2.6.2022 | 19:50
Læknar líkamann með mataræði
Ég fór í mælingu hjá Greenfit um daginn. Svosum ekkert merkilegt, ég fer í mælingu hjá þeim á ca 6 mánaða fresti og þér að segja þá er líklega enginn viðskiptavinur hjá Greenfit sem hefur farið í jafnmargar blóðprufur og ég. Þarna sé ég að einhverjum svelgist á kaffinu. Æi þetta er svo dæmigerð Ásdís, þú ert svo manísk og ferð svo yfir strikið. Það þarf enginn að fara í mælingar hjá Greenfit á 6 mánaða fresti, ENGINN SEGI ÉG, eitthvað kostar það nú.
Ég er búin að vera á mínu lífstílsbreytingarferli í tæp 5 ár. Ég á 5 ára afmæli í ágúst. Það sem ég er búin að læra er að ég á einn líkama og það er enginn varalíkami. Þetta er lífið ekki tölvuleikur þar sem ég get gert reset all ef heilsan bilar. Það er ekkert RESET ALL í lífinu því miður. Þegar ég var í mínum yoyo lífstíl þá átti ég 3-4 stærðir af fötum inn í skáp. Fötin sem ég passaði í. AðeinsOfStóruÖryggisfötin mín til að nota þegar ég kem úr fríum og eftir jól og páska. Í fríum fannst mér tilvalið að tríta mig allan tímann því ég er jú í fríi og þá á að tríta sig. 3ja vikna frí á Spáni var skólabókardæmi um svona smá trít. Fötin sem voru í það þrengsta á mig sem ég var alveg að fara að passa í og svo fötin sem ég ætla pottþétt að komast í þegar allt gengur upp og lífið verður dásamlegt. Það kostar slatta að eiga 4 stærðir af fötum og það kostar líka helling að fara úr einni fatastærð í aðra, hvort sem það þarf að kaupa stærri eða minni föt. Síðustu 2 ár hef ég verið í jafnvægi. Ég er í sömu fatastærð og get leyft mér að kaupa mér nákvæmlega það sem mig langar í, ekki það sem ég passa í heldur það sem mig langar í og ég þarf miklu minna af fötum þar sem það er bara ein stærð af fötum í skápnum mínum. Það er gífurlegt frelsi sem fylgir því að vita að þú passar í fötin þín þó að þú skreppir til Spánar í 3 vikur (reyndar fer ég ekki í svona löng frí til Spánar lengur. Nenni ekki lengur að liggja á sólarbekk og tana í 3 vikur).
Eilífðarábyrð á bílnum
Þegar ég var 17 ára þá keypti ég mér bíl, glænýr úr kassanum. Gaurinn í umboðinu sagði: Þetta er frábær bíll. Það þarf ekkert að hugsa um hann. Þú þarft aldrei að fara með hann í skoðun. Þú þarft aldrei að láta laga neitt og þú getur sett hvaða eldsneyti sem er á hann, bensín, dísel, metan eða jafnvel flugvélabensín, skiptir engu. Þessi bíll þolir allt. Eilífðarábyrg á honum og hann mun aldrei bila. Hljómar þetta of gott til að vera satt. Það er hárrétt enda er þetta lygasaga frá upphafi til enda. Hins vegar kom ég fram við minn líkama í 48 ár eins og hann væri ódrepandi og myndi aldrei bila. Spáði voðalega lítið í því hvaða næringu ég setti ofan í hann og hvaða áreiti væri í gangi. Fannst samt allt ótrúlega ósanngjarnt ef líkami minn brást við næringu og hreyfingaleysi á annan hátt en ég vildi.
Verðskulda ég minni þjónustu en bíllinn minn?
Ég er á 4ra ára gömlum bíl. Ég er ekki mikil áhugamanneskja um bíla. Ég prófaði einu sinni að keyra Porsche jeppling. Ég fann ekki mikinn mun á mínum bíl og fína Porsche jepplingnum. Mögulega vantar bílagenið í mig. Þetta er 3ji bíllinn síðan 2004. Mér finnst að bílar þurfi að virka og keyra milli A-B áfallalaust. Hann þurfti að fara í þjónustuskoðun í vetur og það var kominn tími á eitthvað bremsudæmi þannig að það var lagað. Reikningurinn með þjónustuskoðun var í kringum 160.000. Stuttu seinna þurfti ég ný vetrardekk. Þar fauk annar 160.000 kall, svo þarf að smyrja hann reglulega og sitt lítið að hverju sem fellur til. Samt dettur engum í hug að spara sér þennan pening og keyra um á ósmurðum bíl með ónýtum vetrardekkjum og biluðum bremsum. Það gæti orðið vesen í vetur á leiðinni upp í Bláfjöll þegar það er glerhált á leiðinni, dekkin slitin og bremsurnar virka ekki. Ég þarf ekki að eiga bíl. Ég get tekið strætó, ég get tekið leigubíl en ég get ekki keypt annan líkama. Ef ég fer ekki með bílinn í þjónustuskoðanir þá fellur hann úr ábyrgð. Það er engin krafa um að ég fari í neina þjónustuskoðun. Samt hafa þessar 7 þjónustuskoðanir hjá Greenfit kostað minna en ég hef þurft að eyða í bílinn á einu ári. Kostnaður sem annars vegar er flokkaður undir nauðsyn en hins vegar lúxus og jafnvel eyðslusemi. Hvers vegna ætli það sé?
Fullkomið jafnvægi
Ég keyrði á vegg í fyrra, varð alveg orkulaus og brjálæðislega úrill. Eftir nokkra mánuði af því að reyna að finna út úr þessu skellti ég mér til læknis sem var fljótur að greina vandamálið. Frúin var komin á bullandi breytingarskeið. Hann vildi ekki setja mig á hormóna þar sem kólesterólið var svo hátt þannig að ég neyddist til að grípa til þeirra verkfæra sem Greenfit hafði kennt mér. Þegar ég byrjaði hjá Greenfit voru mín innri gildi í algjöru tjóni og ég tók 4ja mánaða Clean mataræði og svindlaði EKKERT. Ég var í fullkomnu jafnvægi bæði andlega og líkamlega. Ég svaf eins og engill og kolesterólið lækkaði úr 8.2 í 6.7 á 4 mánuðum. Þetta var því auðleyst. Ég þarf einfaldlega að lifa svona út lífið. Þann 13.maí 2021 ákvað ég að hætta að borða sykur út lífið.
Úps I did it again, söng Britney fyrir langa löngu. Já sko þann 13.maí 2021 hætti ég ekkert að borða sykur. Ég tók þessa ákvörðun en ég stóð ekki við hana. Ég og sykur erum í svona love-hate relationship. Ég elska að hata hann. Þetta gengur samt alltaf betur og betur og ég tek lengri og lengri tímabil þar sem ég er án sykurs. Ég hef komist að því að ég er best þegar ég sleppi sykri, hveiti, mjólkurvörur og geri. OMG Ásdís hvað borðar þú eiginlega þá, allt hitt. Ég borða t.d. ávexti, ABBBABBBABB segir þá góða fólkið. Ásdís þú veist að það sykur í ávöxtum. Ég drekk ekki gos en ég drekk Kristal, ABBBABBBABB segir þá góða fólkið, Sódavatn er líka gos. Það er allt í lagi. Góða fólkið má hafa alla þá skoðun sem það vill. Þetta snýst ekki um að fara eftir öllum þeim reglum og boðum og bönnum sem til eru. Þetta snýst um að finna mitt jafnvægi og ávextir í hófi eru aldrei að fara að valda mér sama tjóni og Pizza, kók og Snickers með smá snakki.
Svo ég geri orð Bon Jovi að mínum... Its my life
It's my life
It's now or never
I ain't gonna live forever
I just want to live while I'm alive
PacMan mætir á svæðið
Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég ráðleggingu að til að ná ákveðnum árangri þá þyrfti ég að bæta kolvetnum við mataræðið. Ég ákvað að setja inn hrísgrjón og pasta. Á 3ja degi breyttist ég í PacMan og ryksugaði eldhúsið. Fyrst fékk ég mér eina kleinu og svo aðra. Fann múffu með sykurkremi sem ég gúffaði í mig með ískaldri mjólk og svo 1 hrískaka með súkkulaði og svo smá súkkulaði og svo döðlukaka og svo ís og niðursoðnir ávextir í eftirrétt og ekkert salat í kvöldmat. Daginn eftir þegar ég vaknaði með heilaþoku dauðans, þrútna liði, hálsbólgu og orkuleysi mundi ég hvers vegna ég forðast ákveðin kolvetni (s.s. hrísgrjón og pasta). Þetta var ekki ráðlegging frá Greenfit að bæta við kolvetnum og eftir þessa tilraun ákvað ég að það væri einfaldara að fylgja bara einum herra í mataræðinu.
Covid recovery
Ég fékk loksins Covid í lok janúar. Eins og með mælingar hjá Greenfit var ég mjög dugleg að láta kanna með Covid. Þríeykið talaði alltaf um að fara í test ef þú finndir fyrir einkennum og ég fann alltaf fyrir einkennum eftir sykur- og/eða hveitiát. Ég fann ekkert fyrir Covid en langtímaáhrifin urðu ansi hressileg. Núna er ég búin að vera í 4ra mánaða Covid Recovery. Ég er með gífurlega háan æfingapúls og hef nokkrum sinnum fallið í þá gryfju að halda að ég sé orðin góð og farið á fullt bara til að þurfa að leggja mig eftir æfingu og sleppa æfingu daginn eftir. Þegar ég sá að vinkona mín var með sama álagspúls eftir 3ja tíma 21 km PuffinRun og ég eftir 5 km á jafnsléttu sá ég að það þýddi ekkert að þrjóskast við þetta heldur fór 3 ár aftur í tímann og byrjaði upp á nýtt. Ég ræddi þetta við Má hjá Greenfit. Hann sagði mér að þau hefðu verið að koma af ráðstefnu um langtíma áhrif Covid og það væri komið í ljós að konur sem hefðu verið í mjög góðu formi fyrir Covid væru í meira mæli að glíma við langtíma áhrif en aðrir. Auðvitað var ég svo heppin að draga stutta stráið þarna. Ég ræddi við hann um járnkarlinn sem ég er skráð í í september. Við fórum yfir síðasta álagspróf. Það voru margir mjög jákvæðir þættir þarna.
Best í fitubrennslu
Ég er rosalega góð að brenna fitu. Hlutfall minna efnaskipta í hvíld er 81% fita og 19% kolvetni. Og ég er vel yfir meðaltali í efnaskiptahraða samanborið við aðra á sambærilegum aldri, hæð og þyngd og ég. Það stendur meira að segja að heilsa efnaskipta minna er mjög góð. Við skoðuðum síðasta hlaupaprófið sem ég tók hjá þeim. Það var líklega rólegasta prófið sem ég hef tekið þar sem ég þorði ekki að keyra mig út af ótta við að ég myndi þá vera orkulaus daginn eftir. Það er skrýtinn staður að vera á og stundum erfitt fyrir hausinn að minna sig stöðugt á að fara ekki of hratt, jafnvel þó að þér líði mjög vel á æfingunni þá er yfirleitt gjald að greiða eftir æfinguna. Samkvæmt síðasta hlaupaprófi þá er ég með frábæra fitubrennslu, svo góða að ég gæti næstum því tekið hálfan járnkarl án þess að næra mig, myndi bara fórna litlu fitubollunum mínum á altari járnkarlsins. Már benti á að ég væri mjög gott grunnform og ég ætti að fókusa á zone2 æfingar fram að járnkarli og reyna frekar að taka langar göngur um helgar frekar en harðar sprettæfingar. Mér finnst þetta ágætisplan og stefni ennþá á hálfan járnkarl.
Það er bara ein spurning sem ég er með í sambandi við þessa fitubrennslu. Mér finnst alveg vanta að það sé hægt að stjórna henni. Ég er t.d. með fullt af svæðum sem fitubrennslan virðist sleppa, s.s. maginn, innri lærin og mjaðmir á meðan fitubrennslan virðist fókusa helst á rass og brjóst. Halló, það þarf ekkert að brenna meira af þeim svæðum. Þau eru lokuð fyrir frekari brennslu. Ég mæli með að Greenfit finni leiðina til að beisla þessa fitubrennslu frekar og gera hana svæðisbundna.
Innri gildin að batna
Ég byrjaði hjá Greenfit eftir að hafa fengið rauða spjaldið í heilsunni. Ég var komin með gífurlega hátt kólesteról og blóðsykur, svo hátt að heimilislæknirinn minn vildi setja mig á lyf. Ég er svo lítið fyrir lyf og langaði ekkert að fara á þau, þannig að þegar Lukka hjá Greenfit sagði mér frá Clean mataræðinu ákvað ég að ég hefði engu að tapa og allt að græða. Stutta útgáfa var að ég missti 11 kíló á 4 mánuðum (fann nokkur aftur sem söknuðu mín mikið) og öll innri gildin snarbötnuðu. Þau bötnuðu svo mikið að læknirinn mælti með því að ég myndi bara halda áfram á þessari braut í staðinn fyrir að smella mér á lyf. Fannst nú að heilbrigðiskerfið hefði átt að gefa mér einhver verðlaun fyrir stórfelldan sparnað í lyfjakaupum.
Við Lukka fórum fyrir síðustu skýrsluna mína. Hún benti á að langtímaheilsan mín væri alltaf að batna en það væri augljóst á sýnunum hvernig ég er ströng í mataræðinu og hvenær ekki. Ég er búin að fara í 7 próf (stundum fer ég oftar en á 6 mánaða fresti ég þegar mig langar að sjá hvort að það sem ég er að gera sé að skila árangri). Blóðsykurinn minn er lægri en hann var í ágúst 2021 en hærri þegar ég var alveg Clean. Sama gildir um Kólesterólið. Það var við hættumörk þegar ég byrjaði en núna er það bara mjög hátt. Hins vegar er góða Kólesterólið búið að lagast það mikið að það er farið úr gulum í grænan og er til fyrirmyndar. Lifrin er í toppstandi og sama á við um D vítamín birgðirnar mínar. Hvítu blóðkornin skora til fyrirmyndar og bólgur í líkamanum hafa snarminnkað og komið úr hættumörkum í aðeins of hátt. Þetta er ekkert flókið eina sem ég þarf að gera er að borða Clean og þá er líkaminn í lagi.
Sykurpúkinn minn og þinn
Ég er með innri sykurpúka sem á stundum bágt. Ég finn samt að ég á alltaf auðveldar og auðveldar að hunsa vælið í honum og í raun það eina sem ég þarf að gera er að leyfa mér ekki smá. Smá verður alltaf meira hjá mér. Gamla ég fékk sér alltaf trít. Ég fór kannski út að ganga og var ótrúlega dugleg, gekk alveg 2 km og fannst þá tilvalið að verðlauna mig með súkkulaðisnúð og kókómjólk. Þú færð jú kraft úr kókómjólk. Ég velti því stundum fyrir mér hvað er að fá sér smá trít. Er það virkilega smá trít að gúffa í sig nammi og snakki. Bætir það eitthvað lífsgæðin? Er það trít að setja dísel á bensínbíl?
Ég las á dögunum að Helgi í Góu framleiði 100 tonn af nammi á mánuði og mest fyrir innanlandsmarkað. 100 tonn er ótrúlega stór tala. Þetta er bara Góa, svo eru allir hinir framleiðendurnir eftir og kexið, kökurnar, eftirréttirnir, sykruðu drykkirnir, mjólkurvörurnar og snakkið. Ég velti því stundum fyrir mér ætli sá tími komi að framtíðarkynslóðum finnist jafn fáranlegt að geta keypt nammi í búðum eins og að hafa getað keypt sígarettur í búðum. Ég drekk ekki áfengi en ég spyr mig stundum hvort að allur þessi sykur sé minna skaðlegur heildinni en áfengið sem má ekki selja í búðum?
Cleanlife.is
Ég og Axel Valur sonur minn höldum úti uppskriftarvefnum Cleanlife.is þar sem við setjum inn einfaldar uppskriftir sem eru sykur-hveiti og mjólkurlausar. Ég set inn mikið af okkar efni en einnig ef ég prófa girnilegar uppskriftir þá set ég þær inn líka. Ég setti reyndar inn 2 um daginn sem pössuðu ekki við það en krökkunum fannst þetta svo gott að ég vildi geyma þær uppskriftir á vísum stað.
Ef þú ert að glíma við sykurpúkann eða vilt bara laga aðeins til þá mæli ég alltaf með því að byrja á því að heyra í Greenfit. Þau eru með frábær Clean námskeið þar sem þú getur lært tökin og núllstillt þig. Án þeirra væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag og gæti ekki núllstillt mig sjálf. Þú hefur engu að tapa nema kannski verri heilsu og það er jú mikils virði.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.