400 æfingar 2020

Þann 29. desember náði ég einu af markmiði ársins 2020 sem var að klára 400 æfingar á árinu.
Þegar é20201224_203016g setti þetta markmið þá fannst mér það ekki mikið mál. Ég var að æfa fyrir Landvættinn, fyrir þríþraut og hálfan járnkarl. Það er í raun og veru ómögulegt að taka mikið færri æfingar þegar þú ert með 4 mismunandi greinar og þær skipta allar jafnmiklu máli. Auk þess tók ég oft brick æfingu á bretti eftir innihjól þannig að suma daga voru þetta 3 æfingar. 400 æfingar á ári eru ekki nema 33 æfingar á mánuði þannig að ég vissi að þetta yrði lítið mál.
Svo fór að halla undan fæti. Covid kom og innihjólin og hlaupabrettin lokuðu. Sundlaugin lokaði. Þríþrautarmótið var fellt niður. Landvættarmótin féllu niður. Hálfi járnkarlinn féll niður. Ég datt á hjóli og lenti í gifsi. Sundlaugarnar og inniræktin lokuðu aftur. Ég íhugaði að lækka markmiðið en mér fannst það alltof mikil uppgjöf. Vildi ekki breyta markmiðinu heldur finna aðra leið að því.

Ég er í hreyfihóp með fasteignasölum í Bandaríkjunum og ákvað að leggja allt undir. Sendi á hópstjórann að ef ég klikkaði þá myndi ég borga henni 1.000 dollara. Þá var gengið minnir mig 145. Hún sendi til baka. “Ég vil ekki þennan pening en ef þú klikkar þá greiði ég hann til samtaka sem þú hatar”. Niðurstaðan var einföld. Ef ég kláraði ekki 400 æfingar myndu hvítir öfgamenn í Bandaríkjunum fá 1.000 dollara styrk. Í haust datt ég úr stuði og leyfði Covid að yfirtaka mig tímabundið. Reglulega sendi Cari mér skilaboð. “Ásdís ég sé að þú ert aðeins á eftir. Hvernig gengur, ég vil ekki þurfa að greiða þessa peninga áfram.” Þessi skilaboð voru það sem ég þurfti. Ég fór að bæta við kvöldgöngum og allt í einu datt ég í gírinn. Ég veit að ef ég hefði ekki haft þetta markmið hefði ég slakað mun meira á.

Hvaða æfingar er ég að stunda?

Gönguskíði, sund, hlaup, hjól, styrktaræfingar í Ultraform, Mobility hjá Sigursteini, sjósund og fjallgöngur. Svo finnst mér frábært að fara í léttar heilsubótargöngur inn á milli og hlusta á góða hljóðbók.

Gönguskíðin.

Ég kynntist þeim þegar ég skráði mig í Landvættina. Ég hélt í fávisku minni að gönguskíði væri létt stroll á jafnsléttu og þau væru því einfaldasta greinin af þeim öllum. Það kom í ljós að gönguskíði eru minnst á jafnsléttu. Þetta eru misskelfilegar brekkur og mikil tækni sem þarf að tileinka sér. Ég fór á byrjendanámskeið á Ísafirði með henni Hildu vinkonu og fékk nett áfall þegar ég var látin fara í gífurlega brattar brekkur fyrsta daginn. Þegar ég lít til baka þá voru þær líklega meira eins og Himmelbjerget þó að ég upplifði þær eins og Everest. Hef gaman að því að rifja upp þennan pistil. Mér finnst eins og það séu ljósár síðan hann var skrifaður en þetta var bara í fyrra. 

Ég hafði smá áhyggjur af því að gönguskíðin mín væru ekki lengur passleg. Þau eru miðuð við þyngd og ég bað því Óskar í Sportval að kanna stöðuna. Ég hafði greinilega verið fyrirhyggjusöm þegar ég keypti þau þar sem þau voru fyrir 60-72 kg. og var því á fullkomnum skíðum núna. Óskar sagði að ef eitthvað þá myndi ég renna miklu betur í dag en í fyrra þannig að ég þakka fyrir að ég kann að fara í plóg í beygjur. Sumir vilja mögulega ekkert fara of hratt í allar beygjur.

Sundið

Elsku sundið.  Hvað get ég sagt. Það tók mig 2 mánuði að geta synt 50 metra í einu. Í hvert skipti sem ég dett út þá tekur það mig ótrúlega langan tíma að ná upp fyrri “færni”. Fólk talar oft um vöðvaminni. Oft þegar fólk byrjar að æfa aftur eftir langa pásu þá er það ótrúlega fljótt að komast aftur í gamla gírinn. Vöðvarnir gleyma þessu aldrei. Mínir sundvöðvar eru með gullfiskaminni. Þeir kannast voðalega lítið við hreyfingar sem eru þó ekki nema nokkurra vikna gamlar. Ég tók því þá ákvörðun að sætta mig við að ég myndi aldrei synda mjög hratt. Ég get hins vegar synt lengi og það er minn styrkur. Ég er svo heppin að ég ætla aldrei að verða afreksíþróttakona heldur er minn fókus á að bæta mig jafnt og þétt. Reyndar tel ég að ég eigi góða möguleika á að vinna aldursflokkamótin þegar ég verð 70 ára og allir aðrir eru farnir að spila golf. Það er amk mitt plan í dag. Allt um hvernig gekk að læra skriðsund og fleira 

Hlaup

Þegar ég skráði mig í Landvættina þá var hlaup í raun það eina sem ég kunni. Ég hafði mest hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst 2018 og hafði byrjað að hlaupa í maí 2018. Þá var formið ekki betra en svo að ég gat hlaupið á milli ljósastaura. Það er furðulegt að líta til baka og sjá hversu langt er hægt að komast á stuttum tíma. Ári eftir að ég byrjaði að hlaupa kláraði ég 32 km utanvegahlaup sem var Jökulsárhlaupið og stuttu áður hafði ég hlaupið bæði Þorvaldsdalsskokkið sem og Fimmvörðuhálsinn sem eru 25 km. Í dag elska ég að hlaupa og hlaupin eru stór hluti af mér. Ef ég mætti bara velja eina grein til að stunda þá yrðu það hlaupin. Samt hélt ég lengi vel að ég hataði hlaup. 

Hjól

Ég var svo heppin að skrá mig í hjólreiðadeild Breiðabliks og það hefur alltaf verið ein mín mesta gæfa þegar kemur að hreyfingu. Hjólreiðadeildin er stútfull af frábæru fólki sem er alltaf tilbúið að leiðbeina og hjálpa. Það er einhvern veginn þannig að þeir sem eru betri en þú eru alltaf tilbúnir að aðstoða. Þetta gekk samt ekki áfallalaust. Ég byrjaði á innihjólaæfingum og það tók mig ca mánuð að læra að festa hjólaskóna á hjólið, stilla hjólið, læra í hverju á ekki að vera í hjólabuxunum og sittlítið af hverju. Smátt og smátt kom svo færnin. Síðan fór ég á útiæfingar og komst að því að mér finnst gífurlega gaman að hjóla, bæði á racer og fjallahjóli

Ultraform

Eins og með margt annað frábært í mínu lífi þá kynntist ég Ultraform í gegnum Halldóru Gyðu vinkonu. Hún hefur verið óþrjótandi viskubrunnur og aðstoðað mig gífurlega mikið með hreyfingu. Ég væri ekki komin eins langt og ég er komin án hennar. Ég vissi að ég yrði að fara að bæta við styrk en var ekki alveg búin að finna hilluna mína. Eftir fyrsta tímann hjá Sigurjóni Erni þá vissi ég að ég var komin á mína hillu. Þessir tímar eru sambland af styrk og úthaldi og ég fann gífurlegan mun á mér eftir nokkrar vikur og það sást m.a.s. glitta í upphandleggsvöðva. Eftir að líkamsræktarstöðvunum var lokað þá kom Ultraform til okkar. Sigurjón lánaði allar græjur til meðlima og heldur úti fjarþjálfun á Facebook.

Sjósund

Þarna er ég algjör grænjaxl og á ansi mikið ólært hér. Ég fór samt í Nauthólsvík nokkrum sinnum í fyrra og náði mest að vera held ég 30 mínútur í sjónum. Fór líka einu sinni í Elliðavatn með vinum og fannst þetta gífurlega gaman. Ég ætla ð vera duglegri á næsta ári enda þarf ég þess til að massa Urriðavatnssundið. Ég þurfti að endurnýja sundgleraugun og setti inn óformlega skoðanakönnun meðal sundfélaga og MP gleraugun sem fást í Hafsport fengu flest atkvæði. Þegar ég hef lítið vit á hlutunum þá fer ég eftir meirihluta. Ég skellti mér því í Hafsport og endaði á því að kaupa mér forláta gleraugu sem nýtast líka í sjó- og vatnasundi. Þarna fékkst líka allskonar annað dót fyrir sjósund og ég endaði með forláta skó og hanska og flotholt. Það var líka til annað flotholt sem nýtist í kvöldsund. Mér fannst engin þörf á því. Ég er ekki týpan sem fer í kvöldsund nema það sé albjart. Ég þurfti einu sinni að fara í kvöldköfun þegar ég var að læra köfun í Honduras og það dugði mér út ævina. Ég ræddi þetta aðeins við Þorvald eiganda Hafsports, hann sagði á móti að honum finndist kvöldköfun gífurlega skemmtileg. Þá kom í ljós að við vorum einmitt búin að kafa næstum því jafnlengi. Eini munurinn á okkur var að hann lærði köfun 1992 og er búin að kafa viðstöðulaust síðan. Ég lærði köfun 1993 og hef ekki kafað eftir það.

Fjallgöngur

Ég er farin að elska fjallgöngur. Einu sinni langaði mig að elska fjallgöngur en formið var ekki að vinna með mér. Það besta sem ég átti var að komast upp að merki 2 á Esjunni. Einnig var lofthræðslan að hamla mér gífurlega. Eftir að ég komst í gott form og fór í dáleiðslumeðferð gegn lofthræðslu hef ég lært að elska fjallgöngur og í sumar fór ég m.a. á Vífilsfell og Móskarðshnúka sem var eitthvað sem gamla ég hefði aldrei getað.

Mín eigins þríþraut

Ég var skráð í Ólympíska þríþraut og hálfan járnkarl á árinu. Til að vera alveg hreinskilin þá varð ég flökurt þegar ég skráði mig í þessar þrautir en mér varð líka flökurt fyrir Þorvaldsdalsskokkið, Fimmvörðuhálsinn, Bláalónið, Urriðavatnið, Fossavatnsgönguna og meira að segja 5 km Suzukihlaupið og 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþonið. Það má líklega segja í hvert skipti sem ég stækkaði þægindarammann þá byrjaði það með ógleði og “HvaðíAnd...ErÉgAðGera”. Alltaf hef ég þó lifað af og alltaf hefur þetta verið gaman. Svo voru þessar þrautir blásnar af. Ég fékk því þessa skyndihugmynd að halda mitt eigins þríþrautarmót milli jóla og nýárs. Ég kynnti mér þrautina og sá að þetta væru 1.500 m skriðsund, 40 km hjól og 10 km hlaup. Ég byrjaði á sundinu. Tíminn var hörmulegur en ég kláraði sundið og ákvað að botninum væri náð tímalega séð (sagði það líka síðast þegar ég synti, einhvern tímann mun ég hafa rétt fyrir mér). Skellti mér svo heim og hjólaði 40 km á innihjólinu sem tók ca 90 mínútur. Að lokum hljóp ég 10 km. Þetta gekk vonum framar og ég verð að segja að ég var bara frekar montin af mér að hafa getað þetta. Allt í einu stækkaði þægindaramminn til muna og ekki minnkaði gleðin daginn eftir þegar ég vaknaði með engar harðsperrur eða óþægindi eftir þessar 3 æfingar. Það er einnig gaman að segja frá því að ég rústaði þessu móti.

Frelsið að keppa við sjálfa sig

Það er gífurlegt frelsi að vera eingöngu að keppa við sjálfa sig. Mér er alveg sama hvort að ég lendi í sæti 500 eða 250 af 600. Mín keppni snýst um líkama fyrir lífið og ég er búin að átta mig á því að þegar ég æfi á lágu álagi þá minnka ég líkurnar á álagsmeiðslum og veseni. Eitt það besta sem ég gerði fyrir mig á þessu ári var að fara í ástandsskoðun hjá Greenfit og fá minn persónulega æfingapúls. Ég var smá stund að fatta út á hvað hann gekk. Hilda vinkona fór líka og fékk sinn púls. Við áttum báðar að æfa á zone 2 og með svipaðan púls. Ég sagði: “frábært, þá getum við æft saman”. Hilda brosti og sagði. “Það er ekki víst að þinn púls sé eins og minn þó að við séum með sömu tölur.” Við Hilda vorum báðar á máladeild en stundum er hún aðeins klárari en ég þegar kemur að tölulegum upplýsingum tengdum íþróttum.

Hvað er ofþjálfun?

Margir hafa áhyggjur af því að ég æfi of mikið og ég skil það. Þetta virkar ansi mikið að taka 1-2 æfingar á dag, 6 daga vikunnar. Það sem er mikilvægt að hafa í huga er að ég er ekki afreksíþróttakona og hef engan metnað í að verða slík. Ég er því ekki að æfa með það markmið að ná einhverjum ofurtíma og sprengja mig til að ná þeim markmiðum. Ég held að ef ég væri að stefna að einhverjum árangri sem slíkum væri þetta miklu erfiðara. Mögulega væri ég búin að gefast upp þar sem ég verð aldrei á neinum topplistum og svekkelsið að vera búin að leggja gífurlega mikið á mig til þess eins að ná aldrei þeim árangri hefði mögulega yfirbugað mig. Þetta varð allt svo auðvelt þegar ég ákvað að mitt eina markmið væri að keppa við sjálfa mig og örbæta mig reglulega. Ég er með mitt plan en það er ekki meitlað í stein, heldur meira svo viðmið. Ef ég er þreytt þá hvíli ég aukadag. Hreyfing er mitt áhugamál og mér finnst þetta gífurlega gaman. Ég held samt að lykilinn liggi í lágu æfingaálagi. Ég fer í Mobility einu sinni í viku til að læra að beita mér rétt og gera teygjuæfingar. Ég fer líka reglulega í nudd og sjúkraþjálfun þannig að ég passa vel upp á líkamann. Ég hef verið gífurlega heppin og ekki lent í neinu hnjaski. Ég held að það stafi að hluta til að ég æfi á lágu álagi og svo hitt að mínir vöðvar eru ekkert svo mikið notaðir. Ég byrjaði að hreyfa mig af alvöru 2018 þannig að þeir eru bara tæplega 3ja ára í notkunaraldri.

Þegar kemur að hreyfingu þá er lykilinn að finna eitthvað sem þú elskar. Markmið og örbætingar virka fyrir mig. Trixið er að finna hvað virkar fyrir þig.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband