"Feitt fólk skortir sjálfsstjórn"

“Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig. Þú hefur svo mikinn sjálfsaga í vinnu, ert svo öguð og nærð svo miklum árangri þar”. Þetta sagði vinnufélagi minn við mig í spjalli okkar á milli fyrir mörgum árum. Ég man ekki alveg um hvað við vorum að ræða en þar sem hann er bæði kurteis og dagfarsprúður grunar mig að þetta hafi komið í kjölfarið á einhverju sem ég sagði, svo sem: “Það er alveg sama hvað ég geri, ég get ekki að grennt mig”.

Þessi athugasemd hans snerti við sálartetrið. Ég vissi alveg upp á mig skömmina. Hvers vegna get ég ekki grennt mig? Það er ekki eins og þetta sé eitthvað flókið. Þú borðar minna en þú þarft og hreyfir þig meira. Basic, kalóríur inn og út og málið er dautt.

Þetta er svona svipað og segja við alkólista. Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki hætt að drekka. Þetta er svo einfalt. Þú hættir að kaupa áfengi. Þú hendir öllu áfengi sem þú átt og opnar aldrei aftur flösku og málið er dautt. Basic. Ekkert áfengi = ekkert vandamál. Í dag vita flestir að það þarf meira til að geta hætt að drekka og það þarf oft mikla hjálp. Hins vegar þegar kemur að því að ná tökum á þyngdinni þá er þetta ennþá oft viðhorfið. Þú hefur engan sjálfsaga og ert bara löt.

Auðvelt að létta sig

Ég vissi að það var auðvelt að grenna sig vegna þess að ég las endalausar greinar um fólk sem hætti að drekka gos og borða nammi. Það borðaði aðeins meira grænmeti og á nokkrum mánuðum var það búið að missa 50 kíló. Ég varð alltaf pínu þunglynd þegar ég las svona greinar og brotnaði aðeins inn í mér því ég hugsaði alltaf. “Ef þetta er svona lítið mál, hvers vegna get ég ekki létt mig”? Hvaða andskotans aumingjaskapur var þetta? Það var ekki eins og ég vissi ekki að ég þyrfti að taka mig á. Ég vissi að ég væri orðin 10 kílóum of þung. Svo vissi ég að væri 20 kílóum of þung, svo 30 kílóum og loks 35 kílóum. Þá var ég 5 kílóum frá því að vera 100 kíló og fékk loksins hvatann til að létta mig þegar ég hitti David Goggins og hann spurði hvaða ævisögu við værum að skrifa.

Ég hafði oft létt mig eitthvað með allskonar tilraunastarfssemi. Það dugði aldrei til lengdar því ég var aldrei búin að finna lífstíl sem hentaði mér til lengdar. Ég fann einhverja tímabundna lausn sem ég var ekki tilbúin að hafa út ævina. Mín skoðun er sú að ef þú finnur ekki eitthvað sem þú getur gert út ævina, þá nærðu aldrei langtímaárangri. Ef þú ert tilbúin að vigta matinn út ævina þá virkar það fyrir þig. Líka ef þú ert tilbúin að drekka shake í kvöldmat út ævina þá virkar það líka. En ef þú ert eins og ég þá er þetta alltaf tímabundin lausn og gallinn við tímabundnar lausnir er að þær taka enda og mín reynsla var að ég var alltaf miklu fljótari að bæta á mig þessum kílóum sem fóru heldur en að missa þau og ekki nóg með það, þau komu alltaf með vini sína með sér. Mín kíló eru nefninlega félagsverur og vita ekkert skemmtilegra en að eignast fleiri vini. Þannig að eftir hvern einasta kúr þá endaði ég alltaf þyngri en áður en ég byrjaði. Öll vinnan og fórnirnar urðu til einskis. Ég var ekki fyrr búin að sjá að ég var byrjuð að þyngjast en það kom enn ein greinin um einhvern sem fór út að ganga og borðaði aðeins meira grænmeti og komst í kjörþyngd á korteri. Það hefur ekki góð áhrif á sálartertrið, ég get vottað það.

Stundum fékk ég líka ábendingu á svona grein. Það var tvöfaldur bömmer. Ekki bara gat ég ekki grennt mig heldur fannst öðrum nauðsynlegt að benda mér á hversu auðvelt þetta er. Hann Siggi tók út brauð og nammi og léttist um 10 kíló á einum mánuði. Basic, bara að passa kalóríur inn og út og hreyfa sig meira. Afhverju ertu ekki með meiri sjálfsaga? Hvers vegna getur þú ekki létt þig?

Ég man hinsvegar aldrei eftir að hafa lesið eftirfylgni grein. Hvernig gekk þessu fólki þremur árum seinna og hvað gerði það í raun og veru? Ég held nefnilega að það missi enginn 50 kíló á einu ári nema með gífurlegri vinnu, gífurlegum fórnum og mikilli sjálfsvinnu. Þetta snýst ekki eingöngu um kalóríur inn og út og hreyfa sig meira en þú borðar.

Fyrsta árið sem ég byrjaði þá gekk allt fáránlega vel. Ég léttist jafnt og þétt og það kom mér á óvart hvað ég átti auðvelt með að breyta um mataræði. Ég fór að bæta við mismunandi hreyfingu og í fyrsta skipti á ævinni fannst mér gaman að hlaupa. Ég gat hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og á 18 mánuðum var ég búin að missa 25 kíló. Þetta voru engin 50 kíló á nokkrum mánuðum en þetta gerðist jafnt og þétt.

Er hægt að borða of lítið?

Síðasta vor gerðist svo hið óhugsandi. Ég hélt áfram að hreyfa mig mikið og borða svipað en allt í einu hætti vigtin að fara niður og fötin hættu að víkka. Ekki bara hættu þau að víkka, þau fóru aðeins að þrengjast og vigtin varð eins og íslenska krónan á gjaldeyrismarkaði. Í dag fór hún upp, á morgun fór hún niður og ég vissi aldrei alveg hvað olli. Var ég að borða eitthvað vitlaust, ætti ég að borða meira eða minna og öðruvísi. Það er mjög þreytandi að reyna að finna lausnina en vera alveg strand. Það var alveg sama hvað ég gerði, ekkert virkaði almennilega og þetta urðu meira tímabundnar lausnir, fálmað í myrkrinu. Ég fór að sjá oftar og oftar hærri tölu en lægri tölu. Ég skildi núna betur hvers vegna það eru engin eftirfylgniviðtöl við þá sem ná gífurlega góðum árangri. Kannski er óraunhæft að ná langtímaárangri. Kannski er alveg sama hvað þú gerir, þú getur ekki lagað þig til langtíma. Fólk sagði mér að hafa ekki áhyggjur. Vöðvar eru þyngri en fita, hættu að pæla í vigtinni. Þú ert í massaformi og lítur svakalega vel út miðað við aldur. Ég prófaði að borða minna, það virkaði ekki. Ég æfði meira, það virkaði ekki heldur. Það var alveg sama hvað ég gerði. Ekkert virkaði til lengri tíma.

Ég ákvað að trakka allt sem ég borðaði í MyFitnessPal. Þú veist, basic, borða færri kalóríur en þú brennir og ef þú vilt borða meira þá brenna meira. Þegar ég byrjaði á minni lífsstílsbreytingu þá skráði ég ekkert niður hvað ég borðaði. Ég tók út hveiti, sykur og mjólkurvörur til að byrja með en svo fór ég að leyfa mér allt í hófi. Það skrýtna við það er að þó að ég skráði niður hverja kalóríu þá gekk mér ekkert betur að léttast. Ég varð hins vegar gífurlega meðvituð um hvað ég borðaði margar kalóríur og stundum borðaði ég lítinn kvöldmat af því að ég var að verða búin með kvótann og stundum borðaði ég ríflegan eftirrétt afþví að ég var búin að æfa svo mikið yfir daginn. Það er allt í lagi, það verður að leyfa svo stundum. Ég man hins vegar að alltaf þegar ég fór yfir 2.000 kalóríur í Myfitnesspal fékk ég smá hjartsláttartruflanir. Þetta var svo innprentað í mig að borða ekki yfir 2.000 kalóríur. Það eru stillingar í MyFitnessPal hvað þú mátt borða margar kalóríur ef þú vilt léttast um X kíló. Ég ákvað að setja upp plan að léttast um eitt kíló á mánuði væri hóflegt. MyFitnessPal sagði að ég ætti að borða 1.580 kalóríur og bæta við brennslu á æfingum dagsins og þá átti ég að fá út hvað ég mátti borða margar kalóríur á dag.Það var alveg sama hvað ég æfði mikið, mér fannst erfitt að borða yfir 2.000 kalóríur. Samt segir viðmiðið að konur á mínum aldri eigi að borða í kringum 2.200 kalóríur. Sumum fannst galið að ég vildi missa tíu kíló í viðbót. Ásdís mín ertu ekki orðin nógu mjó? Hvað ætlar þú eiginlega að verða grönn? Það er ekki fallegt fyrir konur á þínum aldri að verða of grönn. Þú verður að passa þig að verða ekki of þetta og of hitt. Alltaf krúttlegt þegar fólk hefur innantómar áhyggjur af minni heilsu. Fæstir vissu hvað ég var þung eða hvað ég var há og enginn hefði getað sagt mér hver mín kjörþyngd ætti að vera. Ég veit það ekki einu sinni sjálf þar sem ég hef aldrei verið grönn og í mjög góðu formi. Ég hef verið mjög grönn en aldrei í mjög góðu formi.

Þegar ég fór í mælinguna hjá Greenfit kom í ljós að ég átti að borða tæplega 2.100 kalóríur þegar ég var ekki að æfa og tæplega 2.600 þegar ég er að æfa. Ég var sem sagt búin að borða ca 500 kalóríum of lítið í heilt ár. Ekki skrýtið þó að það væri allt stopp. Líkaminn var bara í áfalli og hékk á öllu sem kom inn og neitaði að gefa neitt eftir.

Æfa hægar og betur

Í álagsprófinu hjá Greenfit kom líka í ljós að ég var að æfa á of miklu álagi. Hvernig er það nú hægt, það er nú ekki eins og ég sé einhver Speedy Gonzales? Mín fitubrennsla liggur í kringum æfingapúls 130-140. Þegar ég byrjaði að æfa þá var ég í svo lélegu formi að ég var aldrei að fara mjög hratt þannig að ég gerði allt rétt alveg óvart. Ég borðaði hreint fæði og ég æfði á lágum púls. Svo þegar ég fór að komast í betra form þá fór ég að æfa af meiri ákefð því ég var sannfærð að ég myndi ná meiri árangri því meiri ákefð væri í gangi. Það var ekki fyrr en ég pantaði mér ástandsskoðunina hjá Greenfit að ég fékk vísindalegar upplýsingar um hvað væri best fyrir mig að gera.

Það er erfitt að hlaupa hægt en næstu mánuði ætla ég samt að hlaupa hægt. Ég ætla að borða hreint og sjá hverju það skilar. Ef mig langar í Nóakropp (nei þetta er ekki keypt auglýsing :) ) þá mun ég fá mér Nóakropp. Ég veit að það er stöðug vinna að halda mér á réttu striki. Þetta er ekki eins og að skrá sig í Viðskiptafræði og útskrifast sem Viðskiptafræðingur. Allt í einu er gráðan komin. Ég veit að þetta er eilífðarverkefni en ég nýt þess að sinna því. Ég veit að ég má ekki slaka á og fara í gamla gírinn. Í hvert skipti sem ég vel að borða eitthvað sem er vont fyrir mig þá borga ég daginn eftir með hærri tölu á vigtinni eða þrútnum liðum. Það þýðir ekki að ég muni lifa meinlætalífi út ævina. Ég kýs að lifa heilbrigðu lífi og ef mig langar í Nóakropp þá mun ég láta það eftir mér. Ég veit hins vegar að ef ég borða poka af Nóakroppi á hverjum degi þá mun fer ég aftur í gamla farið á núll einni. Þetta er allt val sem við höfum.

Það er dásamlegt að vera laus við helgarbömmerinn. Þú passaðir þig alla vikuna. Borðaðir í raun allt rétt og hreyfðir þig. Svo kom helgin og þá má nú alveg tríta sig smá. Ég gæti ekki verið meira sammála þarna. En hvað þýðir að tríta sig má. Er það smá eða er þetta öll helgin sem liggur undir? Ég er persónulega hrifnari af því að vera ekki með nammidag heldur leyfa sér smá stundum en ekki skilyrða það helgar þar sem hjá mér þá missti ég stundum tökin. Fyrst að ég ætlaði að sjukka um helgina hvers vegna þá ekki að leyfa sér allt sem þú bannaðir þér í vikunni.

Fyrir mánuði síðan byrjaði ég að borða Clean í samráði við Greenfit. Það kom mér á óvart hvað mér fannst auðvelt að breyta um mataræði. Ég tel að ég sé ansi heppin. Ég fór í blóðprufur og ákveðin gildi s.s. blóðsykur og blóðfita komu mjög illa út. Ég þekki muninn á núverandi lífsgæðum og þeim sem ég hafði fyrir 3 árum. Ég get ekki hugsað mér að fara aftur til baka þannig að þá var þetta eina leiðin. Maturinn sem ég er að borða er gífurlega fjölbreyttur, bragðgóður og fallegur. Mitt markmið er að lækka þessi gildi. Ég hugsaði að sem aukabónus gæti verið gaman að sjá vigtina fara niður. Setti niður sem draumatölu að fara úr 75.5 kg í 73.5 og ef þetta gengi vel þá gæti ég mögulega verið komin í 70,0 kg. um áramótin. Fannst það samt ekki raunhæft því mín kíló eru félagsverur og yfirgefa mig ekki svo glatt. Eftir mánuð á Clean sýndi vigtin 71,2 kg. Ég hef aldrei misst svona mörg kíló á einum mánuði. Ekki einu sinni þegar ég var 95 kg. Þetta segir mér að það var kominn tími á innri hreinsun.

Vigtir eru verkfæri Satans

Kunningakona mín sem býr í Bandaríkjunum setti inn smá örvæntingarpóst um daginn sem ég tengdi vel við. Hún var búin að vera dugleg að æfa og vigtin haggaðist ekki neitt. Hún var búin að fá nóg. Hún tekur svona tarnir og gerir eitt og annað stundum í mislangan tíma. Hún fékk gífurlega mikið af góðum ráðum og peppi við þennan póst. Það sem mér fannst áhugaverðast er að engin af þeim sem voru að ráðleggja henni um hennar líf og heilsu hefur einhverja þekkingu á þessu sviði. Ég ákvað að taka saman kommentin og það kemur kannski ekki á óvart að Hentu F... vigtinni og Vöðvar eru þyngri en fita standa uppúr. Ef ég ætti þúsund kall fyrir hvert skipti sem ég heyrði þessar setningar þá væri ég sest í helgan stein í dag og lifði af vöxtunum. Það er gott að hafa í huga að það er ábyrgðarlaust að henda fram innantómum frösum ef þú hefur ekki lausnina. Það voru 3 sem spurðu hvað hún væri að borða. Öðrum fannst frábært hvað hún væri dugleg og væri pottþétt að gera allt rétt.

Hentu vigtinni

24

Vöðvar eru þyngri en fita

24

Ég tengi

17

Ertu búin að prófa þennan kúr?

9

Þyngd er ekki allt, ummálið skiptir líka máli

7

Þú lítur vel út, þú hlýtur að vera að gera eitthvað rétt

4

Borðaðu hreinna fæði

3

Fáðu blóðprufur

2

Borðaðu færri kalóríur

1

Ekki gefast upp

1

Minnkaðu stressið

1

Vigtin er verkfæri Satans

1

Samtals

94

 

Þegar fólk segir þér að þú ert örugglega að gera allt rétt, að vöðvar séu þyngri en fita, að þú sért svo dugleg er verið að gefa þér frítt spjald. Það er verið að gefa þér leið út. Þú þarft ekki að leggja svona mikið á þig. Það er óþarfi að leyfa sér ekkert. Þú ert duglegri en flestir. Þú borðar örugglega allt rétt. Þetta er aldurinn. Þetta er svo miklu erfiðara þegar þú eldist. Eftir því sem við eldumst þá byrjar heilsunni að hraka, það er eðlilegt og óþarfi að fárast of mikið yfir því. Það spá hins vegar fæstir í mataræðið. Hvað þú ert að borða. Hentar mataræðið þitt þér? Ég held að við séum öll mismunandi. Það sem hentar mér er kannski vont fyrir þig og öfugt. Að einhverju leiti er þetta genatískt en þetta er held ég flóknara en svo. Þetta snýst um að finna leiðina hvað er best fyrir þig. Ég finn að þegar ég borða hreint þá líður mér betur og ég er í betra jafnvægi. Ég borða meira og er aldrei aðframkomin af hungri. Ég þarf ekki að narta á kvöldin. Ég þarf ekki að telja kalóríur. Með því að borða hreint get ég svo prófað að bæta við mat og fundið hvað fer illa í mig og hvað vel. Ég losna við að giska hvað ég á að borða. Ég borða nokkuð hollt, það er bara eitthvað sem ég borða sem hentar mér verr en annað og ég þarf að finna útúr því hvað það er.

Greenfit segir þetta svo vel. Normal er ekki optimal. Með aðstoð Greenfit ætla ég að besta heilsuna mína. Ég á bara einn líkama og eitt líf og ég lít á það sem skyldu mína að líta eins vel eftir honum og ég get.

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Miðaldra konan er tifandi tímasprengja

Þann 12. ágúst 2020 átti ég 3ja ára afmæli. Hvernig getur 51 árs gömul kona átt 3ja ára afmæli? Jú ég átti 3ja ára heilsuafmæli. Þann 12. ágúst 2020 voru liðin akkúrat 3 ár frá því að ég var á fyrirlestri hjá David Goggins og heyrði hann segja þessa einföldu en ótrúlega áhrifaríku setningu: “Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig, myndi hún breyta lífi mínu?” Alveg eins og í teiknimynd þá kviknaði á ljósaperu fyrir ofan hausinn á mér og ég vissi að einu áhrifin sem þessi ævisaga sem ég var að skrifa myndi hafa á Goggins væri að hann myndi segja: “F... Ásdís, þetta er ömurleg ævisaga, ekki bjóða mér upp á þetta drasl”. Það var á þessu augnabliki sem ég áttaði mig á því að þessi lífstíll sem ég hafði tileinkað mér, vinna of mikið, hreyfa mig ekki, borða allskonar ruslfæði, vera endalaust þreytt, verkjuð og pirruð var ekki að virka. Sú framtíðarsýn sem beið mín var ekki beisin. Vera of þung, geta ekki farið út að hjóla með krökkunum, geta ekki gengið upp Esjuna og vakna alla morgna með þrútna liði, verki í hnjánum og illa sofin myndi á endanum skila mér inn sem pilluáskrifanda í besta falli. Í versta falli stytta ævina um áratugi.

Ásdís mín, ertu ekki full dramatísk? Það er til fullt af fólki sem lifir til níræðs og hreyfir sig lítið og gerir allt vitlaust að þínu mati. Já ég veit það og það er líka til fullt af fólki sem lifir ekki til níræðs eða lifir lengi með skert lífsgæði. Mig langaði ekki að komast að því of seint í hvorum hópnum ég myndi lenda. Því tók ég meðvitaða ákvörðun 12. ágúst 2017 að ég myndi taka fullkomna ábyrgð á mér og mínum lífsgæðum.

3ja ára afmæli

Um leið og ákvörðunin er tekin verður þetta allt svo skýrt. Ég ákvað að setja mikla pressu á mig og gerði Facebook life video á hverjum morgni. Ég skýrði fyrsta videoið dagur 1 af 365 og daglega í marga mánuði gerði ég þessi video. Þau settu ákveðna pressu á mig og hjálpuðu mér að ná markmiðum mínum. Það kom mér á óvart hvað það var lítið mál að gera gífurlega stórar breytingar í upphafi. Þegar ég hugsa til baka var það líklega vegna þess að ég var meira en tilbúin í fyrsta skipti á ævinni. Ég hætti að horfa á sjónvarp. Ég vaknaði 5 á morgnana. Ég fór að hreyfa mig meira og í fyrsta skipti á ævinni léttist ég helling næstum því áreynslulaust. Ég breytti um mataræði og ég skráði allt sem ég borðaði í My Fitness Pal. Svo komu allskonar lægðir. Ég keyrði á vegg andlega. Ég fór til sálfræðinga og ég hreinsaði til í bakpokanum mínum og henti allskonar fortíðarrugli sem hélt aftur af mér. Daginn eftir 3ja ára afmælið kom fyrsta 3ja ára Facebook minningin mín sem var fyrsta Facebook Live sem ég gerði á ævinni. Mér krossbrá. Ég var búin að steingleyma því hver ég hafði verið og í hvaða ástandi ég var. Á sama tíma sá ég hversu langt ég er komin. Ég sýndi kærastanum eitt videoið. Hann horfði á það og sagði, þú ert svo reið þarna, það er engin gleði í augunum. Ég tengi ekki við þessa manneskju lengur. Einu sinni ætlaði ég að skrifa bók um þessa vegferð en þegar ég byrjaði á henni áttaði ég mig á því að mig langaði ekki til að rifja þetta allt upp. Ég kunni ekki sérstaklega vel við þessa manneskju sem ég var orðin og mig langaði ekkert að endurnýja kynnin við hana. Þess vegna blogga ég um hver ég er í dag, því þú ert alltaf einni ákvörðun frá því að vera sú manneskja sem þú vilt vera. Þetta stendur allt og fellur með þér. Þetta er ekki heppni eða góð gen eins og ég fæ reglulega að heyra í dag. Þú ert svo heppin að vera með svona góða heilsu. Þú ert með svo góð gen og þess vegna getur þú gert hitt og þetta. Nei, þetta snýst eingöngu um að taka upplýsta ákvörðun um hvaða manneskja þú vilt vera og ákveða á hverju morgni að halda áfram á þessari vegferð.

Hvers vegna að leggja alla þessa vinnu á sig? Vegna þess að ég veit hvert gjaldið er að slaka á. Ég veit hversu auðvelt það er að fara aftur í gamla farið og ég veit hversu brjálæðislega mikil vinna það yrði að koma mér aftur á þann stað sem ég er í dag. Ég er ekki með góð brennslugen eða ég er svo heppin að ég má borða allt sem ég vil. Í hvert skipti sem ég tek meðvitaða ákvörðun um að borða óhollt þá veit ég að daginn eftir mun ég vakna þrútin og þyngri en í gær.  Mörgum finnst þetta vera gífurlegur sjálfsagi og segjast aldrei munu geta gert þetta. Samt setja þau alltaf rétt eldsneyti á bílinn sinn því þau vita að vélin skemmist ef þau setja bensín á dísel bílinn sinn. Hvers vegna pössum við oft betur upp á vélina í bílnum okkar heldur en okkar eigin vél, okkar líkama þegar við eigum bara einn líkama en við getum alltaf keypt nýjan bíl ef þessi bræðir úr sér?

Kominn tími á breytingar !

Fyrir ári síðan vissi ég að ég þyrfti að fara að gera meiri breytingar. Ég var föst. Vigtin var föst og ég datt alltaf reglulega í slæma siði. Hreyfingin gekk alltaf ágætlega. Stundum var ég extra dugleg og stundum minna dugleg en það liðu aldrei margir dagar frá því að ég hreyfði mig. Mataræðið var aðeins erfiðara. Ég gat alveg dottið í sjukk í heila viku og þyngst um 2 kíló. Ég hafði samt ekki miklar áhyggjur af því. Ég var nefnilega skynsöm. Þegar ég var búin að vera í nýjum lífstíl í nokkra mánuði þá lét ég mæla öll gildin mín og þau komu frábærlega út. Ég hafði því ekki miklar áhyggjur af smá sjukki hér og þar. Ég vissi að ég var að gera allt rétt og því óþarfi að hafa áhyggjur af mataræðinu. Ég ræddi þetta við vinkonur mínar hvað það væri þreytandi að vigtin væri föst þrátt fyrir að ég passaði mataræðið og hreyfði mig mjög mikið. Þeim fannst óþarfi að hafa áhyggjur af þessu. Ég væri orðin 51 árs. Ég væri í mjög góðu formi miðað við 51 árs gamla konu. Kannski væri þetta mín rétta kjörþyngd. Eftir því sem fólk eldist þá er erfiðara að létta sig. Samt sat alltaf þessi nagandi efi í hausnum á mér. Er ég að gera allt rétt? Þessi setning. Þú ert fín miðað við... Þetta er svo hættuleg setning. Hún leyfir okkur að slaka á og gera minni kröfur til okkar. Þú ert fín miðað við þá sem eru verri en þú. Ég vildi breyta til en ég fann ekki leiðina. Það sem hafði virkað vel þegar ég byrjaði að hreyfa mig var ekki að virka lengur og ég var pínu föst. Samt var ég ekkert að sjukka svo mikið og bara stundum. Ég fór næst í blóðprufur í ársbyrjun 2020. Þá voru gildin mín aðeins hækkandi en ekkert til að hafa áhyggjur af. Hvað breyttist á milli 2017 og 2020. Mín kenning er að ég hafi orðið kærulaus. Gildin mín voru svo góð 2017 að mér fannst ég ósigrandi og ég gæti gert allt sem ég vildi að því gefnu að ég hreyfði mig reglulega. Núna var komið að skuldadögum. Gildin sem og vigtin voru á uppleið. Það var komið að skuldadögum og engin leið út úr þessu. Vandamálið var að ég fann hvergi lausnina.

Green Fit

Ég var búin að leita í nokkra mánuði að lausninni þegar hún datt í fangið á mér. GreenFit er nýtt fyrirtæki sem þrír meðlimir þríþrautafélags Breiðablikur voru að stofna og þau héldu kynningu á fyrirtækinu. Ég vissi um leið og ég hlustaði á kynninguna að þetta væri fyrirtækið sem ég var að leita að. Einkunnarorðin þeirra eru “Vittu, ekki giska” og “Heilsa er ekki heppni”. Þau greina vandamálið og hjálpa þér við að finna leiðir til að hámarka þína heilsu. Ég ákvað að bóka fyrsta tímann. Svo kom Covid og ég setti allt á hold í smátíma. Lukka talaði um á þessari kynningu að fólk gæti fengið niðurstöðuna “fínt” út úr öllum sínum blóðprufum á meðan það færi ekki yfir hættumörk. Ég tengdi ekki alveg við þetta minnug þess hversu frábær gildin mín voru 2017 en þetta síaðist samt inn í undirmeðvitundina.

Ég fór síðast í blóðprufur í ágúst. Ég fékk fínt nema kolesterolið væri aðeins hækkandi. Það væri gott ef ég gæti gert einhverjar breytingar á mataræðinu og koma svo aftur eftir 4 mánuði í aðra mælingu og ef ekkert lagaðist þá þyrfti ég líklega að fara á lyf.

Gamla ég hefði ekki hugsað sig um. Ásdís, þú ert orðin 51 árs. Þetta er aldurinn. Þetta er fylgifiskur þess að eldast. Nýja ég rifjaði upp hluta af fyrirlestrinum hjá Lukku hjá GreenFit (áður Lukka á Happ). Hún sagði að þegar gildin eru mæld þá færðu alltaf fínt þar til þú ferð yfir strikið. Ég hugsaði. Hvað ef ég er fín á fleiri stöðum en er samt við hættumörk? Hvað þá? Er ekki best að grípa í taumana áður en ég fer yfir strikið?

Ég pantaði mér því heildarástandsskoðun hjá GreenFit. Þú getur fengið heildarástandsskoðun fyrir 59.900 kr. Mörgum finnst það mjög dýrt. Ef þú kaupir þér nýjan bíl þá þarftu að fara með hann einu sinni á ári í ástandsskoðun til að hann falli ekki úr ábyrgð. Ég kíkti á heimasíðu FIB. Þar sést að kostnaðurinn við ástandsskoðun á bíl við ca 30.000 km er svipaður og ástandsskoðun hjá Greenfit.

Ég sendi Lukku blóðprufurnar mínar og hún ákvað að panta nokkrar aukaprufur sem henni fannst vanta. Nokkrum dögum seinna boðaði hún mig á fund til að fara yfir niðurstöðurnar. Það var margt mjög gott. Skjaldkirtillinn til fyrirmyndar sem og hvítu blóðkornin og við skulum ekki ræða lifrina. Hún var upp á 10, enda hafði hún aldrei þurft að vinna úr áfengi eða kaffi þessi elska. Svo var annað sem var ekkert rosalega gott. Blóðfitan var ekki hækkandi, hún var komin út úr kortinu. Efsta gildið í viðmiðinu er 7.75, mitt er 8.0. Það er ansi vont þegar þú ferð út af kortinu. Svo bætti Lukka við. Ég hef nú samt minni áhyggjur af blóðfitunni. Það er blóðsykurinn sem er verri. Gildið mitt var 5.7. Það er fínt, það er bara þegar þú ferð yfir 5.7 að þú ferð í bullandi áhættu. Ja há, það er ekki alveg nógu gott er það? Þessar dæmigerðu skoðanir sem ég pantaði mér sögðu alltaf, þetta er fínt. Líka í janúar þegar gildin fóru hækkandi. Það var enginn sem sagði, Ásdís gildin þín eru óþægilega nálægt of hátt. Gerum plan og lögum þetta með hreyfingu og mataræði. Ég hélt að ég væri í mun betra standi en ég er, enda búin að taka mig rosalega mikið á. Þegar þú lætur tékka á þér einu sinni og færð frábæra niðurstöðu þá verður þú kærulaus og ekki bætir úr skák þegar þig minnir að þú farir einu sinni á ári en gleymdir að fara bæði 2018 og 2019. Þú ert með þessa ranghugmynd að þú sért örugglega í frábærum málum því þú finnur ekki fyrir neinum líkamlegum einkennum og síðast þegar þú varst mæld varstu langt frá hættumörkum. Þess vegna leyfði ég mér alltaf eitt og annað. Mataræðið mitt er langt frá því að vera fullkomið. Það var ansi nálægt því að vera fullkomið þegar ég byrjaði mína vegferð fyrir 3 árum. Það mældust líka miklar bólgur í líkamanum. Ég ræddi það við sjúkraþjálfarann minn. Hann sagði: “það er mjög líklegt ef þú nærð að minnka bólgurnar að þú þurfir ekki jafnmikið á sjúkraþjálfun að halda”.

Ég ákvað að kynna mér aðeins afleiðingar sykursýki og hækkandi blóðfitu. Þetta er grunnur að svo mörgum “spennandi” lífsstílsjúkdómum.  Blóðfitan er með kransæðastíflu og hjartaáföll svo eitthvað sé nefnt og sykursýkin blindu og útlimamissi. Ég rifjaði upp þegar ég lenti í hárbugun þegar ég lenti með vinstri hendina í gifsi og réði ekki við hárið á mér, hvort að það gengi betur á öðrum fæti og blind á báðum. Mér fannst ekkert af þessu heillandi og setti því planið í hendurnar á Lukku. Planið var að byrja á 3ja vikna stillingarkúrsi og meta svo stöðuna eftir hann. Það má víst hvorki drekka áfengi né kaffi í honum sem ætti ekki að verða vandamál, þar sem ég drekk hvorki kaffi né áfengi. Svo eru fleiri atriði sem eiga eftir að valda smá meira veseni, s.s. engin sykur, svart te, mjólkurvörur og sitt lítið af hverju. Ég veit hins vegar að þetta er bara 21 dagur af því sem ég á eftir ólifað. Ef ég geri ekkert þá veit ég hvað býður mín en ef ég bregst við núna veit ég að ég á mun betri lífsgæði framundan en ef ég geri ekkert. Kosturinn við að hafa verið í slæmu ásigkomulagi og þekkja muninn á gömlu mér og nýju mér er að ég er tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að halda í núverandi lífsgæði og bæta þau ennþá meira.

Ég er ekki lengur tilbúin að giska á hverju ég þarf að breyta. Vera í endalausri tilraunastarfssemi að taka út mat og bæta inn öðru. Ég ætla að fá vísindin með mér í lið og vita hvernig ég hámarka heilsuna. Róm er ekki byggð á einum degi og ekki heldur Ásdís 13.0 sem er mín nýja framtíðarsýn. Ég er hins vegar tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að hámarka heilsuna. Það þarf alltaf að greiða gjaldið, annað hvort núna með meiri vinnu og aga eða seinna með minni lífsgæðum. Það er ekkert plan B, engin auðveld leið út.

Þegar þú pantar ástandsskoðun hjá Greenfit þá mæla þau líka efnaskipti og álagspróf. Það var ýmislegt jákvætt sem kom út úr þessu en líka annað sem mig grunaði, eins og að súrefnisupptakan var ekki nógu góð hjá mér. Ég finn þetta alltaf þegar ég geng á fjöll að ég er verð lafmóð til að byrja með og svo lagast þetta, sama þegar ég fer að hlaupa. Það var gott að fá þetta staðfest. Siggi sem fór yfir prófið með mér sagði að tímarnir sem ég er að taka hjá Ultraform myndu hjálpa heilmikið til að byggja upp hámarksstyrk og fá fleiri “fast twitch vöðvaþræði” (veit ekkert hvað það þýðir) til að hífa upp grunnbrennsluna og auka brennslugetu á æfingum. Svo ætti ég líka að taka Zone 2 æfingar með til að ýta undir grunnþolið (er líka að læra á hvað Zone 2 þýðir :)). Ég hlakka til að taka annað próf hjá þeim eftir nokkra mánuði og sjá hvernig gildin hafa breyst. Ef það hefur orðið lítil breyting þá finnum við fleiri hluti til að laga og smátt og smátt fínstillum við Ásdísi 13.0

Eitt sem kom mér þó mjög á óvart í þessum mælingum er að ég er að borða alltof fáar kalóríur. Mér finnst ég borða mjög mikið en eins og með marga þá er innprentað í mig að borða ekki of margar kalóríur. Það er heilmikið sem ég get bætt og ég hlakka svo til að fara þessa vegferð. Svo er gott að hafa á bakvið eyrað að ef þú nærð að halda þér í kjörþyngd þá er það gífurlegur sparnaður því hver 5-7 kíló sem þú bætir á þig er ein fatastærð og það er ansi fljótt að telja í krónum og aurum þegar þú ferð upp um 1-2 fatastærðir.

Ég ákvað að taka forskot á sæluna og byrjaði á Pre Clean Eating viku fyrir hreinsun. Á einni viku fuku 2.7 kg sem segir mér að það hefur ýmislegt mátt laga innvortis. Samt er að ég að borða meira en áður. Hvað breyttist? Ég er að borða meira en ég er einnig að sleppa öllu sem er á bannlista, sykur, korn, flestir ávextir og fleira. Þetta er eina skiptið sem ég er að fara nákvæmlega eftir matarplani og í fyrsta skipti sem ég sé svona hressilegan árangur. Það virkar greinilega betur að fara eftir plani heldur en að fálma í myrkrinu. Vita, ekki giska!

Þú ert pottþétt að borða allt rétt

Ansi margir segja við mig. Þú borðar allt rétt. Þetta hlýtur þá að vera genatískt. Það hafa hinsvegar fáir séð matseðillinn minn. Fólk sér bara það sem ég sýni. Ég held að þetta sé bland af genum og mataræði. Hvað ef ég borða meira og minna rétt en sumt sem hentar flestum er vont fyrir mig og mína innviði? Sumt sem er hollt, hentar mér ekki? Við erum ekki öll eins og það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum. Ég þarf að finna mitt fullkomna mataræði og hætta að þreyfa í myrkrinu. Það sem ég er að gera núna með Greenfit er ekkert ósvipað því sem ég gerði 2017 þegar ég tók alla óhollustu út og það svínvirkaði. Mig langar samt ekki að eiga súkkulaðilaust líf. Eftir viku saknaði ég Lindors molans míns (og fékk mér einn áður en Pre Clean hjá GreenFit byrjaði, svo fékk ég mér 2 pizzasneiðar og eina kökusneið). Hins vegar voru gildin mín 2017 frábær og ég ætla að finna leiðina þangað aftur. Í hvert skipti sem ég geri einhverjar breytingar á mataræðinu, þegar ég reyni eitthvað, þá gerist voðalega lítið. Ég borða kannski 90% hollt. Vandamálið er að ég veit ekki hvort að þessi 90% séu öll holl fyrir mig þó að það væri hollt fyrir þig.

David Goggins

Ég byrja flesta morgna núna á klukkutíma gönguferð og hlusta á hljóðbók á sama tíma. Núna er ég að hlusta á David Goggins. Hann er sannkallaður ofurmaður og ég hef engan áhuga á að verða eins og hann. Hins vegar er hann beinskeittur og það er hollt að hlusta á einhvern sem fer ekki í kringum hlutina.

Hann talar um að þú verður að gera hlutina sem eru óþægilegir til að ná árangri og vera hreinskilin við sjálfan þig. Ef þú ert 30 kílóum of þung, ekki horfa á þig í speglinum og segja við sjálfa þig. Já, ég þyrfti að missa nokkur kíló. Segðu við sjálfa þig. Ég er feit og ég þarf að missa 30 kíló. Ég tengdi ansi vel við þetta. Ég vissi alveg hvað ég var þung og hvað ég þyrfti að missa mörg kíló. Samt laug ég að mér og sagði. “Ég er ekkert rosalega feit. Ég meina, það eru margar miklu feitari en ég”.

Hann segir líka. Þú færð ákveðin tækifæri. Það er samt engin trygging að allt gangi upp. Kannski breyti ég öllu og verð til fyrirmyndar og fæ samt hjartaáfall. Það á eftir að koma í ljós en ég er amk að gera mitt besta til að eignast meiri lífsgæði.

Við berum 100% ábyrgð á okkur, enginn annar

Ég ætla ekki að eldast með eftirsjá og hugsa, ef ég hefði bara breytt þessu þá væru lífsgæðin mín meiri í dag. Ég ætla að lifa lífinu til fulls, og gera mitt til að það sé í lagi.

Að taka sjensinn á heilsunni finnst mér svipað og að spila rússneska rúllettu. Þú gerir eitt og annað og vonar þú verðir heppin í heilsulottóinu. Ekki ósvipað og að keyra bíl og það byrjar að blikka ljós í mælaborðinu. Þú skiptir um olíusíu. Ljósið heldur áfram að blikka. Þú fyllir á rúðupissið og svo bætir þú á olíuna. Ekkert breytist. Þú ákveður að prófa að fá nýja tímareim og dæla lofti í öll dekkin. Svo ferðu með bílinn í alþrif og lætur bóna hann. Ljósið er alltaf blikkandi í mælaborðinu. Dag einn þegar þú ert orðin of sein að sækja krakkana á leikskólann stoppar bíllinn á stóru gatnamótunum á Kringlumýrarbraut. Það byrjar að rjúka úr vélinni. Þú hringir á Vöku. Bíllinn er dreginn á verkstæði og þar er kveðinn upp stóridómur. Vélin bræddi úr sér, hún er ónýt og það verður að panta nýja vél. Þú skilur ekkert í þessu. Þú varst búin að prófa allt, já allt nema láta kíkja á vélina.

Hvað ef þín vél hefði bilað á gatnamótunum? Hver sækir þá krakkana á leikskólann? Ólíkt bílnum þar sem það er hægt kaupa nýja vél eða nýjan bíl ef þessi er alveg ónýtur þá er ekki hægt að kaupa nýjan líkama, ef hjartað fer þá er víst langur biðlisti eftir nýju.

Þegar þú færð að gildin eru fín þá slakar þú á, borðar minna rétt, það er jú óþarfi að missa sig í geðveikinni. Bottom line er ég ber ábyrgð á mér, ég get ekki sett heilsuna mína í hendur á 3ja aðila. Ég hefði getað skoðað þessi gildi sjálf. Ég hefði getað gogglað meira. Ég sagði hinsvegar, mikið er ég heppin að hafa ekki eyðilagt neitt með röngum lífstíl í 20 ár. Ótrúlega heppin og eftir 2 ár slakaði ég aðeins á. Fékk mér oftar súkkulaði og pizzur og jú þyngdist aðeins meira en miðað við 51 árs gamla konu var ég í toppformi. Öll gildin mín sögðu það og ég sá það þegar ég fór í sund.

Þjónustuskoðun eftir 40 ára?

Þegar ég náði ákveðnum aldri fékk ég boð um að fara í brjóstamyndatöku og leghálskrabbameinsskoðun sem fyrirbyggjandi aðgerðir. Markmiðið að reyna að grípa inn í áður en vandamálið verður of stórt. Greina vandamál sem gætu myndast seinna meir og fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Þegar ég varð 50 ára fékk ég sent heim eitthvað kit til að greina hvort að ég gæti verið með ristilkrabbamein svo á víst að fara þráðbeint í ristilspeglun eftir 50 ára. Ég fór reyndar rúmlega 51 árs. Var búin að mikla fyrir mér að fara í ristilspeglun. Ákvað svo að stökkva út í djúpu laugina. Þetta var miklu minna mál en ég hélt. Ég fékk hrós fyrir góðan undirbúning og ég og ristillinn vorum í fínu lagi.

Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna er ekki boðið upp á heildar ástandsskoðun fyrir alla um fertugt. Það er miklu ódýrara að vera með virkar forvarnir heldur en að grípa inn í þegar allt er komið í óefni.

Fyrir nokkrum árum var ég með viðvarandi magabólgur. Vinkona mín sem tekur heilsuna mjög alvarlega ráðlagði mér að skipta um mataræði og mælti mikið með tófú. Mér finnst tófú ekki flokkast undir mat. Ég vil frekar medium rare nautasteik með bernaise. Mér fannst þetta galið plan hjá henni og fannst nú ekki mikið mál að taka nokkrar pillur 2-3 var á ári til að laga þetta hvimleiða vandamál. Það var búið að ráðleggja mér að fara í magaspeglun. Mér fannst þetta arfavond hugmynd. Sannfærði sjálfa mig um að þetta væri mjög vont og óþægilegt og allskonar vesen. Þetta var á tímabilinu þar sem ég fannst gífurlega ósanngjarnt að ég þyrfti að taka ábyrgð á sjálfri mér að það væri virkilega undir mér komið að axla 100% ábyrgð á mér og mínum lífstíl. Mér fannst líka mjög ósanngjarnt að ég gæti ekki borðað allt sem ég vildi án þess að fitna. Ég meina það má nú ekki horfa á súkkulaði án þess að bæta á sig. Jú það má alveg horfa á það. Það má kannski mögulega ekki borða alltaf súkkulaði og eins mikið af því og þú vilt og jafnvel aðeins meira en þú getur torgað.  Svo þroskaðist ég og áttaði mig á því að ábyrgðin liggur alfarið og eingöngu hjá mér. Ef ég vil lifa besta mögulega lífinu þá þarf ég að leggja eitthvað á mig og hugsa um hreyfingu og mataræði. Ég vil  frekar borða sjaldnar súkkulaði (nei það er líklega lygi) en ég er tilbúin að fórna smá súkkulaði og smá köku og smá hér og smá þar gegn því að eiga betra líf til lengdar. Mér finnst það ekki lífsgæði að þurfa að poppa pillur til að geta farið fram úr á morgnana. Að þurfa að neita sér um fjallgöngu af því að ég hef ekki heilsu til þess.

Ef þú testar ekki þá ertu í lagi

Margir vilja ekki vita ástandið á sér. Það er svo miklu þægilegra að vita ekki. Ef þú finnur ekki fyrir neinum einkennum er þá ekki óþarfi að rugga bátnum? Þetta er ekkert ósvipað og Covidtestin. Sumir segja, ástæðan fyrir því er að við erum með svona mörg smit er af því að við testum svo marga. Lausnin er því að hætta að testa. Hætta að finna smitin og vera þægilega óupplýstur hvað ástandið er vont. Ég fór í Covid test hjá Kára í vor. Ég fékk neikvæða niðurstöðu með þessum varnagla að þó að ég sé ekki með Covid núna þýðir það ekki að ég geti ekki fengið Covid.

“Frá: Sóttvarnarlækni og Íslenskri erfðagreiningu: Þú ert ekki með COVID-19 sjúkdóminn. Þessi niðurstaða útilokar ekki að þú fáir sjúkdóminn síðar. Ef þú veikist seinna með flensulík einkenni, hita, beinverki og hósta þarf að meta hvort þörf er á nýrri sýnatöku.”

Hins vegar ef gildin þín eru fín þá færðu engan varnagla. Ekkert þú verður samt að passa þig því fín gildi í dag eru ekki ávísun á framtíðargildi. Ekkert ef þú ert komin á þennan aldur þá ættir þú að koma í tékk einu sinni á ári þannig að við getum greint vandamálin áður en þau verða óyfirstíganleg. Margir vilja líka meina að genin ráði öllu um þetta og því skipti ekki öllu máli hvað þú gerir. Annað hvort ertu með þessi gen eða ekki. Ég hafði þetta viðhorf í 20 ár. Ég gat ekki létt mig því ég var með genin hennar föðurömmu minnar. Þess vegna þýddi ekkert að reyna. Það myndi ekki bera árangur. Þetta vissi ég þar sem ég var búin að reyna allt. Prófa allskonar án þess að vita hvað ég þyrfti að prófa.  Þegar ég var 12 ára, átti ég 2 langömmur, 2 langafa, 2 ömmur og 2 afa á lífi. Ég vissi því nákvæmlega hverjir voru grannir og hverjir ekki. Ég hefði getað sagt, ég er með genin hennar Ásu langömmu sem var grönn alla ævi. Þess í stað sagði ég við sjálfa mig að ég væri með genin hennar föðurömmu minnar til að bakka upp mínar ranghugmyndir og hvers vegna það þýddi ekkert að reyna. Þetta var jú skrifað í DNAið mitt.

Þú ert svo fanatísk

Þegar fólk misnotar áfengi og hættir að drekka fær það mikið og almennt hrós frá samfélaginu. Mikið er hún Sigga dugleg að geta hætt að drekka. Fólk fagnar því að hafa ekki drukkið í ár, tuttuguár etc og allir samgleðjast. Sama gildir um fólk sem hættir að reykja og nota fíkniefni. Svo er það skrýtna fólkið. Þetta sem er svo manískt. Fólk sem hættir að borða sykur, nammi, kökur og leyfir sér ekki neitt. Það er nú eitthvað skrýtið. Það verður jú að leyfa sér smá. Fáðu þér eina kökusneið, þú fitnar ekki af henni. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég heyrði það í hvert skipti sem ég hætti að borða sykur tímabundið. Ég velti því fyrir mér hvers vegna er svona mikinn munur á almenningsálitinu eftir því hvaða fíkn fólk tekur út. Fyrir suma er það áfengi fyrir aðra er það sykur. Hvers vegna er það smart að geta hætt að drekka en fanatískt að taka út ákveðna matvöru?

Ultraform

20200820_182802Ég kynntist tímunum hjá Sigurjóni Erni í Ultraform í gegnum Halldóru Gyðu vinkonu. Mjög margt jákvætt sem hefur gerst í mínu lífi síðustu ár tengist henni. Hún er algjör fyrirmynd. Mér fannst ég vera komin heim þegar ég prófaði tímana hjá Sigurjóni. Þetta eru litlir hópatímar og eftir mánuð fann ég gífurlegan mun á styrk. Hann er með mælingar í upphafi og lok mánaðar og það er mjög gaman að sjá framfarirnar sem eiga sér stað. Það hentar mér vel að vera í litlum hóp. Þar sem hóparnir eru litlir þá nær hann að halda vel utan um hvern og einn og ég hlakka mikið til að sjá framfarirnar um áramótin. Við erum búin að setja mér markmið um framfarir og það þýðir ekkert annað en að standa sig. Ultraform er lítil stöð og það er eigandinn sem þjálfar og er alltaf á staðnum. Fannst einn æfingafélaginn minn segja þetta svo vel þegar hún sagði: Ég hef aldrei verið á svona hreinni stöð. Sigurjón sprittar sjálfur tækin á milli æfinga og passar svo vel upp á allt. Það eru einnig mjög góðar teygjur eftir hvern tíma. Ég fór í prufutíma og var svo “heppin” að þetta var stöðumat. Ég gat ekki gengið daginn eftir vegna harðsperra. Mér leið eins og eftir Jökularsárhlaupið sem var ca 5 tíma utanvegahlaup. Var líka ógöngufær þá. Mánuði seinna var aftur stöðumat, ég bætti mig heilmikið en daginn eftir fann ég engar harðsperrur sem segir mér að ég hefði mátt taka mun meira á í þessu stöðumati. Ég hreinlega þorði því ekki minnug ógeðsharðsperranna sem ég fékk eftir fyrsta tímann.

Ég hlakka til að sjá samspil Ultraform og Greenfit á mína heilsu á næstu mánuðum og að sjá gildin mín lækka.

Það skiptir engu hvaða markmið þú hefur. Eina sem skiptir máli er að byrja. Tíminn líður hvort sem er og það versta sem þú gerir er að vakna upp mörgum árum seinna og hafa aldrei reynt, aldrei byrjað.

 

Hægt er að fylgj­ast með veg­ferð Ásdís­ar á In­sta­gram


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband