Er hægt að tækla breytingaskeiðið?

_T2A3380 copyÉg var á báðum áttum hvort að ég ætti að skella í þennan pistil. Kannski bíða í nokkra daga á meðan mesta hormónasveiflan og úrillan var að ganga yfir en svo hugsaði ég FOKKIT. Hann fangar líklega aldrei betur augnablikið og líðanina en akkúrat núna. Ég viðurkenni að ég ritskoðaði hann samt alveg hressilega. Ef ég hefði ekki gert þá þá hefði hann líklega samanstaðið af “#$”#%”#$&#”$&”$%#&”#$&$”#&#” og FOKKIT, HELVÍTIS og fleira í þessum dúr. Þannig að ég vil vara þig við. Þessi er ansi beinskeyttur og ekki fyrir viðkvæm blóm að lesa.

Ég skipti um lífstíl í ágúst 2017 og og lífsstílsbreytingin gekk eins og í sögu fyrir utan hressilegt kvíðakast og bugun í janúar 2018. Ég var stöðugt að bæta mig og formið og almenn líðan var á bullandi uppleið.

Ég hafði skráð mig í FÍ Landvætti 2018 en náði ekki að klára þar sem ég datt á hjóli og lenti í gifsi viku fyrir Bláalónshjólakeppnina. Ég hélt þó mínu striki og haustið 2020 skráði ég mig aftur í FÍ Landvætti. Ég var að æfa hjól, sund, hlaup og gönguskíði og skellti mér einstaka sinnum í fjallgöngu. Lífið var dásamlegt og ég var stútfull af orku og almennri lífsgleði. Ég naut þess að taka þátt í mótum þar sem ég var alltaf að bæta mig. Ég var eingöngu að keppa við sjálfa mig og þegar hér var komið við sögu þá gat ég farið að setja mér raunhæf markmið um hvaða árangur ég vildi ná á mótum þar sem ég átti mótasögu og gat því gert áætlun um persónulegar bætingar.

Fyrsti skellurinn

Eftir síðustu áramót var ég þó aðeins farin að finna fyrir þreytu og lífsgleðin tók sér stundum frí. Stundum fór einhvern allt í taugarnar á mér og það varð ótrúlega mikið af ÖSNUM í kringum mig. Ég skráði mig í Strandamótið sem er 20 km skíðagöngukeppni. Ég var ansi peppuð fyrir hana. Ég hafði klárað Fossavatnsgönguna 2019 sem voru 42 km og það gekk svona glimrandi vel. Fyrsta skíðagöngukeppnin mín hafði verið stuttu árið. Það var Bláfjallagangan sem hafði líka verið 20 km og ég vissi að ég myndi ALDREI ná verri tíma en í henni þar sem ég hafði svo litla reynslu þegar ég tók þátt í henni. ALDREI_SEGJA_ALDREI.

Strandagangan gekk einfaldlega ekkert alltaf of vel. Ég var þreytt og þung á mér. Mér fannst ég orkulaus og stundum fannst mér ég ekki komast áfram. Margir tóku fram úr mér en ég tók ekki fram úr neinum. Þetta var eiginlega alveg glatað og til að toppa þetta allt saman þá var ég á verri tíma en í Bláfjallagöngunni. Þetta var í fyrsta skipti síðan ég breytti um lífstíl að ég náði ekki að bæta mig persónulega. Vinkonur mínur reyndu að peppa mig: “Ásdís, þetta getur verið dagsformið” “Halló, ég var á verri tíma en þegar ég tók þátt í Bláfjallagöngunni fyrir 2 árum og þá hafði ég stigið nokkrum sinnum á gönguskíði, kunni hvorki að fara upp né niður brekkur og var svo mikið klædd að ég ældi næstum því í keppninni með hitaóráði.” “Það hægist á fólki með aldrinum”, bættu þær við. Þarna voru þær heppnar að ég var óvopnuð... Það var alveg sama hvaða rök þær komu með. Ég vissi innst inni að þetta var ekki eðlilegt. Ég hafði bara ekki hugmynd um hvað gat verið að.

Skugginn af sjálfri sér

Eftir Strandamótið versnaði ástandið. Ég var orkulaus, uppstökk og datt reglulega niður í óskilgreinda depurð. Ég hafði ekki alltaf orku til að fara á æfingar og stundum þegar ég fór fannst mér allir á æfingunni ömurlegir. Mér er sérstaklega minnisstætt að hafa þurft að labba upp brekku á hjólaæfingu og sjá á eftir öllum upp brekkuna. Ég fór að grenja því mér fannst ég svo ömurlega léleg og æfingafélaganir hundleiðinlegir að stinga mig svona af. Ég var orðin skugginn af sjálfri mér. Ég var skíthrædd um að síðustu ár hefðu verið frávik. Þetta hefðu verið 3 ár sem ég fékk að prófa að vera í toppformi og svo væri það búið. Núna tæki við tímabil orkuleysis, pirrings og almennra leiðinda. Ég var svo ekki tilbúin að fara þangað en ég vissi bara ekkert hvað ég átti að gera eða hvernig ég átti að tækla þetta. Eina sem virkilega virkaði vel á þessu tímabili var þvagblaðran. Hún fór á yfirsnúning og ákvað að virkilega fara í full swing. Ég náði nú reyndar að googla þetta og greindi hana sem ofvirka þvagblöðru. Algjör snilld get ég sagt ykkur. Fátt betra en að pissa 15 sinnum á dag og vakna einu sinni til tvisvar á nóttunni til að skvetta úr skinnsokkunum. Við vorum reyndar svo heppnar þvagblaðran og ég að komast í sjúkraþjálfun og núna sofum við á okkar græna eyra alla nóttina.

Pottþétt ofþjálfun

Almannarómur var með þetta á hreinu. Þetta er líklega OFÞJÁLFUN var samdóma álit Almannarómsins, já pottþétt OFÞJÁLFUN. Ég var ekki alveg að kaupa þessa skýringu þar sem ég hafði einmitt verið í óstuði í nokkurn tíma og æft óvenju lítið. Allir sem voru sammála um að ég þjáðist af OFÞJÁLFUN áttu eitt sameiginlegt. Enginn þeirra var sérfræðingur. Enginn þeirra var þjálfari og enginn þeirra hafði skoðað Stravað mitt til að sjá hvað ég var í raun og veru að æfa mikið. Fossavatnsgangan var framundan og það var ekki laust við að ég væri að verða pínu stressuð fyrir hana þar sem ég treysti orkunni minni ekki alveg. Hvað ef ég myndi hreinlega klára orkuna mína á leiðinni og ekki drífa upp einhverja brekkuna? Fossavatnsgangan er hvorki meira né minna en 50 km skíðaganga.

Fossavatnsganga dauðans

Hún byrjaði frábærlega. Það var gott veður og við höfðum náð góðu númeri þannig að við byrjuðum snemma. Vegna Covid var ræst út eftir skráningaröð. Ég vissi að ég yrði að byrja snemma til að ég myndi ekki koma í mark eftir að búið væri að taka niður marklínuna og loka fjallinu. Ég var vel stemmd í upphafi. Svo fór gleðin að minnka. Það hjálpaði sannarlega ekki til að þetta varð ein erfiðasta ganga í manna minnum. Þegar verst var sást ekki í næsta mann fyrir snjóstormi og í mesta hliðarvindinum var ég skíthrædd um að ég myndi fjúka ofan af fjallinu. Gangan varð alltaf erfiðari og erfiðari og ég man þegar ég sá skiltið 29 km þá hugsaði ég það eru Hel... hálfmaraþon eftir. Það hvarflaði samt aldrei að mér að klára ekki. Ég vissi að ég gæti þetta þó að ég yrði ROSALEGA lengi. Ég er með mjög gott grunnþol þó að orkulega séð hafi ég verið ónýt. Ég var farin að fá mér orku á 2ja km fresti og það elskurnar mínar tefur heilan helling. Síðustu 7 km er brun í mark. Flestir nýta sér það til að ná upp meðalhraðanum. Þreyttar orkulausar brunhræddar miðaldra konur fara þetta í plóg. Niðurstaðan var að ég var ekki nema 8:04:57:8 að klára þetta. Jú þú last þetta rétt, áttaklukkutímarfjórarmínúturfimmtíuogsjösekúndurogáttasekúndubrot. Ég kom í mark nr 216 og það voru ekki nema 10 keppendur fyrir neðan mig. Ég kláraði Fossavatnið en algjörlega gleðilaust og þegar ég kom í mark langaði mig að kveikja í öllu draslinu. Það vottaði ekki fyrir stolti að hafa klárað þessa erfiðu göngu og blessuð medalían er ennþá í plastinu. Þegar ég kom í mark þá vissi ég að það væri eitthvað hressilegt líkamlegt ójafnvægi í gangi og pantaði mér tíma hjá  heimilislækninum. Ég fór í nokkrar blóðprufur og þetta var fljótgreint...

Velkomin á breytingaskeiðið

“Mæling á kvenhormónum sýnir að það er skortur á þeim og þú virðist vera komin í tíðahvörf. Nú já, ég ætla að fá nokkur kvenhormón takk og redda þessu. Þá kom stóri skellurinn. “Ég myndi ráðleggja þér frá því að taka inn kvenhormón meðan blóðfiturnar eru svona háar því slík meðferð eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.”
 
Þetta var hriklega skellur. Ég tók 2 vikur í sjálfsvorkun og velti mér upp úr því hvað lífið er ógeðslega ósanngjarnt. Ég er búin að taka lífstílinn í gegn. Ég er búin að vera hriklega dugleg bæði í mataræði og hreyfingu og svo er þetta niðurstaðan. Alveg sama hvað ég geri. Þetta HELV kolesteról er alltaf til vandræða.
Svo tók ég eitt skref til baka. Ég rifjaði upp þegar ég tók 4ja mánaða Clean mataræði hjá Greenfit og svindlaði EKKERT. Ég var í fullkomnu jafnvægi bæði andlega og líkamlega. Ég svaf eins og engill og kolesterólið lækkaði úr 8.2 í 6.7 á 4 mánuðum. Þetta var því auðleyst. Ég þarf einfaldlega að lifa svona út ævina. Þann 13.maí 2021 ákvað ég því að hætta að borða sykur. Hann gerir ekkert fyrir mig og er í raun lífshættulegur.

Okkar á milli þá var það ekki alveg raunhæft markmið. Sykur er einfaldlega út um allt og mig langar stundum að vera með hinum og fá mér tertusneið í brúðkaupi eða fara með dóttur minni á kaffihús án þess að fá samviskubit dauðans. Eftir nokkra mánaða tilraunastarfssemi varð niðurstaðan að vera 90% Clean.

Hristu þetta af þér

Ég finn gífurlegan mun á viðhorfi fólks hvort að ég er að glíma við sýnilegt tjón eða ósýnilegt. Ég hef tvisvar dottið á hjóli og lent í gifsi. Ég fékk mikla samkennd og fólk sýndi því mikinn skilning að ég vildi taka því rólega og sleppa hlaupa- og hjólaæfingum. Samt er augljóst að ég get alveg hlaupið þó að ég sé í gifsi á annari hendinni, það er ekki eins og ég sé að fara í handahlaup? Hins vegar þegar hormónin fara í rugl þá finnst fólki tilvalið að ég hristi þetta af mér. Ég eigi að harka af mér. Ekki láta þetta hafa svona mikil áhrif á mig

ERUÐ ÞIÐ AÐ FOKKA Í MÉR!!!

Ég nenni ekki einu sinni að vera kurteis lengur þegar kemur að þessari umræðu. Samt til að vera alveg sanngjörn hefði ég líklega veitt svipaða ráðgjöf áður en ég upplifði þetta á eigin skinni. Það er meinholt að lenda reglulega í smá krýsum. Það gerir þig mannlegri og þú þróar meiri samkennd.

Það er lægð yfir konunni

Ég verð stundum aðeins off þegar það er lægð yfir landinu. Það er svo hægt að taka þá tilfinningu og margfalda hana með pí nokkrum sinnum þegar breytingaskeiðslægðin skellur á. Hjá mér byrjar lægðin alltaf á því að ég verð svakalega döpur. Það hellist yfir mig vonleysi, orkuleysi, bugun og gífurlegur einmannaleiki. Það er skrýtið hvernig þetta skellur á. Gærdagurinn var kannski alveg frábær og svo vaknar þú með allt á hornum þér og þessa yfirþyrmandi óskilgreindu depurð, svona eins og þú sért alein í heiminum.

Það var mikill léttir þegar ég vissi hvað var í gangi. Þá var amk hægt að vinna í kringum þetta. Mín leið til að díla við lægðirnar er að minnka umfangið. Ég tek að mér færri verkefni meðan þetta er að ganga yfir. Ég legg mig. Ég prjóna. Ég les góða bók. Ég fer út að hlaupa. Ég nýti tímann til að Kjarna mig og hlúa að mér. Ég minnka mig aðeins. Ekki misskilja mig samt. Ég má nú ekki við því að minnka mig, enda ekki nema 1.65 sm, hálfgerður hobbiti. Ég hef aldrei verið hávaxin, nema þegar ég bjó í Honduras, þá var ég hávaxin og ljóshærð og heyrði reglulega kallað á eftir mér á götum úti. Hey Barbie. Ég segi bara eins og Colin vinur minn í Love Actually, ég er í raun ekkert lágvaxin: “I’m just in the wrong continent”

Það var ansi margt sem ég sleppti á þessu ári. Ég varð pínu andfélagsleg og treysti mér ekki í stórar æfingar og ferðalög. Ég sleppti öllum hópaæfingum með Landvættinum sem var eitt það skemmtilegasta sem ég gerði í fyrra skiptið. Ég reyni að vanda mig extra mikið í samskiptum. Stundum á ég erfitt með að greina á milli hvort að viðkomandi sé virkilega svona ósanngjarn eða hvort að breytingaskeiðið sé að skella á. Ég er mjög fegin fyrir hönd kærastans að við búum ekki saman. Ég veit að ég er að fara í gegnum snjóstorm núna og sem betur fer er ég alltaf að læra betur á mig og hvað ég get gert til að bæta mína líðan. Ég næ að stjórna þessu að mestu með hreyfingu og mataræði. Ef ég borða mikinn sykur þá er ég næmari fyrir áreiti. Ef ég tek margar álagsæfingar þá er ég verri. Löng róleg hlaup henta mér betur en stutt hröð hlaup.

Breytingaskeiðið er furðulegt

50% af mannkyninu þjást af þessu á einhverjum tímapunkti. Mjög mismikið. Sumar konur fara mjög illa út úr breytingaskeiðinu og aðrar finna varla fyrir þessu og svo eru það konur eins og ég sem erum svona mitt á milli. Samt er rosalega lítið vitað um breytingaskeiðið og því meira sem ég kynni mér málið því augljósara er að konur eru oft greindar með allskonar aðra kvilla áður en breytingaskeiðið er kannað, sérstaklega yngri konur sem passa ekki inn í aldurskassann. Ég hefði mögulega ekki kveikt á perunni strax ef ég hefði ekki verið búin að skipta um lífstíl. Ég þekki minn líkama mjög vel og er fljót að átta mig á því hvenær ég er off og hvenær ekki.

Ég á mína slæmu daga. Mér finnst stundum alveg glatað að þurfa að hugsa svona vel um mataræðið. Mér finnst glatað að alveg sama hvað ég hreyfi mig mikið þá get ég ekki borðað allt sem mig langar í þegar ég vil. Mér finnst líka glatað hvað sykurpúkinn er fljótur að kveikja á sér. Fyrir mér er þetta samt ekki val. Með því að vanda mataræðið og hreyfinguna er ég heilbrigðari og í miklu betra jafnvægi. Það geta liðið mánuðir án þess að ég finni fyrir einkennum breytingaskeiðsins. Svo einn daginn skellur það á mér af fullum þunga og þá er bara að anda sig í gegnum þetta. Tímabilin verða alltaf styttri og stundum er þetta bara dagspartur.

Cleanlife.is

Ég og Axel Valur sonur minn erum með matarblogg sem heitir því einfalda nafni Cleanlife.is. Það eru stærri framtíðarplön fyrir þetta verkefni en í dag læt ég duga að halda úti matarbloggi. Þarna set ég inn matseðlana mína og uppskriftir sem við erum að þróa. Ég fæ mikið af hugmyndum af Instagram og aðlaga þær svo að mínu mataræði. Því minni sykur sem ég borða því betur líður mér og því sætari finnst mér matur. Strákarnir mínir tala stundum um að ég sé með gallaða bragðlauka því mér finnst allt dísætt í dag :)

Eru konur að brenna yfir?

Mér finnst mikið um að konur á mínum aldri séu að brenna yfir. Þær eru með alltof mikið á sinni könnu. Um hvað ertu að tala Ásdís mín, þú ert nú heldur betur ofvirk og gerir alltof mikið og sefur of lítið. Nei, alls ekki, það lítur kannski þannig út. Ég er í raun með 4 verkefni. Fjölskyldan, hreyfing, hvíld og vinnan. Ég er ekki í námi með vinnu. Ég er ekki í neinni nefnd. Ég er ekki í neinu sjálfboðastarfi af því að ég kemst ekki yfir meira en þessi 4 verkefni sem eru í algjörum forgangi hjá mér. Þau eru í raun öll jafnmikilvæg. Ég var einu sinni í allskonar nefndum og ráðum og með milljón og tvo bolta á lofti. Sá tími er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur.

Má vera leiður?

Hvers vegna má ekki bara vera off? Hvers vegna þurfum við alltaf að vera í lagi?
Eigum við kannski að taka bara Lego Movie á þetta og allir eiga að vera AWESOME ALWAYS....

“Everything is awesome
Everything is cool when you're part of a team
Everything is awesome
When you're living out a dream”

Mín reynsla að díla við tilfinningar er að ef ég leyfi þeim að flæða og bæli þær ekki niður þá gengur þetta fyrr yfir. Ef ég leyfi úrillunni að sleppa út í staðinn fyrir að halda henni inni þá fer hún fyrr. Við göngum öll í gegnum allskonar áföll á lífsleiðinni og hvers vegna ekki bara að leyfa okkur að eiga ömurlegan dag eða viku eða mánuð eftir tilefni. Það er held ég öllum hollt að vera dapur og syrgja þegar eitthvað kemur upp á.

Ég útskýrði þetta einu sinni fyrir vini mínum sem fannst ég eitthvað pirruð og sagði: “Ekki sleppa úrillunni út í andrúmsloftið” Að ráðleggja pirraðri konu að slaka á er svipað og fara með flugelda niður á bensínstöð, henda þeim ofan í púðurtunnu við hliðina á bensíndælu, kveikja í öllu draslinu og vona að það verði ekki sprenging.

2021 er árið sem ég notaði í að finna jafnvægi og hvað virkar fyrir mig og hvað ekki. Ég hef hins vegar fulla trú á því að 2022 verði frábært ár og því er ég búin að skrá mig bæði í Maraþon og hálfan Járnkarl á næsta ári.

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 


Miðaldra á fjallahjóli

Þann 12.  júní 2021 tók ég þátt í mínu fyrsta hjólamóti. Þetta var ekki hvaða mót sem er, nei þetta var 60 km fjallahjólamót eða svo kallað Bláalóns mótið. Keppnin hefst í Hafnarfirði og lýkur á bílaplaninu hjá Bláa Lóninu þar sem þátttakendur fá að fara í lónið til að endurhlaða batterýin.

Eru öll hjól eins?

Hvers vegna skildi nú miðaldra kona skella sér í Spandex og fara í 60 km fjallahjólakeppni, sérstaklega þar sem hún þjáist af smá brekkuótta og lofthræðslu? Jú, fyrir 3 árum fékk ég þá frábæru hugmynd að skella mér í Landvættinn. Þetta eru 4 þrautir og þegar ég skráði mig þá hafði ég mest hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég hafði ekki hjólað úti á þessari öld og ekki svo mikið sem séð fjallahjól. Ég vissi á þessum tímapunkti ekki að það væru til margar tegundir af hjólum. Ég hélt að þetta væri bara mismunandi litir. Ef ég hefði ekki verið svo forsjál að heyra í Hákoni Hrafni hjólaþjálfara hjá Breiðablik rétt áður en ég straujaði visakortið þá hefði ég mætt á þessu forláta Gravel hjóli á mína fyrstu götuhjólaæfingu. Ég hafði aldrei hlaupið utan malbiks en ein þrautin er 32 km utanvegahlaup. Ég kunni bara bringusund og fannst afrek að synda 1 km svona einu sinni í mánuði og ein þrautin er 2.5 km vatnasund. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að fólk synti í vötnum á Íslandi, það virkar rosalega kalt. Rúsínan í pylsuendanum var síðan 50 km gönguskíðakeppni. Ég hafði hvorki séð gönguskíði né gönguskíðakeppni. Mig vantaði bara eitthvað hressilegt markmið og Landvætturinn virkaði nógu skelfilegur til að láta vaða.

Blessuð lofthræðslan!

Þar sem mig vantaði alla þekkingu þá skráði ég mig á hjólaæfingar hjá Breiðablik sem ég hef alltaf sagt að hafi verið mín mesta gæfa. Ég fór að æfa sund með Garpadeild Breiðabliks og fann mér hlaupaprógramm á netinu. Skráði mig svo á gönguskíðanámskeið sama daginn og ég skráði mig í Fossavatnið 2019. Það varð mér til happs að Hilda vinkona ákvað að skella sér líka í Landvættinn og við tókum ófáar æfingar saman um veturinn og fórum saman í Fossavatnið. Hún er reyndar miklu betri íþróttakona en ég og kláraði Fossavatnið langt á undan mér en ég kláraði og ég var ekki einu sinni síðust. Eftir Fossavatnið tóku við stífar hjólaæfingar, bæði á götuhjóli sem og á fjallahjóli. Ég fór í brautaskoðun með Landvættum fyrir Bláa Lónið og þá kom “smá vandamál” í ljós. Ég varð sjúklega loft- og hraðahrædd í Ísólfsskálabrekkunni. Ég eiginlega fríkaði út og fór af hjólinu og labbaði niður alla brekkuna fyrir miðju. Brynhildi Ólafs sem sér um Landvættina varð að orði að það væri nú ekki skynsamlegt að ganga á miðjum veginum í hjólakeppni sem væri að auki opin fyrir umferð. Ég var engan veginn að höndla þessa lofthræðslu og Brynhildur sendi mig í dáleiðslumeðferð gegn lofthræðslu. Þér að segja þá hafði ég nú ekki mikla trú á því fyrirfram en ég get staðfest að þetta svínvirkaði. Ég var því í ágætisgír fyrir keppnina þegar ég datt af hjóli nokkrum dögum fyrir keppni og endaði í gifsi frá úlnlið og upp í öxl og missti því af keppninni. 12 dögum seinna kom í ljós að ég var ekki brotin og það gleymdist bara að segja mér það, en það er önnur saga.

Ég ákvað því að klára Landvættinn 2020 í staðinn en það gekk nú ekki alveg nógu vel þar sem engar keppnir voru haldnar það árið vegna Covid

Allt er þegar þrennt er ekki satt og ég skráði mig aftur í FÍ landvættinn síðastliðið haust. Það verður að segjast að þau hafa verið ansi útsjónarsöm að halda úti þessu prógrammi í allskonar fjöldatakmörkunum.

Blessað breytingaskeiðið tekur völdin

Ég tók þátt í Strandamótinu sem er gönguskíðamót og fann að ég var ekki alveg upp á mitt besta. Svo kom Fossavatnið og ég fann enga keppnisgleði þar heldur kláraði það á þrjóskunni einni saman. Eitt erfiðasta mót í manna minnum og ég var rúma átta klukkutíma að klára. Ég man þegar ég kom í mark var ég alveg laus við gleðina og urraði á Kjartan Long þjálfara hjá Landvættum þegar hann samgladdist mér að vera komin í mark. Þá grunaði mig að ég væri komin í eitthvað ólag og bað heimilislækninn að panta fyrir mig blóðprufur. Niðurstaðan var að ég væri komin í bullandi tíðahvörf og vantaði kvenhormón. Til að bæta gráu ofan á svart þá mælti hann alls ekki með því að ég fengi hormón þar sem kolesterólið mitt væri alltof hátt. Tíðahvörf eru mjög mismunandi á milli kvenna. Mín lýsa sér í orkuleysi og andlegri bugun. Það er ekki alltaf besta blandan, sérstaklega ekki þegar þú ert á leiðinni í Fjallahjólamót. Ég var því farin að sleppa hjólaæfingum þar sem ég vissi aldrei hvernig stemmingin yrði. Hvort ég myndi hreinlega drífa upp brekkurnar eða urra of mikið á æfingafélagana.

Ég hef gert miklar breytingar á mataræðinu síðast liðið ár í gegnum Greenfit. Ég var í besta jafnvæginu bæði orkulega séð sem og andlega þegar ég borðaði hreint mataræði. Mér fannst fullmikið að verða alveg Clean út ævina og í samráði við Lukku ákvað ég að byrja á því að taka eingöngu út sykur. Það tók ekki nema nokkra daga að fara heilmikið upp í orku og andlega bugunin hvarf að mestu. Einnig minnkaði notkun á orðum (meira í hugsun en talmáli) sem byrja á H, F og A um mörghundruð prósent.

Bláalóns undirbúningur

Ég fór í 2 brautarskoðanir með Landvættum og það kom mér skemmtilega á óvart hvað mér fannst gaman í brautinni. Ég stóð niður brekkurnar og náði m.a.s stundum að hjóla upp líka. Ég kláraði reyndar ekki alla brautina. Ég fór ekki síðasta legginn. Það vill svo “skemmtilega” til að þar er einmitt Ísólfsskálabrekkan.

Eftir seinni brautarskoðun var ég orðin mjög peppuð fyrir mótið. Mitt helsta áhyggjuefni eins og alltaf er að mér verði kalt. Ég tók því til allskonar föt til að græja mig. Ég tók með vatn og orkustykki og svo fékk ég lánaða hjólatösku hjá Gumma Sveins. Ég vonaði innst inni að hann myndi setja nokkur auka wött í hana en það virðist hafa gleymst. Ég var líka með 2 gashylki og slöngu ef það skildi springa og eina létta pumpu í viðbót. Ég kann reyndar ekki að græja þetta en treysti á að einhver myndi redda mér ef þyrfti.

Viktor Logi sonur minn pumpaði óumbeðinn í dekkin fyrir mótið. Það var eins og hann treysti móður sinni ekki fyrir þessu verkefni. Kannski tengist það því að ég bað hann að hjálpa mér að pumpa í Racerinn þar sem þessi h”#$%” pumpa virkaði ekki. Þá komu í ljós tvö örlítil mistök hjá mér. Ég gleymdi að taka opna fyrir ventilinn og ég festi pumpuna ekki rétt á, annars var þetta allt hárrétt hjá mér.

Þrátt fyrir að vera orðin peppuð fyrir mótinu þá var ég samt alltaf með þennan undirliggjandi kvíðahnút yfir Ísólfsskálabrekkunni. Hvernig myndi mér ganga að tækla hana? Síðast þegar ég fór hana þá bugaði hún mig. Mér hefur sjaldan liðið eins illa og þegar ég þurfti að ganga niður hana. Mér fannst vera þverhnýpt báðum megin og ég skildi hreinlega ekki hverjum dettur í hug að láta hjóla svona hættulega leið. Ég hefði alveg eins getað staðið á brúninni á Everest. Ég skildi ekki heldur hvers vegna það eru ekki vegrið á svona háum og hættulegum vegum. Ég hef talað við marga sem skilja ekkert hvað ég er að tala um. Þessi brekka er ekkert svo brött og margir ráðlagt mér að hugsa ekkert út í þetta, bara láta vaða. Já einmitt, það virkar. Nei, það virkar ekki, lofa.

Mótið hefst

Það var ræst í þremur hollum og Landvættir voru í síðasta holli. Ég ætlaði að hjóla með Sigrúnu Rósu vinkonu þar sem hún var rifbeinsbrotin en þar sem hún byrjaði keppnina á vinnusímafundi þá hjólaði ég aðeins áfram. Vissi sem var að hún er mun hraðari hjólari og myndi ná mér. Það var gífurlegur mótvindur á Suðurstrandaveginum og planið var að fólk væri í hópum og myndi drafta hvort annað og létta sér þannig lífið. Ég lenti á milli hópa og hjólaði því ein. Mæli ekki með því en þetta hafðist. Fínt veganesti inn í næstu keppi. Á Vigdísarvöllum náði Sigrún mér og svo stakk hún mig af, rifbeinsbrotin eða ekki, þá hjólar hún af ákefð. Hún ákvað samt að bíða eftir mér í brekkunni. Ég hjólaði í góðum gír, náði að standa niður allar brekkurnar og hjóla upp allar brekkurnar. Þér að segja, þá var ég mjög sátt við mig. Svo fór ég að nálgast H”#$”# brekkuna.  

Ég fann kvíðahnútinn stækka og andardrátturinn varð örari, jú líka af því að ég var að hjóla upp brekku en þessi var öðruvísi. Ég reyndi að horfa beint áfram en stundum er það þannig að ef þú virkilega reynir að horfa ekki á eitthvað þá leita augun þangað. Eftir smá tíma fór hausinn og ég komst ekki lengra á hjólinu. Hún hafði sigrað mig aftur. Ég hafði verið viss um að ég myndi geta brekkuna en ég fór af hjólinu og byrjaði að labba með það upp. Það fóru allskonar hugsanir í gegnum kollinn á mér.

Ásdís, mannstu þegar þú varst ekkert viss um að það væri góð hugmynd að hjóla Bláalónið og þú varst með allskonar leiðir til að losna við það. Hefði ekki verið sniðugt að útfæra eina af þeim. Það voru svo margar leiðir til að fara ekki. Topp þrjú var:

  1. Detta á hjóli og feika meiðsl til að fá gifs. Það er skotheld leið. Þú ert búin að detta tvö ár í röð og verið sett í gifs bæði skiptin án þess að vera brotin. Þú veist sko alveg hvað þarf að gera og segja til að fá gifs.
  2. Skella þér í seinni Pfizer bólusetninguna á réttum tíma og vonast eftir massífum aukaverkunum og ef þær kæmu ekki þá bara hringja í Hr. Google sem veit allt og feika þær. Verða rosalega rosalega lasin.
  3. Hætta í Landvættinum. Það þurfa ekkert allir að vera Landvættir sko.

Allt í einu byrjaði síminn minn að hringja á fullu. Þegar ég kíkti loksins á símann sá ég að Sigrún Rósa hafði verið að reyna að ná í mig. Þetta yndi vildi kanna hvort að hún ætti að bíða eftir mér við brekkuna. Hún var samt svo langt á undan mér að þegar hún var búin að bíða í 20 mínútur var hún við það að ofkælast og var skikkuð af stað.

Ertu hrædd við hákarl?

Margir hafa ráðlagt mér að ofhugsa ekki þessa lofthræðslu. Ef það væri lausnin þá væru engar fóbíur til. Þetta minnir mig alltaf á þegar ég lærði köfun í Honduras. Það er tvennt sem ég man úr námsefninu. “Ef þú ert fastur inn í helli og loftið að verða búið DONOTPANIC. Ef þú hittir hákarl DONOTPANIK”. Þetta hljómar mjög skynsamlega en ég er ekki jafnsannfærð um að það séu allir sem muni halda ró sinni fastir í neðansjávarhelli, alveg að verða loftlausir og sjá þennan fína hákarl nálgast. Ég man amk ekki eftir neinum rólegum í myndinni JAWS.

Ég vissi innst inni að ég myndi aldrei verða sátt við mig ef ég myndi ekki reyna. Þannig að á þessum tímapunkti í lífi mínu ákvað ég að það væri best að labba upp og niður h”#$”# brekkuna. Síðan fékk ég þessa frábæru hugmynd að spyrja næsta hjólara hvort að hann væri til í að labba með mér. Það vildi mér til happs að næsti hjólari var hann Árni sem hafði líka verið í Landvættunum 2019 og honum fannst það nú ekki mikið mál að labba með mér niður. Hann væri hvort sem er ekkert að keppa við tímann. Á leiðinni áttaði ég mig á því að brekkan var miklu flatari en mig minnti og einnig fann ég ekki svæðin sem voru þverhnípt síðast. Líklega hefði ég prófað að hjóla hana ef það hefði ekki verið svona brjálæðislega hvasst að fólk átti í mestu vandræðum með að hanga á hjólinu í mestu hviðunum. Þegar ég var komin niður var stutt eftir og ég fann að ég var pínu punkteruð eftir að hafa klárað brekkuna og ákvað að hjóla rólega restina af leiðinni. Það kostaði töluverðan tíma að labba niður brekkuna. Þeir sem eru bestir eru að fara hana á svona 70 km hraða. Ég var líklega á svona 5 km hraða.

Best að byrja illa

Það sem ég hef hins vegar lært er að það er langbest að byrja mjög illa á sínu fyrsta móti þá er svo auðvelt að ná miklum bætingum á milli ára. Ég reyndi það í Reykjavíkurmaraþoninu, mæli eindregið með þessu. Nema þú sért mjög góður og eigir sjens á vinningssæti þá kannski er betra að fara all in líka á fyrsta móti. Það er í raun mun verra að byrja vel og vera svo lélegur í næsta móti á eftir. Það er ekkert ósvipað og þessi byrjendaheppni í Keilu. Yfirleitt þegar fólk fer í fyrsta skipti í keilu þá virðist það ná endalausum fellum og feykum og næst fer kúlan nær eingöngu í rennuna.

Þegar ég lít til baka var Bláa Lóns keppnin alveg frábær. Mér fannst mjög gaman að hjóla leiðina og var gífurlega sátt við að ég var mun minna stressuð í H”#$”#$ brekkunni en síðast. Það var vel að mótinu staðið og ég var mjög sátt við allt nema eitt. Ég var ansi spæld að fá ekki þátttökupening eftir mótið. Ég skil alveg að fólk sem er búið að fara margoft nenni ekki að fá enn einn peninginn en þegar þetta er þitt allra fyrsta hjólamót þá er nauðsynlegt. Fyrirkomulagið í Reykjavíkurmaraþoninu er mjög sniðugt. Þar getur þú valið hvort að þú vilt kaupa pening eða ekki.

Hins vegar fékk ég Blikanaglalakkið eftirsótta daginn eftir þannig að það vóg alveg upp peninginn sem ég fékk ekki og vel það. Hvað er Blikanaglalakkið eftirsótta? Allir Blikar sem keppa í hjólamóti fá dásamlega bleikt naglalakk frá Nailberry. Það er sumarlegt og smellpassar við blikabúninginn. Þrátt fyrir að hafa lent í 7unda neðsta sæti leið mér eins og sigurvegara þegar ég fékk naglalakkið. Fyrir mér var þetta jafngeggjað eins og að fá gula jakkann í Tour de France. Sem aukabónus þá endist þetta naglalakk lengur á mér en önnur sem ég hef prófað.

Eftir keppnina fann ég samt hvað mér var létt að hafa lifað Bláalónskeppnina af. Hvað hún hafði verið íþyngjandi í nokkrar vikur og hvað ég var orðin stressuð yfir því að vera að fara að keppa. Þegar þú klárar eitthvað sem þú varst ekki viss um að geta þá mölbrýtur þú þægindarammann og næsta keppni verður minna mál.

Landvættir stækka þægindarammann

Ég hef oft leitt hugann að því hvar ég væri stödd ef ég hefði ekki skráð mig í Landvættina á sínum tíma. Ég væri líklega ennþá að skokka og tæki svona 10 km “langhlaup” stundum en væri líklega mest í stuttum hlaupum.

Ég hefði ekki farið á hjólaæfingar hjá Breiðablik. Ég væri hvorki búin að fá mér götuhjól né fjallahjól. Ég gæti ekki synt skriðsund. Ég væri ekki búin að hlaupa utanvegahlaup og ég hefði líklega aldrei prófað gönguskíði.

Það að skrá sig í Landvættaprógrammið er líklega það allra besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig. Ég hef ítrekað rústað þægindarammanum og mun halda því áfram aftur og aftur og aftur.

Þetta ár verður samt ár hæglætis. Ég ætla að njóta þess að hreyfa mig rólega. Klára Landvættinn á rólegum hraða þar sem ég finn að sykurleysi og rólegar æfingar svínvirka á þetta blessaða breytingaskeið. Í hvert skipti sem ég rek mig á vegg þá læri ég eitthvað nýtt. Ég fæ meiri samkennd með öðrum og á auðveldara með að setja mig í spor annara. Í fyrra hefði ég líklega ráðlagt þessari konu að bíta á jaxlinn og keyra áfram á fullu.

Ég skoða alltaf tímana í þeim keppnum sem ég tek þátt í og hef tekið eftir því að 70 plús hópurinn er frekar óvirkur í keppnum. Það eina sem ég þarf að gera er að krossa fingur að þeir sem eru að keppa núna á mínum aldrei verði allir komnir í golf og ég muni því rústa þessum keppnum eftir tæp 20 ár. Þarna mun minn tími koma.

Mér er samt alveg sama í hvaða sæti ég lendi. Ég er í betra formi en tvítuga, þrítuga og fertuga ég. Ég myndi vinna þær í öllum þrautum. Ég hef engan metnað til að verða afreksmanneskja í íþróttum. Mig langar að vera í góðu formi og við góða heilsu út ævina. Það eru mín lífsgæði.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Ertu með fortíðarþráhyggju gagnvart mat?

Í febrúar s.l. fór ég í mitt þriðja próf hjá Greenfit. Ég var búin að hlakka ansi mikið til því ég kom mjög vel út úr prófi númer_T2A3662 2. Ég vissi að ég myndi ekki koma jafnvel út og síðast og það yrðu miklu minni breytingar því það er jú ekki hægt að bæta sig endalaust en ég hafði ekki miklar áhyggjur af því. Ég er að æfa vel, borða rétt og nefanda eins og enginn sé morgundagurinn. Ég myndi rúlla þessu upp.

Ég fór fastandi í blóðprufurnar eins og lög gera ráð fyrir og fór svo í álagsprófið í vikunni á eftir. Aldrei þessu vant fannst Lukku tilvalið að ég myndi kíkja á hana og fara yfir niðurstöðurnar. Mér fannst það pínu skrýtið þar sem þetta var jú þriðja prófið mitt og ég vissi nokkurn veginn hvað ég var að fara út í. Við fórum mjög vel yfir fyrsta prófið enda ekki vanþörf á því. Ég kolféll á því prófi. Ég kom mjög illa út miðað við konu sem var búin að æfa vel og borða nokkuð rétt í þrjú ár en kannski ekkert svo illa út miðað við konu sem var ekki búin að æfa í tuttugu ár þar á undan og borða rangt í áratugi.

Fyrst skoðaði ég álagsprófið. Það var ekki alveg jafngott og ég átti von á. Fitubrennslan hafði lækkað frá því síðast en Siggi benti á að ég væri að taka um 0,7 L meira inn í hverjum andadrætti samanborið við síðast og það er HUGE. Ég hef í alvörunni ekki hugmynd hvað hann á við en mér finnst þetta hljóma mjög jákvætt. Einnig var bæting í respiratory system þar sem ég var að halda dýptinni mun lengur og er skilvirkari í hverjum andadrætti. Það var líka vel gert sagði Siggi. Sum sé neföndun svínvirkar. Ég finn það líka í erfiðum hjólaæfingum hvað ég er miklu fljótari að ná andardrættinum rólegum eftir ógeðisspretti og hvað æfingarnar ganga miklu betur. Ég náði t.d. að syngja með hverju einasta lagi í 80’ hjólatímanum um daginn, sessunauti mínum til mikillar ánægju. Hann þekkti lögin ekki eins vel og ég því hann var víst í leikskóla á þessum tíma.

Blóðrannsóknin ein stór skita

Lukka var líka mjög jákvæð og byrjaði á að taka fram það væru alveg góð teikn þarna, t.d. héldi áfram að draga úr bólgum sem er mjög jákvætt. Svo spurði hún mjög kurteisislega hvort að ég hefði mögulega gert einhverjar breytingar, hef ég haldið sömu línu eða breytt einhverju?

Ég er á sextugsaldri og man ekki neitt. Ég man ekki einu sinni hvað ég borðaði í gær. Eina ástæðan fyrir því að ég get flett því upp er vegna þess að ég tek mynd af matnum og set hann í story og highlights á Instagram.

Nei, veistu ég hef nú ekki breytt miklu, búin að vera mjög stapíl sko. Svo skoðuðum við blóðrannsóknina. Ég fékk nett áfall. Hún kom mjög MJÖG ILLA ÚT. Við erum að tala um ef blóðprufa númer 2 var 10 þá var þessi svona 2.5, það er fall. Meira að segja þegar ég var í Menntaskóla var 3,9 fall. Fyrsta hugsunin sem flaug í gegnum hausinn á mér var: “Það hefur orðið ruglingur á sýnum.” Þetta væri svona tilfelli eins og þegar börnum er ruglað á fæðingardeildinni og þau komast að þessu á fullorðinsaldri. Sýnin mín myndu finnast og allt yrði betra. Svo mundi ég að ég var víst viðstödd álagsprófið, það er til mynd af mér á brettinu og ég sá líka að blóðprufurnar mínar voru merktar með mínum nöfnum. Nei, ekki frekar en mér var ruglað saman við annan nýbura þá var sýnunum mínum ekki víxlað. Hvernig veit ég að mér var ekki ruglað saman við annan nýbura. Jú ég fæddist heima hjá ömmu Hermínu á Dalvík þar sem það var ófært á fæðingardeildina á Akureyri þennan dag og það var ekkert annað barn sem fæddist heima hjá ömmu Hermínu þennan dag.

Ertu mögulega búin að slaka eitthvað á?

Lukka sagði að bæði álagsprófin sem og blóðrannsóknin töluðu sama máli. Það benti allt til þess að ég hefði slakað verulega á. Mér fannst það ólíklegt. Ég er að borða gífurlega hollt í morgunmat, hádegismat og kvöldmat og holl millimál inn á milli. Svo ákvað ég að rifja febrúar aðeins betur upp. Ég átti afmæli þann 4ja. Mér fannst alveg að ég mætti leyfa mér smá. Gildin mín voru svo pottþétt síðast. Það reyndist vera 3ja daga slökun þar sem ég leyfði mér svo að segja allt sem mig langaði í. Svo kom bolludagurinn og svo fórum við Brynjar til Akureyrar á skíði. Ég leyfði mér eitt og annað í Akureyri. Á sunnudeginum fékk ég mér hamborgara og franskar. Ég hafði ekki borðað hamborgara og franskar í 6 mánuði af því að mig langaði ekki í hann. Það var hins vegar allt uppselt á Akureyri og það var laust þarna. Hamborgarinn var mjög góður en það sem ég var búin að steingleyma er að þetta kombó triggerar eitthvað í mér og stuttu seinna kom ég við í sjoppu og fékk mér Hafraklatta og Ríssúkkulaði (steingleymdi því að ég ætla bara að kaupa Fairtrade súkkulaði) og fílakúlupoka. Brynjar ákvað að það væri best að segja ekkert á þessari stundu. Það tók mig þrjá daga að vinda ofan af þessu og 2 dögum seinna fór ég í blóðprufuna. Ég mundi líka að ég var hætt að drekka svart te nema í febrúar var ég farin að drekka 3 bolla af svörtu tei með mjólk á dag. Ég fékk greiningu á mjólkuróþoli fyrir langa löngu en mér fannst bara óspennandi að taka þær allar út það sem eftir væri ævinnar þannig að ég leyfði mér þær í hófi. Svo rifjaðist það upp að ég var farin að stinga uppí mig súkkulaðimola annað slagið. Þannig að þegar ég tók allt saman var niðurstaðan sú að febrúar samanstóð af mjög mörgum litlum hlutum sem eru kannski ekki alveg að virka fyrir mig.

Ég held að hluti af vandamálinu hafi verið að ég ofmetnaðist eftir annað prófið. Ég kom svo rosalega vel út ég hélt að ég væri í betra standi en ég var. Róm var ekki byggð á einum degi og eina leiðin er að taka eitt skref til baka og byrja aftur af krafti.

Fortíðarþráhyggja gagnvart mat

Ég hef alltaf sagt: "ég er svo heppin að eiga ekki fyrri árangur í íþróttum og þurfa ekki að svekkja mig á ná ekki mínum besta árangri aftur." Í staðinn nýt ég ferðalagsins og að bæta úthaldið og styrkinn.
Ég er hins vegar að átta mig smátt og smátt á því að ég hef haft þetta viðhorf gagnvart mat. Þannig að í staðinn fyrir að svekkja mig á að ná ekki lengur fyrri íþróttaafrekum þá hef ég átt það til að svekkja mig á að geta ekki endurtekið fyrri matarafrek nema leggja heilsu mína undir. Það hefur innst inni farið gífurlega í taugarnar á mér að geta ekki borðað það sem ég var vön að borða þegar ég var yngri. Sko, þegar ég var tvítug gat ég borðað allt sem ég vildi og samt verið grönn. Hvers vegna get ég það ekki lengur? Þrátt fyrir alla mína vinnu og breytingar var ég enn föst í þessu fortíðarsambandi við mat. Ég hugsaði ennþá. Ég gat alltaf borðað þetta.... afhverju ekki núna. Jú núna er ég 52 ára með gen sem þola ekki allan mat. Ég áttaði mig á því að það var ekkert annað að gera en að núllstilla viðhorfið og gera breytingar eina ferðina enn og njóta þess að laga mig.

Lukka stakk upp á því að ég myndi prófa Veri sírita til að mæta blóðsykurinn. Einnig ætla ég að skrá hjá mér hvað ég borða (ekki magn og þess háttar) heldur hreinlega hvaða næringu ég innbyrði. Þannig ætla ég að finna mína veikleika og taka þá út einn af öðrum. Ennfremur ætla ég að taka millipróf fyrir blóðsykur og kólesteról til að sjá hvort að ég sé ekki örugglega á rétti leið.

Auðvitað er stundum hundfúlt að þurfa alltaf að vera á tánum en ég var með lélegan lífstíl í áratugi og það verður ekki undið ofan af öllu á nokkrum mánuðum. Þetta er ævilangt verkefni og ég er tilbúin í það. Ég veit líka að heimurinn ferst ekkert þó að ég eigi slæman dag og ég mun halda áfram að leyfa mér eitt og annað. Þetta er lífsstíll, ekki átak.

Ég á vinkonur sem hafa alltaf haldið sér í kjörþyngd. Þær hafa alltaf stundað hreyfingu og þær leyfa sér allt í hófi. Munurinn á mér og þeim er að ég stundaði enga hreyfingu í áratugi og ég leyfði mér allt í ÓHÓFI.
Það er hins vegar miklu auðveldara að detta í fórnarlambsgírinn og væla yfir því að ég megi ekki borða allt sem mig langar í þegar ég vil á meðan Sigga getur það. Málið er að ég veit ekkert um gildin hennar Siggu. Það er mjög hættulegt að bera sig saman við einhvern annan og svekkja sig á því að þú getir ekki eitthvað sem einhver annar getur. Eftir að ég fór að bera mig eingöngu saman við sjálfa mig varð lífið auðveldara og ég varð miklu hamingjusamari.

Einu sinni var diesel miklu ódýrara en bensín og það pirraði mig oft þegar ég fór og tók bensín á minn bíl. Það hvarflaði samt aldrei að mér að setja diesel á bílinn minn þó að ég myndi spara smá pening því ég vissi að það myndi fara illa með bílinn. Samt set ég allskonar ofan í mig sem mín vél þolir ekki afþví að mér finnst ég eiga það skilið.

Hver ber ábyrgð á þessu?

Mín tilhneiging í gegnum tíðina var að reyna að skella skuldinni á einhvern annan en mig. Það er pínu vesen ef þú þarft að viðurkenna fyrir sjálfum þér ef þetta er algjörlega undir þér komið. Hverjum er eiginlega að kenna þetta matarvesen? Hvers vegna get ég ekki borðað allt sem ég vil, alltaf þegar ég vil?  Ég meina, ég myndi alveg fíla í tætlur að geta fengið mér súkkulaðiköku tvisvar á dag og smá konfekt í eftirrétt. Svoleiðs mataræði væri sko draumur í dós. Eins og margir segja: “þú þarft ekki að vinna þér inn fyrir kökunni”. Það er sko hárrétt. Það þarf ekkert að fara út að hlaupa 5 km til að mega borða eina kökusneið. Hins vegar gætu innri gildin mín viljað að ég sleppi kökunni flesta daga og nyti hennar meira hina dagana.

Áður en ég tók fulla ábyrgð á mér og minni heilsu var ég búin að reyna ýmislegt og það eina sem allar þessar tilraunir áttu sameiginlegt var að þær gengu aldrei upp. Ég náði aldrei langtímaárangri og sá árangur sem ég náði var fljótur að fara til baka þegar ég gafst upp. Ég seldi mér að ég væri einfaldlega með svona gen, það skipti ekki máli hvað ég myndi gera, ég væri svo óheppin með gen. Svo væri ég líka með svakalega hæga brennslu. Mín brennsla er einfaldlega miklu hægari en annara þess vegna mun ég ALDREI ná árangri, alveg sama hvað ég geri, svo til hvers að reyna það. 30 kílóum léttari neyðist ég víst til að viðurkenna að þetta var alls ekki rétt hjá mér.

Hver ber ábyrgð á þessum genum eiginlega? Er það einhver formóðir mín sem kannaði ekki hvort að barnsfaðir hennar var með góð gen til undaneldis? Eru þetta kannski ekki genin? Er þetta uppeldið? Er þetta álagið á nútímakonuna? HVER BER ÁBYRGÐINA?

Lengi vel tók ég bara Milli Vanilli á þetta ástand: “Gotta blame it on something. Blame it on the rain that was falling, falling. Blame it on the stars that didn't shine that night. Whatever you do, don't put the blame on you. Blame it on the rain, yeah, yeah.”

Það er árshátíð, það er bolludagur, það er kaffi í vinnunni, það er saumaklúbbur, það eru páskar, það eru jól, ég á afmæli, krakkarnir eiga afmæli, ég er í frí, það er rosalega mikið álag í vinnunni, ég átti frábæran dag í vinnu, ég er búin að fara út að hlaupa. ÉG Á SKILIÐ AÐ TRÍTA MIG.

Dagurinn sem ég áttaði mig á því að ég ein bæri ábyrgð á minni heilsu og enginn annar var dagurinn sem allt breyttist. Það var dagurinn sem ég tók stjórnina í mínar hendur og ég hætti að búa til afsakanir. Ég á lélega daga, ég klikka, planið klikkar en það skiptir engu máli vegna þess að þetta er vegferð út ævina og það getur enginn verið með fullkomið líf alltaf.

Hver er ég?

Ég áttaði mig líka á því að ég var búin að vera með “Ég var einu sinni...” hækju. Ég var einu sinni 95 kíló. Ég gat einu sinni ekki hlaupið milli ljósastaura og í hvert skipti sem ég slakaði á þá gaf ég mér leyfi til þess því að ég var orðinn miklu betri en ég var. Ég er heilbrigðari, ég er í betra formi, ég er léttari. Ég áttaði mig á því að ég þurfti að endurstilla mig. Ég get ekki lengur verið að horfa í baksýnisspegilinn hver ég var. Ég þarf að horfa fram á við, hver ég er.

Ég er 52 ára gömul kona. Ég er í góðu formi og ég hreyfi mig sex daga vikunnar og stundum tvisvar á dag. Ég borða hollt. Ég er heilbrigð. Ég er hamingjusöm. Ég er  í góðu jafnvægi. Ég set framtíðarmig í forgang. Ég er 65 kíló.

Ég er einfaldlega ekki lengur konan sem var einu sinni 95 kíló.

Er þetta ekki gífurlega dýrt?

Mörgum finnst það ansi dýrt að ég ætli að fara í test á 3ja mánaða fresti hjá Greenfit. Kostar ekki skiptið 60.000 kr. Ekki alveg, fyrsta skiptið kostar 59.900 krónur en endurkomuástandsskoðunin kostar 39.900 krónur. Þetta eru fimm skipti sem ég ætla að taka á einu ári. Þú þarft svosum ekki að vera á stærðfræðibraut til að reikna þennan kostnað út. Þegar ég var að taka til í geymslunni í vetur fann ég tóma kassa sem voru með merktir. Á þeim stóð: 75 kíló, 80 kíló og 85 kíló. Það rifjaðist upp fyrir mér að þetta voru öryggiskassarnir mínir. Fötin sem ég ætlaði að passa í. 85 kíló var svona rokkandi kassinn, stundum komst ég í fötin úr honum og stundum ekki. 80 kíló var kassinn sem ég ætlaði að komast í eftir næsta kúr og 75 kíló var kassinn sem ég ætla að passa í þegar allt gengur upp og lífið verður dásamlegt. Ég reiknaði þetta aðeins út. Í hverjum kassa kæmi ég auðveldlega fyrir 30 flíkum. Gefum okkur að hver flík kosti að meðaltali 10.000 krónur, þá kostaði innhald hvers kassa 300.000 kr. Þegar ég missti 10 kíló eftir þrjá mánuði hjá Greenfit fór ég með öll fötin sem ég tímdi ekki að láta í breytingar hjá klæðskera. Það kostaði 117.000 eða næstum því upp á krónu jafnmikið og þrjú endurkomupróf hjá Greenfit. Það er gífurlega dýrt að vera í jojo þyngd. Þú ert stöðugt að kaupa föt og svo pakka þeim niður. Svo þegar þú kemst loksins í sömu þyngd aftur passa fötin ekkert endilega á þig því líkaminn hefur breyst. Hann er öðruvísi mótaður en þegar þú keyptir fötin. Þegar ég byrjaði að grennast þurfti ég að endurnýja alla skóna mína. Hvað meinar þú, skóna, ekki minnkuðu á þér lappirnar? Jú heilan helling, þær styttust sannarlega ekki en þær afþrútnuðu sem þýddi næstum því heil skóstærð sem fæturnir minnkuðu um og allir mínir skór urðu of víðir. Vitið þið hvað skósafn miðaldra konu kostar? Töluvert meira en test hjá Greenfit get ég sagt ykkur.

Þegar ég fékk út úr fyrsta prófinu og sá hversu mikið ég þurfti að laga ákvað ég að ég myndi gefa sjálfri mér bætta heilsu. Ég ákvað að gefa mér 12 mánuði til að fínstilla mína heilsu og mín gildi. Ég ætla að leysa heilsugátuna og í hvert skipti gengur þetta aðeins betur og ég læri meira á hvað ég get og hvað ég má.

Ég veit ekki með þig en ég ætla ekki að horfa í augun á 80 ára gömlu mér og segja: "Fyrirgefðu að ég nennti ekki að setja þig í forgang og hugsa betur um þig. Fyrirgefðu að mér fannst þín heilsa ekki nógu mikilvæg"

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Er heilbrigður lífstíll dulbúin megrun?

Collage 2021-02-17 09_10_55

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég er farin að heyra æ oftar.

Heilbrigður lífstíll er megrun í dulargervi!

Ef þetta snýst um þyngdartap þá er þetta megrun!

Ef það eru boð og bönn þá er þetta megrun!

Fyrir mér snýst lífstíll um að taka ákvarðanir um hvernig lífi þú vilt lifa. Ekki bara hvað snertir mataræði og hreyfingu, heldur allt lífið. Ég reyndi að spyrja Hr. Google “Hvað er megrun?” en það kom ekkert eitt svar. Fyrir mér er megrun svelti. Þú neitar þér um mat með eitthvað markmið í huga.

Í gegnum tíðina hef ég prófað allskonar kúra en alltaf gefist upp þar sem ég hef ekki agann í að neita mér um mat eða nennuna að reikna út hvað ég má og hvað ég má ekki. Ég einfaldlega get ekki verið svöng til lengri tíma og þegar ég tala um lengri tíma þá er ég að horfa á svona 4-5 klukkustundir. Ég hef til dæmis aldrei skilið fólk sem segir: “það var svo mikið að gera hjá mér í vinnunni að ég steingleymdi að borða í dag”. Ég verð úrill ef ég fæ ekki að borða reglulega. Ég hef ALDREI gleymt að borða.

Allir þessir kúrar skiluðu mér aldrei neinu nema skammtímaárangri sem núllaðist út daginn sem ég gafst upp og eftir örfáa daga var ég komin í sama far og áður en ég byrjaði á átakinu.

Daginn sem ég hitti David Goggins og hann spurði: “Ef ég læsi ævisögu þína, myndi hún hafa áhrif” var dagurinn sem mitt nýja líf byrjaði.

Endurstilling og endurhönnun

Ég ákvað að leggja af stað í nýja vegferð, skrifa nýja sögu og hanna nýja Ásdísi. Þessi Ásdís sem ég sat uppi með var hvort eð er drepleiðinleg. Hún var pirruð og úrill og átti til að vera assgoti langrækin á köflum. Mér líkaði ekki lengur við hana og ákvað því að taka Evu Appelsínu úr Ávaxtakörfunni á þetta:

“En ef að það væri eitthvað
sem mig líkaði ekki við
ég skæri það burt og límdi svo nýtt
sem ætti þá betur við mig”

Í fyrsta skipti á ævinni var fókusinn settur á að verða heilbrigðari og bæta heilsuna og jú létta mig þar sem ofþyngd hefur ýmis heilsufarsvandamál í för með sér. Til að ná árangri þurfti ég að gera ýmsar breytingar, t.a.m í mataræði. Ég mátti t.d. ekki lengur borða allan þann sykur sem ég var vön í allskonar formi.

Flokkast það undir megrun að borða minna nammi?

Flokkast það undir megrun að borða meira grænmeti?

Ég get ennþá misst mig í nammi. Ég fer ekki á bömmer eða refsa mér. Ég fer ekki út að hlaupa 10 km af því ég gúffaði í mig yfir sjónvarpinu.

Hins vegar finn ég það hressilega daginn eftir á minni líðan. Ég vakna með hálsbólgu og hausverk. Ég er orkulaus og þreytt. Líðan sem ég var með flesta daga fyrir nokkrum árum. Ég hef í alvöru pantað Covid test eftir sykurát þar sem þetta eru nákvæmlega sömu einkenni og Þríeykið segir alltaf: “pantaðu test við minnstu einkenni”.

Ég er búin að sætta mig við að ég og sykur eigum ekki samleið og ég þarf að innbyrða hann í litlum skömmtum.

Þetta snýst ekki um kíló

Núna sé ég alveg fyrir mér að einhverjum svelgist á kaffinu og þeir frussa út úr sér í réttlátri reiði. “Hvaða rugl er þetta. Það snýst allt um kíló hjá þér. Þú vigtar þig daglega og þú setur reglulega á Instagram hvað þú ert þung eða hvað þú ert búin að missa mörg kíló”.

Ykkur að segja, þá var þetta í fyrsta skipti sem ég tók ákvörðun um að gera breytingar sem snérust ekki um að komast í ákveðna þyngd, eða passa í ákveðna fatastærð. Ég vissi að ég yrði að gera breytingar þar sem núverandi lífstíll var hægt og rólega að ganga af mér dauðri.

Um leið og ég tók ákvörðun um að breyta um lífstíl tók ég líka ákvörðun um að þetta yrði að vera eitthvað sem ég gæti haldið út. Þetta mætti ekki vera átak. Það sló út allt sem ég hafði reynt áður.

Ég vildi ekki vigta matinn minn út ævina. Ég vildi ekki telja kalóríur. Ég nennti engan veginn að læra hlutföll af fitu, kolvetnum og próteinum í mat og ég veit ekki einu sinni hvað Macros gengur út á og nennti ekki að setja mig inn í það. Ég fór því frekar einfalda leið. Ég minnkaði ruslfæði, sykur, snakk og þess háttar og jók hollara fæði og fékk mér egg og avocado í morgunmat í staðinn fyrir te og ristað brauð með smjöri, osti og sultu.

Ein afleiðing af breyttu mataræði og meiri hreyfingu er sú að ég hef misst 30 kíló á þessum þremur árum. Er ég þá búin að vera í megrun í rúm 3 ár af því ég léttist?

Hvað ef ég viðheld þessum lífstíl út ævina? Er ég í megrun eða er ég mögulega að lifa lífinu eins og mér líður vel með

 

Hvenær á að byrgja brunninn?

Þegar ég var fertug eignaðist ég mitt 3ja barn. Meðgangan var flokkuð sem áhættumeðganga og því fékk ég mjög gott eftirlit. Ég var of þung. Ég var akkúrat jafnþung þegar ég varð ólétt að mínu þriðja barni og daginn sem ég átti mitt fyrsta barn. Á minni fyrstu meðgöngu þyngdist ég um 25 kíló sem er nú ágætis afrek þó að ég segi sjálf frá. Ég greindist með vott af meðgöngusykursýki í síðustu meðgöngunni og ákvað því að passa mig extra vel. Ég vildi að dóttir mín myndi fá bestu mögulegu meðgönguna. Ég tók því út alla fæðu sem hentaði ekki fyrir meðgöngusykursýki og það var í raun frekar auðveld ákvörðun. Það lá jú heilt líf undir. Meðgangan gekk síðan svona glimrandi vel. Hún fæddist eftir 9 mánuði og einn dag (eins og strákarnir) og var nett og fullkomin. Ég fór síðan aftur í gamla mataræðið, enda búin að passa mig í 9 mánuði og ekkert líf í hættu, eða hvað?

Þegar ég hugsa til baka hvernig mér gekk að byrja á nýjum lífstíl þá gerði ég í raun nákvæmlega sama og ég gerði þegar ég varð ófrísk af Sigrúnu Tinnu. Ég tók út ákveðin mat og setti inn annan mat. Á meðan allir geta skilið að kona vill passa sig gífurlega vel á áhættumeðgöngu, þá eru margir fljótir að dæma öfgarnar í mér með mataræði. Ég verði nú að slaka á stundum og leyfa mér smá hér og þar.

Hvers vegna eru það öfgar að passa framtíðar Ásdísi þegar það eru ekki öfgar að passa ófæddu Sigrúnu Tinnu? Hvers vegna eigum við svona erfitt með að setja okkar heilsu í fyrsta sæti?

Greenfit leysir vandann

Ég var búin að ná ansi góðum árangri í 2 ár þegar ég stoppaði. Ég hætti ekki bara að léttast ég byrjaði að þyngjast. Það voru ýmsar kenningar í gangi. “Þú ert farin að eldast og það hægir á brennslunni”. “Vöðvar eru þyngri en fita” ásamt fleiri gullkornum. Ég vissi hins vegar að það væri eitthvað að. Ég þyrfti bara að finna lausnina og hana fann ég hjá Greenfit

Hálfu ári eftir að ég fór í fyrstu mælinguna hjá Greenfit er ég ennþá að bæta mig. Ég er komin í kjörþyngd og núna er fókusinn á að styrkja mig og örbæta endalaust.

Mörgum finnst ég með járnaga sem þeir hafa ekki og geta því ekki tekið á sínum málum þó að þeir vildu. Ég er einfaldlega frávik að þeirra mati. Það er auðvelt að skýla sér á bakvið það. Ég gerði það í tuttugu ár. Ég veit að það er ekkert auðvelt að horfast í augu við sjálfan sig og segja “heilsa mín skiptir einfaldlega ekki nógu miklu máli til að setja hana í forgang.”

Ég var einu sinni með heimilislækni sem var með þessa mynd af veggnum hjá sér, akkúrat í augnhæð fyrir þá sem sátu á móti honum. “Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, þá hefur heilsan ekki tíma fyrir þig á morgun.”  Mér fannst þetta öfgafullt og nett fordómafullt. Hann vissi ekkert hvað ég var upptekin, hvað var mikið álag á mér, hvað ég vann mikið. Hvað var hann að setja sig á háan hest. Núna veit ég betur. Ef heilsan er ekki í forgangi þá þarf mögulega að forgangsraða upp á nýtt.

Með leiðbeiningum frá Greenfit missti ég 10 kíló á þremur mánuðum. Það gerðist áreynslulaust og alls ekki af ásetningi. Mitt markmið var einfaldlega að lækka hættuleg gildi í líkamanum og auka lífsgæði mín og framtíðarhorfur.

Ég lít ekki á þann lífstíl sem ég hef valið mér sem öfgar eða megrun heldur nauðsynlegan til að bæta heilsu mína og auka lífsgæði mín út ævina. Samt eru alls konar boð og bönn. Kannski er ég einföld en ég held að það sé mjög erfitt að breyta mataræðinu, bæta við hreyfingu og léttast ekki.

Nýtt líf og spennandi framtíðarsýn

Á þessum rúmu þremur árum sem mín vegferð hefur staðið yfir hef ég misst 30 kíló. Ég hef líka misst hæfileikann til að verða langrækin, velta mér upp úr fortíðinni og ergja mig á hlutum sem ég get ekki breytt. Ég hef týnt óteljandi steina upp úr mínum bakpoka og létt mun meira á mér andlega en líkamlega. Það var skrýtin tilfinning að komast í kjörþyngd eftir að hafa verið of þung í rúmlega tuttugu ár. Allt í einu fór ég að setja mér önnur og spennandi markmið sem tengjast úthaldi og styrk. Fyrir mér er þetta einfalt. Ég á einn líkama og ég ætla að hugsa eins vel um hann og ég get. Ein vél og hún þarf almennilegt bensín. Ég set ekki díselolíu á bensínbíl. Ég sé sjálfa mig fyrir mér að hlaupa upp Esjuna á sjötugsaldri, á fjallahjóli eða taka þátt í utanvegahlaupi. Það eru einfaldlega engin takmörk fyrir því hvað þú getur gert, aldur er bara tala.

Dagurinn sem allt breyttist var dagurinn sem ég ákvað að setja mig og mína heilsu, bæði líkamlega og andlega í algjöran forgang. Ég er heilbrigðari í dag. Ég er laus við bólgur og þrota og ég er í betra jafnvægi en ég hef nokkurn tímann verið. Ég hitti vinkonu mína á förnum vegi og hún sagði: “Það er svo mikil ró yfir þér.” Það er líklega fallegasta hrós sem ég hef fengið á ævinni og sýndi mér hversu langt hef ég er komin.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Tekist á við brekkuóttann á Ísafirði

Við Brynjar skelltum okkur á 4ra daga skíðagöngunámskeið á Ísafirði fyrstu vikuna í janúar. Við áttum reyndar bókað í febrúar í fyrra en komust aldrei á námskeiðið þar sem það var ófært á Ísafjörð með flugi. Vala og Daníel sem reka Hótel Ísafjörð og eru með námskeiðin voru ekkert að ergja sig á því og við fengum inneignarnótu fyrir öðru námskeiði. Það finnst mér mjög góð þjónusta. Ég var reyndar ekkert svakalega hress með að komast ekki á námskeiðið. Mér fannst lykilatriði að ná námskeiði á Ísafirði til að eiga möguleika á að bæta mig í Fossavatnsgöngunni 2020. Svo bregðast nú krosstré sem önnur tré og Fossavatnið féll niður og allt í einu átti ég inneign í skíðagöngunámskeið 2021 sem myndi nýtast mjög vel fyrir Fossavatnið 2021. Svona getur kona verið heppin þegar upp er staðið.

Ég steig í fyrsta skipti á gönguskíði 6. desember 2018 og var stútfull af ranghugmyndum út á hvað skíðaganga gekk. Ég hélt að þetta væri þægilegt stroll á jafnsléttu. Þetta væri svona 50 km kraftganga á skíðum. Í staðinn komst ég að því „the hard way“ að þetta er kapphlaup á skíðum upp og niður mis erfiðar brekkur. Ég þurfti að anda hressilega í bréfpoka við þessa uppgvötun og ef ég hefði ekki verið búin að deila þessu plani mínu að fara í Landvættinn út um allar trissur þá hefði ég líklega pakkað saman á fyrsta degi og gefið skíðin mín.

Það sem drepur þig ekki styrkir þig

Þessi ofnotaði frasi er samt svo fáránlega réttur. Með því að vita ekki almennilega hvað ég var að fara út í neyddist ég til að takast á við aðstæður sem ég hefði aldrei gert ef ég hefði vitað betur. Það fyrsta sem ég sá þegar ég var búin að setja á mig gönguskíðin á Ísafirði var brekkan ógurlega sem hræddi úr mér líftóruna síðast þegar ég kom.

Ég ákvað að rifja upp hvernig mér leið og las bloggið sem ég skrifaði um þessa lífsreynslu:

„Við vor­um lát­in labba upp brekku, mér fannst hún óþægi­lega há og svo þurft­um við að skíða niður hana aft­ur.  Mér leið eins og ég hefði verið sett upp á Esju, þetta var fár­an­lega há brekka á svona byrj­enda­nám­skeiði en eft­ir á að hyggja var hún meira eins og Himmel­bjer­get. Ég fór ekki fal­lega niður þessa brekku, rúllaði meira niður eft­ir að hafa dottið nokkr­um sinn­um. Svo vor­um við sett í stærri hring með miklu stærri brekk­um og meira að segja einni beygju.“

Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá þessa hræðilegu brekku. Þetta er ekki einu sinni brekka. Þetta er eiginlega meira eins og aflíðandi slakki með pínuponuslítilli hækkun. Veit ekki einu sinni hvort að þessi hækkun sé mælanleg á Strava. Þessi ofurlangi hringur reyndist vera ca 1 km og þessi miklu stærri brekka með beygju var líka mjög hófleg. Á þeim tíma sem ég sá þær fyrst fannst mér þær vera óvinnandi vegur og ég varð mjög stressuð þegar ég heyrði að brekkurnar í Bláfjöllum væru miklu stærri og miklu brattari. Innst inni var ég pínu sannfærð um að ég myndi aldrei ná tökum á gönguskíðum, hvað þá að geta klárað Fossavatnið. Mig langaði hins vegar miklu meira að klára Fossavatnið en að láta þessa innri rödd vinna þannig að ég gerði það eina sem var í stöðunni. Ég fór aftur og aftur og aftur á gönguskíði og í hvert skipti varð ég aðeins betri. Ég fór á fleiri námskeið og smátt og smátt leið mér betur í brekkum.

Hérna má lesa allt um hvernig gekk að byrja á göngu­skíðum og Fossa­vatnið 2019

Helvítis gjáin

Allir sem hafa lesið Ronju ræningjadóttur kannast við Helvítis gjána sem fáir þora að stökkva yfir. Mín helvítis gjá reyndist vera Bankastjórabeygjan. Ég kynntist henni á fyrra námskeiðinu mínu á Ísafirði, eða sko næstum því. Rifjum aðeins upp kynnin af henni.

„Næsta dag vor­um við sett í stærri hring og stærri brekk­ur og þá kom sér vel að hafa fleiri en einn kenn­ara.  Níu nem­end­ur fengu einn kenn­ara og svo fékk ég minn einka­kenn­ara, hvers vegna var það? Jú, loft­hræðslan tók völd­in, ég fraus í brekk­unni og þurfti eig­in­lega að skríða niður hana og fór svo bara ann­an hring en hinir.“

Þetta var hin umrædda Bankastjórabeygja. Flestar skíðagöngubeygjurnar bera ákveðið nafn til heiðurs þeim sem á flottasta fallið í beygjunni og yfirleitt fengið gott beinbrot í leiðinni. Allar beygjunar nema Alsgaardbeygjan sem heitir í höfuðið á Thomas Alsgaard sem fór svo hratt í gegnum beygjuna að elstu menn muna ekki annað eins. Ég bíð „spennt“ eftir Fasteignasalabeygjunni.

Ég vissi alveg að ég þyrfti að fara í Bankastjórabeygjuna á þessu námskeiði. Hún er hluti af hring sem er alltaf farinn. Ég var samt ekkert alveg viss um hvernig það myndi ganga. Myndi ég horfast í augun á óttanum og sigra hana eða myndi hún sigra mig aftur?

20210108_164549Á öðrum degi á námskeiðinu var skítaveður seinni partinn. Það var ekki svo kalt en það var snjókoma og mikill vindur. Eftir svolítinn tíma sagði Heimir skíðakennari. Þið eruð svo frábær hópur. Ef þið treystið ykkur til þá getum við farið hærra og farið niður Bankastjórabeygjuna. Bankastjórabeygjuna, helv. bankastjórabeygjuna. Ég er ekkert viss um að ég sé komin á þann stað í lífinu að þora niður Bankastjórabeygjuna. Ég man ennþá þennan óstjórnlega ótta sem greip mig síðast þegar ég fór í hana. Þessi tilfinning að hafa ekki stjórn á neinu og vera í raun skíthrædd um líf sitt og limi. Ég leit á Brynjar og spurði mjög slök. Langar þig að fara lengra? Hann hélt það nú. Hann var alveg í stuði til að fara lengra. Ég ákvað því að girða mig í brók og fara með hópnum. Það fór nú samt alveg um mig þessi hugsun að það væri ansi stutt í skíðaskálann og lítið mál að fara þangað ein og bíða eftir hópnum. Mér fannst það samt of mikil uppgjöf. Ég meina, ég er búin að ganga Fossavatnið. Við fórum því áfram og komum loksins að brekkunni þar sem Bankastjórabeygjan er. Sem ég stóð þarna uppi fannst mér hún líta furðulega sakleysislega út. Það var að vísu ekkert spor og þetta var æfing í plóg en samt, mér fannst hún virka mjög viðráðanleg. Ég lét því slag standa og skellti mér í plóg. Kom niður standandi og þegar ég hitti aftur á Heimi spurði ég hann hvort að brekkan væri virkilega búin. Jú, komin niður. Já há, helvítis gjáin var þá ekki meira mál en svo að ég stóð hana niður og fannst hún viðráðanleg.

Hvað kennir þetta okkur? Til að ná árangri er víst best að æfa sig aftur og aftur og aftur og allt í einu getur þú það sem þú hélst að væri ómöguleiki.

Hin heilaga snjókúla

Við vorum samt á báðum áttum með að fara á þetta námskeið. Við höfum passað okkur vel í Covid, farið eftir fyrirmælum og það virkaði mögulega óskynsamlegt að fara á gönguskíðanámskeið á Ísafirði. Vala sendi nokkra upplýsingapósta sem róuðu okkur og sýndu okkur að það væri farið eftir öllum sóttvörnum og gott betur. Þrátt fyrir að það væru ca 40 manns bókaðir á námskeiðið þá var hópnum skipt upp í 10 manna snjókúlur sem sköruðust hvergi. Við vorum öll með okkar einkakennara. Matsalnum var skipt upp og snjókúlurnar fengu úthlutaðan tíma í matsal, rútu og kennslu þannig að hver kúla blandaðist aldrei við aðra kúlu. Ég er ekki einu sinni viss um að ég gæti þekkt mína kúlu á förnum vegi þar sem við vorum annað hvort varin með gleraugum og buffum á skíðum eða með grímum í rútunnni og matsalnum. Þannig að ég get ekki annað en mælt heilshugar með því starfi sem er unnið á Ísafirði og hvernig þau stóðu að öllu. Kennarinn okkar Heimir var stútfullur af fróðleik og fljótur að lesa hvern nemanda og leiðbeina hvernig við gætum bætt okkur. Það sem ég tek með mér heim eftir þetta námskeið er að ég þarf að bæta mig í að ganga upp brekkur og ýtingar. Ekki misskilja, ég þarf að bæta alla þætti. Þetta eru bara þeir tveir þættir sem ég þarf að bæta mest. Ég á til að ofhugsa ef ég reyni að laga allt í einu þannig að ég set fókusinn á þetta á næstunni.

Hvað á að taka með sér á skíðagöngunámskeið?

Síðast þegar ég fór þá sótti ég í viskubrunn Hildu vinkonu sem hafði á allskonar námskeið sem og keppnisferðir. Hún hafði þetta stutt og laggott. Taktu bara nóg af útivistarfötum með þér. Fínt að hafa til skiptana þegar við svitnum. Ég skildi reyndar ekkert hvað hún talaði um þegar hún sagði, svitna. Ég sagði á móti, ég svitna aldrei. 2 árum seinna er ég komin í mun betra form og æfi af meiri ákefð og geri eins og allir aðrir, ég svitna helling. Í desember 2018 dugði lítill bakpoki fyrir öll mín útivistarföt. Ég átti ekki einu sinni til skiptanna. Í janúar 2020 var ég búin að bæta úr því og ákvað því að taka bara nógu mikið með mér. Ég pakkaði í stóra tösku og tók allt með sem mér datt í hug að ég gæti notað. Eftir á hyggja notaði ég svona 30% af því sem ég pakkaði niður. Þannig að mögulega þarf ég eitthvað að endurhugsa að taka ALLT með mér.

Hvað er framundan?

Það eina sem ég var virkilega ósátt við á þessu námskeiði er að Brynjar bætti sig miklu meira en ég og er í raun orðinn betri en ég á gönguskíðum. Hann er fljótari að fara upp brekkur en ég er miklu betri í plóg.

Hvað gerir kona þá? Jú, hún skráir sig á annað námskeið á Ísafirði með vinkonum og „gleymir“ að láta kærastann vita.

Næsta mál á dagskrá. Mæta eins oft og ég get í Bláfjöll og vonandi Heiðmörk líka. Æfingin skapar meistarann og mér finnst stórkostlegt að geta örbætt mig aftur og aftur og aftur og allt í einu geta hluti sem ég hélt að ég myndi aldrei ná tökum á. Einnig að fara á annað námskeið á Ísafirði og mastera ýtingar og ganga upp brekkur.

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 


400 æfingar 2020

Þann 29. desember náði ég einu af markmiði ársins 2020 sem var að klára 400 æfingar á árinu.
Þegar é20201224_203016g setti þetta markmið þá fannst mér það ekki mikið mál. Ég var að æfa fyrir Landvættinn, fyrir þríþraut og hálfan járnkarl. Það er í raun og veru ómögulegt að taka mikið færri æfingar þegar þú ert með 4 mismunandi greinar og þær skipta allar jafnmiklu máli. Auk þess tók ég oft brick æfingu á bretti eftir innihjól þannig að suma daga voru þetta 3 æfingar. 400 æfingar á ári eru ekki nema 33 æfingar á mánuði þannig að ég vissi að þetta yrði lítið mál.
Svo fór að halla undan fæti. Covid kom og innihjólin og hlaupabrettin lokuðu. Sundlaugin lokaði. Þríþrautarmótið var fellt niður. Landvættarmótin féllu niður. Hálfi járnkarlinn féll niður. Ég datt á hjóli og lenti í gifsi. Sundlaugarnar og inniræktin lokuðu aftur. Ég íhugaði að lækka markmiðið en mér fannst það alltof mikil uppgjöf. Vildi ekki breyta markmiðinu heldur finna aðra leið að því.

Ég er í hreyfihóp með fasteignasölum í Bandaríkjunum og ákvað að leggja allt undir. Sendi á hópstjórann að ef ég klikkaði þá myndi ég borga henni 1.000 dollara. Þá var gengið minnir mig 145. Hún sendi til baka. “Ég vil ekki þennan pening en ef þú klikkar þá greiði ég hann til samtaka sem þú hatar”. Niðurstaðan var einföld. Ef ég kláraði ekki 400 æfingar myndu hvítir öfgamenn í Bandaríkjunum fá 1.000 dollara styrk. Í haust datt ég úr stuði og leyfði Covid að yfirtaka mig tímabundið. Reglulega sendi Cari mér skilaboð. “Ásdís ég sé að þú ert aðeins á eftir. Hvernig gengur, ég vil ekki þurfa að greiða þessa peninga áfram.” Þessi skilaboð voru það sem ég þurfti. Ég fór að bæta við kvöldgöngum og allt í einu datt ég í gírinn. Ég veit að ef ég hefði ekki haft þetta markmið hefði ég slakað mun meira á.

Hvaða æfingar er ég að stunda?

Gönguskíði, sund, hlaup, hjól, styrktaræfingar í Ultraform, Mobility hjá Sigursteini, sjósund og fjallgöngur. Svo finnst mér frábært að fara í léttar heilsubótargöngur inn á milli og hlusta á góða hljóðbók.

Gönguskíðin.

Ég kynntist þeim þegar ég skráði mig í Landvættina. Ég hélt í fávisku minni að gönguskíði væri létt stroll á jafnsléttu og þau væru því einfaldasta greinin af þeim öllum. Það kom í ljós að gönguskíði eru minnst á jafnsléttu. Þetta eru misskelfilegar brekkur og mikil tækni sem þarf að tileinka sér. Ég fór á byrjendanámskeið á Ísafirði með henni Hildu vinkonu og fékk nett áfall þegar ég var látin fara í gífurlega brattar brekkur fyrsta daginn. Þegar ég lít til baka þá voru þær líklega meira eins og Himmelbjerget þó að ég upplifði þær eins og Everest. Hef gaman að því að rifja upp þennan pistil. Mér finnst eins og það séu ljósár síðan hann var skrifaður en þetta var bara í fyrra. 

Ég hafði smá áhyggjur af því að gönguskíðin mín væru ekki lengur passleg. Þau eru miðuð við þyngd og ég bað því Óskar í Sportval að kanna stöðuna. Ég hafði greinilega verið fyrirhyggjusöm þegar ég keypti þau þar sem þau voru fyrir 60-72 kg. og var því á fullkomnum skíðum núna. Óskar sagði að ef eitthvað þá myndi ég renna miklu betur í dag en í fyrra þannig að ég þakka fyrir að ég kann að fara í plóg í beygjur. Sumir vilja mögulega ekkert fara of hratt í allar beygjur.

Sundið

Elsku sundið.  Hvað get ég sagt. Það tók mig 2 mánuði að geta synt 50 metra í einu. Í hvert skipti sem ég dett út þá tekur það mig ótrúlega langan tíma að ná upp fyrri “færni”. Fólk talar oft um vöðvaminni. Oft þegar fólk byrjar að æfa aftur eftir langa pásu þá er það ótrúlega fljótt að komast aftur í gamla gírinn. Vöðvarnir gleyma þessu aldrei. Mínir sundvöðvar eru með gullfiskaminni. Þeir kannast voðalega lítið við hreyfingar sem eru þó ekki nema nokkurra vikna gamlar. Ég tók því þá ákvörðun að sætta mig við að ég myndi aldrei synda mjög hratt. Ég get hins vegar synt lengi og það er minn styrkur. Ég er svo heppin að ég ætla aldrei að verða afreksíþróttakona heldur er minn fókus á að bæta mig jafnt og þétt. Reyndar tel ég að ég eigi góða möguleika á að vinna aldursflokkamótin þegar ég verð 70 ára og allir aðrir eru farnir að spila golf. Það er amk mitt plan í dag. Allt um hvernig gekk að læra skriðsund og fleira 

Hlaup

Þegar ég skráði mig í Landvættina þá var hlaup í raun það eina sem ég kunni. Ég hafði mest hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst 2018 og hafði byrjað að hlaupa í maí 2018. Þá var formið ekki betra en svo að ég gat hlaupið á milli ljósastaura. Það er furðulegt að líta til baka og sjá hversu langt er hægt að komast á stuttum tíma. Ári eftir að ég byrjaði að hlaupa kláraði ég 32 km utanvegahlaup sem var Jökulsárhlaupið og stuttu áður hafði ég hlaupið bæði Þorvaldsdalsskokkið sem og Fimmvörðuhálsinn sem eru 25 km. Í dag elska ég að hlaupa og hlaupin eru stór hluti af mér. Ef ég mætti bara velja eina grein til að stunda þá yrðu það hlaupin. Samt hélt ég lengi vel að ég hataði hlaup. 

Hjól

Ég var svo heppin að skrá mig í hjólreiðadeild Breiðabliks og það hefur alltaf verið ein mín mesta gæfa þegar kemur að hreyfingu. Hjólreiðadeildin er stútfull af frábæru fólki sem er alltaf tilbúið að leiðbeina og hjálpa. Það er einhvern veginn þannig að þeir sem eru betri en þú eru alltaf tilbúnir að aðstoða. Þetta gekk samt ekki áfallalaust. Ég byrjaði á innihjólaæfingum og það tók mig ca mánuð að læra að festa hjólaskóna á hjólið, stilla hjólið, læra í hverju á ekki að vera í hjólabuxunum og sittlítið af hverju. Smátt og smátt kom svo færnin. Síðan fór ég á útiæfingar og komst að því að mér finnst gífurlega gaman að hjóla, bæði á racer og fjallahjóli

Ultraform

Eins og með margt annað frábært í mínu lífi þá kynntist ég Ultraform í gegnum Halldóru Gyðu vinkonu. Hún hefur verið óþrjótandi viskubrunnur og aðstoðað mig gífurlega mikið með hreyfingu. Ég væri ekki komin eins langt og ég er komin án hennar. Ég vissi að ég yrði að fara að bæta við styrk en var ekki alveg búin að finna hilluna mína. Eftir fyrsta tímann hjá Sigurjóni Erni þá vissi ég að ég var komin á mína hillu. Þessir tímar eru sambland af styrk og úthaldi og ég fann gífurlegan mun á mér eftir nokkrar vikur og það sást m.a.s. glitta í upphandleggsvöðva. Eftir að líkamsræktarstöðvunum var lokað þá kom Ultraform til okkar. Sigurjón lánaði allar græjur til meðlima og heldur úti fjarþjálfun á Facebook.

Sjósund

Þarna er ég algjör grænjaxl og á ansi mikið ólært hér. Ég fór samt í Nauthólsvík nokkrum sinnum í fyrra og náði mest að vera held ég 30 mínútur í sjónum. Fór líka einu sinni í Elliðavatn með vinum og fannst þetta gífurlega gaman. Ég ætla ð vera duglegri á næsta ári enda þarf ég þess til að massa Urriðavatnssundið. Ég þurfti að endurnýja sundgleraugun og setti inn óformlega skoðanakönnun meðal sundfélaga og MP gleraugun sem fást í Hafsport fengu flest atkvæði. Þegar ég hef lítið vit á hlutunum þá fer ég eftir meirihluta. Ég skellti mér því í Hafsport og endaði á því að kaupa mér forláta gleraugu sem nýtast líka í sjó- og vatnasundi. Þarna fékkst líka allskonar annað dót fyrir sjósund og ég endaði með forláta skó og hanska og flotholt. Það var líka til annað flotholt sem nýtist í kvöldsund. Mér fannst engin þörf á því. Ég er ekki týpan sem fer í kvöldsund nema það sé albjart. Ég þurfti einu sinni að fara í kvöldköfun þegar ég var að læra köfun í Honduras og það dugði mér út ævina. Ég ræddi þetta aðeins við Þorvald eiganda Hafsports, hann sagði á móti að honum finndist kvöldköfun gífurlega skemmtileg. Þá kom í ljós að við vorum einmitt búin að kafa næstum því jafnlengi. Eini munurinn á okkur var að hann lærði köfun 1992 og er búin að kafa viðstöðulaust síðan. Ég lærði köfun 1993 og hef ekki kafað eftir það.

Fjallgöngur

Ég er farin að elska fjallgöngur. Einu sinni langaði mig að elska fjallgöngur en formið var ekki að vinna með mér. Það besta sem ég átti var að komast upp að merki 2 á Esjunni. Einnig var lofthræðslan að hamla mér gífurlega. Eftir að ég komst í gott form og fór í dáleiðslumeðferð gegn lofthræðslu hef ég lært að elska fjallgöngur og í sumar fór ég m.a. á Vífilsfell og Móskarðshnúka sem var eitthvað sem gamla ég hefði aldrei getað.

Mín eigins þríþraut

Ég var skráð í Ólympíska þríþraut og hálfan járnkarl á árinu. Til að vera alveg hreinskilin þá varð ég flökurt þegar ég skráði mig í þessar þrautir en mér varð líka flökurt fyrir Þorvaldsdalsskokkið, Fimmvörðuhálsinn, Bláalónið, Urriðavatnið, Fossavatnsgönguna og meira að segja 5 km Suzukihlaupið og 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþonið. Það má líklega segja í hvert skipti sem ég stækkaði þægindarammann þá byrjaði það með ógleði og “HvaðíAnd...ErÉgAðGera”. Alltaf hef ég þó lifað af og alltaf hefur þetta verið gaman. Svo voru þessar þrautir blásnar af. Ég fékk því þessa skyndihugmynd að halda mitt eigins þríþrautarmót milli jóla og nýárs. Ég kynnti mér þrautina og sá að þetta væru 1.500 m skriðsund, 40 km hjól og 10 km hlaup. Ég byrjaði á sundinu. Tíminn var hörmulegur en ég kláraði sundið og ákvað að botninum væri náð tímalega séð (sagði það líka síðast þegar ég synti, einhvern tímann mun ég hafa rétt fyrir mér). Skellti mér svo heim og hjólaði 40 km á innihjólinu sem tók ca 90 mínútur. Að lokum hljóp ég 10 km. Þetta gekk vonum framar og ég verð að segja að ég var bara frekar montin af mér að hafa getað þetta. Allt í einu stækkaði þægindaramminn til muna og ekki minnkaði gleðin daginn eftir þegar ég vaknaði með engar harðsperrur eða óþægindi eftir þessar 3 æfingar. Það er einnig gaman að segja frá því að ég rústaði þessu móti.

Frelsið að keppa við sjálfa sig

Það er gífurlegt frelsi að vera eingöngu að keppa við sjálfa sig. Mér er alveg sama hvort að ég lendi í sæti 500 eða 250 af 600. Mín keppni snýst um líkama fyrir lífið og ég er búin að átta mig á því að þegar ég æfi á lágu álagi þá minnka ég líkurnar á álagsmeiðslum og veseni. Eitt það besta sem ég gerði fyrir mig á þessu ári var að fara í ástandsskoðun hjá Greenfit og fá minn persónulega æfingapúls. Ég var smá stund að fatta út á hvað hann gekk. Hilda vinkona fór líka og fékk sinn púls. Við áttum báðar að æfa á zone 2 og með svipaðan púls. Ég sagði: “frábært, þá getum við æft saman”. Hilda brosti og sagði. “Það er ekki víst að þinn púls sé eins og minn þó að við séum með sömu tölur.” Við Hilda vorum báðar á máladeild en stundum er hún aðeins klárari en ég þegar kemur að tölulegum upplýsingum tengdum íþróttum.

Hvað er ofþjálfun?

Margir hafa áhyggjur af því að ég æfi of mikið og ég skil það. Þetta virkar ansi mikið að taka 1-2 æfingar á dag, 6 daga vikunnar. Það sem er mikilvægt að hafa í huga er að ég er ekki afreksíþróttakona og hef engan metnað í að verða slík. Ég er því ekki að æfa með það markmið að ná einhverjum ofurtíma og sprengja mig til að ná þeim markmiðum. Ég held að ef ég væri að stefna að einhverjum árangri sem slíkum væri þetta miklu erfiðara. Mögulega væri ég búin að gefast upp þar sem ég verð aldrei á neinum topplistum og svekkelsið að vera búin að leggja gífurlega mikið á mig til þess eins að ná aldrei þeim árangri hefði mögulega yfirbugað mig. Þetta varð allt svo auðvelt þegar ég ákvað að mitt eina markmið væri að keppa við sjálfa mig og örbæta mig reglulega. Ég er með mitt plan en það er ekki meitlað í stein, heldur meira svo viðmið. Ef ég er þreytt þá hvíli ég aukadag. Hreyfing er mitt áhugamál og mér finnst þetta gífurlega gaman. Ég held samt að lykilinn liggi í lágu æfingaálagi. Ég fer í Mobility einu sinni í viku til að læra að beita mér rétt og gera teygjuæfingar. Ég fer líka reglulega í nudd og sjúkraþjálfun þannig að ég passa vel upp á líkamann. Ég hef verið gífurlega heppin og ekki lent í neinu hnjaski. Ég held að það stafi að hluta til að ég æfi á lágu álagi og svo hitt að mínir vöðvar eru ekkert svo mikið notaðir. Ég byrjaði að hreyfa mig af alvöru 2018 þannig að þeir eru bara tæplega 3ja ára í notkunaraldri.

Þegar kemur að hreyfingu þá er lykilinn að finna eitthvað sem þú elskar. Markmið og örbætingar virka fyrir mig. Trixið er að finna hvað virkar fyrir þig.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Hvað er heilsusmánun?

Til að vera alveg hreinskilin þá veit ég ekki alveg hvort að þetta orð sé til í íslenskri tungu eða hvort að ég sé að búa til nýyrði. Eins og með margt annað þá fer ég mínar leiðir.

Ég er búin að vera lengi á leiðinni að skrifa þennan pistil en núna get ég ekki lengur setið á mér. Áður en þú hugsar, óttalega er konan pirruð ætli hún sé að byrja á túr þá er svarið alls ekki. Fór í legnám 2016 og því laus við það leiðindavesen.

Alveg frá því að ég byrjaði að breyta um lífstíl hef ég fengið að heyra það reglulega hvað þetta séu miklar öfgar hjá mér og þetta sé kannski ekki svakalega góð hugmynd.

Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef fengið vel meinandi athugasemdir sem byrja svona:
Ég ætla ekki að vera leiðinleg/ur EN
Nú er ég engin sérfræðingur EN
Þú mátt ekki fara framúr þér
Þú átt bara einn líkama
Er þetta ekki full öfgafullt hjá þér?
Er ekki betra að sníða sér stakk eftir vexti?

Það er gott að hafa á bakvið eyrað að þetta eru allt óumbeðnar athugasemdir frá vel meinandi aðilum. Svo eru það athugasemdirnar sem ég heyri útundan mér sem eru ennþá meira krassandi.

Hvað eru óumbeðnar athugasemdir?

Allar athugasemdir sem koma EKKI í kjölfarið á spurningu frá mér sem byrjar á HVAÐ FINNST ÞÉR?
Nokkrar klassískar eru:
Þú vaknar of snemma!
Þú sefur of lítið!
Þú æfir of mikið!
Er ekki komið nóg, þarftu að grennast meira?

Ég heyrði hins vegar aldrei neitt af neðantöldu þegar ég var 95 kg og stundaði enga hreyfingu:
Þú sefur of lengi!
Þú ferð of seint í rúmið!
Þú þarft að hreyfa þig meira!
Ætlar þú virkilega að borða þetta allt?
Er ekki nóg komið. Þarftu ekki að fara að gera eitthvað í þínum málum?

Hvers vegna gagnrýnir fólk frekar aktívan lífstíl og kjörþyngd frekar en kyrrsetu og ofþyngd?
Ég hef velt þessu fyrir mér alveg síðan ég breytti um lífstíl. Hvers vegna finnst mörgum þetta svona miklar öfgar hjá mér og hvers vegna þeim finnst þörf á því að hafa vit fyrir mér? Leiðbeina mér góðlátlega eingöngu af því að ég fer út úr þeirra þægindahring. Ég á vin sem er fallhlífastökkvari. Aldrei myndi það hvarfla að mér að benda honum á að fallhlífastökk geti verið mjög hættulegt bara af því að mér finnst það ógnvekjandi. Ég lít svo á að þetta sé hans líf og hans að taka ákvarðanir hvernig hann vill lifa því.

Froskurinn sem klifraði upp súluna

Ein uppáhaldsdæmisagan mín er af froskum sem bjuggu saman í þorpi. Í miðju þorpinu var há súla sem margir froskar höfðu reynt að klifra upp en aldrei tekist. Í hvert skipti sem einhver reyndi það söfnuðust allir froskarnir saman (gerðist pottþétt ekki 2020 enda voru þeir fleiri en 10) og hópurinn fór að viðra sína skoðun. Þú getur þetta aldrei, þetta er svakalega hátt, þú átt eftir að detta, ÞAÐ HEFUR ENGINN GETAÐ ÞETTA. Allir froskarnir sem reyndu duttu niður og hópurinn hafði sér fyrir sér. Hvers vegna að reyna? Það hefur enginn getað þetta. Einn daginn sáu froskarnir að lítill froskur var byrjaður að klífa súluna og þeir hófu upp sama sönginn. Aldrei þessu vant hélt litli froskurinn áfram að klífa og alveg sama hvað aðrir sögðu, hann hélt áfram. Hægt og rólega mjakaðist hann upp og loksins náði hann upp á topp. Þegar hann kom niður hópuðust froskarnir í kringum hann og vildu vita hvað leyndarmálið var.  Hvers vegna gat hann það sem enginn annar gat? Þá kom í ljós að froskurinn var heyrnarlaus og gat því ekki heyrt fortölur annarra.

Eftir að ég ákvað að verða froskurinn og loka eyrunum fyrir óumbeðnum athugasemdum hefur allt gengið miklu betur. Ég þarf ekki lengur að velta mér upp úr þessu. Hvað ef þau hafa rétt fyrir sér, hvað ef ég get þetta ekki, hvað ef ég er að fara fram úr mér, hvað ef ég borða vitlaust, HVAÐ EF....

Það er átak að byrja á nýjum lífstíl

Ég ræði stundum við vini mína hversu þreytt ég er á þessum óumbeðnu athugasemdum. Að ég þurfi stöðugt að vera að réttlæta mitt líferni og mínar ákvarðanir fyrir öðrum. Þau segja yfirleitt. Það er einmitt svo flott hjá þér, þú svarar svo vel fyrir þig og stendur með þér. Já í dag geri ég það og í dag hefur þetta miklu minni áhrif á mig en samt í hvert skipti sem ég fæ svona óumbeðna athugasemd sest pínkuponsulítill efasemdarpúki á öxlina á mér og hvíslar. “Hvað ef þau hafa rétt fyrir sér”. “Hvað ef” segi ég á móti, “ég reyni þá bara aftur” og hristi hann af mér.

Hann var ekki alltaf svona lítill. Þegar ég byrjaði mína vegferð var hann stór og pattaralegur sem sligaði mig og öskraði að þau hefðu rétt fyrir sér, að ég gæti þetta pottþétt ekki. Ég var stútfull af efasemdum um hvað ég gæti og allt sem ég gerði efaðist ég. Þegar ég skráði mig í Landvættina þá vissi ég alveg að ég væri í ömurlegu formi en ég ræddi við nokkra. Sumum fannst þetta galin hugmynd en þeir sem höfðu gert þetta áður studdu mig. Arna Torfadóttir sagði þetta svo vel, “ef þú vilt þetta getur þú það”. Hilda vinkona sem hefur staðið eins og klettur með mér allan tímann sagði “þetta er ekki auðvelt og þetta verður hellings vinna”. Ég vissi það alveg. Hún sagði hins vegar aldrei, “þú getur þetta ekki, þetta er of mikið fyrir þig”.

Það er gífurlega mikið átak að hefja nýjan lífstíl og þeir sem fara þá leið þurfa á stuðningi að halda, ekki gagnrýni og niðurrifi.

Hættu að deila á Samfélagsmiðlana ef þú höndlar þetta ekki!

Jú, þetta er ágætispunktur. Ég nota mína samfélagsmiðla sem dagbók. Instagrammið mitt er dagbókin mín. Mér finnst gaman að sjá hvað ég var að gera fyrir ári og/eða í síðasta mánuði. Margir hafa samband við mig til að láta mig vita að þetta efni sé hvetjandi fyrir þá og mér þykir alltaf gífurlega vænt um það. Svo eru aðrir sem eru minna hrifnir og láta mig líka vita af því. Samfélagsmiðlar eru samt svo þægilegir að þeir eru valfrjálsir. Ef eitthvað efni pirrar fólk þá er best fyrir sálartetrið að hætta að skoða efnið.

Heilsusmánun vs fitusmánun

Í dag er viðurkennt að fitusmánun er ömurleg og mér finnst það mjög jákvætt framfaraskref. Hvers vegna er heilsusmánun þá í lagi? Hvers vegna er í lagi að gagnrýna fólk fyrir að lifa of heilbrigðum lífstíl (hvaða mælikvarði er í gangi og hver ákvað það) á meðan það er bannað að gagnrýna kyrrsetulífstíl?
Hvers vegna má gagnrýna fólk fyrir að vera of grannt á meðan það má ekki gagnrýna fyrir að vera of feitt?

Þú værir betri með aðeins meira utan á þér!

Ég er með allskonar vini á Facebook og ein setti inn mynd af sér á Facebook í nýja jólakjólnum. Þetta er kona sem er búin að vinna mikið í sér, taka til í sínu lífi bæði andlega og líkamlega og létta sig um tugi kílóa. Hún var stórglæsileg í kjólnum. Flestar athugasemdir sem hún fékk voru mjög jákvæðar og svo voru það þessar:

Stórglæsileg kona í grennri kantinum.

Ég bara verð að segja eins og er þá finnst mér þú Jóna mín þú vera flottari með smá utaná þér

Ef þessi kona hefði verið búin að bæta á sig tugum kílóa hefði einhverjum dottið í hug að kommenta. “Fallegur kjóll en hann myndi fara þér betur ef þú værir ekki svona feit”. Vonandi ekki, það sér hver heilvita maður og kona að það sé bæði meiðandi og særandi.Það gleymist oft að margir eru grannir að eðlisfari og geta ekki þyngt sig sama hvað þeir reyna. Svona athugasemdir eru alveg jafnsærandi hvort sem þú ert grannur eða ekki.

Passaðu þig að hverfa ekki!

Eftir að ég grenntist hef ég ekki tölu á því hversu oft ég heyrt “Passaðu þig á því að hverfa ekki”. Hvert heldur fólk að ég hverfi? Að ég þekki Harry Potter og hann hafi lánað mér huliðsskikkjuna sína og ég geti því horfið að vild. Hvað þýðir eiginlega ekki hverfa? Get ég orðið svo mjó að ég gufi upp einn daginn? Getur það gerst að ég verði svo létt að ég verði eins og biðukolla og í næstu vindkviðu muni ég fjúka út í buskann.

Ég las einu sinni bók um mann sem fann upp ferðaklefa. Þetta var algjör snilld og hefði nýst vel í ár. Þú fórst inn í svona símaklefa, valdir staðsetningu og svo varstu færður þangað á ljóshraða. Flugvélar urðu óþarfar. Svo dag einn fór fólk að hverfa í orðsins fyllstu merkingu út um allan heim. Það sat kannski við matarborðið sitt og hvarf. Þegar ferðaklefarnir voru rannsakaðir kom í ljós að við hverja ferð var í raun búið til ljósrit af manneskjunni og frumritið eyðilagðist. Ljósritin þoldu bara ákveðin fjölda afrita og svo urðu þau ónýt. Kannski er fólk að segja að ég sé ljósrit?

Ég hef meira að segja fengið að heyra. Þú mátt nú alls ekki missa meira, frekar að þú þyrftir að bæta aðeins á þig. Það myndi líklega einfalda lífið til muna ef það væri hægt að búa til einn alheimsstaðal sem við pössum öll inn í.

Hvað má þá segja?

Þessi setning, ef þú hefur ekkert jákvætt að segja er betra að þegja á alltaf við, ekki bara þegar þér hentar. Til að auðvelda þetta eru hér nokkrar æfingar.Ef þér finnst setningin óviðeigandi með of þungur eða of feitur þá er líka óviðeigandi að nota of léttur eða of grannur.

Tökum dæmi. Þú verður að borða meira, þú ert orðin alltof grannur er jafnóviðeigandi og þú verður að borða minna þú ert orðinn alltof feitur.


Þú mátt ekki hverfa / Þú mátt ekki springa úr spiki
Ætlar þú ekki að fá þér meira? / Ætlar þú virkilega að borða allt þetta?
Þú hreyfir þig alltof mikið / Þú verður að hreyfa þig meira
Mér finnst þú fallegri með meira utan á þér / Þú værir fallegri ef þú værir ekki svona feit
Þessi kjóll færi þér betur ef þú værir ekki svona grönn / þessi kjóll færi þér betur ef þú værir ekki svona feit

Aðgát skal höfð í nærveru sálar gildir alltaf óháð líkamsþyngd. Líkamsvirðing er fyrir alla ekki suma.

Of aktíft fólk, pínu óþolandi ekki satt?

Ég þekki marga sem eru komnir yfir sextugt og eru í gífurlega góðu formi. Svo góðu að ég lít á þau sem mínar fyrirmyndir. Hvernig ég vil verða þegar ég verð sextug. Ég ræddi þetta við eina konu og ég sagði henni hvað mér finndist hún frábær fyrirmynd. Þá sagði hún: “ég er nú eiginlega hætt að deila því sem ég geri á Facebook þar sem ég fæ svo mikla gagnrýni á alla þessa hreyfingu”. Hvað er málið með það? Hefur einhver fengið gagnrýni fyrir að setja inn of margar myndir í notalegheitum, of mörg matarboð, aðeins að tríta sig, upp í bústað að slaka sér. Hinsvegar ef þú setur inn of margar hreyfimyndir þá færðu skammir? Þarf ekki eitthvað að skoða þetta?

Hver er munurinn á því að smána mig fyrir að hreyfa mig of mikið eða smána mig fyrir að hreyfa mig ekki neitt?
Hvers vegna er það viðurkennt að það sé í lagi að tríta sig smá (mjög loðin þessi skilgreining á smá) en það sé öfgafullt að borða ekki sykur.

Það þarf að njóta. Bolludagurinn kemur bara einu sinni á ári. Líka afmælið mitt, afmæli allra hinna sem ég er boðin í, páskarnir og páskaeggin, aðventan, jólaboðin, jólamaturinn, konudagurinn, bóndadagurinn, 17. júní og svo yndislega sumarið með öllum sínum grillveislum og hittingi.

Ef ég hefði hlustað á allar úrtöluraddirnar þegar ég var að byrja að hreyfa mig og breyta um mataræði þá væri ég ekki búin að ná þeim árangri sem ég hef náð í dag. Líklega hefði ég gefist upp eina ferðina enn og væri ennþá 95 kg. sófakartafla nema mögulega væri ég aðeins þyngri.

Hvernig væri að við myndum leyfa öllum að breiða út sína vængi og fljúga eins hátt og þeir vilja, ekki bara þeim sem fljúga innan þíns þægindaramma.

Það hafa allir rétt á að vera þeir sjálfir

Mig langar að ljúka þessum pistli með orðum Erlu Gerðar Sveinsdóttur læknis.

Heilsusmánun er frábært nýyrði en reyndar sorglegt að það þurfi að vera til. 
Holdafar fólks er ekki eitthvað sem öðrum kemur við -  i hvaða átt sem er.
Sama gildir um lífsstíl. Það er aldrei hægt að gera svo öllum líki og ekki þess virði að reyna það.
Kúnstin er að finna það sem hentar okkur sjálfum á hverjum tíma og standa með sjálfum sér.
Mikilvægt er að geta rætt sitt holdafar og lífsstíl við fagfólk í heilbrigðiskerfinu og fengið góð ráð sem veitt eru af virðingu fyrir vali hvers einstaklings.

Því miður er enn að finna fordóma og vanþekkingu í samfélaginu sem einnig finnst sumstaðar innan heilbrigðiskerfisins en ég er bjartsýn á að með aukinni þekkingu heyri það sögunni til.

Sýnum okkur sjálfum og hvort öðru virðingu. 

Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Heilsa er ekki heppni!

24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit.

Ég var búin að bíða eftir þessum degi með kvíðablandinni eftirvæntingu. Þetta var ekki ósvipað og stressið fyrir lokaprófið. Þú ert búin að læra vel alla önnina en stundum koma samt spurningar sem þú varst ekki búin að undirbúa. Ég var búin að gera allt rétt og samt var þessi undirliggjandi efi. Hvað ef. Hvað ef allt sem ég hef gert virkar ekki og ég er ennþá með öll innri gildi í tómu tjóni. Ég viðurkenni að það var stressandi því ef ég kæmi mjög illa út þá væri líklega næsta mál á dagskrá að hringja í heimilislækninn og setja mig á lyf og sætta mig við að þetta væri jú aldurinn og genin sem stjórnuðu ferðinni. Alveg sama hvað ég myndi gera, breyta og bæta það hefði ekkert að segja. Nógu margir voru búnir að nefna þetta við mig og kannski höfðu þeir rétt fyrir sér. Mig grunaði reyndar að það væri einhver bæting. Ég fann það á sjálfri mér. Mér leið miklu betur, ég hafði betra úthald og svaf miklu betur en ég var vön. Ég ákvað samt að lífið væri langhlaup og ég yrði sátt við hversu litlar breytingar sem ég sæi.

Ég byrjaði á því að fara í blóðrannsókn um morguninn. Ég mætti á fastandi maga sem var lítið mál þar sem síðustu 3 mánuði hef ég gert miklar breytingar á mataræðinu og ein breyting sem ég hef orðið vör við er að þessi gífurlega morgunsvengd sem ég fann alltaf fyrir var horfin.

Svo fór ég í efnaskiptapróf hjá Greenfit og kl. 15:00 átti ég svo tíma í álagsprófinu.

Niðurstaðan úr efnaskiptaprófinu:

Í fyrra prófinu voru efnaskiptin mín 63% fita og 37% kolvetni. Í seinna prófinu voru efnaskiptin 90% fita og 10% kolvetni. Þessi skilaboð fylgdu með:

“Ég verð að segja að þetta eru alveg frábær efnaskipti og með því betra sem við sjáum. Þannig virkilega vel gert og klárt mál að þetta sem þú hefur verið að gera undanfarið er að skila sér margfalt. Til hamingju með allan árangurinn

Það var ekkert minna en stórkostlegt að lesa þessa kveðju. Í gegnum tíðina hefur ítrekað verið sagt. Það hægir á efnaskiptum þegar fólk eldist og þetta er hluti af lífinu. Þarna er ég 3 mánuðum eldri en í fyrra prófinu og er komin með frábær efnaskipti. Ætli það sé eitthvað fleira sem sé ekki alveg meitlað í stein?

Niðurstaðan úr álagsprófinu:

Þegar ég tók fyrra prófið þá kom ég gífurlega illa út varðandi öndun. Það kom mér svosum ekki á óvart þar sem ég mæddist mjög hratt þegar ég fór í fjallgöngur og það háði mér aðeins. Ég átti von á bætingu þarna þar sem ég fann að síðast þegar ég fór á Úlfarsfellið þá var það miklu léttara en áður og þess vegna var ég mjög spennt að sjá súrefnismælingarnar.

Þær fóru fram úr mínum villtustu draumum.

Fyrra prófið:your breathing is problematic.

Seinna prófið: “Your breathing is optimal.

Á 3 mánuðum fer ég úr problematic í optimal. Ég hlustaði á bækurnar Breath eftir James Nestor og the Oxygen Advantage eftir Patrick McKworn og í báðum bókum eru ákveðnar öndunaræfingar. Næsta verkefni hjá mér er að setja inn öndunaræfingar og bæta öndunina ennþá betur.

Álagspúlsinn minn: Þegar ég hleyp rólegu neföndunarhlaupin mín þá hleyp ég á svokölluðu Zone 2 álagi. Í fyrra prófinu var Zone 2 með álagspúls 99-147. Nýji æfingapúlsinn minn er 159-167. Ég hlakka til að fara að tækla nýjar áskoranir þó að það þýði mögulega tímabundið að ég muni taka styttri hlaup þar sem þau eru erfiðari en það er í góðu lagi. Róm var ekki byggð á einum degi.

Ég fór út að hlaupa í morgun. Ég hljóp 6,82 km á nýja æfingapúlsinum á 48,2 mínútum. Ég skoðaði hlaup á gamla æfingapúlsinum. Þá hljóp ég 6.39 km á 58,11 mínútum. Auðvitað tók nýji púlsinn meira á en þetta er samt zone 2 púls ekki hámarkspúls og mér leið vel eftir hlaupið.

Öndunarprófin mín:

Respiratory fitness fór úr 45% í 69%.

Breathing and mobility fór úr 41% í 80%.

Breathing and cognition fór úr 41% í 80%.

Fat burning effiency fór úr 69% í 90%.

Það voru 2 gildi sem lækkuðu.

Metabolic efficiency fór úr 40% í 20%

Cardio fitness fór úr 100% í 87%.

Fékk þessi skilaboð frá Greenfit

“You did it. Virkilega vel gert!!

Metabolic efficiency fer niður í 20% en þetta er ekki endilega slæmt, þetta þýðir bara að líkaminn er orðinn sparneytnari á orku þannig þú sparar kaloríurnar meira á efforti. Við sjáum þetta oft samfara betri fitubrennslu.

Öndunin, öndunin, þvílíkar bætingar!! Geggjað að sjá þetta.

Cardio fitness fer niður í 87% úr 100% en þetta er vegna þess að nú er öndunin orðin það góð að hún er ekki eins mikill hamlandi factor lengur og því sjáum við núna tækifæri til að bæta pumpuna aðeins líka, sem er akkurat í takt við það sem við ræddum um í síðasta testi.

Fitubrennsla upp í 90%. Sæll. Vel gert. 

Næstu verkefni sem bíða eru því að bæta öndunina ennþá meira og læra að hlaupa á meira álagi með neföndun og bæta úthaldið. Þetta er gífurlega spennandi vegferð og ég hlakka til að sjá smábætingar hér og þar. 

Blóðrannsóknin:

Þetta var niðurstaðan sem ég var spenntust fyrir og ástæðan fyrir því að ég lagði upp í þessa vegferð. Við Lukka settumst yfir gildin mín eftir álagsprófið. Niðurstaðan var lækkandi á öllum stöðum þar sem ég var um og yfir hækkumörk.

Kólesteról og blóðsykur: Þegar ég fór í fyrra prófið þá var kólesterólið út úr kortinu í orðsins fylstu merkingu. Ég mældist með 8,0 og kortið náði upp í 7,76. Hæst mældist ég í blóðsykri 5,7 sem er yfir mörkum. Ég var með 88% líkur á því að greinast með sykursýki 2 einhvern tímann á ævinni og 53% að fá hjartasjúkdóm ef ég héldi áfram á þeirri braut sem ég var. Í næstu mælingu reyndist kólesterólið vera komið niður í 6,70 (sem sagt komin á kortið) og blóðsykurinn komin niður í 5,40. Það sem er þó áhugaverðast við þetta allt saman er að ef ég held áfram á þessari nýju braut þá er ég búin að minnka líkurnar á því að fá sykursýki 2 úr 88% í 31% og hjartasjúkdómum úr 53% í 47%.

Einnig minnkuðu bólgurnar gífurlega mikið í líkamanum. Þetta stemmdi við það sem sjúkraþjálfarinn sagði við mig. Í heilt ár hef ég farið tvisvar í mánuði í sjúkraþjálfun þar sem ég finn stundum fyrir óþægindum í hnjánum. Hann hefur alltaf sagt að ef ég nái að minnka bólgurnar í líkamanum þá minnki þörfin á sjúkraþjálfun. Þennan dag var fyrsti dagurinn sem hann notaði ekki nálar.  Hann sagði að ég væri miklu betri, væri mýkri og ekki eins stíf og þyrfti þess ekki.

Kaupa small í 17:

Mjög skemmtileg aukaverkun síðustu 3 mánuði er að ég er búin að léttast helling áreynslulaust. Ég lagði ekki upp í þessa vegferð til að missa kíló. Gat alveg hugsað mér það en fókusinn var á að lækka slæmu gildin og bæta úthaldið og öndunina. Á 3 mánuðum er ég búin að missa tæp 9 kg. Öll fötin mín eru of stór og ég er aðeins byrjuð að endurnýja fataskápinn. Kannski er það grunnhyggið en ég fékk mikið kikk út úr því að kaupa mér peysu í small í 17. Það sem ég sé helstan mun á er að ég hef alltaf verið með þrútinn maga, líka þegar ég var yngri og léttari. Núna er hann að gefa gífurlega mikið eftir. Ég ræddi þetta við Lukku. Mér líður eins og ég sé að svindla. Hvernig get ég lést svona áreynslulaust? Ég hleyp hægar, ég anda með nefinu og borða gífurlega góðan mat og borða mig alltaf sadda. Ég tel hvorki hitaeiningar né vigta matinn og veit ekkert hvert hlutfall fitu, kolvetna eða próteina er. Lukka sagði að um leið og bólgurnar minnka getur líkaminn unnið betur úr fæðunni sem ég borða sem hefur þessar skemmtilegu aukaverkanir.

Mataræðið:

Mörgum finnst mataræðið mitt gífurlega strangt. Ég hef hreinlega aldrei borðað svona góðan mat. Ég borða 3-4x á dag. Mataræðið samanstendur af því sem vex, hleypur og syndir. Ég sleppi mjólkurvörum, kornvörum og mjög sætum ávöxtum. Reyndar mun ég líklega setja inn eitt og annað smátt og smátt s.s. döðlur og mangó. Ég hef alltaf verið nammigrís og mikill nartari en ég hef enga löngun í nart lengur. Mig langar að halda áfram á þessu mataræði amk næstu 3 mánuði en þá fer ég í næsta test hjá Greenfit. Það verður spennandi að sjá hvernig gildin halda áfram að breytast og hvernig litlar breytingar yfir lengri tíma verða að stórum breytingum.  Margir eru forvitnir hvað ég borða og því set ég megnið af mínum máltíðum í story á Instagram og þar er hægt að fá fullt af hugmyndum.

Burstar þú tennurnar?

Ég fæ mikið af spurningum um þennan gífurlega sjálfsaga sem margir eru sannfærðir að ég búi yfir. Það séu fáir sem geti gert þetta þar sem ég er svo öguð og skipulögð. Okkar á milli er það engan veginn rétt. Mér finnst þetta ekkert mál. Mér finnst ég ekki í átaki. Ég er einfaldega að borða mjög góðan mat sem vill svo heppilega til að er mjög hollur og fallegur. Ég hreyfi mig hægar en ég gerði og ég anda með nefinu. Ég vel að gera þetta því ég er að hugsa um framtíðar mig. Hugsa um Ásdísi þegar hún verður 70 ára og 80 ára. Þetta er ekkert ósvipað og að bursta tennurnar. Allir sem ég þekki bursta tennurnar og flestir 2var á dag. Sumir nota líka tannþráð og jafnvel munnskol. Hvers vegna eru allir með þennan járnaga þegar kemur að því að bursta tennurnar. Jú er það ekki vegna þess að það er verið að fyrirbyggja tannskemmdir? Hvers vegna hugsum við þá minna um innviðina? Það skiptir kannski ekki öllu máli þó að ein og ein tönn skemmist. Hvað ef þetta eina hjarta sem við eigum skemmist. Hvað þá?

Horft til baka:

Þegar ég horfi til baka síðustu 3 ár þá er ég gífurlega stolt af mér að hafa lagt upp í þessa vegferð. Það voru alls ekkert allir sammála mér og ég hef fengið töluverða gagnrýni fyrir að vera manísk, nokkuð geðveik á köflum og öfgafull. Þegar ég var að taka mín fyrstu skref þá var erfitt að standa með sjálfri mér. Það er gífurlega mikið átak að skipta um lífstíl og þegar þú færð líka gagnrýni að þú sért að gera allt vitlaust þá er oft erfitt að hunsa þessar óumbeðnu ráðleggingar.

ÞÚ VAKNAR OF SNEMMA!

ÞÚ SEFUR OF LÍTIÐ!

ÞÚ ÆFIR OF MIKIÐ!

ÞÚ LÉTTIST OF MIKIÐ!

Við alla sem eru að stíga sín fyrstu skref eða eru á sinni vegferð þá vil ég segja þetta. Þetta er þitt líf og þínar ákvarðanir. Þegar upp er staðið þá stendur þú og fellur með þínum ákvörðunum. Ég vil ekki líta til baka og sjá eftir öllu sem ég gerði ekki afþví að einhverjum fannst það asnalegt. Stundum þarf  hreinlega að skipta út vinum. Ég er svo heppin að ég er búin að eignast gífurlega mikið af góðum vinum sem deila sömu sýn og ég. Eitt sem ég hef áttað mig á er að þeir sem eru betri en þú eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða og hjálpa þér. Þeir segja ekki þú getur ekki ... þeir segja þú gætir prófað þetta.

Þakklætið:

Ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ég hefði ekki haft góðan stuðning. Hilda vinkona á svo mikið í þessum árangri. Ég hefði ekki komist í gegnum Landvættina án hennar. Hún var minn stuðningur. Hún er stútfull af fróðleik og aldrei meira en eitt símtal í burtu ef mig vantar eitthvað. Það ættu allir að eiga eina Hildu í sínu lífi. Hún gerir lífið auðveldara. Ég byrjaði meira að segja ekki almennilega á neföndun fyrr en hún byrjaði. Hún er minn áhrifavaldur.

Landvættir, Þríþrautadeild Breiðabliks, hjólreiðadeild Breiðablik, Garpasund Breiðabliks og Greenfit. Þau hafa öll hjálpað mér svo gífurlega mikið að komast á þann stað sem ég er á í dag. Þarna er samankomnir aðilar sem eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða og miðla til þeirra sem á þurfa að halda.

Krakkarnir og kærastinn. Ég er svo heppin að Axel Valur elsti sonur minn býr hjá mér. Hann er listakokkur og þegar ég byrjaði að borða hreint þá sá hann alfarið um að elda. Mér fannst svo drepleiðinlegt að elda. Ég hefði ekki náð þessum árangri nema afþví að hann sá um þetta algjörlega til að byrja með og ég er núna í æfingabúðum hjá honum til að verða sjálfbær áður en hann flytur að heiman. Besta við þetta allt saman er að ég er farin að hafa mjög gaman af því að elda.

Það er ekki sjálfgefið að krakkarnir styði þig 100%. Þau hafa borðað Clean með mér í 3 mánuði. Þau sakna aðeins gamla matarins þannig að við ætlum að fara að hafa þetta bland í poka og þá elda ég Clean fyrir mig.

Kærastinn á líka hrós skilið. Hann styður mig fullkomlega og kippir sér ekkert upp við það þó að ég vakni kl. 5 á morgnana til að fara út að hlaupa.

Smartland á líka hrós skilið fyrir að birta pistlana mína. Ég fæ almennt góð viðbrögð við þeim og mér þykir gífurlega vænt um skilaboð sem ég fæ frá öðrum sem eru að byrja sína vegferð.

Hvað er framundan?

Ég ætla að halda mínu striki og bæta mig smátt og smátt. Ég geri mér grein fyrir því að ég mun ekki ná sömu bætingum í næstu mælingum. Á meðan ég sýni framfarir þá er ég sátt. Þessir 3 mánuðir hafa liðið áfram á ógnarhraða.

Hvað með aðventuna Ásdís, á ekki að tríta sig smá? Ég hugsaði þetta einmitt eftir prófið. Ég bakaði 5 sortir af smákökum og hugsaði að ég ætti skilið að fá mér smákökukaffi eftir prófið. Hins vegar langaði mig ekki í þær.Þetta var meira af vana heldur en löngun. Það er jú að detta í aðventu og það verður nú aðeins að tríta sig. Þegar ég sá hversu vel prófin mín komu út þá datt niður öll löngun í smákökur. Eitthvað sem ég hef verið að gera í gegnum tíðina hefur ekki haft góð áhrif á líkamann og ég held að ég þurfi ekki að vera sérfræðingur til að vita að jólasmákökur eru sannarlega ofarlega á þeim lista. Það sem ég heyri sjálfa mig segja núna. Ef ég náði þessum árangri á 3 mánuðum hvar verð ég þá stödd eftir 3 ár?

Í dag er ég gífurlega fegin hvað fyrra prófið kom illa út því það neyddi mig til að bregðast við. Ef ég hefði komið sæmilega út hefði ég mögulega sagt. Þetta er ekkert svo slæmt svona miðað við konu á mínu aldri. Þetta er alveg nógu gott. Sæmilegt er ekki nógu gott þegar þú getur verið frábær. Ég hefði svo haldið áfram að fálma í myrkrinu í staðinn fyrir að leita allra leiða til að bæta heilsuna og hefði aldrei náð þessum árangri sem ég náði með Greenfit. Það eru forréttindi að geta bætt heilsuna og ómetanlegt að geta fengið faglega aðstoð hjá Greenfit. Núna veit ég betur, ég veit að sæmilegt er engan veginn ásættanlegt. Frábært er nýja viðmiðið.

Þetta er einfalt. Lífið og heilsan er í okkar höndum. Við ráðum ferðinni, ekki talan í kennitölunni okkar sem segir hversu gömul við erum og ekki heldur genin okkar. Þetta er undir okkur komið og engum öðrum.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Úr sófa í 10 km hlaup  

Ég fæ mjög mikið af fyrirspurnum um mína vegferð. Hvernig ég byrjaði og á hverju á að byrja, er það mataræðið eða er það hreyfingin?

Ef ég hefði svarað þessu fyrir 3 árum þá hefði ég sagt: “gerðu smá breytingar á mataræðinu og settu forgang á hreyfinguna”. Ég er síðan búin að læra að það er alls ekki rétt. Mataræðið er líklega 90% af árangrinum og rólegar æfingar á lágu álagi skila betri langtíma árangri og minnka líkurnar á meiðslum.

Ég ákvað því að skella í smá pistil hvað stendur upp úr hjá mér. Ég minni á að þetta er allt byggt á minni reynslu og það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega fyrir þig.

Taktu ákvörðun

Fyrsta skrefið er að taka ákvörðun. Taka ákvörðun að núverandi lífsgæði séu óásættanleg og þú vilt fá meira út úr lífinu og geta meira. Ég var á ráðstefnu erlendis og hlustaði á David Goggins halda fyrirlestur og þessi setning festist í hausnum á mér. “Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig”. Á þessari stundu var ég 95 kg. Ég var orkulaus, uppgefin á sál og líkama og stútfull af pirringi og reiði. Ég fann að ég vildi ekki vera þessi manneskja lengur. Ég vildi ekki halda áfram að skrifa þessa ævisögu. Ég hugsaði hvar verð ég eftir 10 ár ef ég held áfram á þessari braut. Ég var að þyngjast um svona tæp 2 kg á ári að meðaltali. Ekkert hættulegt ef þú horfir á 1 ár en þegar þú margfaldar þetta með 20 árum þá eru allt í einu komin 35 aukakíló. Ef ég héldi áfram á þessari braut og myndi þyngjast um 2 kg á ári þá væru komin viðbótar 20 kíló eftir 10 ár og ég væri orðin 115 kg. Þarna átti ég erfitt með að finna föt sem pössuðu á mig, fæturnir voru þrútnir og liðirnir stífir. Ég sá ekki að 20 kg í viðbót myndu bæta lífið neitt. Mig langaði ekki lengra. Ég fékk nóg.

Hreinsaðu út fortíðardraugana

Af öllu sem ég gerði þá myndi ég segja að þetta væri það mikilvægasta. Það er erfitt að horfa fram á veginn ef þú ert stútfull af fortíðarþráhyggju. Ég var mjög góð í þessu og var stöðugt að rifja upp eitthvað sem gerðist jafnvel fyrir áratugum. Þegar ég kom heim af ráðstefnunni þá breytti ég um mataræði og fékk mér einkaþjálfara en þessi reiði og pirringur var alltaf undirliggjandi. Ég jók orkuna og ég léttist helling en nokkrum mánuðum seinna krassaði ég í kvíðakasti því ég var ekki í neinu jafnvægi. Það var ekki fyrr en ég fór til sálfræðings og gerði upp þessa fortíðardrauga að ég komst í betra jafnvægi. Ég fór í lunch með vinkonum í sumar og við fórum að ræða allskonar mál. Ein umræðan gerði mig pirraða og ég áttaði mig á því að ég átti ennþá eftir að losa út þennan fortíðardraug. Ég greip í tækni sem ég lærði sem gengur út á það að sjá fyrir sér þræði sem eru fastir á þér. Síðan fór ég í göngu og á göngunni klippti ég alla þræðina burt og losaði mig við fortíðardrauginn. Ef þú ert að glíma við stóra fortíðardrauga eða nýlega mæli ég alltaf með því að leita sér aðstoðar. Það er mannskemmandi að burðast með þetta ein.

Gerðu ráð fyrir bakslögum

Róm var ekki byggð á einum degi og það hafa fáir óendanlegan járnvilja. Það koma tímabil þar sem þú nennir ekki út að hreyfa þig. Það koma tímabil þar sem þú vilt bara liggja upp í sófa, hámhorfa Netflix og snarla. Þegar það gerist er gífurlega mikilvægt að muna að þetta er langhlaup, ekki spretthlaup. Þetta er í alvörunni lífshlaupið. Hvíld er líka æfing og stundum þarf að taka sér pásu. Einn ömurlegur dagur skiptir engu í heildarmyndinni. Við getum aldrei alltaf verið í fullkomnu standi. Þó að ég eigi off dag þá skiptir það engu máli. Á morgun geri ég aftur mitt besta. Það sem þarf að passa að offdagarnir verði ekki 30 í röð eða 90. Ég þekki það svo vel á eigin skinni hvað er erfitt að fara aftur í gang ef pásan er löng. Stundum getur verið gott að fara þá í stutta göngu frekar en að gera ekki neitt.

Hreyfing

Það skiptir höfuðmáli að finna hreyfingu sem þér finnst skemmtilegt. Ég fór í einkaþjálfun og það var fínt en mér hefur hins vegar aldrei fundist rosalega gaman í tækjasal. Mig hefur alltaf langað að vera hlaupari en ég vissi alltaf innst inni að ég gæti það ekki. Ég vissi það af því að ég hafði byrjað óendanlega oft og aldrei haldið það út. 2018 ákvað ég að skrá mig í 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu. Keypti mér app sem heitir 10 km runner. Þegar ég byrjaði að hlaupa gat ég varla hlaupið á milli ljósastaura. Um sumarið kláraði ég 5 km í Suzuki hlaupinu og svo í ágúst kláraði ég 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég man ennþá tilfinninguna að koma í mark. Ég hefði alveg eins getað verið að vinna heimsmeistaramót. Eftir að hafa selt mér í áratugi að ég gæti ekki hlaupið þá gat ég það víst. 2 árum seinna hleyp ég reglulega 10 km á morgnana og um helgar tek ég lengri hlaup. Fyndið hvað viðmiðin breytast á 2 árum.

Mataræði

Ég byrjaði á því að taka út allan sykur, hveiti og þar með kökur, kex og þess háttar. Ég léttist helling en mér fannst samt alltaf að ég væri að fórna svo miklu. Ég væri smá fórnarlamb að geta ekki hitt og þetta. Smátt og smátt jók ég æfingaálagið og fannst þá allt í lagi að tríta mig í samræmi við meiri hreyfingu. Kvöldsnarlið datt aftur inn og á 18 mánuðum þyngdist ég um rúm 5 kg. Virkar kannski ekki mikið en miðað við mína sögu þá vildi ég grípa í taumana áður en allt færi í óefni. Okkar á milli þá fannst mér mjög ósanngjarnt að kona sem æfir 7-10 sinnum í viku gæti ekki borðar allt sem hún vildi þegar hún vildi það. Við erum hins vegar öll mismunandi og það sem er vont fyrir mig getur verið frábært fyrir þig. Það var ekki fyrr en ég fór í mælingar hjá Greenfit í sumar að ég fór virkilega að tengja hvað hentar mér.

Greenfit

Í dag myndi ég mæla með því að byrja á ástandssmælingu hjá Greenfit. Þú færð flottar (eða ekki eins og í mínu tilfelli) niðurstöður og þú getur nýtt þér þetta sem leiðbeiningar hvað er best fyrir þig. Ég var með of hátt kólesterol, of háan blóðsykur, of miklar bólgur í líkamanum svo fátt eitt sé nefnt. Samt var ég búin að vera með mjög heilbrigðan lífstíl í tæp 3 ár. Mér hrýs hugur við að hugsa til þess hvernig gildin hefðu verið ef ég hefði ekki verið búin að gera neinar breytingar. Ég fór á hreint mataræði. Eins og Lukka orðar þetta, ef þetta vex, hleypur eða syndir þá er það gott. Allt í einu fór líkaminn í miklu betra jafnvægi. Kvöldsnarlið datt út, ekki af því að ég neyddist til að taka það út heldur afþví að ég mig langaði ekki í neitt. Ég vigta ekki matinn minn, ég tel ekki kalóríur og ég hef ekki hugmynd um hvert hlutfall próteina, fitu og kolvetna er í matnum, ég veit ekki einu sinni hvað Macros er. Mér líður eins og ég sé að svindla. Á tæpum 3 mánuðum hef ég meiri orku og í betra jafnvægi og það eina sem ég geri er að hreyfa mig hægar og borða rosalega góðan og fallegan mat. Sem aukabónus er ég búin að missa 8 kg og kominn tími á að endurnýja fataskápinn. Ég fór m.a.s. og keypti mér buxur í stærð 26. Það bætti alveg upp öll skiptin sem ég fór í búðir og fékk ekki máta af því að þau áttu ekkert í minni stærð. Ég veit hins vegar ekki hvort að ég hefði verið tilbúin í að gera þessar breytingar daginn sem ég ákvað að skipta um lífstíl. Stundum þarf að gera þetta í minni skömmtum. Ég veit hins vegar að mér líður betur og ég er í fyrsta skipti á ævinni í fullkomnu jafnvægi. Ég hlustaði á frábært viðtal við Lukku hjá Rafni Franklin í vikunni. Þau ræddu skilgreininguna á heilsu: “The word health refers to a state of complete emotional and physical well-being. Healthcare exists to help people maintain this optimal state of health.” Í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég fullkomlega heilbrigð. Mæli eindregið með að hlusta á þetta viðtal, smelltu hér

Hlauptu hægar til að fara hraðar og andaðu með nefinu

Annað sem kom í ljós hjá Greenfit var hver fitubrennslupúlsinn minn er. Ég var að hlaupa allt of hratt. Líkaminn brenndi kolvetnum en ekki fitu. Þegar ég hugsa til baka þegar ég byrjaði að hlaupa þá léttist ég helling. Það hefur væntanlega tengst því að ég hljóp mjög hægt, líklega á fullkomnum fitubrennslupúls.

Mér fannst þetta öfugmæli og erfitt að hægja á mér. Ég vil hlaupa hraðar ekki hægar. Eftir nokkrar vikur á hæghlaupum og með neföndun fór ég í 5 km til að kanna hvar ég stóð og náði mínu hraðasta 5 km hlaupi á ævinni. Líklega er þetta óvitlaust.

Ég fæ líka mikið af spurningum hvað með þessa neföndun. Ég er nú ekki besta manneskjan í að útskýra hana. Komast að því í vikunni að ég er búin að vera að gera hana rangt allan tímann. Þegar ég byrjaði þá andaði ég inn um nefið og út um munninn. Mér fannst það nógu erfitt. Smátt og smátt fór ég að anda meira með nefinu, sem sagt alltaf inn og út. Það var samt ekki af ásetningi heldur einhvern veginn gerðist. Ég var svo að hlusta á bókina “the Oxygen Advantage” þegar ég hnýt um þessa setningu. Þú átt að anda inn og út um nefið og borða með munninum. Já einmitt, alltaf ekki bara stundum. Ég sendi póst á Sigga hjá Greenfit og spurði hvort að þetta væri málið. Fékk til baka Hahahaha já, inn OG út um nefið er málið  Gott að vera komin með það á hreint.

Þannig að ég myndi mæla með þessum 3 bókum: Breath, The Oxygen Advantage og Obesity Code.

Ég fór síðan út að ganga næsta morgun í 10 stiga frosti, notaði eingöngu neföndun og það var ekkert mál. Reyndi svo að nota munnöndun og það var hræðilega vont að fá kalda loftið í hálsinn á meðan ég fann ekkert fyrir því í gegnum nefið.

Ég kýs að laga mig núna

Þetta er allt ákvörðun. Það er erfitt að byrja að hreyfa sig. Það er erfitt að breyta um mataræði. Ég held hins vegar að það sé auðveldara að breyta á meðan þú getur það í staðinn fyrir að bíða þar til allt er komið í óefni og þú verður að gera það. Þá er það kannski of seint. Ég lít á mig sem gífurlega heppna konu. Ég hef ennþá tækifæri til að bæta mig og besta mig. Ég verð 52 ára í febrúar á næsta ári. Ég er í betra formi en þegar ég var 30 ára, miklu betra formi en ég þegar ég var 40 ára og ég veit að það er í mínum höndum að líta til baka eftir 10 ár og segja ég er í betra formi núna en þegar ég var 52 ára. Það eru forréttindi að setja heilsuna í forgang. Að horfa fram á veginn og vita að ég er að gera mitt til að eiga betri ár framundan. Ég vil vera amman sem fer með barnabörnin í fjallgöngur eða á fjallahjól. Amman sem er upptekin við að njóta lífsins og hlaupa maraþon af því að ég get það. Eftir tæp 20 ár verð ég komin á áttræðisaldur. Það er ekki meitlað í stein að þú þurfir að minnka lífsgæðin bara af því að þú eldist. Þetta liggur hjá þér. Hver er þín framtíðarsýn og hvaða sögu viltu skrifa?

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Nálgast kjörþyngd eftir 25 ár

... Cause for twenty four years I have been living next door to Alice
Twenty four years, just waiting for a chance ...

Margir kannast við þetta textabrot með Smokie.

Eftir að ég byrjaði mína vegferð í átt að heilbrigðara lífi hefur þetta textabrot ítrekað komið upp í huga mér.

Þegar ég byrjaði þá hélt ég að það tæki 12 mánuði að hreinsa til og ég yrði komin í kjörþyngd alheilbrigð eftir 12 mánuði. Núna rúmum 3 árum síðar er ég loksins að komast í jafnvægi. Ég hef sagt það ítrekað að ef ég vissi að það myndi taka mig 3-5 ár að núllstilla mig og komast í jafnvægi þá hefði ég aldrei nennt í þess vegferð. Þetta hefði verið of mikil vinna, of miklar fórnir. Þegar ég lít til baka þá hafa þessi 3 ár liðið gífurlega hratt og ég er svo þakklát fyrir að hafa ekki vitað betur.

Hvaða máli skiptir það hvað þetta tekur langan tíma? Núna veit ég að þetta er ævilangt verkefni og ég nýt þess að fínstilla mig. Finna út hvað virkar og hvað virkar ekki. Fyrir mig snýst þetta um að njóta ferðarinnar (lærði það loksins). Þegar ég lít til baka þá tók það mig 20 ár að komast á þennan stað. Líklega er það frekar óraunhæft að ætlast til að geta lagað allt á 12 mánuðum.

Það voru 2 stórir áfangar hjá mér í vikunni.

Ég sá 68.9 kg á vigtinni. Í heila viku hef ég verið undir 70 kg sem bendir til þess að líkaminn sé farinn að samþykkja þessa tölu og sé kominn í ákveðið jafnvægi með hana. Ég hef ekki séð 68.x á vigtinni síðan 1999.

Ég kom gamla giftingarhringnum mínum upp. Hann var klipptur af mér þegar Viktor Logi var smábarn eða fyrir ca 18 árum og hann passaði aldrei aftur. Hvers vegna var hann klipptur af? Ég hafði sofnað með hann og vaknaði með þrútna fingur eins og svo oft áður. Nöglin var orðin blá og það var hjartsláttur í fingrinum. Þetta varð valið um að klippa hringinn af  fingrinum eða fórna fingrinum. Ég neitaði að láta stækka hann, ætlaði alltaf að passa aftur í hann. Fannst að ef ég myndi láta stækka hann þá væri ég að samþykkja nýjan veruleika sem ég var ekki tilbúin til að gera. Núna get ég ekki notað hringinn sem ég fékk í jólagjöf í fyrra, hann er of stór. Margir spyrja sig núna, hvað ertu að dandalast með giftingarhringinn þinn, skildir þú ekki fyrir mörgum árum? Jú, ég skildi 2015 og ég er ekki eingöngu með minn, ég er með báða. Þegar þú skilur þá er augljóst að þessi hringur verður aldrei aftur notaður. Þessir hringar eiga hinsvegar spennandi framtíðarsýn. Þeir verða bræddir upp og endurgerðir í skartgrip fyrir dóttur okkar þegar hún eldist.

Borða túnfísk og skyr í öll mál og þyngjast

1998 fór ég í kerfisfræðinám. Þá var elsti sonur minn 2ja ára. Á meðgöngunni með hann þyngdist ég um 85 kg og það tók ca 2 ár að komast næstum því í sömu þyngd og ég var fyrir meðgöngu. Námið var krefjandi og stundum þurfti að læra frameftir. Ég var ekki alveg sú skipulagðasta með mataræði á þessum árum og fannst fínt að hlaupa yfir í Kringlunni og fá mér eitthvað snarl. Vinnuálag, lélegt mataræði og hreyfingarleysi skilaði því að ég þyngdist aðeins um veturinn, ekkert hættulegt svona 3-4 kíló en þarna var ég farin að nálgast 70 kílóin og ákvað að vinda ofan af þessu um sumarið. Fékk mér einkaþjálfara, var dugleg að mæta í ræktina og borðaði eftir hans plani sem í minningunni var skyr og túnfiskur. Um haustið hafði ég bætt á mig 4-5 kílóum og ég fór vel yfir 70 kíló. Það var ekki fyrr en í þessari viku að ég komst aftur undir 70 kíló. Í rúm 20 ár reyndi ég allskonar til að létta mig en það skilaði aldrei langtíma árangri. Ég ræddi þetta við einkaþjálfarann. Jú, vöðvar eru þyngri en fita, þetta kemur örugglega fljótlega. Mörgum árum seinna var ég hjá öðrum einkaþjálfara. Það fyrsta sem hann sagði var, “það er óeðlilegt hvað þú ert með framstæðan kvið, þú ert örugglega með mjólkuróþol. Ég myndi ráðleggja þér að fara í mælingu”. Það kom á daginn að ég var með mjólkuróþol og borða skyr í öll mál var því líklega ekki það besta fyrir mig. Auðvitað hefði ég átt að vera með gagnrýna hugsun þetta sumar. Ég hefði átt að spyrja meira. Hvernig get ég þyngst um 5 kíló á einu sumri með því að gera allt rétt? Það þýðir samt ekkert að ergja sig á fortíðinni. Að horfa í baksýnisspegilinn er líklega ein versta nýting á tímanum sem ég veit um. Treystu mér, ég var sérfræðingur í því.

Vigtin er bara mælitæki

Mörgum finnst ég manísk með þessa vigt og þetta sé engan veginn heilbrigt en þetta er mín leið til að halda mér á tánum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hamingjan er ekki mæld í kílóum og ef ég væri eingöngu að einblína á útlitið þá væri ég fullkomlega sátt í eigin skinni.

Hins vegar er ég komin með allskonar markmið sem mig dreymdi ekki einu sinni um þegar ég lagði af stað í þessa vegferð mína. Fyrsta markmiðið sem ég náði var að klára 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu og ég var ekki einu sinni síðust. Þegar ég kom í mark áttaði ég mig á því að ég gæti svo miklu meira en mig grunaði. Þrautir eins og að hlaupa maraþon og fara í hálfan járnkarl (sem ég hélt alltaf að væri fyrir hina) var eitthvað sem ég var núna sannfærð að ég gæti. Eina sem ég þyrfti að gera væri að æfa mig og bæta mig.

Ég ætla að klára Landvættinn. Þetta eru 4 þrautir og að hlaupa 25 km utanvegahlaup reynir minna á liðina og ég fer hraðar ef ég er léttari.

Ég er með markmið að hlaupa 5 km undir 25 mínútum og 10 km undir 55 mínútum. Tölfræðin segir að ég bæti mig um 1 mínútu fyrir hver 2 kíló sem hverfa. Ég á best 29.19 í 5 km og 58.49 í 10 km. Merkilegt að ég náði mínum bestu 5 km fyrir stuttu. Eftir 2 mánuði með rólegri neföndun og betra mataræði náði ég mínu hraðasta 5 km hlaupi. Ætli það sé einhver tenging þarna?

Ég ætla að hlaupa Laugaveginn, klára hálfan járnkarl og hlaupa maraþon. Hvenær, ekki alveg meitlað í stein. Útafdottlu er pínu erfitt að tímasetja svona markmið. Hins vegar veit ég að þegar ég farin að hlaupa tugi kílómetra í einu þá skiptir hvert kíló máli. Ekki bara vegna þess að ég get hlaupið hraðar heldur líka vegna þess að það reynir minna á liðina. Ég er búin að hlaupa síðan ég var tæp 90 kíló þannig að ég veit þetta á eigin skinni.

Þessi markmið setja fókusinn á að komast í mjög gott form og ein afleiðing af því hjá mér er einfaldlega að vigtin sýnir lægri tölu. Í hvert skipti sem vigtin fer niður um kíló veit ég að það verður auðveldara fyrir mig að ná markmiðum mínum. Reyndar er það þannig að ég er alltaf miklu miklu lengur að fara niður í næsta tug en næsta kíló. Það er eins og líkaminn streitist á móti og vilji halda sér á þessum stað. Þessum stað sem hann þekkir og veit hvernig virkar.

70 kíló sálrænn þröskuldur

70 kíló hefur verið sálrænn þröskuldur hjá mér. Múrinn sem ég var eiginlega farin að selja mér að ég gæti líklega aldrei brotið.  Eftir að ég byrjaði að þyngjast, hef ég aldrei komist aftur undir 70 kg. Alveg sama hvað ég gerði þá var 70 kg ákveðinn múr sem ég náði ekki að brjóta. Ég hef verið 70 kg og þyngri síðan 1999. Þyngst varð ég 95 kíló 2017. Allt í einu sé ég að þetta er raunhæft að brjóta þennan múr en það tekur tíma og það er allt í lagi. Ég hef nægan tíma. Lífið er langhlaup ekki spretthlaup.

Það eru ekkert allir sammála mér og það er allt í lagi. Þetta eru mín markmið, mitt líf, mín heilsa og mín vegferð. Allir pistlar sem ég skrifa eru útfrá minni reynslu. Mér dytti aldrei í hug að segja að allir ættu að fara í X þyngd eða stunda þessa hreyfingu eða borða svona. Það er eins og að segja að allir ættu að keyra um á rauðum bíl.

“Þínir þrír pistlar sem ég hef lesið setja mikila áherslu á þyngd, tölu á vigtinni. Þessir þrír pistlar sem ég hef lesið kemur þú fram með þá hræðilegu framtíðarsýn að vera þung að eilífu og hvað það væri hræðilegt líf. “

Málið er einfalt. Ég þekki hvernig það er að vera of þung og hversu erfitt það var. Fyrir mér er það hræðileg framtíðarsýn og ég ætla ekki þangað aftur. Að vakna þrútin og koma ekki upp hringjum. Að vera svo stirð í öllum liðum að það er erfitt að fara framúr. Að senda börnin með vinum sínum og þeirra foreldrum í fjallgöngu af því að þú treystir þér ekki til að fara með þeim. Það brýtur pínu niður mömmuhjartað að geta ekki gert hluti sem foreldrar vina þeirra gera auðveldlega.

Vigtin er bara eitt af mörgum tækjum sem ég hef til að mæla árangur. Ég vigta mig daglega, sumir vikulega og aðrir aldrei. Það eru engar reglur hvað virkar. Trixið er að finna hvað virkar fyrir þig.

Ástandsmæling hjá Greenfit

Ég vil ekki fara aftur í gamla farið.Til að halda mér á mottunni þarf ég að passa mig, vera pínu manísk. Mér finnst það í góðu lagi. Mér líður vel svona. Ég er búin að læra að það eru rosalega margir litlir hlutir sem skila langtímaárangri og ég er stöðugt að gera tilraunir hvað virkar og hvað virkar ekki. Þetta árið ákvað ég að keppa ekki í neinum þrautum. Mig langar ekki að vera á stórum mannamótum og valdi frekar að fínstilla mig. Ég datt í lukkupottinn þegar Greenfit opnaði í sumar. Ég fór í ástandsmælingu hjá þeim og það kom ýmislegt í ljós sem var ekki nógu gott. Súrefnisupptakan mín er léleg (kom mér ekki á óvart). Það háir mér á æfingum þannig að ég er núna að hlaupa á lágum púls og nota netöndun til að bæta mig. Oft er ég aðeins út á túni með hvað ég er að gera þannig að ég á aðra skoðun bókaða í lok nóvember og þá sjáum við hvort að þessi tilraun mín hafi skilað einhverjum árangri eða hvort að ég þurfi að fínstilla mig ennþá meira. Ég hef nægan tíma, ég hef allt lífið til að fínstilla mig. Ég fór líka í blóðprufur hjá Greenfit og þar kom ýmislegt miður gott í ljós. Helst má nefna að kólesterolið var komið í 8 og fastandi blóðsykur í 5.7. Ég fór því á hreint mataræði og það kom í ljós að það hentar mér svo ansi vel. Eftir 5 vikur fór ég aftur í mælingu og þá var bæði kólesterol og blóðsykur búið að lækka. Sem aukabónus fóru líka 6 kíló á 2 mánuðum og ekki bara það heldur fór þau af þessum leiðindasvæðum sem er svo erfitt að semja við um að segja upp leigunni. Eina vandamálið við þetta er að öll fötin mín urðu óþægilega stór en það er allt í lagi. Það eru allir að vinna heima og þægilegar kósýbuxur svínvirka og svo eru allir með grímu úti þannig að það veit enginn hver er á bakvið þessa grímu lengur. Reyndar eru allir líkamshlutar ekki eins samvinnuþýðir. Ég var búin að gera óuppsegjanlegan þinglýstan leigusamning og þrívottaðan til öryggis við ákveðinn líkamshluta að það færi ekki meira af þessu svæði. Það er ekki hægt að stóla á neitt lengur. Hann minnkar eins og annað og ég segi bara, guðsélof fyrir Push Up og Victoria Secret.

Þegar kona fastar óvart

Þegar ég borða hreint þá líður mér betur. Líkaminn er í betra jafnvægi, ég sef betur og kvöldsnarlið heyrir sögunni til. Ég byrjaði líka óvart að fasta. Ég hef aldrei haft mikla trú á föstum og fundist þeir sem fasta pínu skrýtnir. Hver neitar sér sjálfviljugur um mat, skil þetta ekki. Ég er samt kurteis og smelli alltaf like hjá þeim. Þegar ég byrjaði að borða hreint þá datt út kvöldsnarlið mitt. Mig langaði ekki í það. Það gerði það að verkum að ég vaknaði aldrei sturluð af hungri á morgnana. Hef einmitt ekki heldur skilið skrýtna fólkið sem neitar sér um morgunmat. Það er jú mikilvægasta máltíð dagsins. Kærastinn sagði reglulega, það þarf að passa að fóðra ljónið á morgnana. Það sem gerðist eftir að kvöldsnarlið datt út var að ég vaknaði í miklu meira jafnvægi og var ekki svöng. Ég gat því farið út að æfa á morgnana (sumir kalla þetta á nóttunni, bara af því að ég vakna 04:45 am, ekki pikkvilla, í alvörunni fjögurfjörutíuogfimm), tekið gott hlaup og jafnvel styrkaræfingu og borðað svo milli 8 og 9. Þá er ég búin að fasta í 12-13 tíma og líður stórkostlega vel.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá á ég ekki í Greenfit né fæ greitt fyrir að nefna þau í mínum bloggum. Ég er ekki heldur að selja nein námskeið hjá þeim. Hvers vegna tala ég þá svona mikið um þau? Það er algjörlega af sjálfhverfum ástæðum. Ég þarf á Greenfit að halda og því betur sem þeim gengur því auðveldara er mitt líf. Ég ætla að fara reglulega í test hjá þeim til að sjá gildin mín og finna leiðir til að besta mig og mína heilsu. Þarna segja margir, Ásdís þetta er svo dýrt, heildarskoðun kostar 60.000 kr. Ég veit og 60.000 er ansi mikill peningur til að punga út. Hins vegar þegar ég hugsa um öll fötin sem ég hef þurft að kaupa í gegnum tíðina þegar ég bætti á mig og svo fötin sem ég keypti þegar ég grenntist og svo fötin sem ég keypti þegar ég bætti aftur á mig þá eru það töluvert hærri upphæðir. Ég þurfti að losa mig við alla skó eftir að ég grenntist. Hvað meinar þú, minnkuðu fæturnir?. Já, um næstum því eina stærð. Þetta var samt ekkert Öskubuskudæmi. Ég lét hvorki taka af mér tá né hæl. Það sem gerðist hinsvegar þegar ég fitnaði þá þrútnuðu fæturnir og smátt og smátt stækkuðu skórnir á breiddina en ekki lengdina. Þegar ég grenntist þá minnkaði samhliða því þrotinn á fótunum og skórnir urðu alltof víðir. Það þarf ekki mörg skópör til að vinna upp þennan pening. Hvað þá þegar ég tel öll önnur föt sem ég þurfti að láta fara. Ég horfi á Greenfit sem fjárfestingu í minni heilsu og nauðsynlega viðbót við mitt líf.

Hausinn á þér hefur ekkert stækkað?

Ég komst í stúdentsdraktina mína um daginn og var sjúklega ánægð með það. Þetta er 31 árs gömul drakt og hún smellpassaði á mig. Ég hef alltaf geymt hana þar sem amma heitin saumaði hana og hún hefur tilfinningalegt gildi fyrir mig. Reyndar komst ég líka í kjólfötin sem ég saumaði í MA og hef ekki heldur tímt að henda. Ég var að ræða þetta við Viktor Loga. Ég sagði, ég lánaði stúdentshúfuna mína um daginn og fékk hana til baka. Ákvað fyrst að ég var að ganga frá henni að prófa stúdentsdraktina mína og hún smellpassaði. Viktor leit á mig og sagði, “er það eitthvað merkilegt. Það er ekki eins og hausinn á þér hafi stækkað?” Þá kom í ljós að 18 ára drengur veit ekkert hvað stúdentsdrakt er og setti þetta í samhengi við húfuna. Honum fannst það ógurlega ómerkilegt að móðir hans passaði ennþá í stúdentshúfuna 31 ári síðar.

Hljóðbækur

Önnur ástæða fyrir því að ég er svo dugleg að vísa á Greenfit er að þau eru sérfræðingar. Ég veit hvað virkar fyrir mig en ég get ekki ráðlegt þér hvað virkar fyrir þig. Þegar ég fer út að hlaupa eða ganga núna hlusta ég á hljóðbækur. Ég innbyrði bara hluta af því sem ég heyri. Ég nenni ekkert að taka af mér vettlinga á köldum morgnun til að spóla til baka en ég næ inntakinu og í hverri hljóðbók tek ég 1-2 hluti sem ég vil prófa fyrir mig. Ég var að ræða ákveðna hljóðbók við Lukku og hún sagði. “Þessi bók er svo stútfull af góðu efni að ég hlustaði 2var á hana til að missa ekki af neinu”. Þess vegna vísa ég á Lukku, hún hlustar 2var á bækurnar sem skipta máli og getur því ráðlagt þér miklu betur en ég.

Bækur sem ég hef hlustað á upp á síðkastið og mæli með eru:

The Obesity Code: Dr.Jason Fung

Why we get sick: Benjamin Bikmann

Give and Take eftir Adam M. Grant

Originals: Adam Grant

The 5 Second Rule: Mel Robbins

Núna er ég að hlusta á Breath: James Nestor

Ef ég ætti að velja eina bók þá myndi ég byrja á Breath eða The Obesity Code

Ég held að lykilinn að góðri heilsu liggi hjá okkur og okkar ákvörðunum. Ég er ennþá að finna út úr því hvernig ég virka og hvað hentar og hvað hentar ekki. Ég sé sjálfa mig í golfi um nírætt.Mig langar að vera hressa amman sem fer út í fótbolta með barnabörnunum eða dreg þau upp á Esjuna í gönguferð. Hjóla í Elliðadalinn með nesti. Þetta er mín framtíðarsýn og þangað stefni ég einn dag í einu.

Lífið snýst um ákvarðanir. Við erum alltaf einni ákvörðun frá algjörlega breyttu lífi. Ég er búin að finna mína vegferð og hlakka til að sjá hvar ég verð eftir 3 ár.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband