Heilsa er ekki heppni!

24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit.

Ég var búin að bíða eftir þessum degi með kvíðablandinni eftirvæntingu. Þetta var ekki ósvipað og stressið fyrir lokaprófið. Þú ert búin að læra vel alla önnina en stundum koma samt spurningar sem þú varst ekki búin að undirbúa. Ég var búin að gera allt rétt og samt var þessi undirliggjandi efi. Hvað ef. Hvað ef allt sem ég hef gert virkar ekki og ég er ennþá með öll innri gildi í tómu tjóni. Ég viðurkenni að það var stressandi því ef ég kæmi mjög illa út þá væri líklega næsta mál á dagskrá að hringja í heimilislækninn og setja mig á lyf og sætta mig við að þetta væri jú aldurinn og genin sem stjórnuðu ferðinni. Alveg sama hvað ég myndi gera, breyta og bæta það hefði ekkert að segja. Nógu margir voru búnir að nefna þetta við mig og kannski höfðu þeir rétt fyrir sér. Mig grunaði reyndar að það væri einhver bæting. Ég fann það á sjálfri mér. Mér leið miklu betur, ég hafði betra úthald og svaf miklu betur en ég var vön. Ég ákvað samt að lífið væri langhlaup og ég yrði sátt við hversu litlar breytingar sem ég sæi.

Ég byrjaði á því að fara í blóðrannsókn um morguninn. Ég mætti á fastandi maga sem var lítið mál þar sem síðustu 3 mánuði hef ég gert miklar breytingar á mataræðinu og ein breyting sem ég hef orðið vör við er að þessi gífurlega morgunsvengd sem ég fann alltaf fyrir var horfin.

Svo fór ég í efnaskiptapróf hjá Greenfit og kl. 15:00 átti ég svo tíma í álagsprófinu.

Niðurstaðan úr efnaskiptaprófinu:

Í fyrra prófinu voru efnaskiptin mín 63% fita og 37% kolvetni. Í seinna prófinu voru efnaskiptin 90% fita og 10% kolvetni. Þessi skilaboð fylgdu með:

“Ég verð að segja að þetta eru alveg frábær efnaskipti og með því betra sem við sjáum. Þannig virkilega vel gert og klárt mál að þetta sem þú hefur verið að gera undanfarið er að skila sér margfalt. Til hamingju með allan árangurinn

Það var ekkert minna en stórkostlegt að lesa þessa kveðju. Í gegnum tíðina hefur ítrekað verið sagt. Það hægir á efnaskiptum þegar fólk eldist og þetta er hluti af lífinu. Þarna er ég 3 mánuðum eldri en í fyrra prófinu og er komin með frábær efnaskipti. Ætli það sé eitthvað fleira sem sé ekki alveg meitlað í stein?

Niðurstaðan úr álagsprófinu:

Þegar ég tók fyrra prófið þá kom ég gífurlega illa út varðandi öndun. Það kom mér svosum ekki á óvart þar sem ég mæddist mjög hratt þegar ég fór í fjallgöngur og það háði mér aðeins. Ég átti von á bætingu þarna þar sem ég fann að síðast þegar ég fór á Úlfarsfellið þá var það miklu léttara en áður og þess vegna var ég mjög spennt að sjá súrefnismælingarnar.

Þær fóru fram úr mínum villtustu draumum.

Fyrra prófið:your breathing is problematic.

Seinna prófið: “Your breathing is optimal.

Á 3 mánuðum fer ég úr problematic í optimal. Ég hlustaði á bækurnar Breath eftir James Nestor og the Oxygen Advantage eftir Patrick McKworn og í báðum bókum eru ákveðnar öndunaræfingar. Næsta verkefni hjá mér er að setja inn öndunaræfingar og bæta öndunina ennþá betur.

Álagspúlsinn minn: Þegar ég hleyp rólegu neföndunarhlaupin mín þá hleyp ég á svokölluðu Zone 2 álagi. Í fyrra prófinu var Zone 2 með álagspúls 99-147. Nýji æfingapúlsinn minn er 159-167. Ég hlakka til að fara að tækla nýjar áskoranir þó að það þýði mögulega tímabundið að ég muni taka styttri hlaup þar sem þau eru erfiðari en það er í góðu lagi. Róm var ekki byggð á einum degi.

Ég fór út að hlaupa í morgun. Ég hljóp 6,82 km á nýja æfingapúlsinum á 48,2 mínútum. Ég skoðaði hlaup á gamla æfingapúlsinum. Þá hljóp ég 6.39 km á 58,11 mínútum. Auðvitað tók nýji púlsinn meira á en þetta er samt zone 2 púls ekki hámarkspúls og mér leið vel eftir hlaupið.

Öndunarprófin mín:

Respiratory fitness fór úr 45% í 69%.

Breathing and mobility fór úr 41% í 80%.

Breathing and cognition fór úr 41% í 80%.

Fat burning effiency fór úr 69% í 90%.

Það voru 2 gildi sem lækkuðu.

Metabolic efficiency fór úr 40% í 20%

Cardio fitness fór úr 100% í 87%.

Fékk þessi skilaboð frá Greenfit

“You did it. Virkilega vel gert!!

Metabolic efficiency fer niður í 20% en þetta er ekki endilega slæmt, þetta þýðir bara að líkaminn er orðinn sparneytnari á orku þannig þú sparar kaloríurnar meira á efforti. Við sjáum þetta oft samfara betri fitubrennslu.

Öndunin, öndunin, þvílíkar bætingar!! Geggjað að sjá þetta.

Cardio fitness fer niður í 87% úr 100% en þetta er vegna þess að nú er öndunin orðin það góð að hún er ekki eins mikill hamlandi factor lengur og því sjáum við núna tækifæri til að bæta pumpuna aðeins líka, sem er akkurat í takt við það sem við ræddum um í síðasta testi.

Fitubrennsla upp í 90%. Sæll. Vel gert. 

Næstu verkefni sem bíða eru því að bæta öndunina ennþá meira og læra að hlaupa á meira álagi með neföndun og bæta úthaldið. Þetta er gífurlega spennandi vegferð og ég hlakka til að sjá smábætingar hér og þar. 

Blóðrannsóknin:

Þetta var niðurstaðan sem ég var spenntust fyrir og ástæðan fyrir því að ég lagði upp í þessa vegferð. Við Lukka settumst yfir gildin mín eftir álagsprófið. Niðurstaðan var lækkandi á öllum stöðum þar sem ég var um og yfir hækkumörk.

Kólesteról og blóðsykur: Þegar ég fór í fyrra prófið þá var kólesterólið út úr kortinu í orðsins fylstu merkingu. Ég mældist með 8,0 og kortið náði upp í 7,76. Hæst mældist ég í blóðsykri 5,7 sem er yfir mörkum. Ég var með 88% líkur á því að greinast með sykursýki 2 einhvern tímann á ævinni og 53% að fá hjartasjúkdóm ef ég héldi áfram á þeirri braut sem ég var. Í næstu mælingu reyndist kólesterólið vera komið niður í 6,70 (sem sagt komin á kortið) og blóðsykurinn komin niður í 5,40. Það sem er þó áhugaverðast við þetta allt saman er að ef ég held áfram á þessari nýju braut þá er ég búin að minnka líkurnar á því að fá sykursýki 2 úr 88% í 31% og hjartasjúkdómum úr 53% í 47%.

Einnig minnkuðu bólgurnar gífurlega mikið í líkamanum. Þetta stemmdi við það sem sjúkraþjálfarinn sagði við mig. Í heilt ár hef ég farið tvisvar í mánuði í sjúkraþjálfun þar sem ég finn stundum fyrir óþægindum í hnjánum. Hann hefur alltaf sagt að ef ég nái að minnka bólgurnar í líkamanum þá minnki þörfin á sjúkraþjálfun. Þennan dag var fyrsti dagurinn sem hann notaði ekki nálar.  Hann sagði að ég væri miklu betri, væri mýkri og ekki eins stíf og þyrfti þess ekki.

Kaupa small í 17:

Mjög skemmtileg aukaverkun síðustu 3 mánuði er að ég er búin að léttast helling áreynslulaust. Ég lagði ekki upp í þessa vegferð til að missa kíló. Gat alveg hugsað mér það en fókusinn var á að lækka slæmu gildin og bæta úthaldið og öndunina. Á 3 mánuðum er ég búin að missa tæp 9 kg. Öll fötin mín eru of stór og ég er aðeins byrjuð að endurnýja fataskápinn. Kannski er það grunnhyggið en ég fékk mikið kikk út úr því að kaupa mér peysu í small í 17. Það sem ég sé helstan mun á er að ég hef alltaf verið með þrútinn maga, líka þegar ég var yngri og léttari. Núna er hann að gefa gífurlega mikið eftir. Ég ræddi þetta við Lukku. Mér líður eins og ég sé að svindla. Hvernig get ég lést svona áreynslulaust? Ég hleyp hægar, ég anda með nefinu og borða gífurlega góðan mat og borða mig alltaf sadda. Ég tel hvorki hitaeiningar né vigta matinn og veit ekkert hvert hlutfall fitu, kolvetna eða próteina er. Lukka sagði að um leið og bólgurnar minnka getur líkaminn unnið betur úr fæðunni sem ég borða sem hefur þessar skemmtilegu aukaverkanir.

Mataræðið:

Mörgum finnst mataræðið mitt gífurlega strangt. Ég hef hreinlega aldrei borðað svona góðan mat. Ég borða 3-4x á dag. Mataræðið samanstendur af því sem vex, hleypur og syndir. Ég sleppi mjólkurvörum, kornvörum og mjög sætum ávöxtum. Reyndar mun ég líklega setja inn eitt og annað smátt og smátt s.s. döðlur og mangó. Ég hef alltaf verið nammigrís og mikill nartari en ég hef enga löngun í nart lengur. Mig langar að halda áfram á þessu mataræði amk næstu 3 mánuði en þá fer ég í næsta test hjá Greenfit. Það verður spennandi að sjá hvernig gildin halda áfram að breytast og hvernig litlar breytingar yfir lengri tíma verða að stórum breytingum.  Margir eru forvitnir hvað ég borða og því set ég megnið af mínum máltíðum í story á Instagram og þar er hægt að fá fullt af hugmyndum.

Burstar þú tennurnar?

Ég fæ mikið af spurningum um þennan gífurlega sjálfsaga sem margir eru sannfærðir að ég búi yfir. Það séu fáir sem geti gert þetta þar sem ég er svo öguð og skipulögð. Okkar á milli er það engan veginn rétt. Mér finnst þetta ekkert mál. Mér finnst ég ekki í átaki. Ég er einfaldega að borða mjög góðan mat sem vill svo heppilega til að er mjög hollur og fallegur. Ég hreyfi mig hægar en ég gerði og ég anda með nefinu. Ég vel að gera þetta því ég er að hugsa um framtíðar mig. Hugsa um Ásdísi þegar hún verður 70 ára og 80 ára. Þetta er ekkert ósvipað og að bursta tennurnar. Allir sem ég þekki bursta tennurnar og flestir 2var á dag. Sumir nota líka tannþráð og jafnvel munnskol. Hvers vegna eru allir með þennan járnaga þegar kemur að því að bursta tennurnar. Jú er það ekki vegna þess að það er verið að fyrirbyggja tannskemmdir? Hvers vegna hugsum við þá minna um innviðina? Það skiptir kannski ekki öllu máli þó að ein og ein tönn skemmist. Hvað ef þetta eina hjarta sem við eigum skemmist. Hvað þá?

Horft til baka:

Þegar ég horfi til baka síðustu 3 ár þá er ég gífurlega stolt af mér að hafa lagt upp í þessa vegferð. Það voru alls ekkert allir sammála mér og ég hef fengið töluverða gagnrýni fyrir að vera manísk, nokkuð geðveik á köflum og öfgafull. Þegar ég var að taka mín fyrstu skref þá var erfitt að standa með sjálfri mér. Það er gífurlega mikið átak að skipta um lífstíl og þegar þú færð líka gagnrýni að þú sért að gera allt vitlaust þá er oft erfitt að hunsa þessar óumbeðnu ráðleggingar.

ÞÚ VAKNAR OF SNEMMA!

ÞÚ SEFUR OF LÍTIÐ!

ÞÚ ÆFIR OF MIKIÐ!

ÞÚ LÉTTIST OF MIKIÐ!

