Færsluflokkur: Lífstíll

Æskileg morgunrútína samkvæmt internetinu

Ég las pistil frá Röggu Nagla um daginn og varð steinhissa hvað hún þekkir mig vel. Ég meina, við höfum aldrei hist og ég held að hún viti ekki einu sinni hver ég er. En vá hvað hún þekkir mig vel. Ég ákvað að taka þessu sem hrósi og las pistilinn spjaldanna á milli. Mér leið samt pínu eins og það væri verið að njósna um mig, þvílík líkindi sem voru með pistlinum og mínu lífi. Þannig að ég ákvað að fara í samanburðarrannsóknir á þessum pistli og mínu lífi. Setti í bold frá Röggu og mitt svar kemur svo beint þarna undir.

“Rumskar í rólegheitum klukkan fimm núll núll við vekjaraklukku sem lýsir rýmið smám saman og fuglasöngur ómar í hárréttu desibeli úr hátalaranum”

Ég vakna klukkan fimm núll núll á virkum dögum við vekjaraklukkuna sem ég keypti hjá Nova. Elska hana því að hún er svo einföld og nóg að snúa henni við til að slökkva á henni. Veit ekki hvort að hún hefur Snús takka þar sem ég vel að vakna þegar klukkan hringir. Finnst Snús heimskulegt þar sem þú ert að eyða klukkutíma í að vakna ekki í staðinn fyrir að stilla klukkuna á þann tíma sem þú vilt vakna.

“Býrð um rúmið og hendir rúmteppinu sem var keypt í jógaferðinni til Indlands”

Ég bý um rúmið og set rúmteppið sem ég keypti í Epal á rúmið og 4 púða úr Ikea. Ég mun líklega aldrei eiga teppi frá Indlandi þar sem mig hefur aldrei langað til Indlands. Það er hins vegar á óskalistanum að fara í Yogaferð til Thailands eða Bali og þegar ég fer þá mun ég pottþétt kaupa rúmteppi úr lífrænni bómull sem er handofið í nálægu búddaklaustri og selt á lókal markaði. Á hverjum morgni mun ég hlakka til að búa um rúmið mitt þar sem þetta teppi mun vera stútfullt af minningum um frábæra ferð. Mér finnst amk svo góð tilfinning að sjá umbúið rúm þegar ég labba framhjá svefnherberginu mínu. Lætur mér finnast að ég hafi byrjað daginn á því að klára eitthvað og að herbergið taki vel á móti þegar ég fer að sofa.

“Skokkar glaðlega fram á baðherbergi”

Ég geng inn á baðherbergi. Það væri kjánalegt að skokka þangað þar sem það eru ekki nema 3 skref frá herberginu mínu fram á baðið og ég tel það auka hættuna á meiðslum að skokka áður en þú ert komin í gang. Eina skiptið sem ég skokka innanhús er þegar ég vakna á undan vekjaraklukkunni minni og gleymi að snúa henni við. Ég veit að ég yrði seint valin vinsælasta mamman ef ég færi út að skokka og krakkarnir myndu vakna við hana fimm núll núll á miðvikudegi. Ég sef reyndar út um helgar. Þá vakna ég yfirleitt ekki fyrr en sjö núll núll nema það hafi verið eitthvað teiti kvöldinu áður þá sef ég stundum til átta núll núll eða jafnvel níu núll núll. Ég þarf ekkert að sofa lengur þar sem ég fer yfirleitt heim ekki seinna en eitt núll núll. Það gerist yfirleitt ekkert markvert eftir eitt núll núll um helgar hvort sem er.Gallinn við að drekka ekki áfengi er að þolmörkin fyrir þeim sem innbyrða áfengi í miklu magni eru yfirleitt gufuð upp uppúr eitt núll núll.

“Stórt glas af ísköldu vatni með kreistri sítrónu”

Ég byrja alltaf daginn á 2 glösum af köldu vatni, drekk svo 2 glös eftir að ég kem inn af æfingu og áður en ég fæ mér morgunmat þá drekk ég eitt glas með vítamínunum. Ég toppa ég þetta með því að fá mér sítrónuvatn, kreisti hálfa sítrónu ofan í vatnsglas. Ég byrjaði alltaf daginn á sítrónuvatni en svo áttaði ég mig á því að það er ótrúlega gott að hita vatnið aðeins og taka lýsið með volgu sítrónuvatni í staðinn fyrir að drekka djús. Mæli eindregið með því. Ég drekk yfirleitt 3-4 l af vatni á dag og með morgunrútínunni er ég yfirleitt hálfnuð með vatnið. Algjör óþarfi að stressa sig á því að þetta sé hættulegt. Ég er ennþá á lífi. Mögulega kemur samt í ljós að þetta á eftir að drepa mig. Ég las það hjá vini mínum Google að ALLIR sem drekka vatn munu á einhverjum tímapunkti deyja. ALLIR.

“Bursta tennur með kókostannbursta og lífrænu plastlausu tannkremi”

Þetta var ágætis áminning að fara í Vistvera og kaupa betri tannbursta og tannkrem. Það tekur líklega jafnlangan tíma að bursta tennurnar með betri vörum og það er betra fyrir umhverfið. Ég er þekkt fyrir mikla tímastjórnun og þegar ég þarf að fara í sértækar verslanir þá kaupi ég yfirleitt slatta og þarf því ekki að fara nema 2var á ári til að fylla á lagerinn.

“Hysja uppum sig þrýstibrækur og henda mannbroddum utanyfir splunkunýja Brooks hlaupaskó og strappa höfuðljósið utan um flísfóðraða buffið”

Ég nota ekki þrýstibrækur en á frábærar hlaupabuxur frá NikeAir. Þær eru fullkomnar, nógu hlýjar á veturna og samt nógu kaldar fyrir sumarið. 2 stórir vasar á hliðunum fyrir síma og annað og svo vasi að aftan fyrir lyklana. Einnig eru þær með böndum þannig að þegar ég er extra mjó detta þær ekki niður um mig. Ég á ekki alltaf splunkunýja Brooks skó en þegar ég er nýbúin að kaupa þá þá jú á ég splunkunýja skó. Ég nota alltaf Brooks hlaupaskó á malbiki þar sem þetta eru einu skórnir sem ég fæ ekki beinhimnubólgu af og styðja samt vel við iljarnar á mér. Ég þarf ekki að nota höfuðljós því að þó að ég hlaupi snemma á morgnana þá er ég með upplýstan hlaupastíg sem er fullkominn. Ég á ekki flísfóðrað buff, verður of kalt með buff en ég á fína húfu.

Þegar ég las þessa setningu “mannbrodda utanyfir hlaupaskó” rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Hvenær var þessi pistill skrifaður? Ætli það sé ennþá leyfilegt að vera á nagladekkjum á þessum árstíma eða yrði hlauparinn gripinn af Gísla Marteini á Ægissíðunni og tilkynntur til lögreglu? Ég þarf sem betur fer ekkert að hafa áhyggjur af því þar sem ég bý í Kópavogi og það má vera á nöglum í snjó. Hlaupaskórnir mínir hafa ákveðinn líftíma. Ég kaupi mér yfirleitt nýja utanvegaskó að vori og stundum duga þeir í 2 ár. Ég nota þá bæði í utanvegahlaup sem og fjallgöngur. Þegar botninn er farinn að grípa illa fer ég með þá í “Eins og Fætur Toga” og læt negla þá. Það er svo mikið snilld að eiga neglda hlaupaskó. Virkar jafnvel og broddar en miklu léttari og þægilegri.

“Út að skokka í hálftíma”

Eftir að ég fékk Covid hef ég þurft að breyta öllum æfingunum mínum og fór aftur til fortíðar. Ég þurfti að fara 3 ár aftur í tímann og bæði fækka æfingum sem og stytta þær og minnka álagið. Núna er rútínan þessi. Dagur 1 sund, dagur 2 hjól, dagur 3, hlaup og svo endurtekið út mánuðinn. Ég tók út lyftingar, ég tók út Yoga þar sem það var of mikið að taka 2 æfingar á dag. Mér finnst ég loksins vera komin á ágætisról og næ að lengja æfingarnar örlítið á hverjum degi. 

Ég er ennþá að æfa fyrir hálfan járnkarl en ég er ekkert að stressa mig á þessu. Annað hvort get ég hann eða ekki. Ef ég get hann ekki þá er framundan 10 daga stelpufrí á Ítalíu og ég get litið á ferðina sem undirbúning fyrir næsta járnkarl sem ég fer þá í eftir ár.Löngu hætt að stressa mig á svona smámunum eins og hvort að ég geti klárað eitthvað sem ég ætlaði að gera. Ef þetta er ekki rétti tíminn þá kemur hann bara síðar. Í júlí ætla ég að bæta við YogaTeygjum og einni fjallgöngu á viku og fara að taka göngur eftir hjólið til að venja líkamann við að hreyfa sig eftir hjól. Í ágúst ætla ég svo að bæta við dansappi þar sem dans er einfaldlega skemmtilegasta hreyfingin sem ég veit um.

“Taka ískalda sturtu eftir skokkið”

Tek ekki kalda sturtu en er búin að setja á listann að fara á Kælinámskeið hjá Andra í haust eftir að ég klára járnkarlinn og þá reikna ég með að kaldar sturtur verði hluti af mínum lífstíl. Ég fer hins vegar alltaf í kalda pottinn eftir sund og er komin í 2 mínútur með það að markmiði að geta setið í 10 mínútur í kalda pottinum. Fín æfing fyrir Kælinámskeiðið. Ég hitti konu í kalda pottinum. Við tókum upp spjall. Henni svelgist aðeins á þessu plani mínu. “10 mínútur er alls ekki hollt. Nú sagði ég, hvers vegna er það. Það er bara of mikið. Of mikið hvernig. Hún hafði heyrt um eina konu sem fékk held ég bara hjartaáfall við það að vera of lengi í kalda pottinum, nú sagði ég, var hún eitthvað veik fyrir. Nei alls ekki, fór reglulega í sund”. Jújú það er fullkominn mælikvarði á heilbrigði að fara reglulega í sund. Ég elska að heyra þessar sögur. Sögur af alheilbrigðu fólki sem dó þegar það fór út að hlaupa eða hjóla eða guð má vita hvað. Það var enginn sem hafði áhyggjur af því þegar ég var 95 kg. sófakartafla með óheilbrigðan lífstíl. Það kom enginn og sagði mér sögur af fólki sem var óheilbrigt og dó. Hins vegar þegar ég fer yfir strikið í hreyfingu eða einhverju sem öðrum finnst klikkað þá eru þessar sögur alltaf dregnar upp. Einu sinni heyrði ég sömu söguna þrisvar sinnum í sömu vikunni af manninum sem fór út að hlaupa og dó. Ég velti því stundum fyrir mér hver tilgangurinn sé með þessum sögum. Mér er samt alveg sama. Aðrir mega hafa allar þær skoðanir sem þeir vilja. Það er þeirra réttur. Ef þú ert hins vegar sérfræðingur í kulda og köldum pottum og getur komið með einhverja vísindalega sönnun þá hlusta ég sannarlega á þig. Þangað til brosi ég bara og segi: “mér er alveg sama” svo fór ég heim og googlaði þetta og Google segir að allt að 15 mínútur sé í fínu lagi.

“Smyrja handarkrikana með matarsóda og kókosolíu”

Hef ekki séð neina þörf á þessu, ég nota ekki einu sinni svitarolló.

“Löðra skrokkinn með möndluolíu”

Ég set oft góða olíu á mig beint eftir sturtu og þurrka hana svo af mér. Ég verð svakalega mjúk og fín eftir það og þetta tekur ekki nema eina mínútu. Ég keypti góða Avocado olíu í Krónunni sem kostar ekki mikið og er ekki í gleri. Mæli eindregið með því að prófa.

“Sötra sellerídjús macha dufti, hörfræjum, spírúlína, hveitigrasi og haframjólk úr nýja NutriNinja blandaranum”

Eitt af því fáa sem ég get ekki borðað er Sellerý. Finnst það eins og mold á bragðið. Ég fæ mér aldrei djús á morgnana. Ég byrja mína morgna annað hvort með góðri ommlettu eða Chiagraut. Ég æfi mikið og þarf að borða mikið. Ein stærstu mistök sem fólk gerir varðandi heilsuna er að borða of lítið. Eitt af því sem ég lærði í Clean hjá Greenfit var að drekka ekki ávextina mína heldur borða þá. Djúsar eru ekkert endilega hollir. Svo er líka spurning hvað þú borðar allan daginn. Ef þú byrjar daginn á því að fá þér sellerídjús og færð þér svo pylsu og kók í hádeginu og Pizzu um kvöldið er það þá sniðugt? Mín leið til að vera í lagi er að vera með ákveðið mataræði. Ég finn gífurlegan mun á bæði andlegri og líkamlegri heilsu ef ég vanda matarvalið. Það lærði ég hjá Greenfit og allar mælingar sýna það.

“Jógadýnan handofin úr örtrefjum af munkum í Nepal lögð á parketlagt gólfið”

Jógadýnan er keypt á Íslandi enda hef ég ekki ennþá farið til Nepal en ég er sannfærð um að þegar ég fer til Nepal þá mun ég kaupa mér eina handofna frá munkum. Á mínum bucketlista er að fara í klaustur í viku og stunda jóga, íhugun og þagnarbindindi. Það yrði líklega stærsta áskorunin sem ég get tekið, sleppa símanum og þegja í viku. Ef þú veist um gott klaustur máttu endilega senda á mig skilaboð.

“Kveikja í reykelsi og brenna myrru”

Ég þoli ekki reykelsi eða myrru þannig að það er no no

“Hugleiða í hálftíma”

Ég hugleiði ekki mikið. Mín hugleiðsla er yfirleitt fólgin í því að fara út að ganga eða hlaupa rólega og hlusta á gott Podcast nú eða prjóna. Það er frábær hugleiðsla fólgin í því að prjóna.

“Leggjast á nýju náladýnuna úr Eirberg”

Ég elska náladýnuna frá Eirberg. Nota hana reyndar ekki oft, bara þegar ég fer í nudd þar sem nuddarinn á svona dýnu og ég get vottað að hún losar ótrúlega mikið um allt saman.

“Öndunaræfingar eftir formúlu frá frægum hollenskum gúrú”

Þegar ég byrjaði að æfa hlaup hjá Greenfit þá var það fyrsta sem ég þurfti að bæta var öndun. Með því að nota neföndun þá bætti ég heilsuna á allan hátt. Ég sef betur, ég hleyp betur og mér líður betur. Neföndun er allra meina bót og ég mæli eindregið með því að kynna sér það. Fullt af góðum hljóðbókum um málið og einnig hægt að googla æfingar. Eftir síðasta test hjá Greenfit sendi Már mér nokkrar öndunaræfingar til að iðka. Þær eru reyndar ennþá á bucketlistanum, sorry Már en ég get bara gert fáar breytingar í einu.

“Hreyfiteygjur í lokin”

Hreyfiteygjur eru nauðsynlegur hluti af mínu lífi. Ég fann að þegar ég var farin að teygja reglulega varð nuddið ekki svona vont. Ég fór í hjólaferð til Spánar um daginn og nuddarinn var heilsunuddari sem var nýbúin að nudda danska hjólaliðið. Hún gaf mér toppeinkunn í liðleika og hreyfileika og sagði að ég væri með húð eins og þrítug kona. Ég er 53 ára og elsti sonur minn er 26 ára. Mér fannst þetta vera ansi góð meðmæli með mínum lífstíl.

“Skrifa þrjá hluti sem gefa lífinu gildi í þakklætisdagbókina”

Ég skrifa ekki þakkardagbók. Hins vegar er það síðasta sem ég geri áður en ég sofna er að þakka fyrir það sem var jákvætt í dag. Ég áttaði mig á því að ég sef miklu betur þegar ég er þakklát en þegar ég er stressuð og fylli hausinn á mér með neikvæðum hugsunum.

“Vekja síðan börnin blíðlega með kossi svo þau fari ekki í streituástand”

Börnin mín eru 13, 20 og 26. Strákarnir myndu líklega fara í streituástand ef ég færi inn til þeirra og vekti þá með kossi. Hins vegar tók ég eftir gífurlegum mun á krökkunum þegar þau voru minni hvort að ég vakti þau með VILJIÐI KOMA YKKUR Á FÆTUR eða færi inn til þeirra, vekti þau rólega með kossi og knúsi og byrjaði daginn vel (ég var mun meira í fyrri pakkanum og skildi ekkert í því hvað börnin voru öfugsnúin á morgnana). Mæli með að prófa seinni aðferðina og sjá hverju hún skilar.

“Öll fjölskyldan borðar hafragraut úr glúteinlausum höfrum, heimagerðri kasjúhnetumjólk, með kanil frá Sri Lanka, lífrænum eplum og chiafræjum”

Þegar krakkarnir voru yngri þá var hefðbundinn morgunmatur hjá þeim hafragrautur með eplum, kanil og rúsínum. Ég er nýhætt að kaupa vörur frá MS og þessi yngsta er alveg til í að nota haframjólk í staðinn. Ég sá einmitt að það er komin vél til að búa til sína eigins möndlumjólk og er gífurlega spennt að prófa hana.

“Engir símar við matarborðið”

Við borðum á mjög mismunandi tímum þannig að þessi regla hefur ekki alveg gengið upp.Ég nota yfirleitt síma við morgunverðarborðið en er alltaf á leiðinni að bæta mig. Það er bara drepleiðinlegt að sitja ein við morgunverðarborðið og tala við sjálfa sig.Samt var ég að lesa að við hefðum gott að því að láta okkur leiðast þannig að kannski ætti ég að henda þessu á Bucketlistann, sef á þessu.

“Nestið fyrir börnin tilbúið. Heimabakað rúgbrauð með avocado og harðsoðnu eggi pakkað í endurnýtanlegan vaxpappír”

Mín vill helst ávexti og grænmeti í nesti. Ég set það í nestisbox þar sem það er hægt að nota það aftur og aftur.

“Gengur frá leirtauinu í uppþvottavélina, þurrkar af borðinu, því það er svo gott að koma heim eftir vinnu í hreint eldhús”

Guð minn góður já, var það sem ég hugsaði þarna. Það er dásamlegt að koma heim í hreint eldhús.

“Villtur lax og brokkolí í kvöld”

Lax og brokkóli er frábær kvöldmatur

Svo kom seinni hlutinn og ég hreinlega tengdi ekki við neitt í honum. Ég veit alltaf hvar bíllyklarnir mínir eru, þeir eru í skúffunni. Ég set upp matseðil fyrir vikuna og við verslum inn samkvæmt innkaupalista. Ég klára meira að segja vinnudaginn með því að setja upp planið fyrir morgundaginn. Æfingarnar mínar eru líka í plani. Síðast þegar ég átti ekki hreinar nærbuxur var 1990 þegar ég og Rebekka vinkona mín fórum í sex mánaða bakpokaferðalag um Suður Ameríku og þvottaaðstaða var ekki á hverju strái. Reyndar er oft hægt að bjarga sér eins og í góðri á eða læk.

Ég fór út að ganga og hlustaði á Podcast með Tim Grover og Tom Ferry. Tim Grover er algjör snillingur. Ég hitti hann fyrst á ráðstefnu 2018. Hann hefur þjálfað gífurlega mikið af topp íþróttamönnum og ég tengi ansi vel við það sem hann hefur að segja. Mitt tengslanet samanstendur af fólki sem segir einfaldlega: “þú uppskerð eins og þú sáir. Þú getur orðið allt sem þú vilt ef þú einfaldlega leggur inn vinnuna”.  Ég veit hvað ég vil. Ég vil vera heilbrigð og hamingjusöm manneskja. Ég vil eiga gott samband við krakkana mína og mína nánustu. Ég vil ná mínum markmiðum hvort sem það er í vinnu eða einkalífi og ég vil eldast vel og geta gengið á Esjuna þegar ég verð áttræð. Ég næ ekki þeim markmiðum með því að snúsa vekjaraklukkuna mína eða fylgja planinu stundum. Ég þarf að fylgja því alltaf. Michael Jordan varð ekki bestur með því að mæta stundum á æfingar og gera lágmarkið. Hann varð bestur af því að hann ögraði sér og gerði meira en hann þurfti.

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 


Að vera sérfræðingur í áhyggjum!

 

Það er ótrúlegt að það séu ekki nema rúm 2 ár síðan ég sökk niður í mitt dýpsta hyldýpi og ég sá ekki framúr neinu.
2 ár frá því að ég lá heima í fósturstellingu.
2 ár síðan ég náði ekki andanum.
2 ár síðan ég gat ekki hugsað skýrt. 
2 ár frá því að ég sökk neðar en ég hélt að ég gæti sokkið. 
2 ár síðan ég tróð marvaða og náði ekki til botns.

Hvernig er hægt að missa svona algjörlega tökin og sjá ekki fram úr neinu? Ég hef hugsað töluvert um það og þegar ég lít til baka þá sé ég að ég var búin að keyra ansi lengi á hnefanum. Ég held hreinlega síðan í Hruninu. Það er svakalega langur tími. Ég náði aldrei að núllstilla mig. Alltaf þegar ég hélt að ég væri komin með allt á hreinu kom nýtt áfall eða nýtt vesen. Ég stoppaði aldrei til að ná áttum og spyrja mig hvað skipti máli. Hvað vil ég og hvert er ég að fara? Ég leysti öll mín mál með því að fara mína leið og þeir sem voru ekki á sömu línu og ég, þeir gátu bara átt sig. Ég þurfti ekkert á þeim að halda. Ég vissi hvað var best fyrir mig og ég þurfti ekki að leita mér aðstoðar. Það eru aumingjar sem leita sér aðstoðar.  Ég er ekki aumingi.

Þegar kemur að skuldadögum

Ég keyrði á vegginn af fullum þunga einn laugardag í janúar 2018. Þetta var búin að vera erfið vinna í vikunni og ég var þreytt og punkteruð. Þetta var samt eðlilegt ástand fyrir mig.  Ég var þreytt, vann of mikið og hugsaði lítið um heilsuna og sjálfa mig.  Ég kom heim og allt í einu fann ég að ég náði ekki andanum.  Ég lagðist upp í sófa, ég fékk öran  hjartslátt og ég ofandaði á sama tíma og ég barðist við að ná andanum.  Ég hágrét án þess að vita af hverju.  Ég varð skíthrædd og hélt að ég væri að fá hjartaáfall.  Næstu vikur á eftir voru gífurlega erfiðar.  Ég barðist við að fara í vinnuna, að halda haus, að vera til staðar. Mér leið best undir sæng.  Ég missti af ótal viðburðum því ég treysti mér ekki til að mæta.  Ég las dánartilkynningar í Fréttablaðinu því ég öfundaði fólkið sem var þarna.  Þetta var svo rólegur og afslappur staður og laus við öll vandamál. 

Frá botninum er besta spyrnan

Ég fór í gegnum nokkra mánuði af algjöru kerfishruni. Ég var hvergi til staðar, hvorki í vinnunni né fyrir börnin mín. Það kemur samt alltaf að því að þú nærð botninum. Ég náði mínum botni þegar ég missti af foreldrasýningu í fimleikum. Dóttir mín hljóp til mín og spurði, hvar ég hefði verið. Ég hefði verið eina mamman sem hefði ekki mætt. Ég skýldi mér á bakvið vinnu.  Það er svo mikið að gera hjá mömmu í vinnunni. Þetta er svo góður frasi.  Í staðinn fyrir að taka á vandamálunum þá drekkir fólk sér í vinnu.  Gallinn er samt að þú kemur litlu í verk þegar þú ert á þessum stað.  Þú vinnur og vinnur en afköstin og framlegðin eru í engu samræmi við það. Á endanum náði ég botninum og þar með spyrnunni.  Ég vissi að ég var að sigla í kaf og ég yrði að ná tökum á lífinu. Ég er einstæð móðir og er að reka fyrirtæki og það er enginn sem reddar mér. Ég var búin að ganga í gegnum tímabil þar sem ég svaf gífurlega illa. Ég tók sopril á kvöldin til að róa mig og reyna að ná góðum nætursvefni. Ég hef ekki tölu á skiptunum þegar ég vaknaði um miðja nótt og gat ekki sofið áfram. Að vera stressuð, þreytt, úttauguð og svefnlaus er banvæn blanda. 

Hlaupin bjarga geðheilsunni

Í lok apríl 2018 byrjaði ég að hlaupa. Það hafði alltaf blundað í mér að hlaupa 10 km í Reykjavíkur maraþoninu og ég sótti app sem var hlaupaforrit. Þegar ég byrjaði að hlaupa þá byrjaði ég að ná tökum á lífinu og sjálfri mér. Það er eitthvað við það að fara út og anda að sér fersku lofti.  Ég fór að sofa betur og smátt og smátt fór mér að líða betur og betur. Ég man ennþá þá tilfinningu þegar ég gat litið í spegil í fyrsta skipti og sagt við mig. Mér finnst þú frábær og ég er virkilega stolt af þér og svo ertu bara fjandi sæt líka. 

Sérfræðingur í ofhugsun

Þetta kvíðakast var samt ekki fyrsta panikkið mitt. Ég þjáðist af flughræðslu, lofthræðslu og innilokunarkennd. Þetta með flughræðsluna kom mér í opna skjöldu. Ég hafði alltaf notið þess að fljúga og flogið með allskonar rellum hér og þar um heiminn. Svo var það einn vetur að ég er að fljúga heim og ein flugfreyjan byrjar að kalla upp hvort að það sé læknir eða hjúkrunarfræðingur um borð. Þá hafði aðili sem sat fyrir framan mig orðið svona rosalega flughræddur. Það var fínt flug og notalegt en þetta sat í mér. Í lendingunni lentum við í mikilli ókyrrð og þetta varð eitt óþægilegasta flug sem ég hef farið í. Ég spáði ekkert meira í það fyrr en næst þegar ég fór í flug.  Þá byrjuðu óþægindin um leið og ég kom inn í vélina.  Ég settist inn og mér fannst allt þrengja að mér. Ég byrjaði að ofanda og ég skildi ekkert í því hvað var í gangi. Lét mig hafa þetta og reyndi að slaka á. Þarna bölvaði ég stundum að drekka ekki, því það er ekki hægt að róa taugarnar með sódavatni. Þetta ágerðist svo með árunum.  Ég fékk róandi hjá homopata sem sló heilmikið á einkennin en samt aldrei nóg til að mér liði vel. Ég stressaðist upp við að heyra flugmanninn tilkynna að það væri möguleg ókyrrð framundan og stundum var ég örþreytt eftir flugið. Það tekur á að vera uppspennt í nokkra klukkutíma. Þegar ég var komin á þann stað að ég treysti mér ekki til að fljúga lengur  en í 2-3 tíma ákvað ég að leita mér fagaðstoðar. Ég fór á flughræðslunámskeið hjá Icelandair og læknaðist að fullu. Ég hef lent í allskonar ókyrrð eftir námskeiðið og aldrei verið neitt mál.

Innilokunarkenndin fór eiginlega að mestu af sjálfu sér en lofthræðslan var hins vegar stærra og meira mál. Sumarið 2006 fórum við upp í Holmenkollen sem er skíðastökkpallur í Osló til að njóta útsýnisins. Ég fór upp og ég byrjaði að ofanda og fá öran hjartslátt. Mér hafði aldrei liðið svona illa á ævinni. Ég bakkaði niður í einhverjum tryllingi og vissi ekki alveg hvað var í gangi. Ég hafði oft verið smá lofthrædd, sérstaklega í fjallgöngum en þarna magnaðist hún heldur betur upp. Með árunum vatt hún svo mikið upp á sig að ég hætti að keyra út á land. Ég forðaðist aðstæður sem gætu valdið lofthræðslu eins og fjallgöngur og að fara út á svalir.  Þetta gekk ágætlega þar til ég byrjaði að æfa með Landvættum og ég setti mig í allskonar aðstæður þar sem ég þurfti að taka á lofthræðslunni. Að lokum var ég komin á þann stað að annað hvort myndi ég fara í meðferð eða ég myndi detta út úr programminu og gefast upp.  Ég valdi meðferðina og sé ekki eftir því.

Ókosturinn við ofhugsun

Í dag er ég mjög þakklát fyrir að hafa náð tökum á lífi mínu því gamla ég væri ekki að höndla þetta ástand í dag. Ég myndi ofhugsa allt saman og væri búin að bræða úr internetinu með því að googla allt sem ég gæti um Krónuvírusinn, smitleiðir, áhættuhópa og efnahagslegar afleiðingar. Ég myndi ekki sofa á nóttunni þrátt fyrir að innst inni vissi ég að 99% af því sem er í gangi er eitthvað sem ég hef enga stjórn á.  Ég væri á fullu að hugsa, hvað ef .... hvað ef þetta gerist, hvað ef þessi smitast, hvað ef ég ... Ég var sérfræðingur í Hvað Ef.

Málið er að hlutirnir gerast óháð því hvort að við höfum áhyggjur af því eða ekki. Við erum í óvissutímum. Við vitum ekki hvað er framundan eða hvað ástandið mun vara lengi. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur og vera stressaður en þegar ég hugsa um allar andvökunæturnar sem ég átti útaf hlutum sem ég gat ekki stjórnað þá hefði verið betra að sleppa takinu. Kvíðin yfir einhverju sem kannski myndi gerast. Hversu oft gerðist það síðan ekki?

Gamla ég, hefði brugðist svona við. Guð minn góður ef þetta gerist þá getur þetta gerst. Ef þetta gerist af því að þetta gæti gerst og þá er þetta líkleg niðurstaða og svo yrði ég í einhverju panik mode að reyna að redda einhverju sem gæti mögulega gerst einhvern tímann í framtíðinni. Þetta er algjörlega galið. Rökhugsun og ofhugsun eiga nefninlega litla samleið.

Að læra að sleppa takinu

Róm var ekki byggð á einum degi. Það var meðvituð ákvörðun hjá mér að sleppa takinu. Það var gífurleg vinna, bæði sjálfsvinna og með sérfræðingum. Ég fór til sálfræðinga og það hjálpaði mér gífurlega mikið. Ég áttaði mig á því einn daginn að ég væri búin að missa hæfileikann á því að vera langrækin. Sagði við kærastann, “mikið svakalega varð ég pirruð þegar þú gerðir þetta”. Svo þurfti ég að stoppa og viðurkenna, “ég man ekkert hvað það var”. Mig rámaði í að það var eitthvað sem pirraði mig en ég mundi hins vegar ekkert hvað það var eða hvenær eða hvers vegna. Þetta fannst mér algjörlega frábært móment og ég nýt þess að lifa í núinu. Gamla ég var sérfræðingur í fortíðarþráhyggjur og ef það hefði verið keppt í langrækni og ofhugsun á Olympíuleikunum þá hefði ég fengið gull.

Ef það skiptir ekki máli eftir 5 ár ekki eyða meira en 5 mínútum í það

Ef þú hugsar til baka um öll skiptin sem þú ert búin að vera í taugaáfalli yfir einhverju.

Sambandinu sem gekk ekki upp.

Draumastarfinu sem þér var sagt upp.

Háskólanáminu sem þú féllst í.

5 árum seinna skiptir þetta ennþá máli? Ef ekki, hefði þá mátt koma í veg fyrir alla þessa vanlíðan? Þegar þú lendir í þessu þá er gott að muna að ekkert varir að eilífu. Auðvitað er drulluerfitt að vera fastur í hringiðunni og sjá enga leið út úr þessu en tíminn mun líða og fyrr en varir kemstu við upp á yfirborðið aftur.

Mín ráðlegging til allra sem sjá ekki alveg til lands í dag er að leita sér aðstoðar. Stundum er nóg að fara á trúnó með góðum vini. Stundum þarf meiri aðstoð. Hvað sem þú gerir ekki gera ekki neitt. Við erum öll með okkar vandamál og það versta sem við gerum okkur og þeim sem við elskum er að fara þetta á hnefanum. Það er líka gott að muna að það er ekki sjálfselska að setja sig og sína heilsu í fyrsta sæti. Ef þú ert ekki í lagi þá getur þú ekki verið til staðar fyrir aðra.

Ekki harka þetta af þér

Ég hugsa oft hvaða skilaboð við erum að senda krökkunum okkar, og þá sérstaklega litlu strákunum. Harkaðu þetta af þér, þetta er nú bara smá skeina. Þarna erum við að segja þeim hvernig þeir eiga að bregðast við og hvernig þeim á að líða. Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að bregðast við. Kannski var þetta ekki óttinn við skeinuna. Kannski var þetta óttinn við að detta sem þurfti að bregðast við. Það sem háði mér var að mér fannst mín vandamál svo óttalega ómerkileg í stóra samhenginu. Ég þurfti sálfræðing til að segja mér að mínar upplifanir og mínar tilfinningar eru jafnréttháar og annara. Þegar við segjum við einhvern, harkaðu þetta af þér, það eru aðrir sem hafa það verra en þú, þá erum við að segja að þú eigir ekki rétt á því að líða á ákveðinn hátt. Það á enginn að segja þér hvernig þér á líða. Það sem ég hef lært er að setja mig í fyrsta sæti. Ef ég er þreytt þá hvíli ég mig. Ég sleppi æfingu ef ég er illa stemmd.

Það ber enginn ábyrgð á þinni hamingju nema þú sjálf. Ef þú vilt breytingar þá þurfa þær að byrja hjá þér.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram 


Óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum

Ásdís Ósk

 

 

 

 

 

 

 

 

Margir virðast lenda í því að vera með óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum sínum og það virðist engin leið til að losna við það. Ég heyri reglulega, jesús minn Ásdís, þessi facebook live sem þú ert að gera eru svo leiðinleg. Þú ert nú eitthvað alvarlega athyglissjúk. Mikið svakalega eru þessi eignamyndbönd sem þú ert að gera ömurleg.

Þetta fólk virðist lenda í því að allskonar óumbeðið efni birtist á samfélagsmiðlunum þeirra og það er engin leið til að stoppa þetta áreiti. Löng og leiðinleg video fara sjálfkrafa í gang og fólk er tilneytt til að horfa á þau til enda. Það er engin leið til að stöðva þetta. 

Það getur auðvitað tekið á taugarnar fyrir marga að lenda í þessu. Ég skil það fullkomnlega. Hver vill hafa uppáþrengjandi, athyglissjúkar og óþolandi manneskjur á tímalínunni sinni? Manneskjur sem eru eins tölvuvírus sem engin leið er að losna við. 

Ég ákvað því að taka saman nokkur góð ráð til að koma í veg fyrir svona vandamál. Leið 1 er skotheld en ef þetta gerist óvart og þú veist ekkert hvernig á að leysa þetta þá eru nokkrar leiðir til að lágmarka skaðann. 

  1. Ekki senda fólki sem þú þolir ekki vinabeiðni.
  2. Velja unfollow: Þá eruð þið ennþá vinir og viðkomandi fattar ekki að það sé verið að hunsa hann. Með því að gera unfollow sérðu enga pósta frá viðkomandi nema þú veljir að sjá þá aftur.
  3. Velja Snooze for 30 days: :Þá færðu pásu frá viðkomandi í 30 daga. Ef þú færð bakþanka þá getur þú alltaf valið Unsnooze
  4. Blokka (block): Það er frekar afgerandi aðgerð en þá lendir þú ekki í þessu áreiti. Þessi aðgerð er samt ekki alveg skotheld því stundum bognar þú og bugast og hleypir viðkomandi aftur á samfélagsmiðlana þína.
  5. Biðja viðkomandi að blokka þig. Þá lendir þú ekki í þessari stöðu að verða fyrir þessu stöðuga áreiti. Þessi aðgerð er lang áhrifaríkust þannig að ef þú klikkar á leið 1 þá er 5 alveg skotheld. 

Ég útskrifaðist sem kerfisfræðingur um síðustu öld og síðan þá hefur ansi margt breyst. Ég þekki einfaldlega ekki þessa nútíma tækni nógu vel. Ég skil til dæmis ekki hvernig fólk getur lent í því að þurfa að spila ömurleg video ítrekað. Mínir samfélagsmiðlar virka þannig að ég horfi eingöngu á það sem ég vel að horfa á. Kannski er þetta eitthvað sniðugt stillingaratriði sem ég slysaðist til að velja.

Þess vegna hef ég alltaf lúmskt gaman að því þegar fólk er að hafa fyrir því að láta aðra vita hvað þeir séu ömurlegir og uppáþrengjandi á samfélagsmiðlum. Þetta sé alveg hrikalega leiðinlegt og truflandi fyrir þau. Er þetta tegund af masókisma? Þú horfir á eitthvað sem þú hatar og lætur það fara í taugarnar á þér en þú stoppar það ekki. Þarna verð ég að viðurkenna að sérfræðiþekking mín nær ekki nógu langt. Kannski þarf að leita til þartilbærra sérfræðinga til að greina vandann.

 

Getur þú ekki verið aðeins öðru vísi en þú ert ?

Ég passa ekkert alltaf inn í kassann og ansi oft hef ég fengið að heyra að ég sé OF eitthvað. Ég er of hávær. Ég hef of miklar skoðanir. Það væri betra ef ég væri eitthvað öðruvísi. Það er yfirleitt ekki búið að skilgreina hvernig ég ætti frekar að vera en það væri pottþétt betra ef ég væri öðruvísi en ég er.

Hér að neðan má sjá sýnishorn af athugasemdum í gegnum tíðina

Þegar ég átti ekki börn:

Eruð þið virkilega að fara að gifta ykkur, þið eigið engin börn!

Þegar ég varð ólétt:

Hvað ertu eiginlega komin langt á leið? þú ert svakalega stór !

Frænka mín sem er komin miklu lengra en þú er miklu nettari en þú !

Ætlaru í alvöru að borða þessa karamellu, ertu ekki með nógu stóra bumbu ?

Þegar ég átti börn:

Þegar fyrsta barnið var fætt, á ekki að fara að koma með annað !

Hvað ætlið þið eiginlega að hafa langt á milli ?

Það er miklu betra að hafa 2 ár á milli.

Það er miklu betra að hafa 4 ár á milli.

Hvenær á eiginlega að koma með næsta ?

Þegar ég var orðin of gömul:

Ertu virkilega ólétt ?

Var þetta slysabarn ?

Veistu ekki örugglega hver á það ? (jú eiginmaður minn sem ég á 2 önnur börn með)

Ertu ekki full gömul til að vera að koma með eitt núna ?

Til hvers ertu að eiga fleiri börn?

  1. þú hefur nú engan tíma til að sinna þessum sem þú átt nú þegar
  2. þú ert aldrei heima hjá þér
  3. þú ert alltaf í vinnunni

þegar ég var 40 ára, gift sama manni og ég átti strákana með.

Þegar ég var gift:

Mikið svakalega vorkenni ég manninum þínum, það hlýtur að vera svakalega erfitt að vera giftur þér

Þú ert rosaleg gribba

Þú ert svo ákveðin

Þú ert svo stjórnsöm

Mikið ertu vel gift

Þegar ég skildi:

Það er svo gott að vera einhleyp í smá tíma og finna sig

Hvað ætlar þú eiginlega að vera einhleyp lengi ?

Hvers vegna getur þú ekki fundið þér kærasta ?

Hvers vegna gengur þú ekki út ?

Er eitthvað að þér?

Þú verður að lækka standardinn annars gengur þú aldrei út !

Þú ert alltof kröfuhörð

Þú getur ekki ....

Þegar ég var of feit:

Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig, þú ert svo klár og dugleg

Hvað ertu komin langt á leið ?

Hvenær áttu að eiga ?

Þú getur ekki mátað þessi stígvél, þau eru ekki til í nógu stórri stærð

Nei þú mátt ekki máta þessi föt

Við eigum ekkert í þinni stærð

Það er ekki sjens að þessi kjóll hafi verið gallaður, þú ert svakalega stór, þú hefur sprengt alla saumana

Hvers vegna ferðu ekki í jóga, í zumba, í einkaþjálfun, út að hlaupa

HVERS VEGNA GERIR ÞÚ EKKI EITTHVAÐ ?

Þegar ég grenntist:

Fáðu þér nú eina kökusneið, það drepur þig ekki

Þú verður að fá þér smá súkkulaði, það er svo gott fyrir sálina

Það drepur þig ekki að leyfa þér smá

Mikið svakalega lifir þú leiðinlegu lífi

Þegar ég byrjaði að æfa:

Er þetta ekki komið nóg ?

Ætlaðu að hverfa ?

Hvenær ætlar þú að slaka á ?

Þú verður að passa að ofæfa ekki !

Þú verður að passa að ofgera þér ekki !

Ég þekkti mann sem æfði svakalega mikið, svo fór hann út að hjóla og dó (3 sem sögðu mér þessa sögu í sömu vikunni)

Þú vaknar of snemma !

Þú ferð of seint að sofa !

Þú sefur of lítið !

Þú ert of manísk, of geðveik, þú ert of mikið !

Þegar ég æfi rangar íþróttir:

Afhverju ertu á gönguskíðum? alpaskíði eru miklu skemmtilegri

Hvers vegna ferðu ekki í zumba? frábær hreyfing

Afhverju ferðu ekki í salsa?

Afhverju getur þú ekki gert eitthvað annað en þú ert að gera?

Þegar ég vel að drekka ekki:

Fáðu þér nú eitt glas

Þú veist ekki afhverju þú ert að missa

Þú verður að prófa

Þú hefur ekki lifað nema fá þér rauðvín með nautasteikinni

Sitja á sólarströnd og sötra hvítvín

Þig skortir alla upplifun

Hvers vegna drekkur þú ekki, áttu við eitthvað vandamál að stríða?

Ertu alkólisti?

Er áfengi vandamál í þínu lífi?

Æi, kommon, ekki vera svona leiðinleg

Hvert á að troða óumbeðnum athugasemdum?

Á mínum grunnskólaárum á Dalvík fór ég oft á skíði og fannst mjög gaman.  Einn daginn var ég að spjalla við vin minn og hann segir.  „Það er alveg ótrúlegt að sjá þig á skíðum“.  Ég hélt í fávisku minni að ég væri svona góð.  Svo bætti hann við, „þú ert eins og belja á svelli, það er ekkert smá fyndið að sjá þig skíða“ og svo flissaði hann ógurlega að eigin fyndni.  Ég gerði það sem flestar 14 ára stelpur með ekkert sjálfstraust gera. Ég hætti að fara á skíði.  Ég var komin á þrítugsaldur þegar ég steig næst á skíði og lengi vel glumdi þetta í hausnum á mér.  Þú ert eins og belja á svelli.  Við erum flest með svona fólk í kringum okkur.  Fólkið sem vill svo vel.  Fólkið sem bendir óumbeðið á gallana okkar og vekur jafnvel athygli á göllum sem við vissum ekki að við hefðum.  Góða fólkið.  Samt er góða fólkið ekki verst.  Yfirleitt erum það við sjálf sem erum verst við okkur.  Við erum okkar verstu gagnrýnendur og segjum hluti við okkur sem við myndum aldrei segja við vini okkar og myndum aldrei umbera að vinir okkar segðu við okkur.

Veistu, þú ert svakalega feit í þessum galla. Ég myndi ekki fara í ræktina í þessum fötum.  Það eiga allir eftir að horfa á rassinn á þér í þessum galla, hann er útum allt.  Það er best að ná af sér nokkrum kílóum og mæta svo. Hvað um það þó að einhver hugsi þetta eða jafnvel segi það ?  Þetta er ekki þeirra líf, þetta er þitt líf.  Með því að selja sjálfri sér að gera ekki eitthvað þá eru að snuða framtíðarþig um betri lífsgæði. 

Að burðast með skoðanir annara er íþyngjandi fyrir sálartetrið. Það er ólýsanlegt frelsi að losa sig undan þessu. Þetta er ekkert ósvipað og ætla að ganga upp Esjuna og vera búin að fylla bakpokann af steinum. Um leið og þú ferð að losa þig við steina fortíðarinnar verður allt svo miklu léttara. Ekki gera skoðanir annara að þínum. Þú átt bara eitt líf og þú átt að lifa því á þinn hátt, ekki eins og eitthvað annað fólk vill.

Það tók mig tæp 50 ár að átta mig á því að ég væri ekki vandamálið. Ef einhverjum líkar ekki við þig þá skiptir það engu máli. Þú heldur bara þínu striki og hinn aðilinn getur valið að láta þig fara í taugarnar á sér.

Dagurinn sem ég áttaði mig á því að skoðanir annara skilgreina ekki hver ég er, var dagurinn sem ég öðlaðist fullkomið frelsi. Skoðanir annara hafa ekki áhrif á mig lengur, enda hafa þær alltaf verið óumbeðnar. Fólk má hafa allar þær skoðanir sem það vill á mér og öðrum. Ég vel bara að láta þær ekki hafa áhrif á mig. Þetta er mitt líf og ég kýs að lifa því á minn hátt. Því meira sem ég breyttist því  fleiri athugasemdir fékk ég. Gallinn við að gera breytingar þá sýnir þú öðrum að þetta sé hægt og það eru ekkert allir tilbúnir að viðurkenna að vandamálið liggur hjá þeim. Lausnin er því oft fólgin í því að gagnrýna og rífa niður árangur annara í staðinn fyrir að horfast í augu við að þú getur líka náð árangri ef þú vilt.

 

Góða fólkið má hunsa, það er röddin í hausnum þínum sem er vandamálið. Þú býrð með henni og það er erfiðara að hunsa hana. Hún getur verið mjög sannfærandi. Aðrir geta verið fífl. Það er erfiðara að segja, hættu þessi rugli, ég er fífl

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband