29.3.2022 | 17:16
Orkuleysi eftir Covid
Ég fékk loksins Covid í lok janúar. Greindist jákvæð þann 28.janúar. Veikindin urðu ekkert mál. Ég fékk hósta í einn dag eða svo og var slæm í hálsinum en engin önnur einkenni. Ég var ekkert smá fegin að sleppa svona vel frá þessu. Hálssærindin voru svipuð og ég fæ þegar ég borða mikinn sykur og vakna með hálsbólgu daginn eftir enda fór ég örugglega í 10 neikvæð Covid test vegna einkenna sem mátti reka til mataræðis. Ég hefði í raun ekki farið nema afþví að kærastinn greindist með Covid og ég fékk eins hósta og hann. Annars hefði ég verið algjörlega ómeðvituð um þessi veikindi.
Á 3ja degi var ég svo hress að ég ákvað að fara út að hlaupa. Þetta er stuttur hringur og þægilegur. Ég fór 3.84 km á rólegum hraða og leið mjög vel allan tímann. Svo kom ég heim og varð eitthvað skrýtin. Það var mjög mikil þreyta í lærunum. Það voru ekki strengir heldur meira svona vöðvarverkir eða hreinlega eins og þau væru stútfull af mjólkursýru eftir mikið álag. Hmm. Mikið álag, búin að vera heima í 3 daga og þetta var fyrsta alvöru hreyfingin. Það tók mig sólarhring að ná mér góðri.
Ömurlegt að eiga afmæli í einangrun
Þeir sem þekkja mig vel vita að ég elska að eiga afmæli og það eru ákveðnar hefðir sem má ekki brjóta. Ein er að afmælisbarnið er alltaf vakið með söng, köku með kerti og pakka. Þegar afmælisbarnið er í einangrun er það víst ekki hægt. Það er ekki heldur hægt að fara út að borða með kæró eða vinkonum. Þetta er svokallað fyrstaheimslúxusvandamál. Að sögn annarra fjölskyldumeðlima greindist ekki vottur af jákvæðni í frúnni þennan dag.
Einangrunarfreslsishlaup
Ég var laus úr einangrun daginn eftir (talandi um lélega tímasetningu, hefði betur farið í test deginum áður 😊) og fagnaði því með 5.41 km rólegu hlaupi. Sá ekki ástæðu til að hvíla mig lengur enda algjörlega einkennalaus allan tímann og leið mjög vel yfir utan fýlukastið á afmælisdeginum. Hlaupið gekk ágætlega en púslinn rauk alltaf upp við minnsta álag. Ég skoðaði púlsinn þegar ég kom heim. Meðalpúlsinn var 157 slög og hámarkspúlsinn var 178 slög eða eins og í góðum sprettæfingum. Ég bar saman hlaup fyrir og eftir Covid og það var gífurlegur munur á púls. Þann 26. janúar tók ég sprettæfingar. Þá var meðalpúlsinn 137 slög og hámarkspúlsinn 172 slög. 27. janúar (daginn áður en ég greinist) þá tók ég 9.17 km hlaup og þá var meðalpúlsinn 139 slög og hámarkspúlsinn 154 slög.
Mjólkursýra, úthaldsleysi og púls á yfirsnúning
Ég tók nokkrar léttar hlaupaæfingar en það var alltaf sama staðan. Ég var ótrúlega lengi að jafna mig eftir hlaupin. Líkaminn var einfaldlega stútfullur af mjólkursýru og hlaupin urðu alltaf að hlabbi. Ég hljóp smá, púlsinn fór yfir maxið og ég gekk rólega til að ná honum niður. Stundum gat ég hlaupið milli 2ja ljósastaura áður en púlsinn rauk upp.
Sama gilti á hjólaæfingum. Hjóladeildin skoðaði þetta þar sem ansi margir voru að greinast með Covid á sama tíma og mjólkursýrumyndun var algengt einkenni eftir Covid. Besta leiðin til að ná sér væru rólegar zone1-zone2 æfingar í nokkrar vikur á eftir. Stóra spurningin er hvað þýðir nokkrar vikur. Eftir fjórar vikur var ég á sama stað og eftir Covid þannig að ég átti eiginlega bara 2 kosti. Hætta að pæla í þessu og eyðileggja á mér skrokkinn eða fara aftur til baka þegar ég var að byrja og hreinlega byrja upp á nýtt. Ég ákvað að velja seinni kostinn.
Að velja og hafna
Það er ansi erfitt að fara aftur til baka. Það er erfitt að sætta sig við að formið sem þú varst komin í er farið og hunsa þessa litlu rödd í hausnum sem segir. Hvað ef Ásdís, hvað ef formið kemur aldrei aftur til baka? Hvað ef þú verður aldrei góð aftur? Hvað ef þú ert bara ekkert betri en þetta? Hvers vegna er þú miklu lengur að jafna þig en margir aðrir?.
Kærastinn varð veikari en ég en hann varð líka miklu sprækari strax aftur. Ég hélt áfram að vera slæm í hálsinum (það er svæði sem ég er viðkvæm fyrir og sérstaklega fer sykur beint í hann) og ég ákvað að sleppa gönguskíðunum. Tilhugsunin um að fara upp í Bláfjöll í skítakulda, orkulaus, þreytt og kalt var engan veginn að heilla. Ég þakkaði fyrir að vinna heima og ég gat náð að leggja mig eftir hádegi. Ég breyttist í spánverja og tók siesta seinni partinn. Ég ákvað að minnka æfingaálagið og tók út einkaþjálfun og setti inn heimateygjur og yoga í staðinn. Það reyndist vera mjög skynsamleg ákvörðun. Bakmeiðsli tóku sig upp aftur. Ég hafði fengið hnykk á bakið í haust og var orðin mjög góð eftir nudd og sjúkraþjálfun þegar það fór í sama farið aftur. Ég ræddi þetta við sjúkraþjálfarann sem sagði að veiran leitaði í veiku svæðin.
Lífið breytir alltaf þínum plönum
Ég set alltaf upp fullt af spennandi markmiðum og plönum fyrir hvert ár. Síðustu ár hafa þau flest verið tengd hreyfingu og keppnum. 2022 átti að verða BRJÓTUMGLERÞAKIÐMITT. Ég skráði mig í Meistaraæfingar hjá Einari Ólafs gönguskíðasnillingi og skráði mig í Fjarðagönguna, Strandagönguna og Fossavatnsgönguna.
Ég hélt áfram í hlaupahópnum hjá Greenfit og skráði mig í Kaupmannamaraþonið og svo skráði ég mig í hálfan járnkarl á Ítalíu af því að ég átti inneignarmiða í hann og svo afþví að ég vissi að ég gæti hann. 2022 var árið sem ég myndi hlaupa mitt fyrsta maraþon og klára minn fyrsta hálfa járnkarl. Mér fannst þetta ansi töff af 53 ára gamalli konu sem er bara búin að æfa íþróttir í nokkur ár. Þetta voru líka fyrstu keppnirnar sem ég skráði mig í án þess að æla af stressi. Fyrstu keppnirnar sem ég vissi að ég gæti. Fyrstu keppnirnar sem ég yrði í raun og veru virkilega vel æfð fyrir og tilbúin að takast á við þær.
Hlaupaæfingar fyrir áramót gengu glimrandi vel og ég tók bæði löng róleg hlaup, styttri hlaup og sprettæfingar. 31. des s.l. náði ég mínu besta 10 km hlaupi 56:51 mínúta, markmiðið hafði reyndar verið 54.59 mínúta en Gamlárshlaupið hafði verið blásið af þannig að þetta var bara ég að keppa við sjálfa mig og að er alltaf aðeins erfiðara og ég ákvað að njóta þess að hafa bætt mig svona mikið.
Í janúar varð aðeins minna um æfingar. Ég hætti að mæta á hópæfingar út af Covid. Var á leiðinni til Tenerife, fyrsta utanlandsferðin í 2 ár þannig að ég setti mig í búbblu til að smitast ekki rétt áður en ég fær út. Naut þess svo að vera úti í sól og tók nokkur róleg hlaup. Kom svo heim og fékk Covid rúmri viku eftir heimkomu en hafði verið í sóttkví nokkra daga áður.
Alltaf á byrjendareit
Þegar ég lít til baka þá sé ég hvað þessi 2 ár hafa í raun og veru verið erfið. Ég var alltaf að byrja upp á nýtt. Þegar ég var komin í form þá breyttust Covid reglurnar. Sundlaugarnar lokuðu, hjólaæfingar féllu niður og ég var alltaf að byrja upp á nýtt. Breytingaskeiðið kom líka af fullum krafti og ég var þreytt og orkulaus fyrri partinn í fyrra.
Það er ótrúlega erfitt að byrja endalaust upp á nýtt og síðustu 2 ár hefur mér ég fundist vera á byrjendareit aftur og aftur og aftur. Mér fannst léttir að greinast með Covid og ég fann að þetta hafði verið stressfaktor sem var undirliggjandi. Hvenær greinist ég? hversu veik verð ég? hvað verð ég lengi frá vinnu? Ég hafði alltaf sloppið með skrekkinn. Hafði ekki einu sinni lent í sóttkví einu sinni. Þegar þú vinnur hjá sjálfri þér er dýrt spaug að lenda ítrekað í sóttkví. Það er enginn sem borgar þér veikindadagana nema þú sjálf.
Er hægt að hjóla í rigningu?
Ég var búin að panta mér hjólaferð til Spánar. Hilda vinkona sem kom með mér í fyrri Landvættinn ákvað að skella sér með og ég hefði líklega afbókað ferðina ef hún hefði ekki verið bókuð líka. Það voru 2 ástæður fyrir því. Ég var skíthrædd um að ég myndi ekki ná að hjóla neitt að viti og svo var ömurleg veðurspá. Það var spáð rigningu í 5 daga af 7. Það var bara sól daginn sem við lentum og daginn sem við flugum heim. Sem betur fer fór ég í ferðina. Bæði var veðrið mun betra en spáin hafði sýnt (enda ekki tengd við veðurklúbbinn á Dalvík) og einnig gekk hjólið mun betur en ég reiknaði með en meira um það í næsta bloggi.
Veðrið var reyndar ekkert sérstakt á Tenerife í janúar heldur. Það var svo hvasst að sundlaugin lokaði og bókin sem ég reyndi að lesa á sólbekkinum fauk í burtu. Auðvitað lá ég á sólbekk þó að það væri hvasst, það glitti í sólina á milli skýjabakkana. Ég fór alltaf út að hlaupa í stuttbuxum og hlýrabol svo ég myndi ekki kafna og mætti ótrúlega mörgum í síðum svörtum dúnkápum með húfu. Ég er því að velta fyrir mér að bjóða mig fram á þurrkasvæði. Það virðist fylgja mér rigning og vindur og pottþétt einhver svæði í heiminum sem hefðu gott af smá úrkomu.
Sex vikur að verða skítsæmileg
Sex vikum eftir að ég greindist með Covid gat ég loksins hlaupið með næstum eðlilegan púls. Ég tók létta sprettæfingu og púlsinn var lægri í sprettunum en í ljósastaurahlabbinu þegar ég var að reyna að hlaupa. Það er slítandi að missa niður orku. Það er lýjandi að byrja upp á nýtt. Hausinn fer alveg í kleinu. Þú ert að reyna að sannfæra þig um að þetta verði allt í lagi og það taki allt sinn tíma. Það gekk vel fyrstu 2-3 vikurnar en á viku 4 var gleðin og sannfæringin alveg fokin út í veður og vind. Ég afbókaði maraþonið þar sem ég var ekki búin að ná að hlaupa neitt af viti í 2 mánuði. Það er líka skrýtin tilfinning að vera í góðu lagi. Ég missti aldrei bragð- eða lyktarskyn. Ég fékk ekki hita, beinverki eða nein almennileg einkenni. Ég var alveg ótrúlega hress meðan ég var veik. Það var bara æfingaorkan og mjólkursýran eftir æfingar sem var í algjöru rugli. Ég sá einhverja rannsókn sem sagði að heilinn minnkaði eða eitthvað eftir Covid en mig minnir að það hafi verið eitthvað tengt bragð- og lyktarskyninu þannig að ég ákvað að taka það ekki til mín. Mér finnst reyndar að það ætti að vera bannað að birta svona fréttir. Það er nógu stressandi að glíma við orkuleysið að þurfa ekki líka að hafa áhyggjur af því að þú sért að missa vitið í orðsins fyllstu merkingu. Heilinn sé bara að gufa upp. Það er samt ótrúlega gott að vita af því að ef ég man ekki eitthvað eða klúðra einhverju að það sé allt Covid að kenna.
Að tapa á Zwift
Ég setti mér markmið að hreyfa mig 5.000 kílómetra á þessu ári. Til að ég gæti mætt í vinnu þá ákvað ég að telja innihjólið með. Besta leiðin til að gera það er að tengja hjólið við swift. Það er líka miklu skemmtilegra að hjóla þannig. Fyrsta æfingin gekk ekkert alltof vel. Ég valdi fyrstu brautina sem kom upp. Hún hét Innsbruck minnir mig. Ég náði 7.7 km á tæpum klukkutíma. Þetta er svokölluð brekkubraut. Frábær til að ná upp kílómetrafjölda. Ég heyrði í Jóni Inga í hjóladeildinni. Hann mælti með Tempus Fugit fyrir kílómetrasöfnun. Þetta væri frábær braut til að ná upp góðum hraða og margir að hjóla þannig að það væri hægt að drafta vel í henni (sorry ég skil ekki ennþá hvernig ég á að drafta á zwift til að ná upp hraða). Fyrstu æfingarnar gengu ekkert rosalega vel á þessari braut. Heildarhallinn er í kringum 30 m. Það er nú bara eins og 13.8 Shaquille ONeal uppstaflaðir, ekkert voðalega mikið. Fyrstu vikurnar fóru allir framúr mér. Ég náði aldrei að hlýða Zwift sem sagði reglulega Close the Gap já viltu þá ekki bara biðja aðra að hjóla hægar ef ég á að ná þeim. Þegar ég fór upp þessar rosalegu brekkur þá var ég að hjóla undir 10 km á klst og meðalhraðinn var langt undir 20. Ég setti mér því markmið að ná að hjóla 20 km á klst á mánuði. Ég mallaði þarna í kringum 20 km á klst. Svo skrapp ég til Spánar og svo kom orkan og 29. mars náði ég fyrstu almennilegu hjólaæfingunni minni. Ég 34 km á 1.12 klst og meðalhraðinn 28.2 km.
Þakklæti stendur eftir
Ég er þrátt fyrir allt bullandi þakklát. Ég fór vel út úr Covid. Þetta var bara smá hnökri í æfingum og ég var hvort sem er ekkert á eitthvað Heimsmeistaramót. Það kemur annað maraþon að ári. Núna er ég í raun að njóta þess að vera komin á nýjan byrjunarreit. Ég bjó til nýtt æfingaplan og er bara að hjóla, hlaupa og synda. Svo setti ég inn Yoga- og styrktarteygjur og finn ótrúlegan mun á mér hvað ég er að styrkjast og verða liðugri. Ég hlakka til að sjá hvert þetta ár leiðir mig og hvaða spennandi verkefni detta í fangið á mér. Ég hef þá trú að ef einar dyr lokast þá galopnast þær næstu. Eftir 2 ára biðtíma er kominn tími á að stökkva út úr þægindarammanum og ég ætla að endurhanna mig eina ferðina enn. Hvernig það endar kemur í ljós á næstu mánuði. Fylgist með
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.