Við alla sem eru að stíga sín fyrstu skref eða eru á sinni vegferð þá vil ég segja þetta. Þetta er þitt líf og þínar ákvarðanir. Þegar upp er staðið þá stendur þú og fellur með þínum ákvörðunum. Ég vil ekki líta til baka og sjá eftir öllu sem ég gerði ekki afþví að einhverjum fannst það asnalegt. Stundum þarf  hreinlega að skipta út vinum. Ég er svo heppin að ég er búin að eignast gífurlega mikið af góðum vinum sem deila sömu sýn og ég. Eitt sem ég hef áttað mig á er að þeir sem eru betri en þú eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða og hjálpa þér. Þeir segja ekki þú getur ekki ... þeir segja þú gætir prófað þetta.

Þakklætið:

Ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ég hefði ekki haft góðan stuðning. Hilda vinkona á svo mikið í þessum árangri. Ég hefði ekki komist í gegnum Landvættina án hennar. Hún var minn stuðningur. Hún er stútfull af fróðleik og aldrei meira en eitt símtal í burtu ef mig vantar eitthvað. Það ættu allir að eiga eina Hildu í sínu lífi. Hún gerir lífið auðveldara. Ég byrjaði meira að segja ekki almennilega á neföndun fyrr en hún byrjaði. Hún er minn áhrifavaldur.

Landvættir, Þríþrautadeild Breiðabliks, hjólreiðadeild Breiðablik, Garpasund Breiðabliks og Greenfit. Þau hafa öll hjálpað mér svo gífurlega mikið að komast á þann stað sem ég er á í dag. Þarna er samankomnir aðilar sem eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða og miðla til þeirra sem á þurfa að halda.

Krakkarnir og kærastinn. Ég er svo heppin að Axel Valur elsti sonur minn býr hjá mér. Hann er listakokkur og þegar ég byrjaði að borða hreint þá sá hann alfarið um að elda. Mér fannst svo drepleiðinlegt að elda. Ég hefði ekki náð þessum árangri nema afþví að hann sá um þetta algjörlega til að byrja með og ég er núna í æfingabúðum hjá honum til að verða sjálfbær áður en hann flytur að heiman. Besta við þetta allt saman er að ég er farin að hafa mjög gaman af því að elda.

Það er ekki sjálfgefið að krakkarnir styði þig 100%. Þau hafa borðað Clean með mér í 3 mánuði. Þau sakna aðeins gamla matarins þannig að við ætlum að fara að hafa þetta bland í poka og þá elda ég Clean fyrir mig.

Kærastinn á líka hrós skilið. Hann styður mig fullkomlega og kippir sér ekkert upp við það þó að ég vakni kl. 5 á morgnana til að fara út að hlaupa.

Smartland á líka hrós skilið fyrir að birta pistlana mína. Ég fæ almennt góð viðbrögð við þeim og mér þykir gífurlega vænt um skilaboð sem ég fæ frá öðrum sem eru að byrja sína vegferð.

Hvað er framundan?

Ég ætla að halda mínu striki og bæta mig smátt og smátt. Ég geri mér grein fyrir því að ég mun ekki ná sömu bætingum í næstu mælingum. Á meðan ég sýni framfarir þá er ég sátt. Þessir 3 mánuðir hafa liðið áfram á ógnarhraða.

Hvað með aðventuna Ásdís, á ekki að tríta sig smá? Ég hugsaði þetta einmitt eftir prófið. Ég bakaði 5 sortir af smákökum og hugsaði að ég ætti skilið að fá mér smákökukaffi eftir prófið. Hins vegar langaði mig ekki í þær.Þetta var meira af vana heldur en löngun. Það er jú að detta í aðventu og það verður nú aðeins að tríta sig. Þegar ég sá hversu vel prófin mín komu út þá datt niður öll löngun í smákökur. Eitthvað sem ég hef verið að gera í gegnum tíðina hefur ekki haft góð áhrif á líkamann og ég held að ég þurfi ekki að vera sérfræðingur til að vita að jólasmákökur eru sannarlega ofarlega á þeim lista. Það sem ég heyri sjálfa mig segja núna. Ef ég náði þessum árangri á 3 mánuðum hvar verð ég þá stödd eftir 3 ár?

Í dag er ég gífurlega fegin hvað fyrra prófið kom illa út því það neyddi mig til að bregðast við. Ef ég hefði komið sæmilega út hefði ég mögulega sagt. Þetta er ekkert svo slæmt svona miðað við konu á mínu aldri. Þetta er alveg nógu gott. Sæmilegt er ekki nógu gott þegar þú getur verið frábær. Ég hefði svo haldið áfram að fálma í myrkrinu í staðinn fyrir að leita allra leiða til að bæta heilsuna og hefði aldrei náð þessum árangri sem ég náði með Greenfit. Það eru forréttindi að geta bætt heilsuna og ómetanlegt að geta fengið faglega aðstoð hjá Greenfit. Núna veit ég betur, ég veit að sæmilegt er engan veginn ásættanlegt. Frábært er nýja viðmiðið.

Þetta er einfalt. Lífið og heilsan er í okkar höndum. Við ráðum ferðinni, ekki talan í kennitölunni okkar sem segir hversu gömul við erum og ekki heldur genin okkar. Þetta er undir okkur komið og engum öðrum.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Úr sófa í 10 km hlaup  

Ég fæ mjög mikið af fyrirspurnum um mína vegferð. Hvernig ég byrjaði og á hverju á að byrja, er það mataræðið eða er það hreyfingin?

Ef ég hefði svarað þessu fyrir 3 árum þá hefði ég sagt: “gerðu smá breytingar á mataræðinu og settu forgang á hreyfinguna”. Ég er síðan búin að læra að það er alls ekki rétt. Mataræðið er líklega 90% af árangrinum og rólegar æfingar á lágu álagi skila betri langtíma árangri og minnka líkurnar á meiðslum.

Ég ákvað því að skella í smá pistil hvað stendur upp úr hjá mér. Ég minni á að þetta er allt byggt á minni reynslu og það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega fyrir þig.

Taktu ákvörðun

Fyrsta skrefið er að taka ákvörðun. Taka ákvörðun að núverandi lífsgæði séu óásættanleg og þú vilt fá meira út úr lífinu og geta meira. Ég var á ráðstefnu erlendis og hlustaði á David Goggins halda fyrirlestur og þessi setning festist í hausnum á mér. “Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig”. Á þessari stundu var ég 95 kg. Ég var orkulaus, uppgefin á sál og líkama og stútfull af pirringi og reiði. Ég fann að ég vildi ekki vera þessi manneskja lengur. Ég vildi ekki halda áfram að skrifa þessa ævisögu. Ég hugsaði hvar verð ég eftir 10 ár ef ég held áfram á þessari braut. Ég var að þyngjast um svona tæp 2 kg á ári að meðaltali. Ekkert hættulegt ef þú horfir á 1 ár en þegar þú margfaldar þetta með 20 árum þá eru allt í einu komin 35 aukakíló. Ef ég héldi áfram á þessari braut og myndi þyngjast um 2 kg á ári þá væru komin viðbótar 20 kíló eftir 10 ár og ég væri orðin 115 kg. Þarna átti ég erfitt með að finna föt sem pössuðu á mig, fæturnir voru þrútnir og liðirnir stífir. Ég sá ekki að 20 kg í viðbót myndu bæta lífið neitt. Mig langaði ekki lengra. Ég fékk nóg.

Hreinsaðu út fortíðardraugana

Af öllu sem ég gerði þá myndi ég segja að þetta væri það mikilvægasta. Það er erfitt að horfa fram á veginn ef þú ert stútfull af fortíðarþráhyggju. Ég var mjög góð í þessu og var stöðugt að rifja upp eitthvað sem gerðist jafnvel fyrir áratugum. Þegar ég kom heim af ráðstefnunni þá breytti ég um mataræði og fékk mér einkaþjálfara en þessi reiði og pirringur var alltaf undirliggjandi. Ég jók orkuna og ég léttist helling en nokkrum mánuðum seinna krassaði ég í kvíðakasti því ég var ekki í neinu jafnvægi. Það var ekki fyrr en ég fór til sálfræðings og gerði upp þessa fortíðardrauga að ég komst í betra jafnvægi. Ég fór í lunch með vinkonum í sumar og við fórum að ræða allskonar mál. Ein umræðan gerði mig pirraða og ég áttaði mig á því að ég átti ennþá eftir að losa út þennan fortíðardraug. Ég greip í tækni sem ég lærði sem gengur út á það að sjá fyrir sér þræði sem eru fastir á þér. Síðan fór ég í göngu og á göngunni klippti ég alla þræðina burt og losaði mig við fortíðardrauginn. Ef þú ert að glíma við stóra fortíðardrauga eða nýlega mæli ég alltaf með því að leita sér aðstoðar. Það er mannskemmandi að burðast með þetta ein.

Gerðu ráð fyrir bakslögum

Róm var ekki byggð á einum degi og það hafa fáir óendanlegan járnvilja. Það koma tímabil þar sem þú nennir ekki út að hreyfa þig. Það koma tímabil þar sem þú vilt bara liggja upp í sófa, hámhorfa Netflix og snarla. Þegar það gerist er gífurlega mikilvægt að muna að þetta er langhlaup, ekki spretthlaup. Þetta er í alvörunni lífshlaupið. Hvíld er líka æfing og stundum þarf að taka sér pásu. Einn ömurlegur dagur skiptir engu í heildarmyndinni. Við getum aldrei alltaf verið í fullkomnu standi. Þó að ég eigi off dag þá skiptir það engu máli. Á morgun geri ég aftur mitt besta. Það sem þarf að passa að offdagarnir verði ekki 30 í röð eða 90. Ég þekki það svo vel á eigin skinni hvað er erfitt að fara aftur í gang ef pásan er löng. Stundum getur verið gott að fara þá í stutta göngu frekar en að gera ekki neitt.

Hreyfing

Það skiptir höfuðmáli að finna hreyfingu sem þér finnst skemmtilegt. Ég fór í einkaþjálfun og það var fínt en mér hefur hins vegar aldrei fundist rosalega gaman í tækjasal. Mig hefur alltaf langað að vera hlaupari en ég vissi alltaf innst inni að ég gæti það ekki. Ég vissi það af því að ég hafði byrjað óendanlega oft og aldrei haldið það út. 2018 ákvað ég að skrá mig í 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu. Keypti mér app sem heitir 10 km runner. Þegar ég byrjaði að hlaupa gat ég varla hlaupið á milli ljósastaura. Um sumarið kláraði ég 5 km í Suzuki hlaupinu og svo í ágúst kláraði ég 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég man ennþá tilfinninguna að koma í mark. Ég hefði alveg eins getað verið að vinna heimsmeistaramót. Eftir að hafa selt mér í áratugi að ég gæti ekki hlaupið þá gat ég það víst. 2 árum seinna hleyp ég reglulega 10 km á morgnana og um helgar tek ég lengri hlaup. Fyndið hvað viðmiðin breytast á 2 árum.

Mataræði

Ég byrjaði á því að taka út allan sykur, hveiti og þar með kökur, kex og þess háttar. Ég léttist helling en mér fannst samt alltaf að ég væri að fórna svo miklu. Ég væri smá fórnarlamb að geta ekki hitt og þetta. Smátt og smátt jók ég æfingaálagið og fannst þá allt í lagi að tríta mig í samræmi við meiri hreyfingu. Kvöldsnarlið datt aftur inn og á 18 mánuðum þyngdist ég um rúm 5 kg. Virkar kannski ekki mikið en miðað við mína sögu þá vildi ég grípa í taumana áður en allt færi í óefni. Okkar á milli þá fannst mér mjög ósanngjarnt að kona sem æfir 7-10 sinnum í viku gæti ekki borðar allt sem hún vildi þegar hún vildi það. Við erum hins vegar öll mismunandi og það sem er vont fyrir mig getur verið frábært fyrir þig. Það var ekki fyrr en ég fór í mælingar hjá Greenfit í sumar að ég fór virkilega að tengja hvað hentar mér.

Greenfit

Í dag myndi ég mæla með því að byrja á ástandssmælingu hjá Greenfit. Þú færð flottar (eða ekki eins og í mínu tilfelli) niðurstöður og þú getur nýtt þér þetta sem leiðbeiningar hvað er best fyrir þig. Ég var með of hátt kólesterol, of háan blóðsykur, of miklar bólgur í líkamanum svo fátt eitt sé nefnt. Samt var ég búin að vera með mjög heilbrigðan lífstíl í tæp 3 ár. Mér hrýs hugur við að hugsa til þess hvernig gildin hefðu verið ef ég hefði ekki verið búin að gera neinar breytingar. Ég fór á hreint mataræði. Eins og Lukka orðar þetta, ef þetta vex, hleypur eða syndir þá er það gott. Allt í einu fór líkaminn í miklu betra jafnvægi. Kvöldsnarlið datt út, ekki af því að ég neyddist til að taka það út heldur afþví að ég mig langaði ekki í neitt. Ég vigta ekki matinn minn, ég tel ekki kalóríur og ég hef ekki hugmynd um hvert hlutfall próteina, fitu og kolvetna er í matnum, ég veit ekki einu sinni hvað Macros er. Mér líður eins og ég sé að svindla. Á tæpum 3 mánuðum hef ég meiri orku og í betra jafnvægi og það eina sem ég geri er að hreyfa mig hægar og borða rosalega góðan og fallegan mat. Sem aukabónus er ég búin að missa 8 kg og kominn tími á að endurnýja fataskápinn. Ég fór m.a.s. og keypti mér buxur í stærð 26. Það bætti alveg upp öll skiptin sem ég fór í búðir og fékk ekki máta af því að þau áttu ekkert í minni stærð. Ég veit hins vegar ekki hvort að ég hefði verið tilbúin í að gera þessar breytingar daginn sem ég ákvað að skipta um lífstíl. Stundum þarf að gera þetta í minni skömmtum. Ég veit hins vegar að mér líður betur og ég er í fyrsta skipti á ævinni í fullkomnu jafnvægi. Ég hlustaði á frábært viðtal við Lukku hjá Rafni Franklin í vikunni. Þau ræddu skilgreininguna á heilsu: “The word health refers to a state of complete emotional and physical well-being. Healthcare exists to help people maintain this optimal state of health.” Í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég fullkomlega heilbrigð. Mæli eindregið með að hlusta á þetta viðtal, smelltu hér

Hlauptu hægar til að fara hraðar og andaðu með nefinu

Annað sem kom í ljós hjá Greenfit var hver fitubrennslupúlsinn minn er. Ég var að hlaupa allt of hratt. Líkaminn brenndi kolvetnum en ekki fitu. Þegar ég hugsa til baka þegar ég byrjaði að hlaupa þá léttist ég helling. Það hefur væntanlega tengst því að ég hljóp mjög hægt, líklega á fullkomnum fitubrennslupúls.

Mér fannst þetta öfugmæli og erfitt að hægja á mér. Ég vil hlaupa hraðar ekki hægar. Eftir nokkrar vikur á hæghlaupum og með neföndun fór ég í 5 km til að kanna hvar ég stóð og náði mínu hraðasta 5 km hlaupi á ævinni. Líklega er þetta óvitlaust.

Ég fæ líka mikið af spurningum hvað með þessa neföndun. Ég er nú ekki besta manneskjan í að útskýra hana. Komast að því í vikunni að ég er búin að vera að gera hana rangt allan tímann. Þegar ég byrjaði þá andaði ég inn um nefið og út um munninn. Mér fannst það nógu erfitt. Smátt og smátt fór ég að anda meira með nefinu, sem sagt alltaf inn og út. Það var samt ekki af ásetningi heldur einhvern veginn gerðist. Ég var svo að hlusta á bókina “the Oxygen Advantage” þegar ég hnýt um þessa setningu. Þú átt að anda inn og út um nefið og borða með munninum. Já einmitt, alltaf ekki bara stundum. Ég sendi póst á Sigga hjá Greenfit og spurði hvort að þetta væri málið. Fékk til baka Hahahaha já, inn OG út um nefið er málið  Gott að vera komin með það á hreint.

Þannig að ég myndi mæla með þessum 3 bókum: Breath, The Oxygen Advantage og Obesity Code.

Ég fór síðan út að ganga næsta morgun í 10 stiga frosti, notaði eingöngu neföndun og það var ekkert mál. Reyndi svo að nota munnöndun og það var hræðilega vont að fá kalda loftið í hálsinn á meðan ég fann ekkert fyrir því í gegnum nefið.

Ég kýs að laga mig núna

Þetta er allt ákvörðun. Það er erfitt að byrja að hreyfa sig. Það er erfitt að breyta um mataræði. Ég held hins vegar að það sé auðveldara að breyta á meðan þú getur það í staðinn fyrir að bíða þar til allt er komið í óefni og þú verður að gera það. Þá er það kannski of seint. Ég lít á mig sem gífurlega heppna konu. Ég hef ennþá tækifæri til að bæta mig og besta mig. Ég verð 52 ára í febrúar á næsta ári. Ég er í betra formi en þegar ég var 30 ára, miklu betra formi en ég þegar ég var 40 ára og ég veit að það er í mínum höndum að líta til baka eftir 10 ár og segja ég er í betra formi núna en þegar ég var 52 ára. Það eru forréttindi að setja heilsuna í forgang. Að horfa fram á veginn og vita að ég er að gera mitt til að eiga betri ár framundan. Ég vil vera amman sem fer með barnabörnin í fjallgöngur eða á fjallahjól. Amman sem er upptekin við að njóta lífsins og hlaupa maraþon af því að ég get það. Eftir tæp 20 ár verð ég komin á áttræðisaldur. Það er ekki meitlað í stein að þú þurfir að minnka lífsgæðin bara af því að þú eldist. Þetta liggur hjá þér. Hver er þín framtíðarsýn og hvaða sögu viltu skrifa?

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Nálgast kjörþyngd eftir 25 ár

... Cause for twenty four years I have been living next door to Alice
Twenty four years, just waiting for a chance ...

Margir kannast við þetta textabrot með Smokie.

Eftir að ég byrjaði mína vegferð í átt að heilbrigðara lífi hefur þetta textabrot ítrekað komið upp í huga mér.

Þegar ég byrjaði þá hélt ég að það tæki 12 mánuði að hreinsa til og ég yrði komin í kjörþyngd alheilbrigð eftir 12 mánuði. Núna rúmum 3 árum síðar er ég loksins að komast í jafnvægi. Ég hef sagt það ítrekað að ef ég vissi að það myndi taka mig 3-5 ár að núllstilla mig og komast í jafnvægi þá hefði ég aldrei nennt í þess vegferð. Þetta hefði verið of mikil vinna, of miklar fórnir. Þegar ég lít til baka þá hafa þessi 3 ár liðið gífurlega hratt og ég er svo þakklát fyrir að hafa ekki vitað betur.

Hvaða máli skiptir það hvað þetta tekur langan tíma? Núna veit ég að þetta er ævilangt verkefni og ég nýt þess að fínstilla mig. Finna út hvað virkar og hvað virkar ekki. Fyrir mig snýst þetta um að njóta ferðarinnar (lærði það loksins). Þegar ég lít til baka þá tók það mig 20 ár að komast á þennan stað. Líklega er það frekar óraunhæft að ætlast til að geta lagað allt á 12 mánuðum.

Það voru 2 stórir áfangar hjá mér í vikunni.

Ég sá 68.9 kg á vigtinni. Í heila viku hef ég verið undir 70 kg sem bendir til þess að líkaminn sé farinn að samþykkja þessa tölu og sé kominn í ákveðið jafnvægi með hana. Ég hef ekki séð 68.x á vigtinni síðan 1999.

Ég kom gamla giftingarhringnum mínum upp. Hann var klipptur af mér þegar Viktor Logi var smábarn eða fyrir ca 18 árum og hann passaði aldrei aftur. Hvers vegna var hann klipptur af? Ég hafði sofnað með hann og vaknaði með þrútna fingur eins og svo oft áður. Nöglin var orðin blá og það var hjartsláttur í fingrinum. Þetta varð valið um að klippa hringinn af  fingrinum eða fórna fingrinum. Ég neitaði að láta stækka hann, ætlaði alltaf að passa aftur í hann. Fannst að ef ég myndi láta stækka hann þá væri ég að samþykkja nýjan veruleika sem ég var ekki tilbúin til að gera. Núna get ég ekki notað hringinn sem ég fékk í jólagjöf í fyrra, hann er of stór. Margir spyrja sig núna, hvað ertu að dandalast með giftingarhringinn þinn, skildir þú ekki fyrir mörgum árum? Jú, ég skildi 2015 og ég er ekki eingöngu með minn, ég er með báða. Þegar þú skilur þá er augljóst að þessi hringur verður aldrei aftur notaður. Þessir hringar eiga hinsvegar spennandi framtíðarsýn. Þeir verða bræddir upp og endurgerðir í skartgrip fyrir dóttur okkar þegar hún eldist.

Borða túnfísk og skyr í öll mál og þyngjast

1998 fór ég í kerfisfræðinám. Þá var elsti sonur minn 2ja ára. Á meðgöngunni með hann þyngdist ég um 85 kg og það tók ca 2 ár að komast næstum því í sömu þyngd og ég var fyrir meðgöngu. Námið var krefjandi og stundum þurfti að læra frameftir. Ég var ekki alveg sú skipulagðasta með mataræði á þessum árum og fannst fínt að hlaupa yfir í Kringlunni og fá mér eitthvað snarl. Vinnuálag, lélegt mataræði og hreyfingarleysi skilaði því að ég þyngdist aðeins um veturinn, ekkert hættulegt svona 3-4 kíló en þarna var ég farin að nálgast 70 kílóin og ákvað að vinda ofan af þessu um sumarið. Fékk mér einkaþjálfara, var dugleg að mæta í ræktina og borðaði eftir hans plani sem í minningunni var skyr og túnfiskur. Um haustið hafði ég bætt á mig 4-5 kílóum og ég fór vel yfir 70 kíló. Það var ekki fyrr en í þessari viku að ég komst aftur undir 70 kíló. Í rúm 20 ár reyndi ég allskonar til að létta mig en það skilaði aldrei langtíma árangri. Ég ræddi þetta við einkaþjálfarann. Jú, vöðvar eru þyngri en fita, þetta kemur örugglega fljótlega. Mörgum árum seinna var ég hjá öðrum einkaþjálfara. Það fyrsta sem hann sagði var, “það er óeðlilegt hvað þú ert með framstæðan kvið, þú ert örugglega með mjólkuróþol. Ég myndi ráðleggja þér að fara í mælingu”. Það kom á daginn að ég var með mjólkuróþol og borða skyr í öll mál var því líklega ekki það besta fyrir mig. Auðvitað hefði ég átt að vera með gagnrýna hugsun þetta sumar. Ég hefði átt að spyrja meira. Hvernig get ég þyngst um 5 kíló á einu sumri með því að gera allt rétt? Það þýðir samt ekkert að ergja sig á fortíðinni. Að horfa í baksýnisspegilinn er líklega ein versta nýting á tímanum sem ég veit um. Treystu mér, ég var sérfræðingur í því.

Vigtin er bara mælitæki

Mörgum finnst ég manísk með þessa vigt og þetta sé engan veginn heilbrigt en þetta er mín leið til að halda mér á tánum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hamingjan er ekki mæld í kílóum og ef ég væri eingöngu að einblína á útlitið þá væri ég fullkomlega sátt í eigin skinni.

Hins vegar er ég komin með allskonar markmið sem mig dreymdi ekki einu sinni um þegar ég lagði af stað í þessa vegferð mína. Fyrsta markmiðið sem ég náði var að klára 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu og ég var ekki einu sinni síðust. Þegar ég kom í mark áttaði ég mig á því að ég gæti svo miklu meira en mig grunaði. Þrautir eins og að hlaupa maraþon og fara í hálfan járnkarl (sem ég hélt alltaf að væri fyrir hina) var eitthvað sem ég var núna sannfærð að ég gæti. Eina sem ég þyrfti að gera væri að æfa mig og bæta mig.

Ég ætla að klára Landvættinn. Þetta eru 4 þrautir og að hlaupa 25 km utanvegahlaup reynir minna á liðina og ég fer hraðar ef ég er léttari.

Ég er með markmið að hlaupa 5 km undir 25 mínútum og 10 km undir 55 mínútum. Tölfræðin segir að ég bæti mig um 1 mínútu fyrir hver 2 kíló sem hverfa. Ég á best 29.19 í 5 km og 58.49 í 10 km. Merkilegt að ég náði mínum bestu 5 km fyrir stuttu. Eftir 2 mánuði með rólegri neföndun og betra mataræði náði ég mínu hraðasta 5 km hlaupi. Ætli það sé einhver tenging þarna?

Ég ætla að hlaupa Laugaveginn, klára hálfan járnkarl og hlaupa maraþon. Hvenær, ekki alveg meitlað í stein. Útafdottlu er pínu erfitt að tímasetja svona markmið. Hins vegar veit ég að þegar ég farin að hlaupa tugi kílómetra í einu þá skiptir hvert kíló máli. Ekki bara vegna þess að ég get hlaupið hraðar heldur líka vegna þess að það reynir minna á liðina. Ég er búin að hlaupa síðan ég var tæp 90 kíló þannig að ég veit þetta á eigin skinni.

Þessi markmið setja fókusinn á að komast í mjög gott form og ein afleiðing af því hjá mér er einfaldlega að vigtin sýnir lægri tölu. Í hvert skipti sem vigtin fer niður um kíló veit ég að það verður auðveldara fyrir mig að ná markmiðum mínum. Reyndar er það þannig að ég er alltaf miklu miklu lengur að fara niður í næsta tug en næsta kíló. Það er eins og líkaminn streitist á móti og vilji halda sér á þessum stað. Þessum stað sem hann þekkir og veit hvernig virkar.

70 kíló sálrænn þröskuldur

70 kíló hefur verið sálrænn þröskuldur hjá mér. Múrinn sem ég var eiginlega farin að selja mér að ég gæti líklega aldrei brotið.  Eftir að ég byrjaði að þyngjast, hef ég aldrei komist aftur undir 70 kg. Alveg sama hvað ég gerði þá var 70 kg ákveðinn múr sem ég náði ekki að brjóta. Ég hef verið 70 kg og þyngri síðan 1999. Þyngst varð ég 95 kíló 2017. Allt í einu sé ég að þetta er raunhæft að brjóta þennan múr en það tekur tíma og það er allt í lagi. Ég hef nægan tíma. Lífið er langhlaup ekki spretthlaup.

Það eru ekkert allir sammála mér og það er allt í lagi. Þetta eru mín markmið, mitt líf, mín heilsa og mín vegferð. Allir pistlar sem ég skrifa eru útfrá minni reynslu. Mér dytti aldrei í hug að segja að allir ættu að fara í X þyngd eða stunda þessa hreyfingu eða borða svona. Það er eins og að segja að allir ættu að keyra um á rauðum bíl.

“Þínir þrír pistlar sem ég hef lesið setja mikila áherslu á þyngd, tölu á vigtinni. Þessir þrír pistlar sem ég hef lesið kemur þú fram með þá hræðilegu framtíðarsýn að vera þung að eilífu og hvað það væri hræðilegt líf. “

Málið er einfalt. Ég þekki hvernig það er að vera of þung og hversu erfitt það var. Fyrir mér er það hræðileg framtíðarsýn og ég ætla ekki þangað aftur. Að vakna þrútin og koma ekki upp hringjum. Að vera svo stirð í öllum liðum að það er erfitt að fara framúr. Að senda börnin með vinum sínum og þeirra foreldrum í fjallgöngu af því að þú treystir þér ekki til að fara með þeim. Það brýtur pínu niður mömmuhjartað að geta ekki gert hluti sem foreldrar vina þeirra gera auðveldlega.

Vigtin er bara eitt af mörgum tækjum sem ég hef til að mæla árangur. Ég vigta mig daglega, sumir vikulega og aðrir aldrei. Það eru engar reglur hvað virkar. Trixið er að finna hvað virkar fyrir þig.

Ástandsmæling hjá Greenfit

Ég vil ekki fara aftur í gamla farið.Til að halda mér á mottunni þarf ég að passa mig, vera pínu manísk. Mér finnst það í góðu lagi. Mér líður vel svona. Ég er búin að læra að það eru rosalega margir litlir hlutir sem skila langtímaárangri og ég er stöðugt að gera tilraunir hvað virkar og hvað virkar ekki. Þetta árið ákvað ég að keppa ekki í neinum þrautum. Mig langar ekki að vera á stórum mannamótum og valdi frekar að fínstilla mig. Ég datt í lukkupottinn þegar Greenfit opnaði í sumar. Ég fór í ástandsmælingu hjá þeim og það kom ýmislegt í ljós sem var ekki nógu gott. Súrefnisupptakan mín er léleg (kom mér ekki á óvart). Það háir mér á æfingum þannig að ég er núna að hlaupa á lágum púls og nota netöndun til að bæta mig. Oft er ég aðeins út á túni með hvað ég er að gera þannig að ég á aðra skoðun bókaða í lok nóvember og þá sjáum við hvort að þessi tilraun mín hafi skilað einhverjum árangri eða hvort að ég þurfi að fínstilla mig ennþá meira. Ég hef nægan tíma, ég hef allt lífið til að fínstilla mig. Ég fór líka í blóðprufur hjá Greenfit og þar kom ýmislegt miður gott í ljós. Helst má nefna að kólesterolið var komið í 8 og fastandi blóðsykur í 5.7. Ég fór því á hreint mataræði og það kom í ljós að það hentar mér svo ansi vel. Eftir 5 vikur fór ég aftur í mælingu og þá var bæði kólesterol og blóðsykur búið að lækka. Sem aukabónus fóru líka 6 kíló á 2 mánuðum og ekki bara það heldur fór þau af þessum leiðindasvæðum sem er svo erfitt að semja við um að segja upp leigunni. Eina vandamálið við þetta er að öll fötin mín urðu óþægilega stór en það er allt í lagi. Það eru allir að vinna heima og þægilegar kósýbuxur svínvirka og svo eru allir með grímu úti þannig að það veit enginn hver er á bakvið þessa grímu lengur. Reyndar eru allir líkamshlutar ekki eins samvinnuþýðir. Ég var búin að gera óuppsegjanlegan þinglýstan leigusamning og þrívottaðan til öryggis við ákveðinn líkamshluta að það færi ekki meira af þessu svæði. Það er ekki hægt að stóla á neitt lengur. Hann minnkar eins og annað og ég segi bara, guðsélof fyrir Push Up og Victoria Secret.

Þegar kona fastar óvart

Þegar ég borða hreint þá líður mér betur. Líkaminn er í betra jafnvægi, ég sef betur og kvöldsnarlið heyrir sögunni til. Ég byrjaði líka óvart að fasta. Ég hef aldrei haft mikla trú á föstum og fundist þeir sem fasta pínu skrýtnir. Hver neitar sér sjálfviljugur um mat, skil þetta ekki. Ég er samt kurteis og smelli alltaf like hjá þeim. Þegar ég byrjaði að borða hreint þá datt út kvöldsnarlið mitt. Mig langaði ekki í það. Það gerði það að verkum að ég vaknaði aldrei sturluð af hungri á morgnana. Hef einmitt ekki heldur skilið skrýtna fólkið sem neitar sér um morgunmat. Það er jú mikilvægasta máltíð dagsins. Kærastinn sagði reglulega, það þarf að passa að fóðra ljónið á morgnana. Það sem gerðist eftir að kvöldsnarlið datt út var að ég vaknaði í miklu meira jafnvægi og var ekki svöng. Ég gat því farið út að æfa á morgnana (sumir kalla þetta á nóttunni, bara af því að ég vakna 04:45 am, ekki pikkvilla, í alvörunni fjögurfjörutíuogfimm), tekið gott hlaup og jafnvel styrkaræfingu og borðað svo milli 8 og 9. Þá er ég búin að fasta í 12-13 tíma og líður stórkostlega vel.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá á ég ekki í Greenfit né fæ greitt fyrir að nefna þau í mínum bloggum. Ég er ekki heldur að selja nein námskeið hjá þeim. Hvers vegna tala ég þá svona mikið um þau? Það er algjörlega af sjálfhverfum ástæðum. Ég þarf á Greenfit að halda og því betur sem þeim gengur því auðveldara er mitt líf. Ég ætla að fara reglulega í test hjá þeim til að sjá gildin mín og finna leiðir til að besta mig og mína heilsu. Þarna segja margir, Ásdís þetta er svo dýrt, heildarskoðun kostar 60.000 kr. Ég veit og 60.000 er ansi mikill peningur til að punga út. Hins vegar þegar ég hugsa um öll fötin sem ég hef þurft að kaupa í gegnum tíðina þegar ég bætti á mig og svo fötin sem ég keypti þegar ég grenntist og svo fötin sem ég keypti þegar ég bætti aftur á mig þá eru það töluvert hærri upphæðir. Ég þurfti að losa mig við alla skó eftir að ég grenntist. Hvað meinar þú, minnkuðu fæturnir?. Já, um næstum því eina stærð. Þetta var samt ekkert Öskubuskudæmi. Ég lét hvorki taka af mér tá né hæl. Það sem gerðist hinsvegar þegar ég fitnaði þá þrútnuðu fæturnir og smátt og smátt stækkuðu skórnir á breiddina en ekki lengdina. Þegar ég grenntist þá minnkaði samhliða því þrotinn á fótunum og skórnir urðu alltof víðir. Það þarf ekki mörg skópör til að vinna upp þennan pening. Hvað þá þegar ég tel öll önnur föt sem ég þurfti að láta fara. Ég horfi á Greenfit sem fjárfestingu í minni heilsu og nauðsynlega viðbót við mitt líf.

Hausinn á þér hefur ekkert stækkað?

Ég komst í stúdentsdraktina mína um daginn og var sjúklega ánægð með það. Þetta er 31 árs gömul drakt og hún smellpassaði á mig. Ég hef alltaf geymt hana þar sem amma heitin saumaði hana og hún hefur tilfinningalegt gildi fyrir mig. Reyndar komst ég líka í kjólfötin sem ég saumaði í MA og hef ekki heldur tímt að henda. Ég var að ræða þetta við Viktor Loga. Ég sagði, ég lánaði stúdentshúfuna mína um daginn og fékk hana til baka. Ákvað fyrst að ég var að ganga frá henni að prófa stúdentsdraktina mína og hún smellpassaði. Viktor leit á mig og sagði, “er það eitthvað merkilegt. Það er ekki eins og hausinn á þér hafi stækkað?” Þá kom í ljós að 18 ára drengur veit ekkert hvað stúdentsdrakt er og setti þetta í samhengi við húfuna. Honum fannst það ógurlega ómerkilegt að móðir hans passaði ennþá í stúdentshúfuna 31 ári síðar.

Hljóðbækur

Önnur ástæða fyrir því að ég er svo dugleg að vísa á Greenfit er að þau eru sérfræðingar. Ég veit hvað virkar fyrir mig en ég get ekki ráðlegt þér hvað virkar fyrir þig. Þegar ég fer út að hlaupa eða ganga núna hlusta ég á hljóðbækur. Ég innbyrði bara hluta af því sem ég heyri. Ég nenni ekkert að taka af mér vettlinga á köldum morgnun til að spóla til baka en ég næ inntakinu og í hverri hljóðbók tek ég 1-2 hluti sem ég vil prófa fyrir mig. Ég var að ræða ákveðna hljóðbók við Lukku og hún sagði. “Þessi bók er svo stútfull af góðu efni að ég hlustaði 2var á hana til að missa ekki af neinu”. Þess vegna vísa ég á Lukku, hún hlustar 2var á bækurnar sem skipta máli og getur því ráðlagt þér miklu betur en ég.

Bækur sem ég hef hlustað á upp á síðkastið og mæli með eru:

The Obesity Code: Dr.Jason Fung

Why we get sick: Benjamin Bikmann

Give and Take eftir Adam M. Grant

Originals: Adam Grant

The 5 Second Rule: Mel Robbins

Núna er ég að hlusta á Breath: James Nestor

Ef ég ætti að velja eina bók þá myndi ég byrja á Breath eða The Obesity Code

Ég held að lykilinn að góðri heilsu liggi hjá okkur og okkar ákvörðunum. Ég er ennþá að finna út úr því hvernig ég virka og hvað hentar og hvað hentar ekki. Ég sé sjálfa mig í golfi um nírætt.Mig langar að vera hressa amman sem fer út í fótbolta með barnabörnunum eða dreg þau upp á Esjuna í gönguferð. Hjóla í Elliðadalinn með nesti. Þetta er mín framtíðarsýn og þangað stefni ég einn dag í einu.

Lífið snýst um ákvarðanir. Við erum alltaf einni ákvörðun frá algjörlega breyttu lífi. Ég er búin að finna mína vegferð og hlakka til að sjá hvar ég verð eftir 3 ár.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband