21.8.2025 | 17:29
Árssamband við Orkuveituna bugar miðaldra konu
Ástarævintýri mitt og Orkuveitunnar hófst eins ljóð eftir Jónas Árnason, einu sinni á ágústkvöldi en reyndar var þetta meira svona ágústmorgni. Ég skellti mér í vikuferð til Ítalíu og á meðan ákvað leynilegur aðdáandi minn hjá Orkuveitunni að skella upp heitri laug í garðinum hjá mér. Það fór aðeins úr böndunum og hægt er að lesa allt um málið í pinnaðri færslu á opnu FB hjá mér. Þegar ég kom úr fríinu hitti ég starfsmann Orkuveitunnar sem var að meta tjónið. Ég fann strax mikla samkennd með þessu litla krúttlega sprotafyrirtæki og það var augljóst að þeir voru ekki mikla sjóði til að ganga því þar sem hann hamraði á því að við yrðum að fara vel með sjóði Orkuveitunnar og almannafé. Hann byrjaði samt á því að hrósa mér og mér iljaði um hjartarætur þegar hann horfði í augun á mér, brosti og sagði, Ásdís, þú ert svo erfið. Þetta setti tóninn í samskiptum mínum og Veitna, þeim fannst ég erfið þar sem eina markmið mitt var að passa að fá allt tjónið bætt og ég yrði eins sett og eins áður. Sem fyrirtækjaeigandi þá fannst ég að sjálfsögðu fann til með þessu krúttlega fyrirtæki sem var að berast í bökkum og mig langaði bara að knúsa hann, svona svipað og þegar þú sérð nýbura með feitar kinnar þá langar þig bara að klípa í þær. En æi dúllurass, auðvitað fer ég ekki að níðast á þessu litla blanka krúttlega fyrirtæki.
Ballið byrjar og kominn tími á nýtt gras
Í vor kom svo nýr starfsmaður frá Veitum sem yrði tengiliður Veitna í tjóninu. Ég lærði svo mikið af þessu ferli sem mig langar að deila með ykkur. Meðvituð að það yrði að fara vel með sjóði Veitna þá treysti ég því að þetta yrði allt í toppstandi. Stutta útgáfan. Verktakinn kom og lagði gras, hann fór svo vel með sjóði Veitna að hann lagði ekki gras á allan garðinn minn og kannski langaði hann bara að gefa nágranna mínum bút af mínum garði. Þarna kom fasteignasalinn upp í mér og ég hugsaði hvað ætli lóðaverðið hafi verið sem vantaði uppá. Veitur lofuðu mér besta mögulega grasinu: Ég var að fá staðfest að Verktakinn koma á morgun að leggja úrvalsgras og setja ný tré hjá þér Grasið sem ég fékk var hins vegar allt annað er úrvals og ég fékk álit þeirra sem hafa meira vit á grasi en ég: Þetta er lélegt gras. Mestmegnis einært varpasveifgras. Þú þarft að slá þetta mjög snöggt núna til að koma í veg fyrir að það sái sér. Og rakaðu slægjunni burt og pasaðu að dreifa henni ekki. Ef þú gerir ekkert núna, gulnar varpasveifgrasið og drepst - en skilur eftir sig óviðráðanlegt fræmagn sem svo smátt og smátt dreifir sér út í grasflötina hjá þér. ...
Þarna kom samfélagsábyrgð Veitna vel í ljós þar sem verktakinn lagði bæði lélegt gras og gerði það það illa að þeir fengu annan verktaka til að taka upp grasið frá fyrri verktaka og leggja nýtt. Þetta heitir hins vegar ekki að fara illa með almannafé, þetta heitir að styðja við fyrirtækin í landinu. Fyrri verktakinn lagði líka lyngmóa í landi Kópavogs sem er við lóðamörkin mín og ég var mjög ánægð að það lifði bara í 2-3 vikur og undir móanum var plast sem er svo 2025. Ég meina, auðvitað legg ég mitt af mörkum að drekka með papparöri en go Veitur að leggja plast í jörðu. Ég er samt ánægðari með að hafa dauðan plastlyngmóa í landi Kópavogs heldur en túnþökurnar sem sami verktaki ætlaði að leggja á í fyrra sumar og ég þurfti að senda í burtu.
Hver þarf Tinder þegar kona hefur Veitur?
Þegar ég kom heim einn daginn sá ég rispur í planinu eftir fyrri verktakann. Ég sendi póst á Veitur og lét vita. Þarna byrjaði gleðin. Á þessum tíma var ég hætt á Tinder þar sem ég þoldi ekki þessar gaslýsingar, lygar og rugl sem einkennir deitingöpp í dag en ég tók gleðina mína aftur því að Veitur toppuðu sig alveg í þessum samskiptum. Fyrsti pósturinn frá Veitum var á þá leið að þessar hvítu línur væri líklegast eftir einhverju sem hefði verið dregið en smá vatn ætti að leysa þetta upp. Það hvarflaði aðeins að mér að Veitur ættu að geta reddað þessu þar sem þeir eiga jú nóg af vatni. Ég ákvað samt að testa þetta aðeins og dró fingur eftir línunum og fór niður í hellunum. Ég hringdi í Veitur og fór fram á að þeir sendu mann til að taka þetta út með mér, þarna er lykilatriði með mér þar sem ég vildi vera á staðnum til að sjá hvernig þetta yrði tekið út og sannreyna að þetta væru bara hvítar auðþrifnar línur. Næsta virka dag fékk ég þetta svar frá Veitum: Ég kíkti þangað á föstudaginn og eftir því sem ég sá, þá virtust þessar hvítu línur vera eftir pokum sem hafði verið dreginn eftir hellunum. Ég tók ekki eftir neinum rispum eða skemmdum á hellunum sjálfum. Ég kíkti á veðurspána og sá föstudaginn 13. júní þegar starfsmaðurinn kom þá hafði verið 15 stiga frost og því eðlilegt að starfsmaðurinn hefði verið með það þykka vettlinga að hann gat ekki fundið fyrir þessum skemmdum. Ekki viljum við að starfsmenn Veitna fái frostbitna fingur í vinnunni er það? Og jú þetta var föstudagurinn 13 eða Freaky Friday og allt getur nú gerst þá ekki satt?
Mantra Orkuveitunnar: Við erum búin að læra svo mikið af þessu tjóni
Núna var kominn tími á hópdeit með Veitum og Vís og nýja verktakanum sem tók við málinu. Það var óumdeilt að grasið var drasl og ég fengi nýtt. Það var líka óumdeilt að planið var tjónað. Veitur komu með nokkrar hugmyndir sem voru allar þeim í hag og mér í óhag enda verðum við að fara vel með almannafé. Í hvert skipti sem ég hitti starfsmenn Veitna fóru þeir með Möntruna sína. Ásdís, þetta er ógurlega leiðinlegt en við erum búin að læra svo mikið af þessu máli og erum að bæta ferlana okkar svo mikið og fara yfir samskipti við Verktaka. En þau höguðu sér líka alltaf eins og þeir væru tjónþolinn og ég væri tjónvaldurinn sem væri að níðast á þeim enda þegar svona lítið krúttlegt startup fyrirtæki eins og Veitur lenda í tjóni þá þarf bara að hafa skilning á þeirra aðstöðu, elsku dúllurassarnir. Ég bauðst til að senda þeim reikning fyrir allri þessari frábæru ráðgjöf sem þau vildu samt ekki fá. Ég bað ítrekað að fá fund með þeim en þá misstu þau alltaf netsamband og völdu að svara ekki.
Varðandi planið þá komu þau með sína leið sem ég hafnaði strax þar sem hún leysti ekkert fyrir mig. Það stoppaði þau þó ekki í því að senda falsaða fundargerð eftir þann fund: Sæl,Hér kemur yfirlit yfir planið eins og við sammæltumst um í vikunni þegar við hittumst:Verktakinn mun taka að sér verkefnið og byrja á að fjarlægja þær hellur sem eru með rispum. Þær verða endurnýttar og lagðar niður aftur á ýmsa staði á planinu, þeir passa að setja hellurnar þar sem þær munu sjást sem minnst. Þessu hafði ég mótmælt ítrekað á fundinum en það stoppaði samt Veitur ekki í því að senda fundargerðina eftir fundinn vitandi að hún væri röng.
Litlu krúttlegu fyrirtækin eru víða
Elsku krúttin, ég finn til með þeim að vera í svona erfiðum rekstri. Ég finn til með þeim að vera tjónþoli og vera með svona erfiða og leiðinlega viðskiptavini sem vilja bara vera eins settir og áður. Þegar nýja grasið var lagt þá var augljóst að Veitur voru komin með samviskubit yfir framkomunni við mig þar sem þau sendu mér gras með gífurlegu magni af sveppum og smárum. Ég geri mér grein fyrir þetta að þetta var hugsað sem góðmennska fyrir einstæðu móðurina sem á kannski ekki fyrir mat og hún gæti því búið til allskonar sveppasúpur og meðlæti en hefðu þeir spurt þá hefði ég getað sagt þeim að ég væri með sveppaóþol og þessi gjörningur því bæði matarsóun og sóun á Almannafé. Nýja grasið var líka fullt af smárum en það var örugglega falleg hugsun á bakvið það því hver veit nema ég finni helling af 4ra laufa smárum og verði sjúklega heppin.
Hins vegar stóð nýji verktakinn sig Sumargarðar óaðfinnanlega og í raun má segja að það hafi verið lottóvinningur að fá verktaka sem stendur sig upp á 15. Tengiliðurinn hjá Vís var líka alltaf upp á 10.
Eftir höfðinu dansa limirnir
Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að Orkuveitan væri fyrirmyndarfyrirtæki með alla ferla upp á 10 og mikla samfélagslega ábyrgð og réttlætiskennd. Ég hélt að ég hefði bara verið óheppin með tengilið og var ítrekað að biðja um fund með Orkuveitunni til að fara yfir þetta mál en fékk svo staðfest í email að stjórnendur Veitna væru upplýstir um málið og teldu ekki þörf á fundi. Þetta er því stefna Veitna sem aðrir starfsmenn eru að fara eftir.
From: @orkuveitan.is Sent: þriðjudagur, 19. ágúst 2025 14:03
To: Ásdís Ósk Valsdóttir <asdis@husaskjol.is>
Subject: RE: Fjallalind 92
Stjórnendur Veitna eru upplýst um málið en þar sem VÍS er með þetta mál á sínu forræði og hefur fullt umboð frá Veitum teljum við ekki þörf á fundi um málið.
Málið er að það stóð aldrei á Veitum að bæta tjónið, þeir vildu bara gera það á sínum forsendum algjörlega óháð því hvort að ég kæmi eins út eða ekki eftir aðgerðir. Þeir spurðu aldrei hvað værir þú sátt með sem var auðsvarað. Eina sem ég vildi var að vera eins sett og fyrir tjónið. Með jafngott gras og ótjónað bílaplan. Það reyndist hins vegar of erfitt fyrir Orkuveituna að mæta þessum erfiðu skilmálum.
Mér finnst að allir ættu að læra af þessu tjóni
Ég íhugaði hvort að ég ætti að deila þessari dásemd og svo hugsaði ég að það væri sjálfhverfa að gera það ekki. Hvers vegna eiga Veitur einir að læra af þessu máli og geta bætt ferlana sína. Fyrst að ég er að veita þeim fría ráðgjöf þá finnst mér að allir ættu að fá fría ráðgjöf til að bæta sína ferla.
Topp 5 og alls ekki í neinni sérstakri röð.
- Þegar þú daðrar við viðskiptavin notaðu þá Erfið ítrekað. Það liðkar fyrir samskiptum og myndar traust milli aðila.
- Þegar þú gaslýsir og lýgur upp á viðskiptavin þá er mikilvægt að hafa þetta skriflegt þannig að hann sé pottþétt ekki að misskilja þig.
- Gefðu í skyn beint eða óbeint að viðskiptavinurinn sé ósanngjarn og sé að misnota góðmennsku þína
- Skildu þannig við að viðskiptavinurinn sé verr settur en áður
- Vertu í einokunarstöðu þannig að viðskiptavinurinn geti ekki leitað annað.
Ég býð mig fram til að laga ferla hjá fyrirtækjum og get framvísað meðmælum frá Veitum þar sem okkar samstarf hefur verið óaðfinnanlegt og það er með söknuði að núna á ársafmælinu okkar sé okkar dásamlega sambandi lokið en af heilsufarsástæðum varð ég að draga í land til að geta haldið uppi fullri orku á öðrum vígstöðvum. Love you and miss you.
Ég er stolt af Veitum að hafa staðið upp í hárinu á mér. Það þarf kjark hjá Litlu krúttlegu sprotafyrirtæki að standa upp í hárinu á einni miðaldra kellu, standa vörð um hagsmuni sína með góðu eða illu því við vissum öll að ef Veitur þyrftu að klára málið vel þannig að ég yrði eins sett og fyrir tjónið þá myndi enginn starfsmaður Veitna fá jólabónus og árshátiðarferðin yrði líka felld niður. Það er gott að leggjast á koddann vitandi það að hið góða vann eina ferðina enn. Davíð sigraði Golíat, reyndar átti Davíð litli her af lögfræðingum eins og einn dúllurassinn benti á en við erum nú ekkert að hanga á svona smáatriði.
Ég ákvað nú samt að taka ekki sjens á því að neinn annar kæmi óboðin heim til mín þannig að núna er komið upp massa fínt öryggismyndavélakerfi heima hjá mér svona til að missa ekki af neinum gleðistrumpum í framtíðinni.
Hvernig á að tækla yfirgang?
Ef þið eruð svo heppin að lenda í smá ágreiningi við lítil krúttleg sprotafyrirtæki, s.s. Reykjavíkurborg, Ríki og Veitur þá eru þetta mín 5 tips.
- Hafðu öll samskipti skrifleg og rekjanleg. Ef þú þarft að hringja, sendu þá email á eftir til að staðfesta símtalið.
- Ef þeir senda falskar fundargerðir og ljúga upp á þig, mótmæltu því skriflega annars heldur fundargerðin.
- Fáðu heildarplanið áður en byrjað er að vinna í tjóninu og niðurnjörvað í smáatriði.
- Taktu myndir áður en byrjað er á lagfæringum þannig að það verði engin misskilningur síðar meir.
- Ákveddu í upphafi hvað þú getur sett mikla orku og tíma í málið
Óumbeðin átök drena fólk andlega og líkamlega
Ég er drenuð á líkama og sál eftir þessi átök við Orkuveituna. Þeir hafa gaslýst mig, logið að mér, logið upp á mig, sent falsaðar fundargerðir og rægt mig út á við. Í hvert skipti sem ég kem heim þá sé ég tjónaða planið sem Veitur neita að bæta þar sem ég samþykkti ekki þeirra lausn. Þegar kemur að Veitum þá er þetta my way or the Highway. Ég fékk mér lögfræðiráðgjöf þar sem ég bara trúði því ekki að fyrirtæki eins og Veitur myndu koma svona fram og líka til að sannreyna að ég væri ekki búin að tapa vitinu þegar gaslýsingin byrjaði. Hann staðfesti að þetta væri alls ekki einsdæmi hjá aðilum í valdastöðu. Ég ætlaði að taka slaginn en svo þarf bara að meta hvers virði orkan er. Ég horfi á planið mitt og hugsa: Það er val að beita ofbeldi og það er líka val að koma fallega fram. Ég ætla að nýta þetta tækifæri til að læra af rétt eins og Orkuveitan er að bæta sína ferla þá er ég að bæta mig sem manneskju. Þetta mál gerir mér ennþá færari að setja mig í spor annara og sýna samkennd eitthvað sem sumir ættu að bæta í sína ferla.
ÁST, FRIÐUR OG NAMASTE
Hægt er að skoða
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)