4.9.2025 | 19:12
Setjum geðheilbrigðismál í forgang
Gulur september er tileinkaður geðheilbrigðismálum. Á litla Íslandi svipta milli 40-50 manns sig lífi á hverju ári. Þetta er heill árgangur í einum grunnskóla. Á hverju ári týnist einn árgangur úr grunnskólanum. Þetta eru stórar tölur. Það er fallegt að tileinka einum mánuði geðheilbrigði en kannski ættum við að hætta að útnefna mánuð ársins og setja fókus á geðheilbrigði alla daga því án andlegrar heilsu þá eigum við ansi lítið.
Bríet Irma er einn af þessum Íslendingum sem svipti sig lífi. Hún var 24 ára.
Ég fékk leyfi að birta pistill frá tvíburasystur hennar Marín Ösp sem hún birti á sínu Facebook. Millifyrirsagnirnar eru mínar.
Elsku tvíburasystir mín, Bríet Irma er farin frá okkur. Hún var aðeins 24 ára, björt, falleg og með einstakan hlátur sem fyllti hvert herbergi. Hún hafði mikla réttlætiskennd og ótrúlega hæfileika. Hún var skapandi, skemmtileg og gefandi manneskja. Hún var líka móðir. Elsku Atalía Örk, þriggja ára gömul situr nú eftir án mömmu sinnar. Það tómarúm sem hún skilur eftir sig verður aldrei fyllt.
Það er stöðugt barátta að fá úrlausn sinna mála
Bríet var í stöðugri baráttu við eigin sjálfsmynd og hugsanir. Hún glímdi við andleg veikindi frá ungum aldri og síðar fíknivanda, en á sama tíma var hún í leit að bata og betri líðan. Biðlistar, skortur á úrræðum, óaðgengileg þjónusta var allt sem gerði veikindin þyngri og einmannalegri. Þegar við reyndum að berjast fyrir henni var okkur ítrekað vísað á milli, eins og ábyrgðin væri alltaf annars staðar. Það endaði með þessari hörmulegu niðurstöðu.
Á Íslandi taka 4050 manns eigið líf á hverju ári. Tíðnin er hærri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Á Austurlandi, þar sem hún bjó, er geðheilbrigðisþjónusta takmörkuð, fáir fagaðilar til staðar og engin sérhæfð úrræði fyrir ungt fólk. Það er óhugnanlegt að í samfélagi sem á að státa sig af velferð, sé þessi lífsnauðsynlega þjónusta svona veikburða.
Hvað þarf að gerast áður en stjórnvöld bregðast við?
Hversu mörg líf þurfa að tapast áður en kerfið vaknar?
Hvenær er nóg komið og hvenær förum við að grípa til alvöru aðgerða?
Bríet var ekki sjúklingur á biðlista. Hún var ekki mál í kerfinu. Hún var manneskja með drauma, vonir og þrá. Hún var systir, hún var móðir, hún var dóttir og hún var vinkona. Og nú er hún farin. Ég vil ekki að hún verði bara ein í röð talna um sjálfsvíg. Ég vil að saga hennar verði hvatning til vitundarvakningar. Að hún verði áminning um að hér þurfi aðgerðir!!
EKKI fleiri áætlanir, EKKI fleiri skýrslur, heldur raunveruleg úrræði, fagfólk og stuðningur fyrir þá sem glíma við geðrænan vanda.
Bríet var ljós í lífi okkar allra. Ljós sem lýsti bjart en dofnaði allt of fljótt. Hún átti betra skilið, og dóttir hennar á betra skilið. Við skuldum henni og öllum þeim sem enn berjast í myrkrinu, að standa vörð um geðheilbrigði á Íslandi.
Við getum ekki breytt því sem gerðist, en við getum og verðum að breyta því sem gerist næst. Við verðum að byggja upp þjónustu sem grípur áður en of seint er. Við verðum að tryggja að önnur fjölskylda þurfi ekki að ganga í gegnum það sem við erum að ganga í gegnum.
Það er kominn tími á vitundarvakningu í þjóðfélaginu
Í minningu hennar vil ég vitundarvakningu, breytingar og krefst þess að kerfið fari að virka fyrir fólkið sem þarf mest á því að halda.
