónskeppnina sem er 60 km fjallahjólakeppni án þess svo mikið sem hafa séð fjallahjól og það voru svona ca 20 ár síðan ég hafði síðast farið út að hjóla. Ég skráði mig í Urriðavatnssundið sem er 2.5 km villisund án þess að kunna skriðsund og geta að hámarki synt ca 1.000 metra bringusund á góðum degi og ég skráði mig í Jökulsárhlaupið sem er 33 km utanvegahlaup þegar ég átti ekki einu sinni utanvegaskó hvað þá að hafa hlaupið einhvern tímann utanvegahlaup.
Masterplanið var sem sagt að klára Landvættina og finna mér svo kærasta. Ég var búin að vera einhleyp í nokkur ár og búin að nýta tímann í að finna sjálfa mig og vinna í sjálfri mér. Þegar ég datt út úr Bláalóninu sá ég strax að ég myndi ekki klára Landvættina fyrr en 2020 og mér fannst það fulllangur tími til að setja kærastamálin á ís. Ég ákvað því að finna mér fyrst kærasta og svo klára Landvættina.
Ertu ekki full manísk ?
Þessi ákvörðun mín að skrá mig í Landvættina vakti ekki mikla lukku svona yfir heildina. Ansi margir fundu sig knúna til að benda mér á allt sem mig skorti til að verða Landvættur. Sem sagt þekkingu á þessum 4 íþróttagreinum og getuna til að stunda þær. Ég ákvað að hunsa allar þessar ráðleggingar þar sem innst inni var ég algjörlega sannfærð að ég gæti þetta. Ég þyrfti bara að leggja meira á mig en margir sem hafa klárað Landvættina. Ég setti mér líka hófleg markmið strax í upphafi. Ég væri að keppa við sjálfa mig og engan annan og það væri dásamlegur bónus að vera í topp 90% af þátttakendum, s.s, í neðstu 10% og klára þrautirnar. Það gekk næstum því eftir. Ég kláraði 2 þrautir af 4 og náði mínum markmiðum í þeim báðum.
Að vera byrjandi
Auðvitað er krefjandi að fara að æfa 4 nýjar greinar á sama tíma. Ég þurfti að setja mín æfingaplön í excel og ég þurfti að vera gífurlega skipulögð. Sem betur fer elska ég bæði excel og að skipuleggja. Ég var svo heppin að Hilda vinkona ákvað að skella sér í þessa vegferð með mér og ég hefði líklega ekki klárað þetta án hennar. Utanumhaldið í Landvættunum sjálfum er síðan algjörlega til fyrirmyndar. Ég veit að það var mikið gæfuspor að fara í Landvættina. Þau halda utan um alla, alveg sama á hvaða getustigi þeir eru. Reyndar eru grunnkröfur sem þú þarft að uppfylla til að mega taka þátt í Landvættunum og ég uppfyllti þær. Þjálfarateymið er frábært og með þeim náði ég að brjóta hvern þægindarammann á fætur öðrum. Ég hefði ekki sigrast á lofthræðslunni nema með þeirra aðstoð. Ég gæti talið endalaust upp hvað ég er þakklát fyrir en fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að þetta prógramm er til þar sem ég hefði aldrei getað klárað þetta ein og óstudd.
Planið breytist aftur
Fyrst að ég kláraði ekki 2019 þá ákvað ég að klára 2020 með því að skrá mig í þrautirnar sjálf. Síðan var þríþrautadeildin með æfingaferð til Þýskalands í júní þannig að ég skráði mig í Ólympíska þríþraut og svo voru einhvern veginn allir á leiðinni í hálfan járnkarl á Norður Ítalíu í september þannig að ég skráði mig líka í hann. Ég byrjaði að æfa með þríþrautadeild Breiðabliks um haustið þannig að sundið, hjólið og hlaupið voru í góðu lagi. Ég þurfti svo að passa að fara reglulega á gönguskíði þannig að til að bæta mig skráði ég mig á gönguskíðanámskeið á Ísafirði í lok febrúar. Fyrsti skellurinn kom í febrúar. Það var ófært á Ísafjörð þannig að ég missti af námskeiðinu. Svo kom Covid og þríþrautin var felld niður og svo járnkarlinn. Svo var Fossavatnið blásið af, svo var Bláalónshjólið blásið af, svo var Urriðavatnssundið blásið af. Ég man ekkert hvort að Jökulsárhlaupið var blásið af en þegar Fossavatnið og þríþrautin í júní voru blásin var, var ég komin í keppnisbugun. Ég ákvað því að nota 2020 til að bæta mig og æfa eingöngu gleðinnar vegna. Það reyndist vera ágætisákvörðun og hefur í raun verið mjög gaman og enginn pressa. Ég ákvað hins vegar að 2021 myndi ég klára Landvættinn og þannig loka upphaflegu plani og var því örugglega fyrst á skrá mig í prógrammið fyrir 2021.
Beinþéttnimæling
Ég byrjaði að hjóla 2019 og eftir nokkrar vikur á racer ákvað ég að fjárfesta í hjólaskóm. Í annað eða þriðja skiptið á hjólaskónum datt ég og endaði upp á slysó í gifsi. Ári seinni fór ég aftur á útiæfingar á racer, eftir nokkrar vikur fékk ég loksins kjarkinn að fara í hjólaskóna. Í annað eða þriðja skiptið á hjólaskónum datt ég og endaði upp á slysó í gifsi. Þegar fólk heyrir þetta þá er það alltaf fyrsta ráðlegging að ég þurfi að skella mér í beinþéttnimælingu. Ég er ekki viss um að vandamálið sé beinþéttnin þar sem í bæði skiptin þegar ég hef endað í gifsi er ég óbrotin. Í fyrra skiptið gleymdist nú bara að láta mig vita að ég væri óbrotin og mætti láta taka gifsið daginn eftir að ég datt þannig að ég var óvart í gifsi í 12 daga. Í seinna skiptið var ekki skýrt hvort að þetta væri brot eða ekki þannig að til öryggis var ég sett í gifs í 10 daga.
Ósamvinnuþýð þvagblaðra
Þegar kona er orðin fimmtug og á því fimmtuga þvagblöðru sem að auki hefur þurft að deila heimili sínum með þremur börnum í 9 mánuði þá er þvagblaðran ekki alltaf sú samvinnuþýðasta. Ég man að minn helsti ótti við Fossavatnið var ekki að þetta væri 50 km skíðaganga eða að ég yrði svöng eða að ég myndi frjósa í hel á heiðinni heldur að þvagblaðran færi í óumbeðna yfirvinnu. Hún hefur reyndar verið nokkuð samvinnuþýð þegar ég er að keppa en á öðrum tímum fer hún í staðinn stundum á yfirsnúning. Ég ákvað að gera tilraun með hana í sumar hvort að ég gæti tjónkað eitthvað við hana. Alltaf þegar ég man eftir því geri ég 20 grindarbotnsæfingar. Hversu oft man ég eftir því, svona 10* á dag þannig að ég fór úr því að gera engar grindabotnsæfingar á dag í svona 200. Munurinn sem ég finn er gífurlegur. Í staðinn fyrir að fara út að hlaupa og þurfa að henda mér beint á salernið þá get ég farið inn, fengið mér vatn, hent í þvottavél, tekið úr þurrkaranum, brotið saman og skrifað á Strava númer hvað þessi æfing var á árinu. Allt í einu er hún samvinnuþýð þessi elska og ekkert vesen á henni. Það er því eins gott að gleyma þessu ekki að gera grindarbotnsæfingarnar.
Kynningarfundur Landvætta
Kynningarfundur Landvætta var haldinn fyrir nokkrum dögum. Hann fór fram á Zoom í staðinn fyrir þéttsetnum sal eins og síðast, útafdottlu.
Það var farið yfir æfingaprógram, æfingaferðir og skipulag. Síðast þegar ég sat á þessum fundi fékk ég töluvert af nettum kvíðaköstum. Mér fannst æfingaálagið gífurlega mikið og ég kveið mikið fyrir því að fara á gönguskíðum í Landmannalaugar sem og að hlaupa Fimmvörðuhálsinn og svo var allkonar annað sem var að stressa mig.
2 árum seinna er eingöngu tilhlökkun í mér. Ég veit hvað ég er að fara út í og ég er í miklu betra formi þannig að ég neyðist víst til að hækka markmiðin mín. Að vera í topp 90% er kannski ekki ásættanlegt lengur. Sundið var alltaf minn akkelsarhæll. Það tók mig 2 mánuði að geta synt skriðsund 50 m í einu. Ég hélt grínlaust að ég myndi aldrei ná því. Samkvæmt plani þá er gert ráð fyrir því að fólk syndi alltaf 500 m einu sinni í viku til að byrja með. Þetta er til að fólk komi sér í sundgírinn. Sundið er yfirleitt sú grein sem flestir eiga erfiðast með. Svo eykst æfingaálagið eftir því sem nær dregur keppnunum. Mér fannst þetta gífurlega mikið átak að synda 500 m. einu sinni í viku og miklaði þetta mikið fyrir mér. Um helgina skellti ég mér á Garpasundæfingu og synti 1.500 m og þar sem hjólaæfingin féll niður útafdottlu þá skellti ég mér í morgunsund og synti 2.000 m skriðsund.
Þegar ég var í sunduppreisninni, vildi að ég yrði massagóð í skriðsundi án þess að mæta mjög oft þá ræddi ég þetta við nokkra sem voru miklu betri en ég í sundi, s.s. sundþjálfara og þríþrautafólk. Það var samdóma álit allra að hæfni mín í sundi væri beintengd mætinu á æfingar, eins skrýtið og það nú er.
Allt hægt ef viljinn er fyrir hendi
Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér ótrúlegt að ég hafi fundið sundgleðina og ég að fari sjálfviljug í sund og syndi 2.000 m skriðsund þegar ég gat ekki synt 50 m á sama tíma fyrir 2 árum.
Ég hlakka gífurlega til að fara aftur í Landvættina og ég hlakka einna mest til að klára Villisundið af því að í fyrsta skipti á ævinni er ég sannfærð um að þetta sund verði skemmtilegt.
Það skiptir í raun engu máli hvaða árangri þú vilt ná. Þú getur það ef þú virkilega virkilega vilt það, það tekur bara mislangan tíma. Hjá mér tók það 2 ár að læra að elska skriðsund og hlakka til að mæta á æfingar. Hjá öðrum tekur það viku.
Það er allt önnur Ásdís sem er að mæta í Landvættina núna en fyrir 2 árum. Þessi sem skráði sig 2018 var í mun verra formi og þyngri. Hvað kemur þyngd málinu við? Þegar þú tekur með þér auka 5 eða 10 kíló í hlaup, hjól eða hvaðeina þá ertu bæði að reyna meira á liðina sem og þú ert einfaldlega hægari. Ég er loksins búin að finna hvaða mataræði hentar mér með aðstoð Greenfit.is og þar fékk ég líka leiðbeiningar um æskilegt æfingaálag. Ég ætla að halda áfram að finna leiðir til að besta mig.
Eftir að ég áttaði mig á því að ég er ekki í samkeppni við neinn annan en sjálfa mig þá varð lífið miklu auðveldara. Það skiptir engu máli þó að Jón syndi hraðar eða Gunna hlaupi hraðar. Það sem skiptir máli að ég sé heilbrigðari og ánægðri með lífið og ég viti að mín heilsa er undir mér komin og engum öðrum
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2020 | 17:20
"Feitt fólk skortir sjálfsstjórn"
Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig. Þú hefur svo mikinn sjálfsaga í vinnu, ert svo öguð og nærð svo miklum árangri þar. Þetta sagði vinnufélagi minn við mig í spjalli okkar á milli fyrir mörgum árum. Ég man ekki alveg um hvað við vorum að ræða en þar sem hann er bæði kurteis og dagfarsprúður grunar mig að þetta hafi komið í kjölfarið á einhverju sem ég sagði, svo sem: Það er alveg sama hvað ég geri, ég get ekki að grennt mig.
Þessi athugasemd hans snerti við sálartetrið. Ég vissi alveg upp á mig skömmina. Hvers vegna get ég ekki grennt mig? Það er ekki eins og þetta sé eitthvað flókið. Þú borðar minna en þú þarft og hreyfir þig meira. Basic, kalóríur inn og út og málið er dautt.
Þetta er svona svipað og segja við alkólista. Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki hætt að drekka. Þetta er svo einfalt. Þú hættir að kaupa áfengi. Þú hendir öllu áfengi sem þú átt og opnar aldrei aftur flösku og málið er dautt. Basic. Ekkert áfengi = ekkert vandamál. Í dag vita flestir að það þarf meira til að geta hætt að drekka og það þarf oft mikla hjálp. Hins vegar þegar kemur að því að ná tökum á þyngdinni þá er þetta ennþá oft viðhorfið. Þú hefur engan sjálfsaga og ert bara löt.
Auðvelt að létta sig
Ég vissi að það var auðvelt að grenna sig vegna þess að ég las endalausar greinar um fólk sem hætti að drekka gos og borða nammi. Það borðaði aðeins meira grænmeti og á nokkrum mánuðum var það búið að missa 50 kíló. Ég varð alltaf pínu þunglynd þegar ég las svona greinar og brotnaði aðeins inn í mér því ég hugsaði alltaf. Ef þetta er svona lítið mál, hvers vegna get ég ekki létt mig? Hvaða andskotans aumingjaskapur var þetta? Það var ekki eins og ég vissi ekki að ég þyrfti að taka mig á. Ég vissi að ég væri orðin 10 kílóum of þung. Svo vissi ég að væri 20 kílóum of þung, svo 30 kílóum og loks 35 kílóum. Þá var ég 5 kílóum frá því að vera 100 kíló og fékk loksins hvatann til að létta mig þegar ég hitti David Goggins og hann spurði hvaða ævisögu við værum að skrifa.
Ég hafði oft létt mig eitthvað með allskonar tilraunastarfssemi. Það dugði aldrei til lengdar því ég var aldrei búin að finna lífstíl sem hentaði mér til lengdar. Ég fann einhverja tímabundna lausn sem ég var ekki tilbúin að hafa út ævina. Mín skoðun er sú að ef þú finnur ekki eitthvað sem þú getur gert út ævina, þá nærðu aldrei langtímaárangri. Ef þú ert tilbúin að vigta matinn út ævina þá virkar það fyrir þig. Líka ef þú ert tilbúin að drekka shake í kvöldmat út ævina þá virkar það líka. En ef þú ert eins og ég þá er þetta alltaf tímabundin lausn og gallinn við tímabundnar lausnir er að þær taka enda og mín reynsla var að ég var alltaf miklu fljótari að bæta á mig þessum kílóum sem fóru heldur en að missa þau og ekki nóg með það, þau komu alltaf með vini sína með sér. Mín kíló eru nefninlega félagsverur og vita ekkert skemmtilegra en að eignast fleiri vini. Þannig að eftir hvern einasta kúr þá endaði ég alltaf þyngri en áður en ég byrjaði. Öll vinnan og fórnirnar urðu til einskis. Ég var ekki fyrr búin að sjá að ég var byrjuð að þyngjast en það kom enn ein greinin um einhvern sem fór út að ganga og borðaði aðeins meira grænmeti og komst í kjörþyngd á korteri. Það hefur ekki góð áhrif á sálartertrið, ég get vottað það.
Stundum fékk ég líka ábendingu á svona grein. Það var tvöfaldur bömmer. Ekki bara gat ég ekki grennt mig heldur fannst öðrum nauðsynlegt að benda mér á hversu auðvelt þetta er. Hann Siggi tók út brauð og nammi og léttist um 10 kíló á einum mánuði. Basic, bara að passa kalóríur inn og út og hreyfa sig meira. Afhverju ertu ekki með meiri sjálfsaga? Hvers vegna getur þú ekki létt þig?
Ég man hinsvegar aldrei eftir að hafa lesið eftirfylgni grein. Hvernig gekk þessu fólki þremur árum seinna og hvað gerði það í raun og veru? Ég held nefnilega að það missi enginn 50 kíló á einu ári nema með gífurlegri vinnu, gífurlegum fórnum og mikilli sjálfsvinnu. Þetta snýst ekki eingöngu um kalóríur inn og út og hreyfa sig meira en þú borðar.
Fyrsta árið sem ég byrjaði þá gekk allt fáránlega vel. Ég léttist jafnt og þétt og það kom mér á óvart hvað ég átti auðvelt með að breyta um mataræði. Ég fór að bæta við mismunandi hreyfingu og í fyrsta skipti á ævinni fannst mér gaman að hlaupa. Ég gat hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og á 18 mánuðum var ég búin að missa 25 kíló. Þetta voru engin 50 kíló á nokkrum mánuðum en þetta gerðist jafnt og þétt.
Er hægt að borða of lítið?
Síðasta vor gerðist svo hið óhugsandi. Ég hélt áfram að hreyfa mig mikið og borða svipað en allt í einu hætti vigtin að fara niður og fötin hættu að víkka. Ekki bara hættu þau að víkka, þau fóru aðeins að þrengjast og vigtin varð eins og íslenska krónan á gjaldeyrismarkaði. Í dag fór hún upp, á morgun fór hún niður og ég vissi aldrei alveg hvað olli. Var ég að borða eitthvað vitlaust, ætti ég að borða meira eða minna og öðruvísi. Það er mjög þreytandi að reyna að finna lausnina en vera alveg strand. Það var alveg sama hvað ég gerði, ekkert virkaði almennilega og þetta urðu meira tímabundnar lausnir, fálmað í myrkrinu. Ég fór að sjá oftar og oftar hærri tölu en lægri tölu. Ég skildi núna betur hvers vegna það eru engin eftirfylgniviðtöl við þá sem ná gífurlega góðum árangri. Kannski er óraunhæft að ná langtímaárangri. Kannski er alveg sama hvað þú gerir, þú getur ekki lagað þig til langtíma. Fólk sagði mér að hafa ekki áhyggjur. Vöðvar eru þyngri en fita, hættu að pæla í vigtinni. Þú ert í massaformi og lítur svakalega vel út miðað við aldur. Ég prófaði að borða minna, það virkaði ekki. Ég æfði meira, það virkaði ekki heldur. Það var alveg sama hvað ég gerði. Ekkert virkaði til lengri tíma.
Ég ákvað að trakka allt sem ég borðaði í MyFitnessPal. Þú veist, basic, borða færri kalóríur en þú brennir og ef þú vilt borða meira þá brenna meira. Þegar ég byrjaði á minni lífsstílsbreytingu þá skráði ég ekkert niður hvað ég borðaði. Ég tók út hveiti, sykur og mjólkurvörur til að byrja með en svo fór ég að leyfa mér allt í hófi. Það skrýtna við það er að þó að ég skráði niður hverja kalóríu þá gekk mér ekkert betur að léttast. Ég varð hins vegar gífurlega meðvituð um hvað ég borðaði margar kalóríur og stundum borðaði ég lítinn kvöldmat af því að ég var að verða búin með kvótann og stundum borðaði ég ríflegan eftirrétt afþví að ég var búin að æfa svo mikið yfir daginn. Það er allt í lagi, það verður að leyfa svo stundum. Ég man hins vegar að alltaf þegar ég fór yfir 2.000 kalóríur í Myfitnesspal fékk ég smá hjartsláttartruflanir. Þetta var svo innprentað í mig að borða ekki yfir 2.000 kalóríur. Það eru stillingar í MyFitnessPal hvað þú mátt borða margar kalóríur ef þú vilt léttast um X kíló. Ég ákvað að setja upp plan að léttast um eitt kíló á mánuði væri hóflegt. MyFitnessPal sagði að ég ætti að borða 1.580 kalóríur og bæta við brennslu á æfingum dagsins og þá átti ég að fá út hvað ég mátti borða margar kalóríur á dag.Það var alveg sama hvað ég æfði mikið, mér fannst erfitt að borða yfir 2.000 kalóríur. Samt segir viðmiðið að konur á mínum aldri eigi að borða í kringum 2.200 kalóríur. Sumum fannst galið að ég vildi missa tíu kíló í viðbót. Ásdís mín ertu ekki orðin nógu mjó? Hvað ætlar þú eiginlega að verða grönn? Það er ekki fallegt fyrir konur á þínum aldri að verða of grönn. Þú verður að passa þig að verða ekki of þetta og of hitt. Alltaf krúttlegt þegar fólk hefur innantómar áhyggjur af minni heilsu. Fæstir vissu hvað ég var þung eða hvað ég var há og enginn hefði getað sagt mér hver mín kjörþyngd ætti að vera. Ég veit það ekki einu sinni sjálf þar sem ég hef aldrei verið grönn og í mjög góðu formi. Ég hef verið mjög grönn en aldrei í mjög góðu formi.
Þegar ég fór í mælinguna hjá Greenfit kom í ljós að ég átti að borða tæplega 2.100 kalóríur þegar ég var ekki að æfa og tæplega 2.600 þegar ég er að æfa. Ég var sem sagt búin að borða ca 500 kalóríum of lítið í heilt ár. Ekki skrýtið þó að það væri allt stopp. Líkaminn var bara í áfalli og hékk á öllu sem kom inn og neitaði að gefa neitt eftir.
Æfa hægar og betur
Í álagsprófinu hjá Greenfit kom líka í ljós að ég var að æfa á of miklu álagi. Hvernig er það nú hægt, það er nú ekki eins og ég sé einhver Speedy Gonzales? Mín fitubrennsla liggur í kringum æfingapúls 130-140. Þegar ég byrjaði að æfa þá var ég í svo lélegu formi að ég var aldrei að fara mjög hratt þannig að ég gerði allt rétt alveg óvart. Ég borðaði hreint fæði og ég æfði á lágum púls. Svo þegar ég fór að komast í betra form þá fór ég að æfa af meiri ákefð því ég var sannfærð að ég myndi ná meiri árangri því meiri ákefð væri í gangi. Það var ekki fyrr en ég pantaði mér ástandsskoðunina hjá Greenfit að ég fékk vísindalegar upplýsingar um hvað væri best fyrir mig að gera.
Það er erfitt að hlaupa hægt en næstu mánuði ætla ég samt að hlaupa hægt. Ég ætla að borða hreint og sjá hverju það skilar. Ef mig langar í Nóakropp (nei þetta er ekki keypt auglýsing :) ) þá mun ég fá mér Nóakropp. Ég veit að það er stöðug vinna að halda mér á réttu striki. Þetta er ekki eins og að skrá sig í Viðskiptafræði og útskrifast sem Viðskiptafræðingur. Allt í einu er gráðan komin. Ég veit að þetta er eilífðarverkefni en ég nýt þess að sinna því. Ég veit að ég má ekki slaka á og fara í gamla gírinn. Í hvert skipti sem ég vel að borða eitthvað sem er vont fyrir mig þá borga ég daginn eftir með hærri tölu á vigtinni eða þrútnum liðum. Það þýðir ekki að ég muni lifa meinlætalífi út ævina. Ég kýs að lifa heilbrigðu lífi og ef mig langar í Nóakropp þá mun ég láta það eftir mér. Ég veit hins vegar að ef ég borða poka af Nóakroppi á hverjum degi þá mun fer ég aftur í gamla farið á núll einni. Þetta er allt val sem við höfum.
Það er dásamlegt að vera laus við helgarbömmerinn. Þú passaðir þig alla vikuna. Borðaðir í raun allt rétt og hreyfðir þig. Svo kom helgin og þá má nú alveg tríta sig smá. Ég gæti ekki verið meira sammála þarna. En hvað þýðir að tríta sig má. Er það smá eða er þetta öll helgin sem liggur undir? Ég er persónulega hrifnari af því að vera ekki með nammidag heldur leyfa sér smá stundum en ekki skilyrða það helgar þar sem hjá mér þá missti ég stundum tökin. Fyrst að ég ætlaði að sjukka um helgina hvers vegna þá ekki að leyfa sér allt sem þú bannaðir þér í vikunni.
Fyrir mánuði síðan byrjaði ég að borða Clean í samráði við Greenfit. Það kom mér á óvart hvað mér fannst auðvelt að breyta um mataræði. Ég tel að ég sé ansi heppin. Ég fór í blóðprufur og ákveðin gildi s.s. blóðsykur og blóðfita komu mjög illa út. Ég þekki muninn á núverandi lífsgæðum og þeim sem ég hafði fyrir 3 árum. Ég get ekki hugsað mér að fara aftur til baka þannig að þá var þetta eina leiðin. Maturinn sem ég er að borða er gífurlega fjölbreyttur, bragðgóður og fallegur. Mitt markmið er að lækka þessi gildi. Ég hugsaði að sem aukabónus gæti verið gaman að sjá vigtina fara niður. Setti niður sem draumatölu að fara úr 75.5 kg í 73.5 og ef þetta gengi vel þá gæti ég mögulega verið komin í 70,0 kg. um áramótin. Fannst það samt ekki raunhæft því mín kíló eru félagsverur og yfirgefa mig ekki svo glatt. Eftir mánuð á Clean sýndi vigtin 71,2 kg. Ég hef aldrei misst svona mörg kíló á einum mánuði. Ekki einu sinni þegar ég var 95 kg. Þetta segir mér að það var kominn tími á innri hreinsun.
Vigtir eru verkfæri Satans
Kunningakona mín sem býr í Bandaríkjunum setti inn smá örvæntingarpóst um daginn sem ég tengdi vel við. Hún var búin að vera dugleg að æfa og vigtin haggaðist ekki neitt. Hún var búin að fá nóg. Hún tekur svona tarnir og gerir eitt og annað stundum í mislangan tíma. Hún fékk gífurlega mikið af góðum ráðum og peppi við þennan póst. Það sem mér fannst áhugaverðast er að engin af þeim sem voru að ráðleggja henni um hennar líf og heilsu hefur einhverja þekkingu á þessu sviði. Ég ákvað að taka saman kommentin og það kemur kannski ekki á óvart að Hentu F... vigtinni og Vöðvar eru þyngri en fita standa uppúr. Ef ég ætti þúsund kall fyrir hvert skipti sem ég heyrði þessar setningar þá væri ég sest í helgan stein í dag og lifði af vöxtunum. Það er gott að hafa í huga að það er ábyrgðarlaust að henda fram innantómum frösum ef þú hefur ekki lausnina. Það voru 3 sem spurðu hvað hún væri að borða. Öðrum fannst frábært hvað hún væri dugleg og væri pottþétt að gera allt rétt.
Hentu vigtinni | 24 |
Vöðvar eru þyngri en fita | 24 |
Ég tengi | 17 |
Ertu búin að prófa þennan kúr? | 9 |
Þyngd er ekki allt, ummálið skiptir líka máli | 7 |
Þú lítur vel út, þú hlýtur að vera að gera eitthvað rétt | 4 |
Borðaðu hreinna fæði | 3 |
Fáðu blóðprufur | 2 |
Borðaðu færri kalóríur | 1 |
Ekki gefast upp | 1 |
Minnkaðu stressið | 1 |
Vigtin er verkfæri Satans | 1 |
Samtals | 94 |
Þegar fólk segir þér að þú ert örugglega að gera allt rétt, að vöðvar séu þyngri en fita, að þú sért svo dugleg er verið að gefa þér frítt spjald. Það er verið að gefa þér leið út. Þú þarft ekki að leggja svona mikið á þig. Það er óþarfi að leyfa sér ekkert. Þú ert duglegri en flestir. Þú borðar örugglega allt rétt. Þetta er aldurinn. Þetta er svo miklu erfiðara þegar þú eldist. Eftir því sem við eldumst þá byrjar heilsunni að hraka, það er eðlilegt og óþarfi að fárast of mikið yfir því. Það spá hins vegar fæstir í mataræðið. Hvað þú ert að borða. Hentar mataræðið þitt þér? Ég held að við séum öll mismunandi. Það sem hentar mér er kannski vont fyrir þig og öfugt. Að einhverju leiti er þetta genatískt en þetta er held ég flóknara en svo. Þetta snýst um að finna leiðina hvað er best fyrir þig. Ég finn að þegar ég borða hreint þá líður mér betur og ég er í betra jafnvægi. Ég borða meira og er aldrei aðframkomin af hungri. Ég þarf ekki að narta á kvöldin. Ég þarf ekki að telja kalóríur. Með því að borða hreint get ég svo prófað að bæta við mat og fundið hvað fer illa í mig og hvað vel. Ég losna við að giska hvað ég á að borða. Ég borða nokkuð hollt, það er bara eitthvað sem ég borða sem hentar mér verr en annað og ég þarf að finna útúr því hvað það er.
Greenfit segir þetta svo vel. Normal er ekki optimal. Með aðstoð Greenfit ætla ég að besta heilsuna mína. Ég á bara einn líkama og eitt líf og ég lít á það sem skyldu mína að líta eins vel eftir honum og ég get.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bloggar | Breytt 16.10.2020 kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2020 | 16:29
Miðaldra konan er tifandi tímasprengja
Þann 12. ágúst 2020 átti ég 3ja ára afmæli. Hvernig getur 51 árs gömul kona átt 3ja ára afmæli? Jú ég átti 3ja ára heilsuafmæli. Þann 12. ágúst 2020 voru liðin akkúrat 3 ár frá því að ég var á fyrirlestri hjá David Goggins og heyrði hann segja þessa einföldu en ótrúlega áhrifaríku setningu: Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig, myndi hún breyta lífi mínu? Alveg eins og í teiknimynd þá kviknaði á ljósaperu fyrir ofan hausinn á mér og ég vissi að einu áhrifin sem þessi ævisaga sem ég var að skrifa myndi hafa á Goggins væri að hann myndi segja: F... Ásdís, þetta er ömurleg ævisaga, ekki bjóða mér upp á þetta drasl. Það var á þessu augnabliki sem ég áttaði mig á því að þessi lífstíll sem ég hafði tileinkað mér, vinna of mikið, hreyfa mig ekki, borða allskonar ruslfæði, vera endalaust þreytt, verkjuð og pirruð var ekki að virka. Sú framtíðarsýn sem beið mín var ekki beisin. Vera of þung, geta ekki farið út að hjóla með krökkunum, geta ekki gengið upp Esjuna og vakna alla morgna með þrútna liði, verki í hnjánum og illa sofin myndi á endanum skila mér inn sem pilluáskrifanda í besta falli. Í versta falli stytta ævina um áratugi.
Ásdís mín, ertu ekki full dramatísk? Það er til fullt af fólki sem lifir til níræðs og hreyfir sig lítið og gerir allt vitlaust að þínu mati. Já ég veit það og það er líka til fullt af fólki sem lifir ekki til níræðs eða lifir lengi með skert lífsgæði. Mig langaði ekki að komast að því of seint í hvorum hópnum ég myndi lenda. Því tók ég meðvitaða ákvörðun 12. ágúst 2017 að ég myndi taka fullkomna ábyrgð á mér og mínum lífsgæðum.
3ja ára afmæli
Um leið og ákvörðunin er tekin verður þetta allt svo skýrt. Ég ákvað að setja mikla pressu á mig og gerði Facebook life video á hverjum morgni. Ég skýrði fyrsta videoið dagur 1 af 365 og daglega í marga mánuði gerði ég þessi video. Þau settu ákveðna pressu á mig og hjálpuðu mér að ná markmiðum mínum. Það kom mér á óvart hvað það var lítið mál að gera gífurlega stórar breytingar í upphafi. Þegar ég hugsa til baka var það líklega vegna þess að ég var meira en tilbúin í fyrsta skipti á ævinni. Ég hætti að horfa á sjónvarp. Ég vaknaði 5 á morgnana. Ég fór að hreyfa mig meira og í fyrsta skipti á ævinni léttist ég helling næstum því áreynslulaust. Ég breytti um mataræði og ég skráði allt sem ég borðaði í My Fitness Pal. Svo komu allskonar lægðir. Ég keyrði á vegg andlega. Ég fór til sálfræðinga og ég hreinsaði til í bakpokanum mínum og henti allskonar fortíðarrugli sem hélt aftur af mér. Daginn eftir 3ja ára afmælið kom fyrsta 3ja ára Facebook minningin mín sem var fyrsta Facebook Live sem ég gerði á ævinni. Mér krossbrá. Ég var búin að steingleyma því hver ég hafði verið og í hvaða ástandi ég var. Á sama tíma sá ég hversu langt ég er komin. Ég sýndi kærastanum eitt videoið. Hann horfði á það og sagði, þú ert svo reið þarna, það er engin gleði í augunum. Ég tengi ekki við þessa manneskju lengur. Einu sinni ætlaði ég að skrifa bók um þessa vegferð en þegar ég byrjaði á henni áttaði ég mig á því að mig langaði ekki til að rifja þetta allt upp. Ég kunni ekki sérstaklega vel við þessa manneskju sem ég var orðin og mig langaði ekkert að endurnýja kynnin við hana. Þess vegna blogga ég um hver ég er í dag, því þú ert alltaf einni ákvörðun frá því að vera sú manneskja sem þú vilt vera. Þetta stendur allt og fellur með þér. Þetta er ekki heppni eða góð gen eins og ég fæ reglulega að heyra í dag. Þú ert svo heppin að vera með svona góða heilsu. Þú ert með svo góð gen og þess vegna getur þú gert hitt og þetta. Nei, þetta snýst eingöngu um að taka upplýsta ákvörðun um hvaða manneskja þú vilt vera og ákveða á hverju morgni að halda áfram á þessari vegferð.
Hvers vegna að leggja alla þessa vinnu á sig? Vegna þess að ég veit hvert gjaldið er að slaka á. Ég veit hversu auðvelt það er að fara aftur í gamla farið og ég veit hversu brjálæðislega mikil vinna það yrði að koma mér aftur á þann stað sem ég er í dag. Ég er ekki með góð brennslugen eða ég er svo heppin að ég má borða allt sem ég vil. Í hvert skipti sem ég tek meðvitaða ákvörðun um að borða óhollt þá veit ég að daginn eftir mun ég vakna þrútin og þyngri en í gær. Mörgum finnst þetta vera gífurlegur sjálfsagi og segjast aldrei munu geta gert þetta. Samt setja þau alltaf rétt eldsneyti á bílinn sinn því þau vita að vélin skemmist ef þau setja bensín á dísel bílinn sinn. Hvers vegna pössum við oft betur upp á vélina í bílnum okkar heldur en okkar eigin vél, okkar líkama þegar við eigum bara einn líkama en við getum alltaf keypt nýjan bíl ef þessi bræðir úr sér?
Kominn tími á breytingar !
Fyrir ári síðan vissi ég að ég þyrfti að fara að gera meiri breytingar. Ég var föst. Vigtin var föst og ég datt alltaf reglulega í slæma siði. Hreyfingin gekk alltaf ágætlega. Stundum var ég extra dugleg og stundum minna dugleg en það liðu aldrei margir dagar frá því að ég hreyfði mig. Mataræðið var aðeins erfiðara. Ég gat alveg dottið í sjukk í heila viku og þyngst um 2 kíló. Ég hafði samt ekki miklar áhyggjur af því. Ég var nefnilega skynsöm. Þegar ég var búin að vera í nýjum lífstíl í nokkra mánuði þá lét ég mæla öll gildin mín og þau komu frábærlega út. Ég hafði því ekki miklar áhyggjur af smá sjukki hér og þar. Ég vissi að ég var að gera allt rétt og því óþarfi að hafa áhyggjur af mataræðinu. Ég ræddi þetta við vinkonur mínar hvað það væri þreytandi að vigtin væri föst þrátt fyrir að ég passaði mataræðið og hreyfði mig mjög mikið. Þeim fannst óþarfi að hafa áhyggjur af þessu. Ég væri orðin 51 árs. Ég væri í mjög góðu formi miðað við 51 árs gamla konu. Kannski væri þetta mín rétta kjörþyngd. Eftir því sem fólk eldist þá er erfiðara að létta sig. Samt sat alltaf þessi nagandi efi í hausnum á mér. Er ég að gera allt rétt? Þessi setning. Þú ert fín miðað við... Þetta er svo hættuleg setning. Hún leyfir okkur að slaka á og gera minni kröfur til okkar. Þú ert fín miðað við þá sem eru verri en þú. Ég vildi breyta til en ég fann ekki leiðina. Það sem hafði virkað vel þegar ég byrjaði að hreyfa mig var ekki að virka lengur og ég var pínu föst. Samt var ég ekkert að sjukka svo mikið og bara stundum. Ég fór næst í blóðprufur í ársbyrjun 2020. Þá voru gildin mín aðeins hækkandi en ekkert til að hafa áhyggjur af. Hvað breyttist á milli 2017 og 2020. Mín kenning er að ég hafi orðið kærulaus. Gildin mín voru svo góð 2017 að mér fannst ég ósigrandi og ég gæti gert allt sem ég vildi að því gefnu að ég hreyfði mig reglulega. Núna var komið að skuldadögum. Gildin sem og vigtin voru á uppleið. Það var komið að skuldadögum og engin leið út úr þessu. Vandamálið var að ég fann hvergi lausnina.
Green Fit
Ég var búin að leita í nokkra mánuði að lausninni þegar hún datt í fangið á mér. GreenFit er nýtt fyrirtæki sem þrír meðlimir þríþrautafélags Breiðablikur voru að stofna og þau héldu kynningu á fyrirtækinu. Ég vissi um leið og ég hlustaði á kynninguna að þetta væri fyrirtækið sem ég var að leita að. Einkunnarorðin þeirra eru Vittu, ekki giska og Heilsa er ekki heppni. Þau greina vandamálið og hjálpa þér við að finna leiðir til að hámarka þína heilsu. Ég ákvað að bóka fyrsta tímann. Svo kom Covid og ég setti allt á hold í smátíma. Lukka talaði um á þessari kynningu að fólk gæti fengið niðurstöðuna fínt út úr öllum sínum blóðprufum á meðan það færi ekki yfir hættumörk. Ég tengdi ekki alveg við þetta minnug þess hversu frábær gildin mín voru 2017 en þetta síaðist samt inn í undirmeðvitundina.
Ég fór síðast í blóðprufur í ágúst. Ég fékk fínt nema kolesterolið væri aðeins hækkandi. Það væri gott ef ég gæti gert einhverjar breytingar á mataræðinu og koma svo aftur eftir 4 mánuði í aðra mælingu og ef ekkert lagaðist þá þyrfti ég líklega að fara á lyf.
Gamla ég hefði ekki hugsað sig um. Ásdís, þú ert orðin 51 árs. Þetta er aldurinn. Þetta er fylgifiskur þess að eldast. Nýja ég rifjaði upp hluta af fyrirlestrinum hjá Lukku hjá GreenFit (áður Lukka á Happ). Hún sagði að þegar gildin eru mæld þá færðu alltaf fínt þar til þú ferð yfir strikið. Ég hugsaði. Hvað ef ég er fín á fleiri stöðum en er samt við hættumörk? Hvað þá? Er ekki best að grípa í taumana áður en ég fer yfir strikið?
Ég pantaði mér því heildarástandsskoðun hjá GreenFit. Þú getur fengið heildarástandsskoðun fyrir 59.900 kr. Mörgum finnst það mjög dýrt. Ef þú kaupir þér nýjan bíl þá þarftu að fara með hann einu sinni á ári í ástandsskoðun til að hann falli ekki úr ábyrgð. Ég kíkti á heimasíðu FIB. Þar sést að kostnaðurinn við ástandsskoðun á bíl við ca 30.000 km er svipaður og ástandsskoðun hjá Greenfit.
Ég sendi Lukku blóðprufurnar mínar og hún ákvað að panta nokkrar aukaprufur sem henni fannst vanta. Nokkrum dögum seinna boðaði hún mig á fund til að fara yfir niðurstöðurnar. Það var margt mjög gott. Skjaldkirtillinn til fyrirmyndar sem og hvítu blóðkornin og við skulum ekki ræða lifrina. Hún var upp á 10, enda hafði hún aldrei þurft að vinna úr áfengi eða kaffi þessi elska. Svo var annað sem var ekkert rosalega gott. Blóðfitan var ekki hækkandi, hún var komin út úr kortinu. Efsta gildið í viðmiðinu er 7.75, mitt er 8.0. Það er ansi vont þegar þú ferð út af kortinu. Svo bætti Lukka við. Ég hef nú samt minni áhyggjur af blóðfitunni. Það er blóðsykurinn sem er verri. Gildið mitt var 5.7. Það er fínt, það er bara þegar þú ferð yfir 5.7 að þú ferð í bullandi áhættu. Ja há, það er ekki alveg nógu gott er það? Þessar dæmigerðu skoðanir sem ég pantaði mér sögðu alltaf, þetta er fínt. Líka í janúar þegar gildin fóru hækkandi. Það var enginn sem sagði, Ásdís gildin þín eru óþægilega nálægt of hátt. Gerum plan og lögum þetta með hreyfingu og mataræði. Ég hélt að ég væri í mun betra standi en ég er, enda búin að taka mig rosalega mikið á. Þegar þú lætur tékka á þér einu sinni og færð frábæra niðurstöðu þá verður þú kærulaus og ekki bætir úr skák þegar þig minnir að þú farir einu sinni á ári en gleymdir að fara bæði 2018 og 2019. Þú ert með þessa ranghugmynd að þú sért örugglega í frábærum málum því þú finnur ekki fyrir neinum líkamlegum einkennum og síðast þegar þú varst mæld varstu langt frá hættumörkum. Þess vegna leyfði ég mér alltaf eitt og annað. Mataræðið mitt er langt frá því að vera fullkomið. Það var ansi nálægt því að vera fullkomið þegar ég byrjaði mína vegferð fyrir 3 árum. Það mældust líka miklar bólgur í líkamanum. Ég ræddi það við sjúkraþjálfarann minn. Hann sagði: það er mjög líklegt ef þú nærð að minnka bólgurnar að þú þurfir ekki jafnmikið á sjúkraþjálfun að halda.
Ég ákvað að kynna mér aðeins afleiðingar sykursýki og hækkandi blóðfitu. Þetta er grunnur að svo mörgum spennandi lífsstílsjúkdómum. Blóðfitan er með kransæðastíflu og hjartaáföll svo eitthvað sé nefnt og sykursýkin blindu og útlimamissi. Ég rifjaði upp þegar ég lenti í hárbugun þegar ég lenti með vinstri hendina í gifsi og réði ekki við hárið á mér, hvort að það gengi betur á öðrum fæti og blind á báðum. Mér fannst ekkert af þessu heillandi og setti því planið í hendurnar á Lukku. Planið var að byrja á 3ja vikna stillingarkúrsi og meta svo stöðuna eftir hann. Það má víst hvorki drekka áfengi né kaffi í honum sem ætti ekki að verða vandamál, þar sem ég drekk hvorki kaffi né áfengi. Svo eru fleiri atriði sem eiga eftir að valda smá meira veseni, s.s. engin sykur, svart te, mjólkurvörur og sitt lítið af hverju. Ég veit hins vegar að þetta er bara 21 dagur af því sem ég á eftir ólifað. Ef ég geri ekkert þá veit ég hvað býður mín en ef ég bregst við núna veit ég að ég á mun betri lífsgæði framundan en ef ég geri ekkert. Kosturinn við að hafa verið í slæmu ásigkomulagi og þekkja muninn á gömlu mér og nýju mér er að ég er tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að halda í núverandi lífsgæði og bæta þau ennþá meira.
Ég er ekki lengur tilbúin að giska á hverju ég þarf að breyta. Vera í endalausri tilraunastarfssemi að taka út mat og bæta inn öðru. Ég ætla að fá vísindin með mér í lið og vita hvernig ég hámarka heilsuna. Róm er ekki byggð á einum degi og ekki heldur Ásdís 13.0 sem er mín nýja framtíðarsýn. Ég er hins vegar tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að hámarka heilsuna. Það þarf alltaf að greiða gjaldið, annað hvort núna með meiri vinnu og aga eða seinna með minni lífsgæðum. Það er ekkert plan B, engin auðveld leið út.
Þegar þú pantar ástandsskoðun hjá Greenfit þá mæla þau líka efnaskipti og álagspróf. Það var ýmislegt jákvætt sem kom út úr þessu en líka annað sem mig grunaði, eins og að súrefnisupptakan var ekki nógu góð hjá mér. Ég finn þetta alltaf þegar ég geng á fjöll að ég er verð lafmóð til að byrja með og svo lagast þetta, sama þegar ég fer að hlaupa. Það var gott að fá þetta staðfest. Siggi sem fór yfir prófið með mér sagði að tímarnir sem ég er að taka hjá Ultraform myndu hjálpa heilmikið til að byggja upp hámarksstyrk og fá fleiri fast twitch vöðvaþræði (veit ekkert hvað það þýðir) til að hífa upp grunnbrennsluna og auka brennslugetu á æfingum. Svo ætti ég líka að taka Zone 2 æfingar með til að ýta undir grunnþolið (er líka að læra á hvað Zone 2 þýðir :)). Ég hlakka til að taka annað próf hjá þeim eftir nokkra mánuði og sjá hvernig gildin hafa breyst. Ef það hefur orðið lítil breyting þá finnum við fleiri hluti til að laga og smátt og smátt fínstillum við Ásdísi 13.0
Eitt sem kom mér þó mjög á óvart í þessum mælingum er að ég er að borða alltof fáar kalóríur. Mér finnst ég borða mjög mikið en eins og með marga þá er innprentað í mig að borða ekki of margar kalóríur. Það er heilmikið sem ég get bætt og ég hlakka svo til að fara þessa vegferð. Svo er gott að hafa á bakvið eyrað að ef þú nærð að halda þér í kjörþyngd þá er það gífurlegur sparnaður því hver 5-7 kíló sem þú bætir á þig er ein fatastærð og það er ansi fljótt að telja í krónum og aurum þegar þú ferð upp um 1-2 fatastærðir.
Ég ákvað að taka forskot á sæluna og byrjaði á Pre Clean Eating viku fyrir hreinsun. Á einni viku fuku 2.7 kg sem segir mér að það hefur ýmislegt mátt laga innvortis. Samt er að ég að borða meira en áður. Hvað breyttist? Ég er að borða meira en ég er einnig að sleppa öllu sem er á bannlista, sykur, korn, flestir ávextir og fleira. Þetta er eina skiptið sem ég er að fara nákvæmlega eftir matarplani og í fyrsta skipti sem ég sé svona hressilegan árangur. Það virkar greinilega betur að fara eftir plani heldur en að fálma í myrkrinu. Vita, ekki giska!
Þú ert pottþétt að borða allt rétt
Ansi margir segja við mig. Þú borðar allt rétt. Þetta hlýtur þá að vera genatískt. Það hafa hinsvegar fáir séð matseðillinn minn. Fólk sér bara það sem ég sýni. Ég held að þetta sé bland af genum og mataræði. Hvað ef ég borða meira og minna rétt en sumt sem hentar flestum er vont fyrir mig og mína innviði? Sumt sem er hollt, hentar mér ekki? Við erum ekki öll eins og það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum. Ég þarf að finna mitt fullkomna mataræði og hætta að þreyfa í myrkrinu. Það sem ég er að gera núna með Greenfit er ekkert ósvipað því sem ég gerði 2017 þegar ég tók alla óhollustu út og það svínvirkaði. Mig langar samt ekki að eiga súkkulaðilaust líf. Eftir viku saknaði ég Lindors molans míns (og fékk mér einn áður en Pre Clean hjá GreenFit byrjaði, svo fékk ég mér 2 pizzasneiðar og eina kökusneið). Hins vegar voru gildin mín 2017 frábær og ég ætla að finna leiðina þangað aftur. Í hvert skipti sem ég geri einhverjar breytingar á mataræðinu, þegar ég reyni eitthvað, þá gerist voðalega lítið. Ég borða kannski 90% hollt. Vandamálið er að ég veit ekki hvort að þessi 90% séu öll holl fyrir mig þó að það væri hollt fyrir þig.
David Goggins
Ég byrja flesta morgna núna á klukkutíma gönguferð og hlusta á hljóðbók á sama tíma. Núna er ég að hlusta á David Goggins. Hann er sannkallaður ofurmaður og ég hef engan áhuga á að verða eins og hann. Hins vegar er hann beinskeittur og það er hollt að hlusta á einhvern sem fer ekki í kringum hlutina.
Hann talar um að þú verður að gera hlutina sem eru óþægilegir til að ná árangri og vera hreinskilin við sjálfan þig. Ef þú ert 30 kílóum of þung, ekki horfa á þig í speglinum og segja við sjálfa þig. Já, ég þyrfti að missa nokkur kíló. Segðu við sjálfa þig. Ég er feit og ég þarf að missa 30 kíló. Ég tengdi ansi vel við þetta. Ég vissi alveg hvað ég var þung og hvað ég þyrfti að missa mörg kíló. Samt laug ég að mér og sagði. Ég er ekkert rosalega feit. Ég meina, það eru margar miklu feitari en ég.
Hann segir líka. Þú færð ákveðin tækifæri. Það er samt engin trygging að allt gangi upp. Kannski breyti ég öllu og verð til fyrirmyndar og fæ samt hjartaáfall. Það á eftir að koma í ljós en ég er amk að gera mitt besta til að eignast meiri lífsgæði.
Við berum 100% ábyrgð á okkur, enginn annar
Ég ætla ekki að eldast með eftirsjá og hugsa, ef ég hefði bara breytt þessu þá væru lífsgæðin mín meiri í dag. Ég ætla að lifa lífinu til fulls, og gera mitt til að það sé í lagi.
Að taka sjensinn á heilsunni finnst mér svipað og að spila rússneska rúllettu. Þú gerir eitt og annað og vonar þú verðir heppin í heilsulottóinu. Ekki ósvipað og að keyra bíl og það byrjar að blikka ljós í mælaborðinu. Þú skiptir um olíusíu. Ljósið heldur áfram að blikka. Þú fyllir á rúðupissið og svo bætir þú á olíuna. Ekkert breytist. Þú ákveður að prófa að fá nýja tímareim og dæla lofti í öll dekkin. Svo ferðu með bílinn í alþrif og lætur bóna hann. Ljósið er alltaf blikkandi í mælaborðinu. Dag einn þegar þú ert orðin of sein að sækja krakkana á leikskólann stoppar bíllinn á stóru gatnamótunum á Kringlumýrarbraut. Það byrjar að rjúka úr vélinni. Þú hringir á Vöku. Bíllinn er dreginn á verkstæði og þar er kveðinn upp stóridómur. Vélin bræddi úr sér, hún er ónýt og það verður að panta nýja vél. Þú skilur ekkert í þessu. Þú varst búin að prófa allt, já allt nema láta kíkja á vélina.
Hvað ef þín vél hefði bilað á gatnamótunum? Hver sækir þá krakkana á leikskólann? Ólíkt bílnum þar sem það er hægt kaupa nýja vél eða nýjan bíl ef þessi er alveg ónýtur þá er ekki hægt að kaupa nýjan líkama, ef hjartað fer þá er víst langur biðlisti eftir nýju.
Þegar þú færð að gildin eru fín þá slakar þú á, borðar minna rétt, það er jú óþarfi að missa sig í geðveikinni. Bottom line er ég ber ábyrgð á mér, ég get ekki sett heilsuna mína í hendur á 3ja aðila. Ég hefði getað skoðað þessi gildi sjálf. Ég hefði getað gogglað meira. Ég sagði hinsvegar, mikið er ég heppin að hafa ekki eyðilagt neitt með röngum lífstíl í 20 ár. Ótrúlega heppin og eftir 2 ár slakaði ég aðeins á. Fékk mér oftar súkkulaði og pizzur og jú þyngdist aðeins meira en miðað við 51 árs gamla konu var ég í toppformi. Öll gildin mín sögðu það og ég sá það þegar ég fór í sund.
Þjónustuskoðun eftir 40 ára?
Þegar ég náði ákveðnum aldri fékk ég boð um að fara í brjóstamyndatöku og leghálskrabbameinsskoðun sem fyrirbyggjandi aðgerðir. Markmiðið að reyna að grípa inn í áður en vandamálið verður of stórt. Greina vandamál sem gætu myndast seinna meir og fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Þegar ég varð 50 ára fékk ég sent heim eitthvað kit til að greina hvort að ég gæti verið með ristilkrabbamein svo á víst að fara þráðbeint í ristilspeglun eftir 50 ára. Ég fór reyndar rúmlega 51 árs. Var búin að mikla fyrir mér að fara í ristilspeglun. Ákvað svo að stökkva út í djúpu laugina. Þetta var miklu minna mál en ég hélt. Ég fékk hrós fyrir góðan undirbúning og ég og ristillinn vorum í fínu lagi.
Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna er ekki boðið upp á heildar ástandsskoðun fyrir alla um fertugt. Það er miklu ódýrara að vera með virkar forvarnir heldur en að grípa inn í þegar allt er komið í óefni.
Fyrir nokkrum árum var ég með viðvarandi magabólgur. Vinkona mín sem tekur heilsuna mjög alvarlega ráðlagði mér að skipta um mataræði og mælti mikið með tófú. Mér finnst tófú ekki flokkast undir mat. Ég vil frekar medium rare nautasteik með bernaise. Mér fannst þetta galið plan hjá henni og fannst nú ekki mikið mál að taka nokkrar pillur 2-3 var á ári til að laga þetta hvimleiða vandamál. Það var búið að ráðleggja mér að fara í magaspeglun. Mér fannst þetta arfavond hugmynd. Sannfærði sjálfa mig um að þetta væri mjög vont og óþægilegt og allskonar vesen. Þetta var á tímabilinu þar sem ég fannst gífurlega ósanngjarnt að ég þyrfti að taka ábyrgð á sjálfri mér að það væri virkilega undir mér komið að axla 100% ábyrgð á mér og mínum lífstíl. Mér fannst líka mjög ósanngjarnt að ég gæti ekki borðað allt sem ég vildi án þess að fitna. Ég meina það má nú ekki horfa á súkkulaði án þess að bæta á sig. Jú það má alveg horfa á það. Það má kannski mögulega ekki borða alltaf súkkulaði og eins mikið af því og þú vilt og jafnvel aðeins meira en þú getur torgað. Svo þroskaðist ég og áttaði mig á því að ábyrgðin liggur alfarið og eingöngu hjá mér. Ef ég vil lifa besta mögulega lífinu þá þarf ég að leggja eitthvað á mig og hugsa um hreyfingu og mataræði. Ég vil frekar borða sjaldnar súkkulaði (nei það er líklega lygi) en ég er tilbúin að fórna smá súkkulaði og smá köku og smá hér og smá þar gegn því að eiga betra líf til lengdar. Mér finnst það ekki lífsgæði að þurfa að poppa pillur til að geta farið fram úr á morgnana. Að þurfa að neita sér um fjallgöngu af því að ég hef ekki heilsu til þess.
Ef þú testar ekki þá ertu í lagi
Margir vilja ekki vita ástandið á sér. Það er svo miklu þægilegra að vita ekki. Ef þú finnur ekki fyrir neinum einkennum er þá ekki óþarfi að rugga bátnum? Þetta er ekkert ósvipað og Covidtestin. Sumir segja, ástæðan fyrir því er að við erum með svona mörg smit er af því að við testum svo marga. Lausnin er því að hætta að testa. Hætta að finna smitin og vera þægilega óupplýstur hvað ástandið er vont. Ég fór í Covid test hjá Kára í vor. Ég fékk neikvæða niðurstöðu með þessum varnagla að þó að ég sé ekki með Covid núna þýðir það ekki að ég geti ekki fengið Covid.
Frá: Sóttvarnarlækni og Íslenskri erfðagreiningu: Þú ert ekki með COVID-19 sjúkdóminn. Þessi niðurstaða útilokar ekki að þú fáir sjúkdóminn síðar. Ef þú veikist seinna með flensulík einkenni, hita, beinverki og hósta þarf að meta hvort þörf er á nýrri sýnatöku.
Hins vegar ef gildin þín eru fín þá færðu engan varnagla. Ekkert þú verður samt að passa þig því fín gildi í dag eru ekki ávísun á framtíðargildi. Ekkert ef þú ert komin á þennan aldur þá ættir þú að koma í tékk einu sinni á ári þannig að við getum greint vandamálin áður en þau verða óyfirstíganleg. Margir vilja líka meina að genin ráði öllu um þetta og því skipti ekki öllu máli hvað þú gerir. Annað hvort ertu með þessi gen eða ekki. Ég hafði þetta viðhorf í 20 ár. Ég gat ekki létt mig því ég var með genin hennar föðurömmu minnar. Þess vegna þýddi ekkert að reyna. Það myndi ekki bera árangur. Þetta vissi ég þar sem ég var búin að reyna allt. Prófa allskonar án þess að vita hvað ég þyrfti að prófa. Þegar ég var 12 ára, átti ég 2 langömmur, 2 langafa, 2 ömmur og 2 afa á lífi. Ég vissi því nákvæmlega hverjir voru grannir og hverjir ekki. Ég hefði getað sagt, ég er með genin hennar Ásu langömmu sem var grönn alla ævi. Þess í stað sagði ég við sjálfa mig að ég væri með genin hennar föðurömmu minnar til að bakka upp mínar ranghugmyndir og hvers vegna það þýddi ekkert að reyna. Þetta var jú skrifað í DNAið mitt.
Þú ert svo fanatísk
Þegar fólk misnotar áfengi og hættir að drekka fær það mikið og almennt hrós frá samfélaginu. Mikið er hún Sigga dugleg að geta hætt að drekka. Fólk fagnar því að hafa ekki drukkið í ár, tuttuguár etc og allir samgleðjast. Sama gildir um fólk sem hættir að reykja og nota fíkniefni. Svo er það skrýtna fólkið. Þetta sem er svo manískt. Fólk sem hættir að borða sykur, nammi, kökur og leyfir sér ekki neitt. Það er nú eitthvað skrýtið. Það verður jú að leyfa sér smá. Fáðu þér eina kökusneið, þú fitnar ekki af henni. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég heyrði það í hvert skipti sem ég hætti að borða sykur tímabundið. Ég velti því fyrir mér hvers vegna er svona mikinn munur á almenningsálitinu eftir því hvaða fíkn fólk tekur út. Fyrir suma er það áfengi fyrir aðra er það sykur. Hvers vegna er það smart að geta hætt að drekka en fanatískt að taka út ákveðna matvöru?
Ultraform
Ég kynntist tímunum hjá Sigurjóni Erni í Ultraform í gegnum Halldóru Gyðu vinkonu. Mjög margt jákvætt sem hefur gerst í mínu lífi síðustu ár tengist henni. Hún er algjör fyrirmynd. Mér fannst ég vera komin heim þegar ég prófaði tímana hjá Sigurjóni. Þetta eru litlir hópatímar og eftir mánuð fann ég gífurlegan mun á styrk. Hann er með mælingar í upphafi og lok mánaðar og það er mjög gaman að sjá framfarirnar sem eiga sér stað. Það hentar mér vel að vera í litlum hóp. Þar sem hóparnir eru litlir þá nær hann að halda vel utan um hvern og einn og ég hlakka mikið til að sjá framfarirnar um áramótin. Við erum búin að setja mér markmið um framfarir og það þýðir ekkert annað en að standa sig. Ultraform er lítil stöð og það er eigandinn sem þjálfar og er alltaf á staðnum. Fannst einn æfingafélaginn minn segja þetta svo vel þegar hún sagði: Ég hef aldrei verið á svona hreinni stöð. Sigurjón sprittar sjálfur tækin á milli æfinga og passar svo vel upp á allt. Það eru einnig mjög góðar teygjur eftir hvern tíma. Ég fór í prufutíma og var svo heppin að þetta var stöðumat. Ég gat ekki gengið daginn eftir vegna harðsperra. Mér leið eins og eftir Jökularsárhlaupið sem var ca 5 tíma utanvegahlaup. Var líka ógöngufær þá. Mánuði seinna var aftur stöðumat, ég bætti mig heilmikið en daginn eftir fann ég engar harðsperrur sem segir mér að ég hefði mátt taka mun meira á í þessu stöðumati. Ég hreinlega þorði því ekki minnug ógeðsharðsperranna sem ég fékk eftir fyrsta tímann.
Ég hlakka til að sjá samspil Ultraform og Greenfit á mína heilsu á næstu mánuðum og að sjá gildin mín lækka.
Það skiptir engu hvaða markmið þú hefur. Eina sem skiptir máli er að byrja. Tíminn líður hvort sem er og það versta sem þú gerir er að vakna upp mörgum árum seinna og hafa aldrei reynt, aldrei byrjað.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2020 | 09:56
Hvernig mælum við kvenleika?
Vertu þú sjálfur,
gerðu það sem þú vilt.
Vertu þú sjálfur,
eins og þú ert.
Margir þekkja þennan texta úr laginu Vertu þú sjálfur sem Helgi Björnsson söng með SSSól.
Hversu frábært og auðvelt væri lífið ef við gætum haft þetta að leiðarljósi? Að allir mættu vera þeir sjálfir ... eins og þeir eru.
Í síðustu viku framdi ég glæp, alveg hræðilegan glæp að mati sumra .... Í síðustu viku tók ég ákvörðun, án þess að bera það undir nokkurn mann eða konu, að ég ætlaði að gera ákveðnar breytingar á útliti mínu.
Í marga mánuði hef ég verið að bugast af hárlosi. Lúka á morgnana, önnur á kvöldin og fallegu hvítu flísarnar á baðherberginu mínu þaktar löngum dökkum hárum. Þegar ég lenti í gifsi annað árið í röð (án þess að vera brotin) fylltist ég hárbugun. Ég átti í verulegum vandræðum með að ráða við hárið á mér og sendi Örnu hárgreiðslukonunni minni skilaboð. Hárið þarf að fjúka, ég get ekki meira. Ég hef oft haft stutt hár og líkað það mjög vel. Það eru hins vegar orðin ansi mörg ár síðan og ég var pínu stressuð með þessa ákvörðun. Þetta er jú eitthvað sem þú tekur ekki til baka á stundinni. Um leið og það er búið að klippa hárið þá er það farið og það mun taka a.mk. ár að fá einhverja sídd af viti. Ég var næstum því hætt við daginn áður. Hvað ef ég verð hræðileg með þessa klippingu?, hvað ef mér líkar ekki við stutta hárið?, hvað ef? ...
Ég mætti í klippingu og ákvað að láta vaða. Hárið var eiginlega orðið ónýtt. Það var líflaust og leiðinlegt og algjörlega óviðráðanlegt. Ég íhugaði að fara aftur í Keratin meðferð hjá Hárnýung í Kópavogi því það gerði kraftaverk fyrir hárið á mér síðast þegar ég fór en var ekki viss um að hárlosið myndi lagast þannig að ég sá ekki aðra leið í stöðunni að losa mig við það og byrja upp á nýtt, svokallað RESETALL.
Stóri dagurinn rennur upp
Ég átti tíma rétt eftir hádegi. Eftir á hyggja mæli ég með því að eiga tíma eldsnemma svo að þú hafir ekki tíma til að hugsa of mikið um hvað sé framundan. Ég smellti mynd af mér áður en ég fór inn, svona til að eiga síðustu myndina af mér með sítt hár. Svo skellti ég mér í stólinn og Arna hófst handa. Ég ákvað að taka örvideo af því þegar hún klippti taglið af, kannski vottur af masókisma. Þegar Arna var búin að klippa mig gat ég ekki verið ánægðari. Mér fannst ég æðisleg með stutta hárið. Kvenleg, sæt og þessi klipping fór mér gífurlega vel. Þessi klipping var akkúrat ég. Ég fór í bílinn og smellti á mig rauðum varalit því þessi klipping hreinlega kallaði á rauðan varalit. Þetta var sannkölluð skvísuklipping. Ég ákvað að smella örvideóinu í story á Facebook og Instagram og svo setti ég inn svona fyrir og eftir mynd á samfélagsmiðlana. Ég nota samfélagsmiðlana mína sem dagbók. Mér finnst gaman að sjá hvað ég var að gera fyrir nokkrum árum og það koma allskonar minningar í ljós sem ég var jafnvel búin að gleyma. Þess vegna set ég inn það sem mig langar að muna. Einu sinni í svona kortér íhugaði ég að verða áhrifavaldur á Instagram. Ég var hins vegar fljót að átta mig á því að það var svo rosalega mikil vinna að ég myndi aldrei nenna því. Ég dáist hins vegar að þeim sem hafa náð árangri þar sem þetta er svo miklu meiri vinna en flesta grunar.
Fallegar jónur eiga ekki að vera með stutt
Ég var ekki fyrr búin að setja inn örvideóið en ég fékk skilaboð á Messenger á Facebook. Það var stutt og einfalt. Nei og reiður Emojikall. Ég var pínu týnd með þetta komment því ég kannaðist ekki við að hafa verið að gera neitt af mér. Ég sendi því ? til baka. Þá kom skýringin. Fallegar jónur eiga ekki að vera með stutt
Ég horfði á þennan texta í smá stund og hugsaði, hvað gengur manninum eiginlega til? Hvað er að vera falleg jóna?
Fyrst datt mér í hug að hann hefði ruglað mér við Jónu vinkonu sína. Hann hefði verið eitthvað pirraður út í hana og ætlað að senda henni skilaboð en ekki mér. Ég meina, það er mjög auðvelt að rugla þessum 2 nöfnum saman. Ásdís Ósk og Jóna er næstum því alveg eins. Ef þú telur stafina í Ásdís Ósk þá eru þeir 8, deilir þeim svo í 2 þar sem þetta eru 2 nöfn þá ertu komin með 4 stafi sem eru jafnmargir stafir og í nafninu Jóna og svo erum við báðar með ó í nafninu okkar. Mjög auðvelt að ruglast.
Hinn möguleikinn var að hann hefði ætlað að senda þetta á einhvern sem sæi honum fyrir ákveðinni tegund af sígarettum. Ég hef aldrei reykt, hvorki löglegar sígarettur né ólöglegar en einhvern tímann heyrði ég talað um að vefja jónu. Þannig að hinn möguleikinn var auðvitað að hann hefði ætlað að senda kvörtun yfir illa vafinni jónu. Það er reyndar líklegra þar sem hann notaði jónur með litlu J en kvennafnið Jóna er sérnafn og ef ég man nafnareglurnar í íslensku rétt þá skal alltaf rita sérnafn með stórum staf.
Svo fór ég að hugsa og hugsa. Kærastinn segir að ég eigi til að ofhugsa en þarna fór heilinn á yfirsnúning. Getur verið að það séu til einhver lög að allar konur á Íslandi sem heita Jóna og eru fallegar eigi að vera með sítt hár? Hvernig ætli þetta sé metið? Hvernig er fegurðarstaðalinn fundinn og hver er lögleg sídd á hári? Er það axlasítt, niður á mitt bak eða hreinlega alla leið niður á rass? Ég ákvað að googla þetta. Prófaði þetta: Mega fallegar jónur hafa stutt hár? Það skilaði ekki neinum vitrænum niðurstöðum. Það var í raun alveg sama hvaða texta ég reyndi að googla. Ég fann ekkert út úr þessu. Ég komst því að þeirri niðurstöðu að þetta hlyti að vera mjög lokaður klúbbur sem tæki þessa ákvörðun. Mögulega einhvers konar nefnd eins og mannanafnanefnd, nema þessi heitir: Viðurkennd hárlengd á fallegum jónum.
Ég þakkaði mínum sæla fyrir að foreldrar mínir hefðu þekkt þessa reglu þegar þau létu skíra mig og völdu því ekki nafnið Jóna heldur Ásdís Ósk (þó að það sé rosalega líkt Jóna) og ég mátti því ráða mér alveg sjálf. Ungabörn eru almennt voðalega sæt og því engin leið að sjá hvort að það verði nógu ljótt til að fá að ráða sér sjálft þegar það stækkar. Ég var því mjög ánægð að hafa sloppið með skrekkinn þarna.
Sú sem er hægra megin er kvenlegri og hefði átt að vera jafn vel til höfð
Ég setti inn fyrir og eftir myndina mína. Hún er tekin á sama stað og í sömu fötum. Eini munurinn var hárlengdin og rauði varaliturinn. Flestum fannst þetta mjög fínt en svo kom þetta komment: Sú sem er hægra megin er kvenlegri og hefði átt að vera jafn vel til höfð. Sem sagt þessi hægra megin var þessi með síða hárið og hún var kvenlegri. Ég velti því fyrir mér hvaða staðlar eru fyrirmynd þess að dæma hvort að konur með sítt eða stutt hár séu kvenlegri. Þessi ókvenlega var með rauðan varalit. Er það að hafa sig til að setja á sig rauðan varalit? Er kona ótilhöfð ef hún fer út úr húsi án þess að setja á sig varalit? Hvar liggja mörkin, dugar varalitur eða verður kona líka að setja á sig maskara og augnskugga?. Hver sér um að dæma þetta? Er einhver nefnd sem dæmir og gefur út leiðbeiningar til kvenna hvernig þær geta verið kvenlegar og hvað dugar til að hafa sig til? Gildir það sama um karlmenn?
Þarna klóraði ég mér hressilega í hausnum og það verður að viðurkennast að það var svakalega auðvelt þar sem ég var með svo lítið hár. Ég hefði nú flækt puttana í hárflókanum sem ég var með og aldrei fundið lausnina. Ég mundi að ég átti leiðbeiningabæklinginn inn í stofu. Þetta er bók sem mamma hafði átt þegar hún var ung kona og ég hafði aldrei tímt að láta frá mér því ég vissi að sá dagur rynni upp að ég þyrfti á henni að halda. Dagurinn sem ég yrði að fá leiðbeiningar hvernig ég gæti verið kvenleg og haft mig til án þess að verða mér til skammar á almannafæri. Bókin heitir hvorki meira né minna en In search of charm eftir Mary Young og kom út 1962. Ég sá á Amazon að þetta var snilldarrit og hægt að kaupa á hvorki meira né minna en 230.74 dollara. Þetta hlaut að vera málið.
Tízkubókin
Mín bók er á íslensku og heitir tízkubókin. Hún er heildar leiðbeiningarit fyrir ungar stúlkur, allt frá svipmóti og fasi til að eignast sína eigin íbúð. Mér til happs var þarna kafli sem heitir Hreinlæti og þarna var undirkafli sem heitir hárið. Svo eru líka frábærir kaflar eins og Röddin og Hláturinn, þar er mitt uppáhald að tala of hátt þetta getur verið ókvenlegt, uppskafningslegt og ónærgætnislegt. Að nota skrílmál og bölva Þetta er ekki síður ókvenlegt og mjög ógeðfellt. Meira að segja getur verið að sumir líti á það sem fordild ja há, ég á greinilega ansi margt ólært um að verða kvenleg og settleg. Ég þarf líka mögulega að leggja hjólinu, hún Mary vinkona var nú ekki of hrifin af því að láta mana konu í að hjóla upp brekku "Látið ögranir beztu vina yðar, sem vind um eyrun þjóta, stígið af baki með fullri reisn og gangið. Að öðrum kosti eigið þér á hættu að ofbjóða öllum líkama yðar með gjörsamlega þarflausu striti"
Kaflinn sem ég þurfti samt mest að kynna mér var kafli 7 sem fjallaði um hreinlæti og umhirða hárs er einn undirkafli þarna.
Hárgreiðsla: Ef þér hafið fallegt hár og andlit og höfuð í stíl við sígilda gríska fegurð, skiptir væntanlega litlu hvaða hárgreiðslu þér notið. .... Aðeins sárafáar stúlkur njóta slíkrar fegurðar og því fyrr sem við gerum okkur þetta ljóst hvað við getum leyft okkur og hvað ekki í hágreiðslu, því betra. Já, það er bara þannig. Hún Mary var ekkert að grínast með þetta. Samt sló það mig aðeins þarna segir Mary að ef þú ert nógu falleg þá máttu gera það sem þú vilt við hárið á þér. Hún var ekkert að skilyrða þetta í hár niður á rass? Getur verið að það hafi ekki allir lesið tízkubókina? Ég ákvað því að skoða þetta aðeins nánar. Það fyrsta sem vakti áhuga minn var að það var mynd af 4 mismunandi hágreiðslum, þær voru allar stuttar. Mátti þetta í gamla daga? Máttu konur vera eins og þær vildu? Hvenær breyttist þetta? Þetta var nú samt ekki alveg svona einfalt. Mary var með nokkrar reglur en hún var ekki að horfa á útlit kvenna heldur gerð höfuðs. Hún skipti þessu í 4 tegundir: Stórt höfuð, lítið höfuð, breiðleit og hátt enni. Þarna vandaðist málið. Ég er nefnilega bæði með stórt höfuð og breiðleit. Mitt höfuð er svo stórt að þegar ég útskrifaðist sem stúdent frá MA 1989 þá þurfti ég næst stærstu stúdentshúfuna. Mér fannst þetta alltof flókið og ákvað að gera það sem ég er vön. Vera sjálfhverf og hafa ekki áhyggjur af því að ég passaði ekki inn í fyrirframákveðið norm og staðla sem einhver er búinn að ákveða að ég þurfi að uppfylla.
Hvert á að troða óumbeðnum athugasemdum?
Ég á þrjú börn og hef því náð að sjá Ávaxtakörfuna ótal sinnum og kanna alla textana utan að. Mér til happs fannst mér alltaf jafngaman. Það voru aðrir þættir sem ég átti aðeins erfiðara með eins og Stubbarnir og Dóra. Þegar þú ert búin að sjá 10.000 þætti af Stubbunum þá er komin smá andleg bugun. Ég tengdi vel við Evu Appelsínu. Þessi sem er svo hrjúf á yfirborðinu en er svo ljúf eins og lamb þegar á reynir. Eva syngur lagið Litir og það hefst á þessum línum:
Ef spegilinn gæti talað
þá myndi hann segja við mig
að ég væri fegurst, flottust og fínust
það myndi hann segja við mig
En ef að það væri eitthvað
sem mig líkaði ekki við
ég skæri það burt og límdi svo nýtt
sem ætti þá betur við mig
Það var akkúrat það sem ég gerði. Mér líkaði ekki við hárið á mér og læt því fjarlægja það. Hvernig stendur á því að fólki út í bæ finnst það hafa rétt á því að segja mér hvort að ég megi hafa stutt hár eða ekki?. Að ég sé ekki nógu kvenleg með stutt hár. Hvað ef þetta hefði ekki verið hárlos?, hvað ef ég væri á leiðinni í lyfjameðferð og vissi að ég myndi missa hárið og þetta væri mín leið til minnka áfallið við að missa hárið. Hvað ef ....
Í hvert einasta skipti sem þú velur að troða óumbeðnum athugasemdum upp á aðra þá ertu að segja að viðkomandi sé ekki nógu góður að þínu mati. Hver ert þú að ákveða að einhver eigi að vera svona eða hinseginn?. Væri ekki dásamlegt ef við gætum öll verið Eva appelsína, horft í spegillinn og sagt ég er æði alveg eins og ég er. Ekki heyra þú værir líklega sætari ef þú misstir nokkur kíló. Þessi kjóll er of stuttur á þig. Þú ert of hávaxin til að vera í svona háum hælum. Stelpur mega ekki vera með stutt hár, strákar eiga ekki að vera með of sítt hár eða í kjól. Í hvert skipti sem við gefum þessum óumbeðnu athugasemdum pláss innra með okkur þá taka þær pláss í sálartetrinu. Stundum eru þær svo veigamiklar að þær verða að þungum steinum sem fara neðst í bakpokann okkar og verstu athugasemdirnar hanga þarna á botninum út ævina. Eini aðilinn sem tapar erum við sjálf. Við sem leyfum þeim að sitja eftir. Það er ekki auðvelt að hunsa þær. Það þarf hins vegar að gera það. Ég er heppin. Ég fór í mikla sjálfskoðun fyrir nokkrum árum og tæmdi bakpokann minn að mestu en oft finn ég eitt og eitt grjót sem sat eftir og ég þarf að losa mig við. Í dag er mér alveg sama hvort að einhverju fólki út í bæ finnst ég ókvenleg með stutt hár eða hvort ég sé nógu sæt eða ekki til að þurfa að hafa sítt hár. Fyrir nokkrum árum hins vegar hefði ég tekið þetta gífurlega inn á mig.
Kosturinn við núverandi ástand, þ.e. Kórónuvírusinn og samskiptafjarlægðina er að þú þarft ekki lengur að segja neitt. Ef þú getur ekki sagt neitt jákvætt því ég er svo illa til höfð í ljótum óklæðilegum fötum með ömurlega klippingu þá dugar að kinka kolli og kannski splæsa í smá bros. Þú getur haldið góðri fjarlægð og sleppur við að koma með óumbeðnar athugasemdir.
Má þá ekkert segja?
Hvernig er það Ásdís, má þá ekkert segja?. Þolir þú ekki smá djók?. Jú ég geri það og það má segja allskonar. Það má segja, það er spínat fast í tönnunum á þér. Það er varalitur út á kinn. Kjóllinn þinn er girtur ofan í nærbuxurnar þínar. Gaman að sjá þig. Svona mætti endalaust segja. Hins vegar ef þú hefur ekkert gott að segja þá er yfirleitt betra að hafa það bara fyrir sjálfan þig. Það þurfa fáar konur að heyra að þær væru kvenlegri með sítt hár, eða kjóllinn gerir rassinn á þeim allt of stóran. Það sem er gott að hafa á bakvið eyrað er að neikvæðar athugasemdir sitja eftir og þær vega tífallt á við jákvæðar athugasemdir. Einhvern veginn seljum við okkur að þegar við fáum hrós að þetta sé nú bara fólk að reyna að vera kurteist en þegar við fáum löst að það hljóti að vera rétt.
Það var ekki fyrr en ég losnaði við hárið að ég fann hvað það var búið að vera íþyngjandi síðustu mánuði. Þessi daglegi morgunpirringur að vera með lúkuna fulla af hárum. Að þurfa alltaf að vera tilbúin ef ég þyrfti að fara á fund. Ég hef ekki tölu á því hversu oft datt inn óvæntur fundur eða ég var búin að gleyma eignavideo sem ég var að fara að mynda og hárið á mér var eins og á lukkutrölli. Það tók rúman klukkutíma að hemja hárið. Allir jakkar voru fullir af teygjum ef ég skildi fara í óskipulagða gönguferð og tíminn sem það tók að græja hárið eftir sundferð var svo langur að stundum nennti ég ekki á æfingar. Það sem ég öfundaði vinkonur mínar að geta skellt sér í sturtu og hárið þornaði á meðan þær voru að klæða sig og varð fínt á 5 mínútum. Mitt hár lét einfaldlega ekki að stjórn. Stundum var það gott í klukkutíma, stundum hálfan daginn og ef ég var virkilega heppin þá var það til friðs næstum því út daginn.
Þegar hárið fór þá vaknaði skvísan í mér svo um munaði. Ég naut þess að setja á mig rauðan varalit (vitið þið hvað það er mikið vesen að vera með rauðan varalit á Íslandi. Það má ekki koma smá rok og þá flækist hárið í honum og þú verður rauðan varalit klíndan út á kinn) og fór í smá shopping með vinkonu til að kaupa mér skvísuföt.
Kærastinn var ánægður með breytinguna og sagði að ég hefði yngst um 15 ár. Það geislaði af mér hvað ég væri ánægð með breytinguna. Mér fannst Gígja Þórðardóttir segja þetta svo ansi vel í athugasemd á mínu Facebook: þú ert alltaf flottust þegar þú ert sátt í eigin skinni, með eða án hárs, fata eða varalits.
Frelsið þegar þú hættir að innbyrða óumbeðnar athugasemdir og burðast með þær í gegnum lífið er ólýsanlegt. Þegar þú færð kjark til að vera þú sjálf alveg eins og þú vilt. Ég hugsaði að líklega er þetta bara mín kynslóð sem er að velta því fyrir sér hvort að konur séu kvenlegri með sítt eða stutt hár og þetta myndi því smátt og smátt hverfa. Í dag er ekkert verið að spá í hvernig stelpur eiga að vera.
Ég var því mjög hissa þegar vinkona mín benti mér á pistil sem Bára Ingibergsdóttir skrifaði um upplifun dóttur hennar á Símamótinu. Símamótið er stelpumót og það má því leiða að því líkum að þetta séu stelpur að spila fótbolta. Dóttir hennar sem velur að vera snoðklippt varð fyrir ótrúlegu aðkasti vegna þess að síddin á hárinu á henni var ekki að passa inn í kassann. Hvaða kassa og hver ákvað kassann? Það er 2020 og stelpur eiga ennþá að vera með sítt hár, amk nógu sítt til að passa inn í normið?
Ég ætla að ljúka þessu bloggi með pistilinum frá Báru sem ég fékk leyfi til að birta í heild sinni
Símamótið 2020
Frábært Símamót að baki og það er alltaf jafn skemmtilegt að horfa á börnin sín spila, sjá baráttuna og framfarir hjá þeim.
Spennan er oft á tíðum mjög mikil og veldur meiri hjartsláttartruflunum hjá foreldrum heldur en þegar þeir horfa á Ísland spila. Talandi um foreldra þá er það okkar upplifun að lang flestir foreldrar eru til fyrirmyndar og hvetja börnin áfram með uppbyggilegum hætti. Hrósa sínum eigin börnum og liðinu þeirra og bera virðingu fyrir öðrum börnum. Það koma þó enn of mörg atvik upp þar sem framkoma foreldra er út úr kortinu.
Eins og flestir vita þá eigum við hana frábæru Hólmfríði Birnu sem kýs að fara sínar eigin leiðir í hárgreiðslu og fatavali og fellur því ekki í hið svo kallaða norm fyrir stelpur. Hófí okkar er samt æðislega flott og sjálfstæð stelpa sem æfir fótbolta og hefur gaman af öllum þeim hlutum sem börn hafa annars gaman af.
Hún getur hins vegar skilið að einhverju leyti af hverju fólk mistekur hana oft á tíðum fyrir strák. Hún skilur það samt ekki alveg fullkomnlega, því hún hefur oft sagt við okkur: En mamma, sér fólkið ekki á andlitinu á mér að ég er stelpa? Þegar fólk segir HANN um hana, í hennar viðurvist er hún alveg róleg yfir því og bíður bara eftir því að við segjum eitthvað. Hún er nefnilega oftast of feimin til þess að leiðrétta það sjálf við fullorðna og ef við erum ekki með þá sleppir hún því oft að leiðrétta. Hún á hinsvegar mun auðveldara með að leiðrétta þetta við börn. Hún biður okkur því ávallt um að leiðrétta fólk sem ávarpar hana sem strák, sem við gerum að sjálfsögðu með kurteisum hætti.
Hófí er búin að æfa fótbolta í 5 ár og hefur verið stuttklippt í 4 ár af þeim tíma, ég held að við höfum heyrt athugasemdir/vangaveltur frá foreldrum á hliðarlínunni á örugglega hverju einasta fótboltamóti sl. 4 ár. Er STRÁKUR í liðinu? Ætli það séu ekki nógu margar stelpur að æfa í Aftureldingu? Mega STRÁKAR keppa með stelpum? Slíkar vangaveltur eru að sjálfsögðu leiðréttar strax af okkar hálfu, því barnið okkar heyrir og börnin ykkar heyra líka. Með þessum athugasemdum er sífellt verið að efast um tilverurétt hennar á mótunum og það særir hana djúpt.
Um helgina var Hófí að spila leik með liðinu sínu og í liðinu hennar eru 7 frábærar stelpur, þar af tvær stutthærðar. Leikurinn byrjaði strax af krafti var æsispennandi frá fyrstu mínútu og við foreldrarnir vorum dugleg að hvetja stelpurnar. Við kölluðum iðulega inn á völlinn: Áfram STELPUR!!! Koma svo, berjast STELPUR!!! Hrósuðum og hvöttum einstaka leikmenn áfram með því að kalla nöfnin þeirra (ætti að vera nokkuð augljóst að það væru eingöngu stelpur í liðinu). Fljótlega heyrðu nokkrir foreldrar í liðinu okkar miður fallegar og háværar athugasemdir frá foreldrum í hinu liðinu. Athugasemdir á borð við: Já já, bara verið að leyfa STRÁKUNUM að skora!!! Koma svo ekki láta STRÁKANA taka ykkur!!! Passið ykkur á STRÁKUNUM!!! Við stóðum hinum megin á hliðarlínunni og heyrðum ekki þessar athugasemdir. Við urðum því ekki vör við neitt fyrr en við sáum litlu feimnu stelpuna okkar snúa sér að foreldrunum í hinu liðinu í miðjum leik og öskra úr sér lungun: VIÐ ERUM EKKI STRÁKAR, VIÐ ERUM STELPUR!!!
Hjartað í mér tók kipp, ég hljóp yfir til foreldranna í liðinu okkar og var upplýst um hvernig foreldrarnir í hinu liðinu voru búnir að haga sér gagnvart 10 ára gömlum börnunum okkar, þvílík vanvirðing og dónaskapur. Eingöngu til þess að stuða 10 ára gamlar stelpur sem eru að spila sinn leik.
Við bentum foreldrunum á að það væru bara stelpur í liðinu og settum út á þessar athugasemdir þeirra. Viðbrögðin sem við fengum frá þeim voru svo langt í frá að vera eðlileg. Ég, ásamt fleiri foreldrum, misstum því alveg kúlið og það gjörsamlega sauð á okkur. Þetta endaði því miður í háværu riflildi, sem stelpurnar urðu vitni að. Slíkt var auðvitað ekki hegðun til fyrirmyndar af okkar hálfu og alls ekki eitthvað sem að mig langar til að endurtaka. Það tók mig langan tíma að jafna mig á þessum samskiptum en á sama tíma og ég logaði af reiði, þá var ég svo ótrúlega stolt af stelpunni okkar að láta í sér heyra.
Ljósi punkturinn við þessa uppákomu var þó sá að tveir foreldrar í hinu liðinu komu eftir leikinn og báðu stelpurnar afsökunar á að hafa kallað þær stráka. Þær gengu því glaðar frá leiknum með sigur og afsökunarbeiðni í hendi. Sáttar með leikinn en atvikið situr ennþà í fersku minni hjá Hófí.
Svo að það sé á hreinu þá er mórall sögunnar ekki sá að það sé óeðlilegt halda að þær séu strákar, eins og hefur komið fram hér að ofan, þá er eðlilega hægt að halda það um Hófí. Hins vegar hafa ítrekaðar athugasemdir um útlit þeirra og athugasemdir þar sem er verið sí endurtekið að rengja rétt þeirra til tilveru á ákveðnum stöðum, hvort sem það er kvk fótboltamót, kvk salerni eða kvk búningaaðstaða, mikil áhrif á sjálfsímynd og sjálfstraust barnanna okkar til frambúðar.
Ég hélt hreinlega að við værum komin lengra.
Er ekki annars komið árið 2020 og mega börnin okkar ekki bara hafa fullt frelsi til þess að fylgja sínu hjarta hvað varðar útlit, stíl og áhugamál án þess að aðrir hafi skoðanir á því?
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2020 | 21:27
Óvissuferð á Snæfellsnes
Þegar Covid breytti öllum ferðaplönum fjölskyldunnar á núlleinni þá varð að fara í nýtt plan. Ég tek yfirleitt ekki langt frí á sumrin. Það hentar betur vinnulega séð að taka frekar langar helgar og svo gott frí í janúar og á haustin. Ferðaplönin fyrir 2020 litu vel út fyrir krakkana. Viktor Logi var á leiðinni með MR í 2ja vikna ferð til Suður Afríku þar sem lífræðinemar ætluðu að vera í verklegu námi í þjóðgarði og í leiðinni ætlaði hann að fagna 18 ára afmælinu sínu. Frá Suður Afríku var ferðinni síðan heitið þráðbeint til Nagasaki til að keppa á Ólympíuleikunum í líffræði. Sigrún Tinna var á leiðinni í 4ra vikna sumarbúðir á vegum CISV til Spánar og við Axel vorum búin að plana matarupplifun á Ítalíu í kjölfarið á hálfa járnkarlinum sem ég ætlaði í á Norður Ítalíu.
Þegar óvissuferðin breytist í helgardekur
Þessar ferðir duttu allar út og við ákváðum að gera eitthvað innanlands í staðinn. Ég var búin að reyna að skipuleggja eina helgarferð. Kærastinn átti afmæli í maí og ég ákvað að plana óvissuferð. Það gekk vægast sagt illa. Hótelin sem ég kannaði voru ekki búin að opna. Ég breytti því ferðinni í dekurferð í Reykjavík. Um morguninn fór ég út að hlaupa, snéri mig á fæti og dekurferð kærastans breyttist í heimahjúkrun. Færa kærustunni kaldan bakstur, kaupa bólgueyðandi krem og svo grilla ofan í fatlafólið. Fyrir utan óþægindin í fætinum get ég alveg mælt með þessu. Það er auðvitað gífurlegur sparnaður fólgin í þessari aðferð og þú færð prik fyrir að reyna. Ég var mjög úthvíld eftir þessa helgi. Man ekki hvenær ég lá með tærnar upp í loft í 48 klukkustundir samfleitt.
Þegar þú ert fædd undir heillastjörnu
Ég ákvað því að fara aðra leið að Snæfellsnesi. Setti inn beiðni um ráðleggingar á Landið þitt Ísland.Þetta er frábær Facebooksíða sem er stútfull af ráðagóðu fólki og þú færð upplýsingar sem þú finnur ekkert svo auðveldlega með því að googla. Hildigunnur skólasystir mín úr MA er síðan ættuð frá Rifi og hún gaf mér einnig fullt af góðum hugmyndum. Mér finnst stundum taka óratíma að fá svör frá hótelum þegar ég er að bóka þannig að ég valdi 6 gististaði sem mér leist vel á. Sendi sama póstinn á þau öll og ákvað að sá sem svaraði fyrstur yrði fyrir valinu.
Nína vinkona er frá Finnlandi.Við kynntumst þegar við vorum báðar skiptinemar í Honduras. Hún sagði alltaf að ég væri fædd undir heillastjörnu. Ég er yfirleitt ótrúlega heppin. Ég hefði getað fengið hvaða hótel sem er en Langaholt varð fyrst til að svara. Þau hjálpuðu mér að skipuleggja ferðalagið og þau svörðuðu alltaf emailum hratt og vel og það skiptir gífurlega miklu máli fyrir mig. Ég nenni almennt ekki að hringja til að athuga með verð og hvort að það sé laust. Ég sendi annað hvort email eða skilaboð á Facebook og ef ég fæ ekki svar þá sný ég mér að næsta.
Lagt af stað í óvissuna
Við lögðum af stað um miðjan dag á föstudegi. Við stoppuðum í Geirabakarí á Borgarnesi. Virkilega notalegt bakarí, góðar kökur og frábært starfsfólk.Leiðin lá síðan á Snæfellsnesið. Við vissum ekki alveg hvert við vorum að fara þar sem þetta var jú óvissuferð en Google Maps og Waze klikka ekki. Allt í einu kom skiltið Snæfellsnes og stuttu seinna vorum við komin. Það er gífurleg náttúrufegurð á Snæfellsnesi og tignarleg fjöll í allar áttir og svo auðvitað jökullinn sem blasti við okkur þegar við renndum í hlað. Staðsetningin á Hótel Langaholti er fullkomin. Mjög miðsvæðis á Snæfellsnesi og einhvern veginn jafnstutt í allt. Við tékkuðum okkur inn og það var allt tilbúið. Fengum herbergi hlið við hlið í nýju bygggingunni. Fín herbergi með stórum svölum. Fór út á svalir og það færðist ótrúlega mikil ró og friður yfir mig. Beint á móti blasti Snæfellsjökull við. Þetta er ótrúlegt útsýni, svokallað milljóndollaraútsýni.
Við komum okkur fyrir og gerðum plön fyrir næstu daga. Ég var búin að fá mikið af upplýsingum bæði frá starfsfólki Langaholts sem og Hildigunni. Vandamálið við Snæfellsnes er ekki hvað þú átt að gera. Það er hverju áttu að sleppa þar sem það er svo gífurlega mikið framboð af afþreyingu og fallegum stöðum að ein helgi er aldrei nóg.
Við ákváðum að borða kvöldmatinn á hótelinu.Við fengum okkur svartfugl í forrétt og svo fékk ég mér plokkfisk, Axel fisk dagsins og Tinna og Viktor fengu sér kjötbollur. Tinna er ekki alveg komin með nógu þróaðan matarsmekk. Sumir myndi mögulega kalla hana fjandi mikinn gikk þannig að þegar ég sá að það var sósa á kjötbollunum vissi ég að við vorum í vandræðum. Spurði hvort að það væri eitthvað hægt að gera, jú ekki mikið mál, fengum sósulausar bollur á núll einni. Við borðuðum matinn af góðri lyst enda vel útlátinn og bragðgóður sem og afbragðsþjónusta. Tinna fékk sér bláber og jarðarber af nestinu okkar. Þegar þjóninn sá að hún hafði ekki borðað mikið spurði hann hvort að það mætti ekki bjóða henni eitthvað, svo sem brauð eða banana.
Eftir kvöldmat fengum við okkur te og kaffi og settumst síðan fram til að spila. Ég fann hvernig stressið og álagið sem var búið að vera í gangi síðustu vikur yfirgaf líkamann og það er langt síðan það hefur verið jafnmikil værð yfir mér. Ég naut þess að hlusta á litla gesti syngja höfuð herðar hné og tær og að horfa út um gluggann var mjög afslappandi.
Laugardagurinn á Stykkishólmi og fiskihlaðborð á Langaholti
Ég vaknaði snemma og tók 5 kílómetra skokk fyrir morgunmat. Kom og vakti krakkana og við fórum í morgunmat. Ég var mjög ánægð með morgunverðarhlaðborðið. Það var eitthvað fyrir alla og allir sáttir. Ekki skemmdi að útsýnið yfir morgunmatnun var Snæfellsjökull.Við áttum bókaða Víkinga Sushi ævintýraferð með Sæferðum.Við höfðum farið í hana fyrir nokkrum árum en krakkarnir mundi ekki alveg eftir henni og mér til ánægju var hún skemmtilegri í seinna skiptið. Mögulega því ég er búin að læra að vera í núinu og njóta líðandi stundar. Þetta var virkilega gaman. Við sigldum um Breiðafjörðinn og skoðuðum fuglalíf og svo fengum við að smakka ferskt sjávarfang. ¾ af fjölskyldunni fannst þetta mjög bragðgott og okkur öllum fannst þetta mjög skemmtileg upplifun. Get sannarlega mælt með því að skella sér í siglingu með Sæferðum. Verðið var hagstætt, hálft verð fyrir unglinginn og frítt fyrir börn.Eftir bátsferðina ákváðum við að fá okkur að borða. Það gekk reyndar ekki vel þar sem nokkrir veitingastaðir sem við reyndum að fara á opnuðu ekki fyrr en um kvöldið en við fengum okkur að lokum hamborgara sem voru prýðisgóðir og skelltum okkur svo í sund.
Planið var að borða á leiðinni heim en veitingastaðurinn sem við ætluðum að borða á svaraði hvorki skilaboðum á Facebook né í gsminn sem var gefinn upp þannig að við enduðum kvöldið á fiskihlaðborði á Langaholti. Það var gífurlega gott, fjölbreytt og vel útilátið. Það voru nokkur börn að borða um kvöldið sem voru ekki komin með þróaðan matarsmekk þannig að þau fengu öll pasta í boði Langaholts. Eftirrétturinn var síðan svo góður að Sigrún Tinna tók upp á sitt einsdæmi að fara í eldhúsið til að þakka kokkinum fyrir þennan frábæra eftirrétt.
Sunnudagur í Vatnshelli
Ég byrjaði morguninn á 10 kílómetraskokki. Það er eitthvað svo stórkostlegt að skokka í átt að Snæfellsjökli. Ég hafði lesið sögurnar um orkuna undir jökli. Þegar þú reynir þær á eigin skinni kemstu að því að þær eru sannar.Við áttum bókað í Vatnshelli og ætluðum að taka göngu á milli Arnarstapa og Hellna á leiðinni en vorum pínu sein þannig að við ákváðum að geyma það fram á mánudaginn. Á leiðinni að Vatnshelli stoppuðum við hjá Lónsdröngum og gengum aðeins um svæðið.Ég var búin að vera mjög stressuð með Vatnshelli. Ég er ennþá smá lofthrædd og vissi ekki alveg hvernig mér myndi líða í dimmum, lokuðum helli en ákvað að láta á það reyna. Það er hár hringstigi niður í hellinn og það gekk nokkuð áfallalaust. Þú passar þig bara að horfa ekki niður eða upp og gengur mjög nálægt næsta manni eða konu. Best er að það sé einhver sem þú þekkir, svona ef þú þarft að grípa í viðkomandi á ögurstundu. Þegar niður var komið var þetta ekkert mál. Hellirinn er mjög skemmtilegur og vel passað upp á alla. Leiðsögumaðurinn okkar sem ég man því miður ekki hvað heitir var gífurlega skemmtilegur og gerði þessa ferð ennþá betri. Þegar kom að því að fara í neðri hellinn þá stressaðist ég upp fyrirfram en notaði sömu tækni og til að fara niður í hellinn. Við fengum að upplifa algjört myrkur. Það þurftu allir að slökkva á vasaljósunum. Ég reyndi að svindla og halda fyrir mitt ljós en hann sá við því. Mér fannst stressandi að slökkva á ljósunum. Hvað ef það kviknar ekki á neinu ljósi aftur? Komust við upp úr hellinum? Auðvitað voru þetta óþarfa áhyggjur og upplifunin að vera í algjöru myrki var stórkostleg og ótrúlegt hvað augun voru næm þegar við kveiktum aftur á ljósunum. Síðast þegar ég prófaði þetta þá var ég að læra köfun í Honduras. Við þurftum að taka eina næturköfun og þá áttu allir að slökkva á sínum vasaljósum. Þarna svindlaði ég. Ég er búin að prófa næturköfun og það er ekki á listanum, langaraðgeraþaðaftur. Hinsvegar gæti ég vel hugsað mér að fara aftur í Vatnshelli. Virkilega þess virði að fara og skemmtilegt að upplifa hann.
Djúpalónssandur, Dritvík, Gilsbakki og Sjóminjasafnið
Næst á planinu var að stoppa hjá Djúpalónssandi og Dritvík. Þetta er gífurlega fallegt svæði og eiginlega skyldustopp ef þú ert á ferðinni. Við fórum í fjöruna. Ég reyndi við steinana og komst að þeirri niðurstöðu að annað hvort þyrfti ég að planka töluvert lengur eða steinarnir væru bilaðir. Ég gat a.m.k. ekki haggað þeim. Gönguleiðin í Dritvík er mjög falleg og eins og margir aðrir staðir á Snæfellsnesinu stútfull af orku. Við vorum orðin pínu svöng eftir Vatnshelli og gönguna þannig að við ákváðum að flytja aðrar gönguferðir yfir á mánudaginn og finna okkur kaffihús. Hildigunnur hafði mælt með Gilbakka á Hellissandi. Það stóð heldur betur undir væntingum. Gilbakki er gífurlega fallegt hús og andinn þarna inni engu líkur. Við lentum í valkvíða. Kökurnar voru allar svo girnilegar að við fengum okkur öll sitthvora sneiðina og svo tók ég 2 sneiðar til að leyfa öllum að smakka. Gott kakó og kaffi þannig að ef þú ert á ferðinni á þessum slóðum þá er skyldustopp á Gilbakka. Eftir Gilbakka skelltum við okkur á Sjóminjasafnið á Hellissandi. Þetta var á sjómannadaginn og frítt inn. Safnið vakti upp mjög skemmtilegar minningar frá frystihúsinu á Dalvík og mér taldist til að af 20 algengustu fiskategundum við Ísland hef ég handflakað 14 af þeim. Setti upp smá könnun á Instagram og það hafði engin trú á því að ég hefði handflakað svona margar tegundir. Sjóminjasafnið var skemmtilegt bæði fyrir börn og fullorðna og vel þess virði að kíkja á það.
Fullkomið kvöld á Sker
Þarna var farið að líða á seinni partinn og við vorum búin að ákveða að borða á Sker á Ólafsvík. Það mæltu einfaldlega allir með þessum stað. Ég get eiginlega ekki mælt nógu mikið með honum. Veitingastaðurinn er mjög fallegur með flottu útsýni yfir höfnina og matseðilinn er gífurlega metnaðurfullur og spennandi. Allt sem við pöntuðum var gífurlega gott og kalt mat einn af bestu 5 veitingastöðum sem ég hef borðað á á Íslandi. Það eina sem ég get sett út á er að staðurinn er á Ólafsvík og full langt að renna bara til að borða kvöldmat en hann er algjörlega þess virði fyrir dagsferð. Það væri t.d. tilvalið að panta sér gistingu á svæðinu. Fara í skemmtilegar göngur sem nægt framboð er af og borða svo á Sker.
Smá breyting á mánudeginum
Við vorum einu gestirnir á sunnudagskvöldinu og fengum því eðalþjónustu. Planið var að keyra heim og skoða meira. Það var svo mikið sem við áttum eftir, svo sem ganga á milli Hellna og Arnarstapa, fara á hákarlasafnið og kíkja á Grundarfjörð. Það ringdi hinsvegar eins og hellt væri úr fötu. Við ákváðum því að taka það rólega fram að hádegi en þegar það stytti ekki upp ákváðum við að keyra heim og slaka á seinni partinn.
Þessi ferð var algjörlega frábær. Hún styrkti fjölskylduböndin og við bjuggum til fullt af minningum.
Það er langt síðan ég hef gist á stað sem er jafn dásamlegur og Langaholt. Ótrúlega mikil þjónusta og þau leggja greinilega metnað í að gestunum líði vel enda er þetta fjölskyldufyrirtæki. Ég bókaði 3 nætur og það er algjör snilld þar sem mjög margir staðir bjóða 3ju nóttina á lægra verði. Þannig náum við lengri helgi og komumst yfir að gera ansi mikið án þess að vera í miklu stressi. Að taka langa helgi var snilldarhugmynd.
Það var bara eitt sem þau gátu ekki leyst fyrir mig. Þessi einfalda spurning. Hvert er best að hlaupa kl. 05:00 á morgnana. Strákarnir sögðust vera í fríi og það væri mannskemmandi að vakna svona snemma í fríi. Held að þeim hefði fundist eðlilegra að vera að fara í rúmið á þessum tíma.
Ferðabransinn
Auðvitað er lúxus að ferðast um landið sitt og vera ein á hóteli. Það er upplifun sem verður líklega aldrei endurtekin. Þess vegna er þetta svo frábært tækifæri í ár. Það eru tilboð á gistingum og skipulögðum ferðum og verð sem við sjáum líklega ekki aftur. Þegar við vorum á Snæfellsnesi var umræðan um skimunargjaldið að byrja. Það birtist frétt í DV um íslenska konu sem er búsett í Danmörku og þetta skimunargjald kom í veg fyrir að hún, danski maðurinn hennar og börnin þeirra tvö gætu notið þess að koma til Íslands í frí eins og þau hafa gert undanfarin ár. Þau voru búin að plana eitt og annað sem ótrúlegt en satt kostaði akkúrat 15.000 á mann. Þarna eru börnin væntanlega orðin 15 ára þar sem það þarf ekki yngri en 15 ára. Henni fannst hins vegar ekkert mál að borga 5.000 kr. skimunargjald í Danmörku. Þarna vantaði alveg í fréttina hjá henni að Ísland er svo miklu ódýrara í ár en í fyrra að það er eiginlega alveg ósamanburðarhæft. Ef 60.000 kr. er það sem hún setur sem hámark á ferðakostnaðinn hjá 4ra manna fjölskyldu afhverju ætti ríkið að niðurgreiða ferðakostnaðinn hjá henni um nákvæmlega sömu upphæð? Þetta minnti mig aðeins á puttaferðalangana sem ég tók upp í fyrir nokkrum árum. Þær voru búnar að ferðast um landið í 2 vikur á puttanum og gista frítt hér og þar. Þær voru að velta því fyrir sér hvað þær ættu að gera síðasta daginn á Íslandi og það mátti ekki kosta mikið. Ég stakk upp á því að þær færu upp í Hallgrímskirkju. Frábært útsýni fyrir miðbæninn og skemmtileg upplifun. Kostar það ekki helling spurði önnur, nei, alls ekki, sagði ég. Það kostar 1.000 kr á mann. Þá gengur það ekki sagði hin og sagði orðrétt. its totally over our budget
Er ekki alveg eins líklegt að þeir sem koma, komi kannski til lengri tíma því þeir eru búnir að greiða skimunargjaldið og vilja fá sem mest fyrir peninginn. Hvað ef allir eru nokkrum dögum lengur af því að þeir borguðu skimunargjaldið og þeir sem ætluðu að fara á puttanum og gista frítt hér og þar koma ekki í ár?
Þegar við förum til ýmissa landa þá þarf oft að kaupa bólusetningar fyrir tugi þúsunda. Það finnst engum að landið sem við erum að ferðast til eigi að niðurgreiða það. Þegar ég ferðaðist um Suður Ameríku á sínum tíma þurfti að borga tugi dollara fyrir vegabréfsáritun til að komast inn í landið. Ef ég vildi fara þá þurfti ég að greiða, nú eða sleppa því. Þegar ég bjó í Honduras þá þurfti að greiða komugjald, nú eða koma ekki. Þegar ég fer erlendis á ráðstefnur þá er alltaf búið að bæta við verðið citytax, resort fee og allskonar skemmtilegum gjöldum og ég hef alltaf valið að greiða þau eða sleppa því að koma. Í Honduras og væntanlega víðar voru tvö verð í gangi, eitt verð fyrir innfædda og annað verð sem var umtalsvert hærra fyrir ferðamenn.
Er hægt að nýta tækifærið í að endurskipuleggja okkur frá grunni?
Ég hef unnið sem fasteignasali í 17 ár. Átti einmitt starfsafmæli þann 16. júní s.l. Ég hef alltaf unnið mikið og aldrei gefið mér tíma til að endurhugsa ferla og vinnubrögð. Allt í einu varð ég nauðbeygð til að gera allskonar breytingar. Það var ekki lengur hægt að hafa opin hús eða afhenda kaupendum sölugögn í sýningum. Ég ákvað að líta á Covid tímabilið sem tækifæri til að núllstilla mig og fyrirtækið. Við fórum að bjóða upp á netsýningar, sölusýningar sem þurfti að forbóka inn til að tryggja að fjöldatakmarkanir væru virtar og við sendum ítarlega upplýsingabæklinga á undan sýningu og nýttum okkur rafrænar undirritanir í staðinn fyrir að hitta viðskiptavini á skrifstofunni. Það kom í ljós að bæði kaupendur og seljendur voru mjög sáttir við allar þessar breytingar. Á einni nóttu breyttist ég úr dyraverði sem tók niður nöfn, síma og email í upplýsingamiðstöð sem gat svarað spurningum og einbeitt mér að þeim kaupendum sem komu í sölusýninguna. Það koma færri í hverja sölusýningu en þeir eru áhugasamari. Kaupendur bóka eingöngu tíma í sölusýningu ef þeir eru virkilega áhugasamir um eignina og það eru því færri á staðnum en hver og einn fær meira næði og meira pláss til að skoða.
Mig langar að enda þennan pistil á tilvísun í Maggý Magnúsdóttur sem rekur ferðaþjónustu á Snæfellsnesi. Hún setti þetta fram á persónulegri Facebook síðu og er birt með hennar leyfi.
Nú er búið að ákveða að rukka ferðamenn um 15.000 kr fyrir skimun. Ég á og rek vistvænt ferðaþjónustufyrirtæki svo mér er málið skylt.
Skoðum málið. Við vorum með góða bókun frá mars og fram eftir árinu eins og mörg önnur fyrirtæki þegar veiran greip í taumana og ferðaþjónustan stöðvaðist á einni nóttu.
Sóttvarnar-, heilbrigðis - og almannavarnir hafa lyft grettistaki og varið þjóðina fyrir alvarlegum veikindum og vakið jákvæða athygli úti í heimi fyrir góðan árangur. Ég þakka fyrir það.
Ríkisstjórnin kom til aðstoðar með hlutabótaleiðina og stuðningslán sem hjálpa mörgun fyrirtækjum að lifa af þrengingarnar. Ég þakka fyrir þeirra framlag.
Mörg fyrirtæki hafa búið til tilboðspakka fyrir Íslendinga og aðra sem vilja / geta ferðast um Ísland í sumar.
Ísland var fyrir covid komið með byrjandi slæmt orðspor vegna fjölda ferðamanna á vinsælum ferðamannastöðum og við vorum byrjuð að loka svæðum. Ekki gott mál.
SUMARIÐ 2020 ER EINSTAKT, bæði fyrir íslenska ferðamenn sem og erlenda ferðamenn þar sem ferðalangar geta valið úr fjölda tilboða sem EKKI hafa sést áður.
Þú þarft ekki að dvelja lengi á Íslandi til að vinna upp 15.000 kr. skimunargjald með því að kaupa ferðir og gistingu á lækkuðu verði. :-)
Ég legg til að SAF og fleiri hætti að væla og auglýsi Ísland sem einstakt land til að heimsækja í sumar þar sem eru fáir ferðamenn og fjölbreytt þjónusta á hagstæðu verði.
Svo er líka gott að fá ráðrúm til að ígrunda hvernig ferðaþjónustu við viljum hafa til framtíðar.
Ég á mína drauma hvað það varðar :-) Góðar stundir.
Er þetta ekki akkúrat málið. Við erum í einstakri og reyndar tilneyddri stöðu að endurhugsa allt saman. Hvers vegna ekki að nýta tækfærið og ákveða hvernig framtíð við viljum búa til ?
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bloggar | Breytt 18.6.2020 kl. 05:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2020 | 10:50
Lenti í gifsi og fann sér kærasta
Þegar ég lenti í gifsi síðasta sumar og datt tímabundið út úr Landvættaprógramminu, fannst mér tilvalið að nýta tímann til að finna mér kærasta. Ég sá fram á marga vikna æfingahlé og hefði því nægan tíma í þetta verkefni. Ég var ekkert viss um að það myndi ganga vel. Ég hafði farið á mörg deit eftir að ég skildi og á tímabili lýsti ég því yfir að allir einhleypir karlmenn á Íslandi væru fávitar. Seinna kom í ljós að vandamálið lá mögulega mín megin.
Þú ert alltof kröfuhörð til að finna þér kærasta!
Þú verður að lækka standardinn. Nú, hvers vegna? Þú ert alltof kröfuhörð og finnur þér aldrei kærasta ef þú lækkar ekki standardinn. Já, sko mig vantar ekki kærasta þannig að þetta er allt í lagi. Ég veit alveg hvað ég vil og hann er ekki alveg í sjónmáli núna. Þetta er ekkert mál, þú breytir honum þegar þú ert búin að finna hann. Já, nei ómögulega, ég er orðin fimmtug og það myndi henta mér miklu betur að finna mann sem er fínn eins og hann er og ég þarf ekkert að laga. Ég er einfaldlega of upptekin til að sinna uppeldi á fullorðnum mönnum. Ef ég ætti þúsundkall fyrir hvert skipti sem mér var ráðlagt að lækka standardinn, að finna mér einhvern mann, að laga hann svo bara seinna, þá hefði ég getað keypt mér minn eigins mann. Ég hef aldrei skilið þessa þörf hjá öðrum að ráðleggja fólki óumbeðið hvernig það á að lifa lífinu og hvaða þarfir það hefur og hvað hentar því. Stundum hafði ég það á tilfinningunni að ég mætti vera einhleyp í ákveðin langan tíma þar til ég fór að verða frávik. Ég varð ein af þessum konum sem gat ekki fundið sér kærasta, sem var dæmd til að vera ein að eilífu, ALEIN. Fólki finnst mjög gott að þú finnir sjálfa þig eftir skilnað. Frábært hjá þér að vera ein og finna þig heyrði ég oft. Svo liðu tvö ár og þá komu spurningarnar, ertu ekki að deita einhvern, nei, finn engan. Já, þú meinar, ertu svona kröfuhörð? Svo kom ár þrjú. Þá breyttist þetta í: hvað er að hjá þér, hvers vegna gengur þú ekki út? Uppáhaldið mitt var, þessi gaur, það er líklega eitthvað að hjá honum. Nú hvers vegna? Hann er búinn að vera einhleypur í þrjú ár, það hlýtur að vera eitthvað að honum fyrst að engin vill hann. Já, þú meinar, ég er búin að vera einhleyp í tæp 4 ár :)
Afhverju gerist þú ekki lesbía?
Það er dásamlegt hversu margir eru duglegir að leysa vandamál sem eru ekki til staðar. Það barst einhvern tímann sem oftar í tal að ég væri einhleyp og jú það gengi ekkert að finna mér mann (yfirleitt vegna þess að ég var ekkert markvisst að leita). Ef þú getur ekki fundið þér mann, hvers vegna gerist þú ekki lesbía? Ha, gerist lesbía, já prófar að spila með hinu liðinu? Hinu liðinu, á ég að skipta úr Breiðablik yfir í HK? Fyrst þegar ég heyrði þessa tillögu varð ég pínu móðguð. Er eitthvað að mér? Finnst viðkomandi í alvörunni að það finnist ekki einn gagnkynhneigður karlmaður sem gæti haft áhuga á mér. Ef svo er, hvers vegna ætti einhver kona frekar að hafa áhuga á mér. Ég á mikið af samkynhneigðum vinum. Þeim fannst þetta frekar fyndið. Ásdís mín, ef potturinn af gagnkynhneigðum karlmönnum er lítill þá get ég lofað þér að samkynhneigði potturinn er töluvert minni. Þessi óumbeðnu ráð komu í bunkum. Ansi mörgum fannst að ég ætti að gerast lesbía,.Allt til að ganga út. Mínar þarfir og langanir skiptu ekki öllu máli þarna. Lykilatriðið var þú verður að ganga út. Ég hugsaði hvað þetta er súrealískt. Hvernig virkar þetta? Set ég í calendar hjá mér, bóka kl. 15:00 á föstudaginn, gerast lesbía. Fyrst að það væri svona auðvelt mál þá ákvað ég að það væri best að setja líka niður, verða 1.75 m, 70 kg, fjólublá augu og fá þennan fallega brúna húðlit sem Whitney Houston var með. Ég held að það sé alveg jafn auðvelt að hækka um 10 sm eins og að skipta um kynhneigð. En það er bara mín persónulega skoðun.
Ertu virkilega á þessu Twitter dæmi?
Ertu virkilega á þessu Twitter dæmi heyrði ég reglulega. Nei, ég er ekki á Twitter. Ég er á Facebook, Snapchat, Instagram, LinkdeIn og skoða stundum Pinterest, það er alveg nóg. Já, ertu ekkert að deita. Ha deita, jú annað slagið. Ertu þá ekki á Twitter? Twitter, ertu að meina Tinder? Já eða það. Jú, ég fer reglulega þarna inn, en það eru bara eintómir fávitar þarna inni. Í rúmt ár var það viðhorfið mitt. Allir einhleypir karlmenn á Íslandi eru fávitar. Fólki fannst ég full dómhörð þannig að ég breytti þessu í 80% af karlmönnum sem ég hef hitt í gegnum Tinder eru fávitar. Ennþá ogguponuspínulítið dómhart. Ég var að ræða þetta við fasteignaþjálfarann minn í Bandaríkjunum. Hann sagði, Ásdís er möguleiki á að þú sért vandamálið. Getur virkilega verið að ALLIR einhleypir karlmenn á Íslandi séu fávitar. Það er ein sameiginleg breyta í þessu máli og það ert þú. Ég hugsaði, dj. fáviti getur maðurinn verið. Þeir sem hafa verið að lesa bloggin mín eru mögulega búnir að tengja að gamla ég, þessi sem hafði allt á hornum sér, var ekkert svakalega deithæf. Það kom seinna í ljós að megnið af karlmönnum á Tinder eru frábærir. Þú færð einfaldlega það sem þú sendir frá þér. Ég ákvað því að taka mér langa deitpásu og hreinsa upp gamla drauga og endurstilla mig. Það versta sem hægt er að gera er að reyna að fara í nýtt samband með farangur úr fortíðinni. Það er ekkert ólíkt því að ætla að ganga upp Esjuna en byrja á því að fylla 50 lítra bakpoka af steinum. Mögulega hægt en óþarflega erfitt.
Hvað er Ghosting?
Það getur alveg tekið á taugarnar að vera á markaðnum, og nei þá er ég ekki að tala um fasteignamarkaðnum sem ég er búin að vera að vinna á í 17 ár. Ég er að tala um villta vestrið sem einkennir deitmenninguna. Sumir halda að þetta sé einskorðað við Ísland. Við kunnum ekki að deita, höfum ekki þessa menningu. Elskurnar mínar, leyfið mér að leiðrétta þennan misskiling á núlleinni. Ég hef farið á verri deit í Bandaríkjunum og Barcelona heldur en á Íslandi. Þetta er miklu meira tengt því að fólk veit ekkert hvað það vill. Þú skráir þig á deitsíður að leita að einhverju. Það er mjög óskilgreind leit og svo ertu rosalega hissa að deitið gekk ekkert svakalega vel. Ég meina, þið voruð sko búin að spjalla saman í nokkra klukkutíma áður en þið hittust. Ég held að vandamálið sé hvað þú ert fljótur að finna næsta. Þetta er bara eitt klikk til hægri og þá poppar upp nýr og spennandi einstaklingur. Þú þarft ekkert að hafa fyrir þessu, það er alltaf nýr valmöguleiki handan við hornið. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef verið ghostuð. Hvað er það eiginlega? Það er þegar þú ert jafnvel í miðju samtali við einhvern á Tinder eða Facebook og svo er viðkomandi horfinn. Þá kannski sagðir þú eitthvað sem viðkomandi líkaði ekki eða hann var farinn að tala við aðra manneskju sem virkaði áhugaverðari þessa stundina og þér er hent eins og gömlu rusli. Fyrstu skiptin sem ég lenti í þessu tók ég þessu mjög persónulega. Ég velti mér lengi upp úr því hvað ég hefði gert rangt. Hvað ég hefði getað gert betur. Svo áttaði ég mig á því að vandamálið lá ekki hjá mér heldur hjá þeim sem ghostar. Kurteisi kostar nefnilega ekki neitt og ef viðkomandi hefur ekki lært grunnmannasiði eins og að kveðja þá var það nú frekar mikil heppni að þurfa ekki að kynnast honum betur.
Deitráðgjafar, allt er nú til
Viktor Logi sonur minn er algjör snillingur og svo miklu eldri en kennitalan hans segir til um. Hann benti mér á að fylgja Matthew Hussey á Instagram. Hann væri ansi snjall. Mér leist nú ekkert á blikuna. Þetta var ungur maður sem gæti nú ekki vitað mikið um þarfir miðaldra kvenna. Það kom fljótlega í ljós ég var með bullandi aldursfordóma og Matthew vissi alveg hvað hann söng. Eitt sem sat eftir hjá mér var að hann teiknaði fullt af mönnum á töflu, segjum 50 og svo dró hann hring utan um einn í miðjunni. Hann sagði, þinn maður er númer 22. Vandamálið er að þú ert svo upptekin af því að gefa manni 1, 2 og 3 sjens og reyna að láta það ganga að þú finnur aldrei mann númer 22. Mér fannst þetta frábært ráð og virkaði mjög tímasparandi. Ég setti mér því nokkrar grunnreglur og kvikaði ekki frá þeim. Það er mögulegt að einhverjum hafi fundist þær full harkalegar en þetta er mitt líf ekki satt og mínar reglur. Annað sem Matthew sagði var, ekkert svar er svar. Ef þú ert hunsuð, skilaboðunum þínum ekki svarað þá eru það mjög skýr skilaboð. Mér fannst þetta ansi gott ráð. Því ef þú ert hunsuð á meðan þið eruð að kynnast hvernig verður þetta þá í framtíðinni?
Ég ákvað því að hlusta gífurlega vel á mína innri rödd. Það er hægt að spara sér svo mikinn tíma og sárindi með því að hlusta á sína innri rödd. Ég bjó til spurningar sem ég spurði alla og ýtti á ákveðna takka. Ég ræddi þetta við einn ráðgjafa þegar ég var í lofthræðslumeðferðinni. Hún sagði, Ásdís þú veist hvað þú vilt og það er frábært. Það gerir það líka að verkum að potturinn þinn er kannski minni fyrir vikið en hann er þinn pottur.
Er hægt að setja ástina í excelskjal?
Þegar ég skráði mig í Landvættaprógrammið vissi ég að ég þyrfti að setja allan minn tíma og orku í æfingar, vinnu og krakkana og setti mig því í sjálfskipað deitbann. Planið var svo að klára Landvættina í ágúst 2019 og einhenda mér þá í það verkefni að finna mér kærasta. Það vildi nú ekki betur til en að ég fór í gifs og datt út úr Landvættum tímabundið. Nú voru góð ráð dýr. Mér fannst full langt í ágúst 2020 þegar ég myndi klára Landvættina og meira að segja mér fannst manískt að vera í tveggja ára deitbanni þannig að ég ákvað að breyta planinu. Kvöldið fyrir Bláalóns þrautina ákvað ég að núna væri kominn tími á að finna kærastann.
Ég ákvað að nýta mér tæknina sem Darren Hardy kenndi mér. Þegar hann var tilbúinn að finna sér konu þá skrifaði hann fjörutíu blaðsíða ritgerð þar sem hann lýsti í smáatriðum hvernig drauma konan hans væri. Síðan skrifaði hann aðra eins ritgerð um hvernig maður hann þurfti að vera til að verðskulda hana. Ég var fyrir löngu búin að finna út hvernig kona ég þurfti að verða. Þegar ég byrjaði að deita þá var ég fljót að átta mig á því að mennirnir sem ég hafði áhuga á að deita voru í meistaradeildinni og ég var í annari deild. Það var því um tvennt að velja. Bæta mig og fara upp um tvær deildir eða lækka standardinn. Það var ekkert annað í boði en að uppfæra mig um tvær deildir. Ég var einfaldlega ekki tilbúin að lækka standardinn, ég vissi að ég yrði að bæta mig. Kalt mat, það eru ekkert svakalega margir menn sem nenna að deita litlar, feitar, reiðar, pirraðar og fúlar konur, reyndar var hæðin líklega ekki vandamálið. Ég tók tvö ár í það verkefni. Þar sem ég lá þarna handleggsbrotin upp í sófa var ekki sjens að ég nennti að fara að skrifa einhverja fjörutíu blaðsíðna ritgerð með annari hendinni. Ég ákvað því að gera styttri útgáfuna. Ég bjó til lista með tíu atriðum sem framtíðarmaðurinn minn byggi yfir. Ég setti niður útlit, hæð, karaktereinkenni og áhugamál og hvers vegna þessi atriði skiptu mig máli. Ég útbjó síðan Tinderaðgang sem þessi maður átti að finna og viti menn (og konur) það tók viku að tengja okkur saman.
Ég hitti eina kunningakonu mína fyrir nokkrum mánuðum og hún spurði hvernig gengi að deita. Ég sagðist vera búin að finna kærastann. Hún leit á mig og brosti og sagði, ég sá listann þinn og ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki nokkra trú á því að þú myndir finna hann. Listinn var svo svakalega nákvæmur. Það er akkúrat galdurinn. Ef þú veist hvað þú vilt og hvers vegna þá er svo auðvelt að finna það. Hinsvegar ef þú veist ekkert að hverju þú ert að leita þá veistu ekki einu sinni alltaf þegar þú finnur það sem þú leitar að og tækifærið rennur þér úr greipum.
Það er ótrúlega órómantísk að skilgreina draumamanninn
Ásdís, þú getur ekki gert þetta. Þú getur ekki skilgreint hvernig mann þú vilt. Þetta kemur þegar það kemur. Hvað ætlar þú eiginlega að gera ef þú verður óvart ástfangin og hann passar ekki við listann þinn? Óvart ástfangin, hvernig gerist það? Labbar kona inn á einhvern stað, sér þar ókunnugan mann og verður svo hugfangin að hún kemur ekki upp einu orði. Seinna um daginn fattar hún svo að hún er svo ástfangin að það kemst ekkert annað að? Ég var aðeins ósammála því að þú verðir óvart ástfangin. Ég svaraði einfaldlega. Ég er með ákveðin prinsip sem ég ætla ekki að gefa eftir og ég verð búin að greina það á fyrstu 5 mínútunum hvort að hann komi til greina. Ásdís, þú getur ekki spurt svona beinna spurninga. Jú, jú, ég get það alveg. Þetta er nefnilega mitt líf og ég ræð hvernig ég lifi því og hvað skiptir mig máli.
Það er eitthvað tabú við þarfagreina makann. Það á að gerast að sjálfu sér. Ef þú ætlar að verða viðskiptafræðingur þá ferðu í menntaskóla og svo velur þú þér háskóla sem kennir viðskiptafræði. Þetta er mjög einfalt plan. Hins vegar ef þú ætlar að finna þér maka, einhvern þú átt jafnvel eftir að eignast börn með og eyða ævinni með, þá er það eitthvað sem á að gerast að sjálfu sér, eitthvað spontant ævintýri, fullt af bleikum búbblum og rómantík. Það þótti mjög ósmart að ætla að þarfagreina hann.
Þegar þú ert komin á sextugsaldur þá veistu nákvæmlega hvað þú vilt eða frekar hvað þú vilt ekki. Ég vildi ekki fara aftur í leikskólapakkann. Ég vildi ekki mikinn aldursmun. Ég vildi ekki einu sinni mikinn hæðarmun. Mér fannst skipta máli að hann væri sjálfstætt starfandi og ætti því auðvelt með að setja sig í mín spor varðandi vinnu og álag tengt henni. Þannig að ég bjó til minn draumalista. Hvað skiptir mig máli. Hvaða kröfur geri ég til mín og til hans. Ég þurfti ekki að fara í samband til að drepa tímann. Ég hafði meira en nóg að gera. Ég sá fljótt að það yrðu að vera einhver sameiginleg áhugamál til að þetta gengi upp, ég stunda fjórar íþróttir. Hann yrði að stunda eina af þeim. Golfarar hentuðu því ekki. Yndislegt fólk en eru alltaf úti á golfvelli þar sem ég er ekki. Þú getur alveg tekið upp golf er það ekki? Jú pottþétt, eftir svona tíu ár þegar ég er búin að minnka við mig vinnu. Þannig að ég sendi öllum sömu fjórar spurningarnar.
Hvað áttu mörg börn?
Hvað eru þau gömul?
Við hvað starfar þú?
Hvaða hreyfingu stundar þú?
Eins og ég sagði, tekur fimm mínútur ef þú veist að hverju þú leitar.
Hvernig veistu samt að hann er sá rétti?
Þú veist aldrei hvort að þetta sé sá eini rétti. Þú verður stundum að stökkva út í djúpu laugina, sleppa axlaböndunum og beltinu og björgunarhringnum og láta vaða. Hætta að velta þér upp úr hvað ef og bara njóta þess sem lífið býður uppá.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bloggar | Breytt 21.7.2020 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2020 | 14:23
Að vera sérfræðingur í áhyggjum!
Það er ótrúlegt að það séu ekki nema rúm 2 ár síðan ég sökk niður í mitt dýpsta hyldýpi og ég sá ekki framúr neinu.
2 ár frá því að ég lá heima í fósturstellingu.
2 ár síðan ég náði ekki andanum.
2 ár síðan ég gat ekki hugsað skýrt.
2 ár frá því að ég sökk neðar en ég hélt að ég gæti sokkið.
2 ár síðan ég tróð marvaða og náði ekki til botns.
Hvernig er hægt að missa svona algjörlega tökin og sjá ekki fram úr neinu? Ég hef hugsað töluvert um það og þegar ég lít til baka þá sé ég að ég var búin að keyra ansi lengi á hnefanum. Ég held hreinlega síðan í Hruninu. Það er svakalega langur tími. Ég náði aldrei að núllstilla mig. Alltaf þegar ég hélt að ég væri komin með allt á hreinu kom nýtt áfall eða nýtt vesen. Ég stoppaði aldrei til að ná áttum og spyrja mig hvað skipti máli. Hvað vil ég og hvert er ég að fara? Ég leysti öll mín mál með því að fara mína leið og þeir sem voru ekki á sömu línu og ég, þeir gátu bara átt sig. Ég þurfti ekkert á þeim að halda. Ég vissi hvað var best fyrir mig og ég þurfti ekki að leita mér aðstoðar. Það eru aumingjar sem leita sér aðstoðar. Ég er ekki aumingi.
Þegar kemur að skuldadögum
Ég keyrði á vegginn af fullum þunga einn laugardag í janúar 2018. Þetta var búin að vera erfið vinna í vikunni og ég var þreytt og punkteruð. Þetta var samt eðlilegt ástand fyrir mig. Ég var þreytt, vann of mikið og hugsaði lítið um heilsuna og sjálfa mig. Ég kom heim og allt í einu fann ég að ég náði ekki andanum. Ég lagðist upp í sófa, ég fékk öran hjartslátt og ég ofandaði á sama tíma og ég barðist við að ná andanum. Ég hágrét án þess að vita af hverju. Ég varð skíthrædd og hélt að ég væri að fá hjartaáfall. Næstu vikur á eftir voru gífurlega erfiðar. Ég barðist við að fara í vinnuna, að halda haus, að vera til staðar. Mér leið best undir sæng. Ég missti af ótal viðburðum því ég treysti mér ekki til að mæta. Ég las dánartilkynningar í Fréttablaðinu því ég öfundaði fólkið sem var þarna. Þetta var svo rólegur og afslappur staður og laus við öll vandamál.
Frá botninum er besta spyrnan
Ég fór í gegnum nokkra mánuði af algjöru kerfishruni. Ég var hvergi til staðar, hvorki í vinnunni né fyrir börnin mín. Það kemur samt alltaf að því að þú nærð botninum. Ég náði mínum botni þegar ég missti af foreldrasýningu í fimleikum. Dóttir mín hljóp til mín og spurði, hvar ég hefði verið. Ég hefði verið eina mamman sem hefði ekki mætt. Ég skýldi mér á bakvið vinnu. Það er svo mikið að gera hjá mömmu í vinnunni. Þetta er svo góður frasi. Í staðinn fyrir að taka á vandamálunum þá drekkir fólk sér í vinnu. Gallinn er samt að þú kemur litlu í verk þegar þú ert á þessum stað. Þú vinnur og vinnur en afköstin og framlegðin eru í engu samræmi við það. Á endanum náði ég botninum og þar með spyrnunni. Ég vissi að ég var að sigla í kaf og ég yrði að ná tökum á lífinu. Ég er einstæð móðir og er að reka fyrirtæki og það er enginn sem reddar mér. Ég var búin að ganga í gegnum tímabil þar sem ég svaf gífurlega illa. Ég tók sopril á kvöldin til að róa mig og reyna að ná góðum nætursvefni. Ég hef ekki tölu á skiptunum þegar ég vaknaði um miðja nótt og gat ekki sofið áfram. Að vera stressuð, þreytt, úttauguð og svefnlaus er banvæn blanda.
Hlaupin bjarga geðheilsunni
Í lok apríl 2018 byrjaði ég að hlaupa. Það hafði alltaf blundað í mér að hlaupa 10 km í Reykjavíkur maraþoninu og ég sótti app sem var hlaupaforrit. Þegar ég byrjaði að hlaupa þá byrjaði ég að ná tökum á lífinu og sjálfri mér. Það er eitthvað við það að fara út og anda að sér fersku lofti. Ég fór að sofa betur og smátt og smátt fór mér að líða betur og betur. Ég man ennþá þá tilfinningu þegar ég gat litið í spegil í fyrsta skipti og sagt við mig. Mér finnst þú frábær og ég er virkilega stolt af þér og svo ertu bara fjandi sæt líka.
Sérfræðingur í ofhugsun
Þetta kvíðakast var samt ekki fyrsta panikkið mitt. Ég þjáðist af flughræðslu, lofthræðslu og innilokunarkennd. Þetta með flughræðsluna kom mér í opna skjöldu. Ég hafði alltaf notið þess að fljúga og flogið með allskonar rellum hér og þar um heiminn. Svo var það einn vetur að ég er að fljúga heim og ein flugfreyjan byrjar að kalla upp hvort að það sé læknir eða hjúkrunarfræðingur um borð. Þá hafði aðili sem sat fyrir framan mig orðið svona rosalega flughræddur. Það var fínt flug og notalegt en þetta sat í mér. Í lendingunni lentum við í mikilli ókyrrð og þetta varð eitt óþægilegasta flug sem ég hef farið í. Ég spáði ekkert meira í það fyrr en næst þegar ég fór í flug. Þá byrjuðu óþægindin um leið og ég kom inn í vélina. Ég settist inn og mér fannst allt þrengja að mér. Ég byrjaði að ofanda og ég skildi ekkert í því hvað var í gangi. Lét mig hafa þetta og reyndi að slaka á. Þarna bölvaði ég stundum að drekka ekki, því það er ekki hægt að róa taugarnar með sódavatni. Þetta ágerðist svo með árunum. Ég fékk róandi hjá homopata sem sló heilmikið á einkennin en samt aldrei nóg til að mér liði vel. Ég stressaðist upp við að heyra flugmanninn tilkynna að það væri möguleg ókyrrð framundan og stundum var ég örþreytt eftir flugið. Það tekur á að vera uppspennt í nokkra klukkutíma. Þegar ég var komin á þann stað að ég treysti mér ekki til að fljúga lengur en í 2-3 tíma ákvað ég að leita mér fagaðstoðar. Ég fór á flughræðslunámskeið hjá Icelandair og læknaðist að fullu. Ég hef lent í allskonar ókyrrð eftir námskeiðið og aldrei verið neitt mál.
Innilokunarkenndin fór eiginlega að mestu af sjálfu sér en lofthræðslan var hins vegar stærra og meira mál. Sumarið 2006 fórum við upp í Holmenkollen sem er skíðastökkpallur í Osló til að njóta útsýnisins. Ég fór upp og ég byrjaði að ofanda og fá öran hjartslátt. Mér hafði aldrei liðið svona illa á ævinni. Ég bakkaði niður í einhverjum tryllingi og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Ég hafði oft verið smá lofthrædd, sérstaklega í fjallgöngum en þarna magnaðist hún heldur betur upp. Með árunum vatt hún svo mikið upp á sig að ég hætti að keyra út á land. Ég forðaðist aðstæður sem gætu valdið lofthræðslu eins og fjallgöngur og að fara út á svalir. Þetta gekk ágætlega þar til ég byrjaði að æfa með Landvættum og ég setti mig í allskonar aðstæður þar sem ég þurfti að taka á lofthræðslunni. Að lokum var ég komin á þann stað að annað hvort myndi ég fara í meðferð eða ég myndi detta út úr programminu og gefast upp. Ég valdi meðferðina og sé ekki eftir því.
Ókosturinn við ofhugsun
Í dag er ég mjög þakklát fyrir að hafa náð tökum á lífi mínu því gamla ég væri ekki að höndla þetta ástand í dag. Ég myndi ofhugsa allt saman og væri búin að bræða úr internetinu með því að googla allt sem ég gæti um Krónuvírusinn, smitleiðir, áhættuhópa og efnahagslegar afleiðingar. Ég myndi ekki sofa á nóttunni þrátt fyrir að innst inni vissi ég að 99% af því sem er í gangi er eitthvað sem ég hef enga stjórn á. Ég væri á fullu að hugsa, hvað ef .... hvað ef þetta gerist, hvað ef þessi smitast, hvað ef ég ... Ég var sérfræðingur í Hvað Ef.
Málið er að hlutirnir gerast óháð því hvort að við höfum áhyggjur af því eða ekki. Við erum í óvissutímum. Við vitum ekki hvað er framundan eða hvað ástandið mun vara lengi. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur og vera stressaður en þegar ég hugsa um allar andvökunæturnar sem ég átti útaf hlutum sem ég gat ekki stjórnað þá hefði verið betra að sleppa takinu. Kvíðin yfir einhverju sem kannski myndi gerast. Hversu oft gerðist það síðan ekki?
Gamla ég, hefði brugðist svona við. Guð minn góður ef þetta gerist þá getur þetta gerst. Ef þetta gerist af því að þetta gæti gerst og þá er þetta líkleg niðurstaða og svo yrði ég í einhverju panik mode að reyna að redda einhverju sem gæti mögulega gerst einhvern tímann í framtíðinni. Þetta er algjörlega galið. Rökhugsun og ofhugsun eiga nefninlega litla samleið.
Að læra að sleppa takinu
Róm var ekki byggð á einum degi. Það var meðvituð ákvörðun hjá mér að sleppa takinu. Það var gífurleg vinna, bæði sjálfsvinna og með sérfræðingum. Ég fór til sálfræðinga og það hjálpaði mér gífurlega mikið. Ég áttaði mig á því einn daginn að ég væri búin að missa hæfileikann á því að vera langrækin. Sagði við kærastann, mikið svakalega varð ég pirruð þegar þú gerðir þetta. Svo þurfti ég að stoppa og viðurkenna, ég man ekkert hvað það var. Mig rámaði í að það var eitthvað sem pirraði mig en ég mundi hins vegar ekkert hvað það var eða hvenær eða hvers vegna. Þetta fannst mér algjörlega frábært móment og ég nýt þess að lifa í núinu. Gamla ég var sérfræðingur í fortíðarþráhyggjur og ef það hefði verið keppt í langrækni og ofhugsun á Olympíuleikunum þá hefði ég fengið gull.
Ef það skiptir ekki máli eftir 5 ár ekki eyða meira en 5 mínútum í það
Ef þú hugsar til baka um öll skiptin sem þú ert búin að vera í taugaáfalli yfir einhverju.
Sambandinu sem gekk ekki upp.
Draumastarfinu sem þér var sagt upp.
Háskólanáminu sem þú féllst í.
5 árum seinna skiptir þetta ennþá máli? Ef ekki, hefði þá mátt koma í veg fyrir alla þessa vanlíðan? Þegar þú lendir í þessu þá er gott að muna að ekkert varir að eilífu. Auðvitað er drulluerfitt að vera fastur í hringiðunni og sjá enga leið út úr þessu en tíminn mun líða og fyrr en varir kemstu við upp á yfirborðið aftur.
Mín ráðlegging til allra sem sjá ekki alveg til lands í dag er að leita sér aðstoðar. Stundum er nóg að fara á trúnó með góðum vini. Stundum þarf meiri aðstoð. Hvað sem þú gerir ekki gera ekki neitt. Við erum öll með okkar vandamál og það versta sem við gerum okkur og þeim sem við elskum er að fara þetta á hnefanum. Það er líka gott að muna að það er ekki sjálfselska að setja sig og sína heilsu í fyrsta sæti. Ef þú ert ekki í lagi þá getur þú ekki verið til staðar fyrir aðra.
Ekki harka þetta af þér
Ég hugsa oft hvaða skilaboð við erum að senda krökkunum okkar, og þá sérstaklega litlu strákunum. Harkaðu þetta af þér, þetta er nú bara smá skeina. Þarna erum við að segja þeim hvernig þeir eiga að bregðast við og hvernig þeim á að líða. Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að bregðast við. Kannski var þetta ekki óttinn við skeinuna. Kannski var þetta óttinn við að detta sem þurfti að bregðast við. Það sem háði mér var að mér fannst mín vandamál svo óttalega ómerkileg í stóra samhenginu. Ég þurfti sálfræðing til að segja mér að mínar upplifanir og mínar tilfinningar eru jafnréttháar og annara. Þegar við segjum við einhvern, harkaðu þetta af þér, það eru aðrir sem hafa það verra en þú, þá erum við að segja að þú eigir ekki rétt á því að líða á ákveðinn hátt. Það á enginn að segja þér hvernig þér á líða. Það sem ég hef lært er að setja mig í fyrsta sæti. Ef ég er þreytt þá hvíli ég mig. Ég sleppi æfingu ef ég er illa stemmd.
Það ber enginn ábyrgð á þinni hamingju nema þú sjálf. Ef þú vilt breytingar þá þurfa þær að byrja hjá þér.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2020 | 17:00
Fossavatnið sem var ekki gengið
Fossavatnið sem var ekki gengið
Í gær laugardaginn 18.apríl átti ég að vera á Ísafirði að þreyta 50 km skíðagöngu ásamt hundruðum gönguskíðagarpa. Ég fór í fyrra, náði að klára og var ekki einu sinni síðust. Að vísu var sú ganga bara 42 km vegna snjóleysis en ágætlega krefjandi engu að síður. Ég á ekki langan gönguskíðaferil að baki. Ég steig fyrst á gönguskíði í desember 2018. Það var reyndar á 4ra daga námskeiði á Ísafirði sem ég fór á með Hildu vinkonu. Ég átti engar græjur, hvorki skíði né föt þannig að ég var sannarlega að byrja frá grunni. Fyrirfram hafði ég litlar áhyggjur af gönguskíðunum. Það litla sem ég hafði séð var mjög þægilegt stroll á jafnsléttu. Ég hefði ekki getað haft meira rangt fyrir mér. Þetta er gífurlega krefjandi íþrótt sem reynir á allan líkamann og það er eiginlega ekkert á jafnsléttu, bara miserfiðarar brekkur.
Hérna má lesa allt um hvernig gekk að byrja á gönguskíðum og Fossavatnið 2019
2020 verður besta ár ævi minnar
Mikið svakalega verður 2020 frábært ár. 31.12.2019 vissi ég að framundan væri besta ár ævi minnar. 2019 var svona æfingaár. Ég var að fínstilla allskonar hluti. Koma mér í besta form lífsins og svo fann ég mér kærasta. Ég setti mér metnaðarfull markmið. Klára Landvættinn, hlaupa Laugaveginn, hlaupa mitt fyrsta maraþon og keppa í mínum fyrsta hálfan járnkarl. Ég skráði mig líka í æfingaferð með Breiðablik til Heilbronn í Þýskalandi þar sem ég ætlaði að keppa í Ólympískri þríþraut. Hún var hugsuð til að læra að keppa og njóta. Ég var tilbúin líkamlega og andlega. Ég þurfti aðeins að ná tökum á hjólinu, losna við brekkuóttann og lofthræðsluna og þá væri þetta komið. Ég er svo heppin að kærastinn á rafmagnshjól og planið var að fara upp og niður brekkur þar til mér liði vel. Ég setti líka fókusinn á gönguskíðin. Þau yrðu sett í algeran forgang enda planið að toppa mig í Fossavatnsgöngunni. Þegar ég segi toppa mig þá er ég að miða við að ganga á sama tíma og Hilda vinkona gekk á í fyrra. Við Brynjar bókuðum okkur á gönguskíðanámskeið á Ísafirði og það vildi svo heppilega til að það yrði helgina á undan Strandamótinu. Það sem ég hlakkaði til að fara á Strandamótið. Ég missti því miður af því í fyrra. Það var ömurleg veðurspá og dóttir mín átti 10 ára afmæli daginn eftir mótið. Mér fannst ekki líklegt að ég fengi verðlaun sem móðir ársins ef ég færi á mótið og myndi svo vera veðurteppt á Ströndum og missa af afmælinu.
Ég prófaði rafmagnshjólið í desember og fannst það algjörlega frábært og hlakkaði gífurlega til að ná tökum á því í vetur.
Hvernig massar kona Fossavatnið?
Ég ákvað að setja upp metnaðarfullt æfingaplan fyrir Fossavatnið. Vera dugleg að fara á gönguskíði um helgar og eftir vinnu. Fara á Hermannsmótið á Akureyri í janúar. Æfingabúðir á Ísafirði í lok febrúar og svo þráðbeit á Strandamótið helgina á eftir. Vera svo á Dalvík alla páskana og ganga eins mikið og ég gæti. Það er gífurlega mikið af flottum gönguleiðum á Dalvík, inn í Svarfaðardal. Sv er hægt að fara í Hlíðarfjall, Kjarnaskóg, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Fossavatnið var stuttu eftir páskana og jú Bláfjallagangan var þarna einhvers staðar líka. Ég og Bláfjallagangan eigum góðar minningar. Þetta var fyrsta gönguskíðamótið mitt og ég kom ekki síðust í mark.
Þegar kærastinn byrjar betur en þú
Svo kom 2020. Það byrjaði ágætlega en svo lagðist ég í flensu. Þetta var einhver ómerkileg flensa en nóg til að ég hreyfði mig lítið eina viku. Það kom smá snjór í Bláfjöll og ég skellti mér á gönguskíði um miðjan janúar og fann gönguskíðagleðina. Í lok janúar fórum við Brynjar í Fjallakofann og græjuðum hann fyrir gönguskíðin. Mér fannst það reyndar pínu glatað. Allt í einu skildi ég Hildu vinkonu sem fylltist öfund þegar ég byrjaði að græja mig fyrir hreyfingu. Öll fötin mín voru ný og í stíl. Hennar voru meira svona samtíningur síðustu 10 ára. Munurinn á mér og Hildu var einmitt að hún var búin að stunda hreyfingu svona 20 árum lengur en ég og átti því allt til alls. Við Brynjar fengum okkur einkatíma hjá Sævari Birgissyni. Þá kom næsta svekkelsi. Það var ekki nóg að kærastinn væri betur dressaður og leit því betur út á skíðum, heldur náði hann miklu betri tökum á gönguskíðunum á fyrstu æfingu heldur en ég á minni fyrstu æfingu. Hvers vegna var það? Hann fékk einkakennslu í fyrsta tímanum sínum og svo þetta smáatriði. Hann er ekki hræddur við brekkur. Það er pínu hraðamunur á aðila sem þorir að bruna niður brekkur og aðila sem fer í 90 gráðu plóg. Sævar kenndi okkur nokkrar tækniæfingar sem við ákváðum að gera fyrir hverja göngu. Eitthvað sem ég lærði í fyrra en fannst eitthvað svo mikil tímasóun. Það hafði mögulega einhver áhrif á gönguskíðahæfni mína. Ekki ósvipað og skortur á mætingu á sundæfingum.
Þegar kærastinn er betur dressaður en þú
Ég sá að það gengi ekki að Brynjar væri betur til fara en ég á gönguskíðanámskeiðinu á Ísafirði. Ég meina, þetta eru 4 dagar. Það verður tekið fullt af myndum og einhver staðar verður miðaldra konan að draga mörkin. Hann er líka 3 mánuðum yngri en ég og það er stöðug vinna fyrir konur á sextugsaldri að hafa sig til fyrir yngri menn. Ég renndi því í Fjallakofann og ræddi við Sævar. Hann er útivistarráðgjafinn minn og slær ekki feilnótu, annað en ég. Ég sé stundum á Sævari að hann er ekki alveg viss um hvert ég er sé að fara með fataval.
Sævar sýndi mér jakka. Þetta er nákvæmlega eins og jakkinn sem Brynjar keypti sagði ég. Við erum kannski miðaldra en þarna verð ég að draga mörkin. Við getum alveg eins fengið okkur Don Kano galla sko. Jakkinn sem ég vildi var ekki til í minni stærð. Lúxus vandamál þegar kona grennist. Eftir smá skoðun fundum við frábæran jakka sem smellpassaði. Hann var að vísu líkur Brynjars en þó ekki alveg eins. Síðan fundum við buxur, vettlinga, húfu og buff í stíl. Það er lykilatriði þegar miðaldra kona er ekki orðin nógu góð á gönguskíðum að líta amk vel út (fake it till you make it). Ég var klár á Ísafjörð. Veðrið var ekki alveg að leika við okkur á þessum tíma, komumst ekkert á rafmagnshjólið og bara einu sinni á gönguskíðin. Það var samt allt í lagi, Ísafjörður var eftir nokkra daga og ég hlakkaði gífurlega til. Svo kom skellurinn
Ófært til Ísafjarðar
Við áttum bókað flug til Ísafjarðar á fimmtudagsmorgni þar sem námskeiðið byrjaði seinni partinn. Fyrsta smsið frá Flugfélaginu um seinkun kom snemma morguns og svo var þetta eins og eldheitt ástarsamband þar sem sms flugu á milli. Við endurbókuðum okkur í flug á föstudeginum eingöngu til að endurtaka fimmtudaginn. Þá ákváðum við að hætta við námskeiðið og njóta þess að ganga í Bláfjöllum í staðinn. Við náðum 3 hringjum á laugardeginum og tæpum 20 km. Daginn eftir var ófært í Bláfjöll en líka ófært frá Ísafirði. Þannig að ég ákvað að breyta gönguskíðadeginum í hjólaæfingu á síðustu stundu. Ég lagði af stað á æfinguna með góðum fyrirvara. Þegar ég var lögð af stað áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt headsettinu og snéri við að sækja það. Tek alltaf hlaupabretti á eftir hjólaæfingunni og mér finnst mun þægilegra að hlaupa með tónlist. Það þýddi að ég mætti of seint. Dreif mig í að fylla á vatnsbrúsana. Sunnudagsæfingar eru 2ja tíma og ég tek alltaf með mér 2 brúsa. Þarna fattaði ég að ég hafði gleymt öðrum heima upp á bekk. Handklæðið sem ég tók ekki með var líklega þar líka. Ég missti því af upphitun þannig að þetta varð ansi erfiður tími. Kláraði samt tímann og skellti mér á hlaupabretti, fann hvergi headsettið. Leit í kringum mig, það eru allir með tónlist í eyrunum þannig að ég spilaði beint úr símanum. Hlaupið gekk ekki vel, ég fékk nuddsár og íhugaði að fara að væla og hætta að hlaupa. Þá rifjaði ég upp viðtalið við Arnar Pétursson sem hljóp heilt maraþon með steinvölu í skónum. Ákvað að hætta að væla og klára hlaupið, þetta voru hvort sem er ekki nema 30 mínútur. Gaman að því að því að við Arnar vorum einu sinni að hlaupa sömu helgi og við hlupum næstum því á nákvæmlega sama tímanum. Að vísu hljóp hann 21 km á meðan ég hljóp 10 km en samt, sami tími hjá okkur. Það fyrsta sem ég sá svo þegar ég kom í bílinn eftir æfingu var blessað headsettið.
Hvað á að gera við ónotuð gönguskíðaföt?
Þrátt fyrir að ég gæti ekki notað nýju gönguskíðafötin mín nema tvisvar á gönguskíðum þennan veturinn kom það ekki að sök því þau reyndust vera frábær vetrarhlaupaföt, gönguföt og útihjólaföt. Ég elska þegar það er hægt að nota sömu fötin fyrir fleiri en eina íþróttagrein. Eini gallinn við að æfa svona mikið af íþróttum er að ég er ALLTAF að þvo.
Að tapa á sundmóti eina ferðina enn
Þegar ég var ekki á Ísafirði var Breiðablik með Garpamót í sundi. Ég hefði betur skráð mig til leiks. Í sumum greinum eins og flugsundi var bara ein kona skráð í ákveðnum lengdum. Ég hefði því nelgt inn 2. sætið, nema ef það hefðu verið tímamörk eða gerð krafa um ákveðna tækni eða getu, eða kunnáttu eða ...þá hefði ég líklega verið rekin upp úr. Annars er ég búin að finna íþróttina sem ég á eftir að massa. Skotgöngukeppni. Þetta virkar ansi einfalt. Eina sem þarf að gera er að ganga á gönguskíðum og skjóta úr byssu. Það virkar ekkert flókið. Ég þarf bara að læra að skjóta úr byssu, hef núna 12 mánuði til þess.
Hvernig gekk svo að massa undirbúninginn?
Ég fór ekki á Hermannsmótið. Ég var illa æfð, hálflasin og það var ömurlegt veður. Ég missti af æfingabúðunum á Ísafirði og ég og Hilda vorum ekki peppaðar fyrir Strandamótin. Við tókum kalt stöðumat á ástandið. Veistu,ég er hálflasin, já ég líka. Ég held að það væri betra að fara ekki, já sammála. Okkur gekk svona líka glimrandi vel að tala okkur ofan af því að mæta. Yfirleitt hefur önnur okkar verið í gírnum og dregið hina með. Þarna var hvorug okkar í gírnum og ég lá í flensu alla helgina þannig að ég var fegin að hafa ekki farið.
Þegar gulrótin hverfur
Þegar Covid-19 byrjaði að herja af fullum krafti sá ég fljótt í hvað stefndi. Mér leist persónulega ekki á blikuna og langaði minna en ekkert að fara til útlanda og verða kannski innilokuð á hótelherbergi í sóttkví eða verða fárveik einhver staðar. Eftir að ég datt út úr Landvættinum í fyrra þegar ég lenti í gifsi viku fyrir Bláalónið vissi ég hversu erfitt það er að fá ekki að keppa eftir að hafa æft gífurlega vel. Ég tók Pollýönnu á það dæmi en ég var ekki tilbúin að gera það aftur. Ég var einfaldlega ekki tilbúin að æfa og æfa fyrir keppnir sem ég vissi innst inni að ég væri ekki að fara í. Ég ákvað því að slá allt út af borðinu. Ég var búin að ákveða að sleppa Fossavatninu áður en þeir hættu við. Ég var líka búin að ákveða að sleppa Ólympísku þríþrautinni í Þýskalandi í júní (það er líka búið að hætta við hana). Mig langar minna en ekkert í hálfan járnkarl til Norður Ítalíu í september. Það verður að játast að það er pínu erfitt að halda dampi þegar allar gulræturnar eru farnar. Að æfa bara til að æfa. Ég verð að hrósa Bændaferðum hérna. Þeir sáu um ferðina til Heilbron. Þegar ég ákvað að afbóka mig ráðlögðu þau mér að bíða og sjá hvort að það yrði farið í ferðina. Þegar ferðinni var aflýst höfðu þau samband að fyrra bragði til að láta mig vita að ég fengi allt endurgreitt, líka staðfestingargjaldið. Ekkert vesen og frábær þjónusta.
2020 breyttist því í árið sem ég ætla að bæta formið og fínstilla mig fyrir 2021. Í fyrsta skipti á ævinni er ég ekki með nein plön nema halda mér í formi. Það verður samt að viðurkennast að þegar gulrótin er farin er erfiðara að halda sér að verki. Það er auðvelt að hugsa, það skiptir ekki öllu máli þó að ég sleppi þessari æfingu, ég er ekki að fara að keppa á næstunni. Þess vegna þakka ég fyrir fólkið mitt í Þríþrautadeild Kópavogs sem er svo duglegt að hreyfa sig og deila því á meðal hópsins. Í gærmorgun var 90 mínútna hlaup á plani. Ég var ekki alveg að nenna, það var suddi og kalt. Svo sá ég á Instagram að Birna Íris, Kristín Vala og Hrafnhildur voru búnar að hlaupa. Það var því ekkert annað í stöðunni en að fara út. Náði svo einu mínu besta hlaupi frá upphafi og 3ja besta 10 km.
Mitt markmið 2020 er að bæta mig smátt og smátt. Það hentar mér betur en að taka stökkbreytingar. Ef ég næ að hlaupa 10 km á 60.28 mínútum núna þá er markmiðið næst að 3ja besta 10 km hlaupið mitt verði 59.59 og svo framvegis. Tek eina umferð af styrktaræfingum eftir æfingar í þessari viku og tvisvar næst.
Viktor sonur minn er meðetta. Ég sagði við hann um daginn. Viktor lastu þetta með 50 manna æfinguna sem reyndist svo bara misskilingur. Hann leit á mig og sagði, mamma mér er alveg sama. Þetta er akkúrat málið. Hvers vegna erum við að velta okkur upp úr einhverju sem er ekki einu sinni rétt? Hvers vegna erum við að eyða orku í að spá í eitthvað sem við höfum ekki stjórn á og getum ekki breytt? Hann er einn af mínum bestu leiðbeinendum. Ég er á góðri leið með að tileinka mér hans lífspeki.
Ekki velta þér upp úr hlutum sem þú getur hvorki stjórnað né breytt.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2020 | 09:57
Óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum
Margir virðast lenda í því að vera með óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum sínum og það virðist engin leið til að losna við það. Ég heyri reglulega, jesús minn Ásdís, þessi facebook live sem þú ert að gera eru svo leiðinleg. Þú ert nú eitthvað alvarlega athyglissjúk. Mikið svakalega eru þessi eignamyndbönd sem þú ert að gera ömurleg.
Þetta fólk virðist lenda í því að allskonar óumbeðið efni birtist á samfélagsmiðlunum þeirra og það er engin leið til að stoppa þetta áreiti. Löng og leiðinleg video fara sjálfkrafa í gang og fólk er tilneytt til að horfa á þau til enda. Það er engin leið til að stöðva þetta.
Það getur auðvitað tekið á taugarnar fyrir marga að lenda í þessu. Ég skil það fullkomnlega. Hver vill hafa uppáþrengjandi, athyglissjúkar og óþolandi manneskjur á tímalínunni sinni? Manneskjur sem eru eins tölvuvírus sem engin leið er að losna við.
Ég ákvað því að taka saman nokkur góð ráð til að koma í veg fyrir svona vandamál. Leið 1 er skotheld en ef þetta gerist óvart og þú veist ekkert hvernig á að leysa þetta þá eru nokkrar leiðir til að lágmarka skaðann.
- Ekki senda fólki sem þú þolir ekki vinabeiðni.
- Velja unfollow: Þá eruð þið ennþá vinir og viðkomandi fattar ekki að það sé verið að hunsa hann. Með því að gera unfollow sérðu enga pósta frá viðkomandi nema þú veljir að sjá þá aftur.
- Velja Snooze for 30 days: :Þá færðu pásu frá viðkomandi í 30 daga. Ef þú færð bakþanka þá getur þú alltaf valið Unsnooze
- Blokka (block): Það er frekar afgerandi aðgerð en þá lendir þú ekki í þessu áreiti. Þessi aðgerð er samt ekki alveg skotheld því stundum bognar þú og bugast og hleypir viðkomandi aftur á samfélagsmiðlana þína.
- Biðja viðkomandi að blokka þig. Þá lendir þú ekki í þessari stöðu að verða fyrir þessu stöðuga áreiti. Þessi aðgerð er lang áhrifaríkust þannig að ef þú klikkar á leið 1 þá er 5 alveg skotheld.
Ég útskrifaðist sem kerfisfræðingur um síðustu öld og síðan þá hefur ansi margt breyst. Ég þekki einfaldlega ekki þessa nútíma tækni nógu vel. Ég skil til dæmis ekki hvernig fólk getur lent í því að þurfa að spila ömurleg video ítrekað. Mínir samfélagsmiðlar virka þannig að ég horfi eingöngu á það sem ég vel að horfa á. Kannski er þetta eitthvað sniðugt stillingaratriði sem ég slysaðist til að velja.
Þess vegna hef ég alltaf lúmskt gaman að því þegar fólk er að hafa fyrir því að láta aðra vita hvað þeir séu ömurlegir og uppáþrengjandi á samfélagsmiðlum. Þetta sé alveg hrikalega leiðinlegt og truflandi fyrir þau. Er þetta tegund af masókisma? Þú horfir á eitthvað sem þú hatar og lætur það fara í taugarnar á þér en þú stoppar það ekki. Þarna verð ég að viðurkenna að sérfræðiþekking mín nær ekki nógu langt. Kannski þarf að leita til þartilbærra sérfræðinga til að greina vandann.
Getur þú ekki verið aðeins öðru vísi en þú ert ?
Ég passa ekkert alltaf inn í kassann og ansi oft hef ég fengið að heyra að ég sé OF eitthvað. Ég er of hávær. Ég hef of miklar skoðanir. Það væri betra ef ég væri eitthvað öðruvísi. Það er yfirleitt ekki búið að skilgreina hvernig ég ætti frekar að vera en það væri pottþétt betra ef ég væri öðruvísi en ég er.
Hér að neðan má sjá sýnishorn af athugasemdum í gegnum tíðina
Þegar ég átti ekki börn:
Eruð þið virkilega að fara að gifta ykkur, þið eigið engin börn!
Þegar ég varð ólétt:
Hvað ertu eiginlega komin langt á leið? þú ert svakalega stór !
Frænka mín sem er komin miklu lengra en þú er miklu nettari en þú !
Ætlaru í alvöru að borða þessa karamellu, ertu ekki með nógu stóra bumbu ?
Þegar ég átti börn:
Þegar fyrsta barnið var fætt, á ekki að fara að koma með annað !
Hvað ætlið þið eiginlega að hafa langt á milli ?
Það er miklu betra að hafa 2 ár á milli.
Það er miklu betra að hafa 4 ár á milli.
Hvenær á eiginlega að koma með næsta ?
Þegar ég var orðin of gömul:
Ertu virkilega ólétt ?
Var þetta slysabarn ?
Veistu ekki örugglega hver á það ? (jú eiginmaður minn sem ég á 2 önnur börn með)
Ertu ekki full gömul til að vera að koma með eitt núna ?
Til hvers ertu að eiga fleiri börn?
- þú hefur nú engan tíma til að sinna þessum sem þú átt nú þegar
- þú ert aldrei heima hjá þér
- þú ert alltaf í vinnunni
þegar ég var 40 ára, gift sama manni og ég átti strákana með.
Þegar ég var gift:
Mikið svakalega vorkenni ég manninum þínum, það hlýtur að vera svakalega erfitt að vera giftur þér
Þú ert rosaleg gribba
Þú ert svo ákveðin
Þú ert svo stjórnsöm
Mikið ertu vel gift
Þegar ég skildi:
Það er svo gott að vera einhleyp í smá tíma og finna sig
Hvað ætlar þú eiginlega að vera einhleyp lengi ?
Hvers vegna getur þú ekki fundið þér kærasta ?
Hvers vegna gengur þú ekki út ?
Er eitthvað að þér?
Þú verður að lækka standardinn annars gengur þú aldrei út !
Þú ert alltof kröfuhörð
Þú getur ekki ....
Þegar ég var of feit:
Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig, þú ert svo klár og dugleg
Hvað ertu komin langt á leið ?
Hvenær áttu að eiga ?
Þú getur ekki mátað þessi stígvél, þau eru ekki til í nógu stórri stærð
Nei þú mátt ekki máta þessi föt
Við eigum ekkert í þinni stærð
Það er ekki sjens að þessi kjóll hafi verið gallaður, þú ert svakalega stór, þú hefur sprengt alla saumana
Hvers vegna ferðu ekki í jóga, í zumba, í einkaþjálfun, út að hlaupa
HVERS VEGNA GERIR ÞÚ EKKI EITTHVAÐ ?
Þegar ég grenntist:
Fáðu þér nú eina kökusneið, það drepur þig ekki
Þú verður að fá þér smá súkkulaði, það er svo gott fyrir sálina
Það drepur þig ekki að leyfa þér smá
Mikið svakalega lifir þú leiðinlegu lífi
Þegar ég byrjaði að æfa:
Er þetta ekki komið nóg ?
Ætlaðu að hverfa ?
Hvenær ætlar þú að slaka á ?
Þú verður að passa að ofæfa ekki !
Þú verður að passa að ofgera þér ekki !
Ég þekkti mann sem æfði svakalega mikið, svo fór hann út að hjóla og dó (3 sem sögðu mér þessa sögu í sömu vikunni)
Þú vaknar of snemma !
Þú ferð of seint að sofa !
Þú sefur of lítið !
Þú ert of manísk, of geðveik, þú ert of mikið !
Þegar ég æfi rangar íþróttir:
Afhverju ertu á gönguskíðum? alpaskíði eru miklu skemmtilegri
Hvers vegna ferðu ekki í zumba? frábær hreyfing
Afhverju ferðu ekki í salsa?
Afhverju getur þú ekki gert eitthvað annað en þú ert að gera?
Þegar ég vel að drekka ekki:
Fáðu þér nú eitt glas
Þú veist ekki afhverju þú ert að missa
Þú verður að prófa
Þú hefur ekki lifað nema fá þér rauðvín með nautasteikinni
Sitja á sólarströnd og sötra hvítvín
Þig skortir alla upplifun
Hvers vegna drekkur þú ekki, áttu við eitthvað vandamál að stríða?
Ertu alkólisti?
Er áfengi vandamál í þínu lífi?
Æi, kommon, ekki vera svona leiðinleg
Hvert á að troða óumbeðnum athugasemdum?
Á mínum grunnskólaárum á Dalvík fór ég oft á skíði og fannst mjög gaman. Einn daginn var ég að spjalla við vin minn og hann segir. Það er alveg ótrúlegt að sjá þig á skíðum. Ég hélt í fávisku minni að ég væri svona góð. Svo bætti hann við, þú ert eins og belja á svelli, það er ekkert smá fyndið að sjá þig skíða og svo flissaði hann ógurlega að eigin fyndni. Ég gerði það sem flestar 14 ára stelpur með ekkert sjálfstraust gera. Ég hætti að fara á skíði. Ég var komin á þrítugsaldur þegar ég steig næst á skíði og lengi vel glumdi þetta í hausnum á mér. Þú ert eins og belja á svelli. Við erum flest með svona fólk í kringum okkur. Fólkið sem vill svo vel. Fólkið sem bendir óumbeðið á gallana okkar og vekur jafnvel athygli á göllum sem við vissum ekki að við hefðum. Góða fólkið. Samt er góða fólkið ekki verst. Yfirleitt erum það við sjálf sem erum verst við okkur. Við erum okkar verstu gagnrýnendur og segjum hluti við okkur sem við myndum aldrei segja við vini okkar og myndum aldrei umbera að vinir okkar segðu við okkur.
Veistu, þú ert svakalega feit í þessum galla. Ég myndi ekki fara í ræktina í þessum fötum. Það eiga allir eftir að horfa á rassinn á þér í þessum galla, hann er útum allt. Það er best að ná af sér nokkrum kílóum og mæta svo. Hvað um það þó að einhver hugsi þetta eða jafnvel segi það ? Þetta er ekki þeirra líf, þetta er þitt líf. Með því að selja sjálfri sér að gera ekki eitthvað þá eru að snuða framtíðarþig um betri lífsgæði.
Að burðast með skoðanir annara er íþyngjandi fyrir sálartetrið. Það er ólýsanlegt frelsi að losa sig undan þessu. Þetta er ekkert ósvipað og ætla að ganga upp Esjuna og vera búin að fylla bakpokann af steinum. Um leið og þú ferð að losa þig við steina fortíðarinnar verður allt svo miklu léttara. Ekki gera skoðanir annara að þínum. Þú átt bara eitt líf og þú átt að lifa því á þinn hátt, ekki eins og eitthvað annað fólk vill.
Það tók mig tæp 50 ár að átta mig á því að ég væri ekki vandamálið. Ef einhverjum líkar ekki við þig þá skiptir það engu máli. Þú heldur bara þínu striki og hinn aðilinn getur valið að láta þig fara í taugarnar á sér.
Dagurinn sem ég áttaði mig á því að skoðanir annara skilgreina ekki hver ég er, var dagurinn sem ég öðlaðist fullkomið frelsi. Skoðanir annara hafa ekki áhrif á mig lengur, enda hafa þær alltaf verið óumbeðnar. Fólk má hafa allar þær skoðanir sem það vill á mér og öðrum. Ég vel bara að láta þær ekki hafa áhrif á mig. Þetta er mitt líf og ég kýs að lifa því á minn hátt. Því meira sem ég breyttist því fleiri athugasemdir fékk ég. Gallinn við að gera breytingar þá sýnir þú öðrum að þetta sé hægt og það eru ekkert allir tilbúnir að viðurkenna að vandamálið liggur hjá þeim. Lausnin er því oft fólgin í því að gagnrýna og rífa niður árangur annara í staðinn fyrir að horfast í augu við að þú getur líka náð árangri ef þú vilt.
Góða fólkið má hunsa, það er röddin í hausnum þínum sem er vandamálið. Þú býrð með henni og það er erfiðara að hunsa hana. Hún getur verið mjög sannfærandi. Aðrir geta verið fífl. Það er erfiðara að segja, hættu þessi rugli, ég er fífl
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2019 | 12:58
Safnið af mínum bloggum
Hérna er listi yfir öll blogg og umfjallanir sem hafa komið eftir að ég breytti um lífstíl
Viðtal á Bylgjunni: 24.05.2017 - https://www.visir.is/k/0fad84ba-f970-4c33-b929-10e63cda9d6c-1556095737611?fbclid=IwAR2nm3KjibbyEvICXVaSf5opc4yfMdqBAswdxTvXvKOCDZTAbL7ODpqfpSc
Viðtal á Rás2: 24.07.19 - https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunutvarpid/23822?ep=7grqok&fbclid=IwAR3TYlX0MbgcVGgb8VCxiFS77zlZLM86xkB4hGg6dnp3EE_FOTjP2eJG7Ws
https://www.mbl.is/smartland/heilsa/2019/04/15/nennti_ekki_lengur_ad_vera_feit_og_pirrud/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/05/01/lofthraedda_fjallageitin/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/05/11/hjolaraunir_midaldra_konu/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/05/20/midaldra_kona_leggur_undir_sig_halendid/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/04/22/gonguskidaaevintyri_midaldra_konu/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/05/06/midaldra_kona_rustar_fossavatnsgongunni/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/05/28/midaldra_kona_kynnist_fjallahjolinu/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/06/09/midaldra_konan_sett_i_keppnisbann/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/06/28/geta_midaldra_konur_laert_ad_hlaupa/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/07/12/midaldra_konan_kolfellur_fyrir_rvaldi/
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2019/07/23/fimmvorduhalsinn_er_thad_nokkud_fyrir_midaldra_konu/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)