Elsku Bríet þú snertir hjörtu svo margra og þín verður saknað á hverjum degi
Við viljum benda fólki sem vilja minnast Bríetar á framtíðarsjóð dóttur hennar:
Kt. 020921-4390
Reikningsnr. 0123-18-206962
Einnig þakka samfélaginu og öllum fyrir hlýjar kveðjur og stuðning á þessum erfiðum tímum
Marín Ösp Ómarsdóttir
Ég veit ekki með ykkur en ég hef persónulega farið á alltof margar jarðarfarir þar sem fólk hefur svipt sig lífi á öllum aldri. Geðrænir sjúkdómar og fíknisjúkdómar spyrja ekki um stétt og stöðu, kyn eða aldur. Þeir fara ekki í manngreiningarálit en við sem samfélag gerum það hins vegar.
Hvað kosta biðlistar og úrræðaleysi mörg mannslíf á ári?
Það er fáránlegt að 2025 séum við ennþá að velja hvaða sjúkdómar fara í forgang. Ef ég fæ hjartaáfall þá fæ ég strax þjónustu og aðgerð. Það er enginn sem myndi láta sér detta í hug að segja, æi Ásdís mín, ansans óheppni að þú hafir fengið hjartaáfall í júní. Við lokuðum nefnilega hjartadeildinni og sendum alla læknana í mánaðarsumarfrí þannig að reyndu bara að þrauka til 5. júlí þegar við opnum aftur.
Obbosí þetta er nú ekki góður tími til að fá krabbamein, við erum nefnilega búin með allt fjármagn og þú verður bara að koma aftur í janúar, ég veit að það eru 4 mánuðir í bið en skelltu þér bara í göngu, jóga og íhugun, það hefur gefið góða raun.
Hvers virði er hvert barn?
Núna stefnir í óefni þar sem okkur fer fækkandi. Barnsfæðingum fækkar og færri konur hafa áhuga á því að eignast börn. Þannig að margar þjóðir eru á fullu að reyna að leysa það vandamál þar sem við verðum að fá framtíðarskattgreiðendur því annars fer allt í óefni síðar meir.
Hvað ef vandamálið er ekki að okkur sé að fækka? Hvað ef vandamálið liggur í því að við pössum ekki nógu vel upp á börnin sem þó fæðast. Ef við setjum þetta í krónur og aura og í excel. Hvað kostar að koma einu barni í gegnum skólakerfið, alveg frá getnaði? Hvað kostar meðgangan, fæðinging, sængurlegan, fæðingarorlofið, leikskólinn, grunnskólinn og jafnvel menntaskólinn? Hvað hefur þjóðfélagið fjárfest mikið í einu barni? Hvað kostar síðan að grípa öll börn sem misstíga sig og setja þau í úrræði um leið og þarf? Ekki skýla sér á bakvið biðlista eða skort á fjármagni eða starfsfólki. Því í alvöru talað við erum búin að fjárfesta gífurlega mikið í þessum einstaklingi og hvers vegna ekki að klára málið og aðstoða hann við að verða góður og gegn skattgreiðandi.
Markaðsfræðin segir að það sé miklu dýrara að fá nýjan viðskiptavin en að halda í gamlan.
Hvað gagnast það samfélaginu ef allur fókusinn er á að búa til ný börn sem eru jú gífurlega kostnaðarsöm í upphafi ef við ætlum svo að missa niður þessa fjárfestingu rétt áður en hún fer að skila hagnaði. Hvað kostar hver tapaður skattgreiðandi? Því þetta snýst ekki bara um þetta eina barn. Þetta snýst um stórfjölskylduna sem þarf oft að taka sér frí frá vinnu til að sinna þörfum barnsins sem fagfólk ætti að sjá um. Þetta sýst um sorgina þegar barnið getur ekki meir og ákveður að taka sitt líf.
Hættum að líta á andleg veikindi sem minna merkileg veikindi en önnur og grípum alla sem þurfa á því að halda. Hættum að segja gulur september er geðheilbrigðismánuður og setjum andlega geðheilsu í forgang alla daga alla mánuði ársins. Við sem samfélag höfum einfaldlega ekki efni á öðru.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning