Skellti sér í hlaupaferð til Ljubljana

Ég skellti mér með Laugaskokki í hlaupaferð til Ljubljana. Hilda vinkona er búin að vera meðlimur í Laugaskokki í mörg ár og elskar félagið. Ég er ekki meðlimur í neinu hlaupafélagi þar sem það er ekkert félag sem æfir á mínum æfingatíma, þ.e. 5 á morgnana eða eins og margir vinir mínir segja. Ásdís, það er ekki hollt að hlaupa á nóttunni.

Við Hilda skráðum okkur í hálfmaraþon og þetta átti að vera mitt fyrsta hálfmaragötuþon. Hins vegar fann ég eftir Reykjavíkurmaraþonið þar sem ég hljóp 10 km á 65 mínútum og mínum næstverstatíma frá upphafi að ég var ekki í nógu góðu standi til að hlaupa 21 km.

Ég hef verið að glíma við álagspúls síðan ég fékk Covid í lok janúar 2022. Það eru ansi margir sem hafa enga trú á því að ég hafi rétt fyrir mér. Þetta sé líklega bara í hausnum á mér. Ég þurfi bara að virkja keppnisskapið og ég þurfi hreinlega að forgangsraða rétt. Uppáhaldið mitt er hrútskýringin: “Kannski er þetta ekkert Long Covid heldur bara eitthvað allt annað. Ég er sko búin að fá Covid 2var og það er ekkert að mér”. Annað hvað? Það hefur enginn getað gefið mér skýringu á því. Stundum spyr kona sig, hvað kemur fólki við hvort að ég haldi að þetta sé Long Covid eða ekki. Hvers vegna má ég ekki bara halda það?

Ég verð aldrei aftur góð.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið tók ég þá ákvörðun að ég yrði aldrei aftur góð. Almannarómur fékk áfall. Ásdís þú getur nú ekki sagt ALDREI, aldrei er rosalega stórt orð. Þetta tekur bara tíma. Já, þú meinar. Værir þú til í að senda mér tímarammann?. Þá verður yfirleitt fátt um svör. Vandinn við Long Covid er að það eru engin svör. Það er bara fullt af fólki útum allt sem fékk Covid og varð aldrei aftur eins og það var fyrir Covid. Ég fann hvað hausinn á mér lagaðist við þessa ákvörðun. Í tæp 2 ár hef ég verið að berjast við að verða jafngóð og ég var fyrir Covid. Ná sömu tímum, ná sama úthaldi, sömu orku. Í hvert skipti sem ég held að núna sé þetta komið, þá hleyp ég aðeins of hratt og ég þarf að hvíla mig í viku til að safna orku. Eftir Reykjavíkurmaraþonið þá lá ég upp í rúmi allan daginn og þurfti að taka siesta fyrri part vikunnar til að halda uppi orku í vinnuni. Ég verð aldrei aftur góð varð þvílíkur léttir. Núna ætlaði ég að vinna með núið, hætta að horfa í baksýnisspegilinn og hvað ég gat fyrir 2 árum. Fortíðin skiptir engu máli. Núið er að það sem ég get unnið með.

Í hvaða flokk er ég skráð?

Það var því frekar auðveld ákvörðun að breyta skráningunni úr 21 km í 10 km. SkynsemisÁsdís tók völdin. Það hjálpaði líka helling að Hilda var nýbúin að breyta sinni skráningu og við gátum því hlaupið saman. Það eru forréttindi að eiga hlaupavinkonu sem hleypur á nákvæmlega sama hraða og þú. Það er miklu skemmtilegra að æfa saman og keppa saman þegar þið eruð á pari. Ég sendi póst á maraþonið og bað þá að breyta skráningunni. Fékk svar um hæl, Dear Sir og svo að það væri búið að breyta skráningunni. Ég horfði á þetta, Dear Sir og hugsaði þetta verður eins og óvissuferð. Er ég að fara að keppa í karla eða kvennaflokknum. Það skipti svo sum engu máli þar sem við vorum að fara að hlaupa saman. Hilda var samt Dear Madam.

Hverju á ég að pakka?

Þegar við skráðum okkur í ferðina leit út fyrir dásemdarveður, 20 gráður og sól. Laugaskokk pantaði keppnisbúninga og við Hilda ákváðum að taka hlýraboli, hvítir hlýrabolir með íslenska fánanum og nafninu okkar framá. Ég hef aldrei átt keppnisföt með íslenska fánanum. Ég var orðin sjúklega peppuð. Daginn eftir að ég pantaði keppnisbolinn þá breyttist veðrið. Það var núna spáð 3 gráðum og massífri rigningu og roki. Ertu ekki að fokka í mér? 3 gráður og rok. Það er sko hlýrra á Íslandi á þessum tíma. Ég datt úr öllu stuði. Hverju á ég að pakka niður? Á ég að taka með mér vetrarhlaupafötin mín. Ég stúderaði veðurspána næstu daga, skoðaði allar veðursíðurnar, alltaf sama skítaveðrið. Ég ákvað því að það væri best að fara í hlýrri merinoullarrúllukragapeysu, þykkum flauelsbuxum, rauðu KronKron skónum mínum sem er fullkomnir í rigningu og rauðu Ilse regnkápunni minni sem ég keypti fyrir Costa Rica og notaði aldrei þar sem það rigndi alltaf á nóttunni og var heitt og heiðskýrt á daginn.  Síðustu dagana fyrir hlaupið var brjálað að gera í vinnuni. Það er velþekkt markaðstæki að bóka sig reglulega í frí. Síðustu dagana fyrir frí hringja allir sem vilja selja og kaupa og þú mannst varla hvað þú heitir. Ég kíkti á veðurspána kvöldið fyrir brottför. Þá var nú spáð skítsæmilegu veðri á sunnudaginn. Hilda sagðist ætla að hlaupa í hlýrabol og stuttbuxum og ég ákvað að fylgja því plani. Ég hélt mig samt við upphaflega fataplanið og pakkaði niður hlýjum fötum svo ég myndi ekki frjósa í hel. Ég hafði reyndar ekki stúderað veðurspána síðustu daga vegna anna og þegar við lentum í Ljublana voru líklega 20 gráður og heiðskýrt og þetta dresscode var fullmikið. Reyndar hafði ég tekið svona lastminute ákvörðun að henda niður svörtum sandölum, léttum buxum og peysu og það bjargaði mér frá því að deyja úr hitakófi. Reyndar er ég miðaldra á breytingarskeiðinu en 7-9-13 ég hef alveg sloppið við hitakófin.

Expo í Ljubljana

Eitt af því sem mér finnst skemmilegast við keppnir er að fara á Expo og sækja keppnisgögnin sem eru alltaf afhent á sama stað og Expo. Expo er eins og lítil búð, stútfull af allskonar nauðsynjavöru sem íþróttafólk þarf. Hlaupaföt, sokkar, skór og næring. Restin af deginum fór síðan í slökun og ég ákvað að henda mér í Emporium gallerýið sem var þarna rétt við hótelið til að kaupa eitthvað léttara en íslensku vetrarfötin sem ég var með.

Alþjóðadeild Laugaskokks

Eftir Expoið fórum við nokkur saman út að borða. Þá kom í ljós að þau voru flest skráð í Hálfmaraþon í Lissabon í mars. Ég ákvað að skoða málið og kíkti á það símanum mínum. Þetta virkaði mjög skemmtilegt hlaup og er hluti af Superhalfs hlaupunum sem eru 6 hálfamaraþon í Evrópu sem þú hefur 5 ár til að klára. Hin eru Berlin, Prag, Kaupmannahöfn, Cardiff og Valensía. Allt spennandi borgir og 3 eru á vorin og 3 á haustin. Svo færðu svakalega stóra medalíu þegar þessu er lokið. Hljómar eins og gott plan ekki satt. Þau töluðu um að það væri ekki hægt að skrá sig í maraþonið á símanum þar sem það hefðu alltaf komið upp einhver villa og svo væri síðan meira og minna á portugölsku. Ég taldi að það gæti ekki verið svona flókið. Ég er kerfisfræðingur, tala reiprennandi spænsku og kann á svona tæknisíma. 25 tilraunum síðar þá kom staðfesting á því að ég væri skráð í hálfmaraþon í Lissabon. Þetta gat nú tæknitröllið Ásdís. Ég er meðlimur alþjóðadeildar Laugaskokks. Hvað er það, jú hún er fyrir fólk sem æfir á öðrum tíma en þau en fer með í erlendar keppnisferðir. Hversu margir meðlimir eru í henni? ÉG. Hins vegar ef þú æfir eins og flestir, þ.e. seinni partinn mæli ég eindregið með því að kíkja á æfingar hjá Laugaskokki. Það er gífurlega góð stemming í hópnum og ég skemmti mér konunglega allan tímann.

Hlaupið

Við vorum ræstar út kl. 09:20 eða 20 mínútum á eftir hálfmaraþoninu. Við fundum okkar stað, ákváðum að taka þetta rólega og byrja aftast. Mér fannst samt ferlega skrýtið hvað voru fáir í þessu hlaupi, við vorum bara örfá. Svo fórum við að líta í kringum okkur og þá kom í ljós að þetta var alls ekki startið fyrir 10 km það var á öðrum stað þannig að við tókum upphitunarhlaup í startið svo að við myndum ekki misssa af upphafinu og vorum klárar á ráslínu þegar hlaupið byrjaði. Það voru 5.134 aðilar skráðir í hlaupið og þar af 2.551 í kvennaflokkinn. Aðstæður voru fullkomnar fyrir hlaupið. Heiðskýrt og heitt og ég var mjög passlega klædd. Við náðum ekki að vera aftast þar sem við þurftum bara að henda okkur í hópinn en ég var gífurlega vel stemmd og á fyrstu 3 km fórum við framúr 150 aðilum. Það var ekki samkvæmt plani en ég hreinlega gleymdi mér í stemmingunni. Eftir 4.5 km var búið á tankinum, púlsinn var í rugli og við ákváðum að ganga næstu 500 metra á drykkjarstöðina, m.a. til að ná púlsinum niður. Hilda er hinn fullkomni hlaupafélagi og hleypur miðað við mínar þarfir. Við stoppuðum aðeins á drykkjarstöðinni en það hafði ekkert að segja. Ég náði ekki púlsinum niður. Okkar markmið var að hlaupa á rólega á 75 mínútum. Þar sem púlsinn var í rugli síðustu kílómetrana ákváðum við að hætta að pæla í því og stefna að undir 70 mín. Garmin úrið mitt sagði að 10 km hefði verið 1:07:53 en opinberi flögutíminn var 01:12:43 hjá okkur báðum sem skilaði okkur í 1.627-1630 sæti eða eins og ég myndi segja 1.627 sæti hjá okkur báðum. Meðaltíminn hjá keppendum var 1.09.40 og meðalaldur 39 þannig að ég var helsátt við að vera undir meðaltali á tíma þegar meðalaldurinn var 15 árum yngri en ég. Garminúrið sagði líka að ég hefði verið “Overreaching” og ætti að hvíla mig í 4 daga. Úrið skipti ekki um skoðun allan tímann þannig 2 dögum eftir hlaupið fórum við í létta borgargöngu og þá kom “Overreaching” og hvíld í 2 daga.

Þegar við komum í mark fengum við þá fallegustu medalíu sem ég hef séð, drekamedalíu. Mögulega þarf ég að koma mér upp svona verðlaunaplatta þar sem hún verðskuldar ekki að vera ofan í skúffu.

Því hún er svo sæt

Þegar ég kom heim þá fékk ég link á allar myndirnar sem voru teknar af mér í hlaupinu. Ég var mjög spennt að sjá þessar myndir. Það voru 43 myndir sem voru teknar af mér í heildina. Hilda hefur oft verið með tips hvernig á að koma í mark þar sem þar eru oft teknar myndir en hún gleymdi að fara yfir hlaupabrautina 43 myndir og ég leit út eins og kvalin eldri borgari á þeim öllum. Ég hreinlega vissi ekki að ég gæti myndast svona illa. Svona er bara lífið og ég ákvað að smella einni mynd á instagrammið þar sem lífið er allskonar ekki bara súkkulaði og rauður varalitur.

Hausinn verður að vera í lagi

Síðustu 2 ár hef ég einblýnt á hvað ég gat fyrir Covid. Fólk hefur allskonar skýringar eins og það hægist á fólki með aldrinum. Þú segir nokkuð, samt varð ég einu ári eldri í hvert skipti sem ég átti afmæli og hljóp aðeins hraðar? Ég hef þessa einlægu trú að það að bæta við sig afmælisdegi þýði ekki að þú verðir endilega hægari og verri. Það hefur hins vegar verið mjög erfitt að hafa átt sín allra bestu hlaup rétt fyrir Covid og komast aldrei í námunda við þau aftur sama hvað ég reyni. Garmin úrið mitt er tengt Strava og þess vegna á ég svo auðvelt með að sjá þessa tölfræði. Í október 2021 hljóp ég 10 km í Poweraid á 57.48 mín, 31. desember hljóp ég 10 km á 56,51 mín. Það átti að vera Gamlárshlaup en vegna Covid hljóp ég ein þannig að líklega hefði ég náð betri tíma þar sem þú hámarkar þig yfirleitt í keppni. Ég hef aldrei komist undir 60 mín eftir Covid. Ég sá að hlaup.is setti inn tímana frá Ljubljana þá vorum við Hilda á 1.09.42. Það skilaði okkur í 6-7. sæti af 24 hlaupurum af öllum kynjum en í 4.-5 sæti af konum og engin kona var eldri en við fyrir ofan okkur.

Hvíld eftir hlaupið

Ég lagði mig 2var eftir hlaupið á laugardeginum og var í raun alveg drenuð. Það er samt allt í lagi, þetta er nýja ég. Ég ætla ekki að hætta að hlaupa. Ég ætla að njóta þess að geta það sem ég get miðað við daginn í dag. Ljubljana hlaupið er nýja viðmiðið mitt. Ef ég næ að hlaupa á betri tíma en þarna þá eru það framfarir (ekki afturför miðað við það sem ég gat fyrir Covid),ef ég næ því ekki þá er það líka allt í lagi. Ég veit núna að svona hlaup drenar mig í nokkra daga en það er allt í lagi. Ef ég hætti að hreyfa mig þá mun ég smátt og smátt breytast í gömu sófakartöfluna sem ég var. Þá var það fjarlægur draumur að geta gengið upp Esjuna og mér fannst afrek að komast upp að skilti 2 á Esjunni. Þegar ég breytti um lífstíl 2017 þá setti ég mér það sem markmið að geta hlaupið 5 km þar sem mér fannst það óraunverulegt afrek að ná því. Næsta mál á dagskrá er því að fara að æfa fyrir Lissabon hálfmaraþonið en fyrst þarf ég að skjótast í smá súrefnismettunarpróf á Reykjalundi þar sem ég er svo heppin að hjartalæknirinn sem ég hitti trúir því að ég sé ekki að ímynda mér Long Covid og svo geri ég plan í kringum það.

 

En fyrst og fremst. Takk Laugaskokk fyrir frábæra ferð til Ljubljana og ég get ekki beðið eftir að fara með ykkur til Lissabon.

Hægt er að fylgjast með Ásdísi Ósk á instagram  

 

 


Veiðileyfi á einhleypar konur

Konur á Íslandi eru almennt sjálfstæðar og færar í flestan sjó. Þess vegna kom mér það ansi mikið á óvart þegar ég skildi árið 2015 hversu margir karlmenn töldu að mig vanhagaði um allskonar þjónustu og hversu margir buðu sig óumbeðið fram að veita hana. Árið 2023 varð ég svo vör við að ef eitthvað þá hefur framboðið aukist. Það eru líka komnir fleiri samfélagsmiðlar og því auðveldara að bjóða fram aðstoð sína.

Mér fannst því tilvalið að skella í smá blogg varðandi einhleypar konur og fara yfir nokkur grundvallaratriði þegar kemur að óumbeðnum samskiptum. Ansi oft byrja þau á því að riddarinn á hvíta hestinum geysist fram á sviðið klár í slaginn. Fórnfýsi hans er með einsdæmum og stundum fæ ég á tilfinninguna að ég ætti að vera ansi þakklát fyrir að viðkomandi býður sig fram.

  1. Ég frétti að þú værir orðin einhleyp. Við þyrftum nú að fara að hittast. Nei, ég hef ekki áhuga. Þetta þýðir að kona hefur ekki áhuga. Þetta þýðir ekki: Veistu, mér líst rosalega vel á þig og ég veit að ef þú sendir mér svona 10-20 skilaboð í viðbót á svipuðum nótum þá mun ég pottþétt fara lóðbeint með þér í rúmið.
  2. Fyrst að þú ert orðin einhleyp þarftu þá ekki einhvern til að sinna þér reglulega. Nei takk, ég hef ekki áhuga. Þarna kemur Gerður í Blush til bjargar. Hún hefur einmitt réttu tækin og tólin til að bjarga einmanna konum frá því að þurfa að fá random typpi heim til sín í tíma og ótíma. Auk þess eru græjurnar hennar Gerðar margar hverjar hannaðar þannig að þær finna G-blettinn á núll einni, eitthvað sem gerist afarsjaldan í einstaka hitting. Flestar konur þurfa að hitta sama aðilann oftar en einu sinni til að þessi leit skili árangri. Líklega hafa fáir gert meira fyrir sjálfbærni kvenna á síðustu árum en Gerður í Blush. Þessi spurning, þarftu ekki einhvern er líklega mesta turnoff sem ég veit.
  3. Ég er í opnu sambandi og myndi vilja bæta við mig aukaleikara. Þarna er ótrúlega oft um einhliða opið samband að ræða. Makinn hefur ekki fengið tilkynningu um opið samband og yrði líklega ekki mjög hress með þetta framtak.

Einnota brundtunna

Þegar ég fæ svona random skilaboð frá karlmanni sem býður fram þjónustu sína fyllist ég “stolti”. Þarna úti er einhver karlmaður sem er svo spenntur fyrir mér að hann er tilbúinn að nota mig sem einnota brundtunnu. Vá, hversu heppin er ég eiginlega? Það fara nokkrar hugsanir í gegnum hausinn á mér. Hversu oft stundar hann svona brundtunnulosun. Númer hvað ætli ég sé í þessum mánuði eða ef ég er virkilega heppin, í vikunni? Ætli hann sé alltaf með öryggið á oddinum eða er hann kannski með klippikort á Húð-og kyn? Ætli ég gæti þá fengið gestapassa hjá honum?

Ég hef rætt við ansi margar konur sem eru einhleypar og hafa verið einhleypar mislengi. Flestar eru sammála um að eftir því sem þær verða einhleypar lengur fækkar þessum sjálfskipuðu riddurum á hvíta hestinum sem ætla að bjarga þeim frá innihaldslausu lífi. Það er eins og þeir haldi að nýeinhleypar konur séu til í hvað sem er, hvenær sem er með hverjum sem er. Það virðist hreinlega vera línuleg fylgni á milli framboðs af random gaurum og hversu lengi kona hefur verið einhleyp.

Hellisbúarnir mæta á svæðið

Það er ákveðin tegund af karlmönnum sem fórnar sér í þetta verkefni. Þetta eru gömlu góðu hellisbúarnir. Þessir sem fóru í veiðiferðir og komu heim með bráðina. Elsku hellisbúi.  Ef þú skildir ekki vita þetta þá tala konur við vinkonur sínar og ef þú tekur útvíkkað tengslanet einnar konur þá nær það til ansi margra kvenna þannig að ef þú hefur stundað hellisbúahegðun lengi þá fréttist það fljótt. Ég hugsa að það gæti skilað miklu betri árangri að vera hreinskilinn í upphafi. Þá ertu að vinna með réttan markhóp þ.s. það er til fullt af konum sem vilja skuldbindingalaust kynlíf, allt upp á borðum og engin verður súr vegna mismunandi væntinga að ég tali ekki um tímasparnaðinn sem fer í óþarfa samskipti. Þarfagreining er lykilatriði hérna.

Skilaboð á samfélagsmiðlunum

Í dag eru óteljandi leiðir til að eiga samskipti. Þú getur verið gamaldags og sent kort eða bréf. Þú getur tekið upp símann eða sent skilaboð á samfélagsmiðlunum og möguleikunum fjölgar bara eftir því sem tækninni fleygir fram. Þarna eru ansi margar leiðir til að nálgast konur sem vekja áhuga þinn. Þú getur byrjað smátt og gefið like á eitthvað sem viðkomandi kona setti inn nú eða sent henni skilaboð. Ef þið eruð ekki tengd á samfélagsmiðlunum þá er hægt að senda henni vinabeiðni.

Þarna eru nokkrar leiðir og þær eru mislíklegar til árangurs.

  1. Senda vinabeiðni án skýringa og eiga aldrei frumkvæði að samskiptum. Þetta er ekki líklegt til árangurs nema konan sé svo aðframkomin af kynlífsleysi að hún sendi þér skilaboð um hæl að koma henni til bjargar
  2. Senda vinabeiðni með einu orði, t.d. sæl, hæ, daginn etc. Ég horfi alltaf á þessi skilaboð og velti fyrir mér hvað sé planið hérna? Á ég að svara þessu og hvernig á ég að svara þessu? Á ég að senda til baka hæ? Ykkur til upplýsinga þá eyði ég þessum skilaboðum þar sem ég nenni ekki að eyða tíma í að finna út hver tilgangurinn er á bakvið skilaboðin.
  3. Ertu einhleyp/viltu félagsskap/leiðist þér/þú ert sæt. Þetta eru klassísk skilaboð sem yfirleitt skila mjög litlum árangri.
  4. Ef menn hafa einlægan áhuga á að kynnast konu þá gætu þeir splæst í lengri skilaboð á borð við. Sæl, mér finnst þú áhugaverð kona, mætti bjóða þér á stefnumót? Þarna eru 2 líklegar leiðir
    1. Hún segir já og þið hittist og aldrei að vita hvað gerist
    2. Hún segir nei. Þarna er lykilatriði að lesa rétt úr svarinu. Ef hún segir nei, þá er hún ekki að segja, endilega sendu mér samt 20 skilaboð og þá mun ég bugast og fara með þér á stefnumót. Aukatips: það þýðir ekkert að taka freka krakkann í nammibúðinni á konur og halda áfram að suða þar til þær gefast upp. Flestar konur á mínum aldri eru mæður og þaulvanar að díla við krakka í frekjukasti sem fær ekki að kaupa meira nammi. Það síðasta sem þær nenna er enn einn krakkinn. Það er ekki heldur líklegt til árangurs að senda sömu skilaboðin viku eftir viku til að tékka hvort að eitthvað hafi breyst og hvort hún vilji frekar hitta þig í viku 22 en viku 21.

Þverhausar sem hlusta ekki

Mér finnst alltaf áhugavert þegar fyrsta NEI-IÐ virkar ekki. I kid you not. Það hríslast um mig þessi tilfinning vá hvað ég finn virðinguna streyma frá þessum manni. Ég hafði ekki áhuga og hann ákvað að hunsa það. Sumir eru þaulsætnari en aðrir og prófa allskonar opnanir. Yfirleitt skilar það sama árangri. Ég er komin með mjög einfalt kerfi. Ef fyrsta neiið virkar ekki þá ertu komin á No fly listann og það mun ekki skipta einu einasta máli hversu spennandi deit þú myndir bjóða mér á í framtíðinni. Ég horfi bara á virðingarleysið sem þú sýndir mér í upphafi samskipta. Vinur minn sagði að ég yrði nú að passa hvað ég segi svo ég myndi ekki fæla alla karlmenn frá. Ég held reyndar að 95% karlmanna séu frábær eintök sem beri virðingu fyrir sér og öðrum og þverhausarnir séu algjör undantekning og ég lifi alveg þó að þeir hætti að senda skilaboð. Ég mæli eindregið með að hlusta á fyrsta NEI-IÐ og snúa athygli ykkar að næstu konu, konu sem mögulega hefur áhuga á ykkur. Við erum jafnmismunandi eins og við erum margar.

Eru óumbeðin skilaboð trúnaðarskjöl?

Konur eru upp til hópa kurteisar og svara oft svona skilaboðum af kurteisi sem margir mistúlka sem áhuga og gefa því í. Ég hef verið í þessum hópi. Svarað stutt en kurteist. Ég hef hins vegar áttað mig á því að það er ekki að virka nógu vel þannig að ég hef tekið ákvörðun að prófa aðra tækni og sjá hvort að hún virki betur.  Um leið og fyrsta Nei-ið er komið þá mun ég senda einfalda viðvörun á viðkomandi. Sæll, svo það sé alveg skýrt þá hef ég hef ég ekki áhuga og ef þú heldur áfram að senda mér skilaboð þá mun ég birta þau í story og tagga þig. Stundum er viðkomandi sambandsvilltur og þá er hægt að bjóða upp á tvöfalt tagg, hann og maki hans. Það er sorglega algengt að konur fái skilaboð frá áhugasömum karlmönnum sem muna ekki alveg sambandsstöðu sína og til að vera ekki með vesen þá leysir konan það yfirleitt með því að eyða út þessum skilaboðum, fela þau. Mín spurning er samt þessi. Hvers vegna ætti aðili sem fær óumbeðin skilaboð frá sambandsvilltum aðila að fela skömmina?  Ætti þetta ekki frekar að vera öfugt? Sambandsvillti aðilinn ætti ekki að koma öðrum í þessa aðstöðu. Það væri gaman að sjá hversu margar færslur kæmu á einni viku ef konur myndu setja óumbeðið áreiti í story og tagga viðkomandi og hversu margir ættu margar færslur.

Skömminni skilað

Ég byrjaði á því fyrir nokkrum árum að skila skömminni símleiðis. Ef mér fannst maður hafa sýnt mér óvenjumikið virðingarleysi í samskiptum þá hringdi ég daginn eftir og fór yfir þessi samskipti. Yfirleitt tóku menn ágætlega í þetta en flestir voru samt á því að hefðu bara lent í þessum aðstæðum. Mitt svar er einfalt, það lendir engin í þessu. Það ert þú sem átt frumkvæðið að þessum samskiptum. Það ert þú sem sýnir virðingarleysið. Aðilinn sem fær skilaboðin lendir hins vegar í þessu og hann situr uppi með stutta stráið og ábyrgðina á því hvernig á að tækla þetta. Ég ferðast mikið ein erlendis og stundum bóka ég ferð á vegum ferðaskrifstofa. Einu sinni eftir svona ferð þá var ég að ganga frá dagtöskunni minni þegar ég fann bréf á botni töskunnar. Það var skrifað á ensku og var frá starfsmanni ferðaskrifstofunnar. Innihaldið var á stutta leið að viðkomandi leist gífurlega vel á mig og vildi endilega heyra í mér ef það væri gagnkvæmt. Hann gaf mér upp WhatsApp númerið sitt. Hann tók líka fram að ef ég vildi ekki kynnast betur þá vinsamlegast eyðileggja bréfið þar sem þetta var gróft brot af hans hálfu og hann myndi líklega missa vinnuna ef þetta kæmist upp. Þarna var ég sett í aðstöðu sem ég kærði mig ekki um. Fyrsta hugsunin sem fór í gegnum hausinn á mér. Ég hef engan áhuga, best að henda bréfinu svo að hann lendi ekki í vandræðum. Svo fór ég að hugsa þetta betur. Maðurinn fór í töskuna mína. Hann fór í gegnum dótið mitt. Hann vissi að hann mátti ekki eiga þessi samskipti. Ég átti að vernda hann þrátt fyrir að hann færi langt yfir öll eðlileg mörk. Svo tók skynsemin völdin. Ég rek fyrirtæki og ef einhver starfsmaður hjá mér fer yfir mörk viðskiptavinar þá vil ég vita það. Þetta snýst ekki um þennan eina aðila. Hvað ef hann stundar þetta reglulega, hvað ef ég er ekki frávikið. Ég ákvað því að afhenda bréfið fararstjóranum og setja málið í hans hendur. Þetta var ekki mín skömm að bera.

ÞAÐ MÁ ALDREI NEITT LENGUR

Hvað er þá eiginlega málið, Ásdís. Má ekki gefa konu undir fótinn lengur?  Eruð þið svo heilagar að það má ekki reyna við ykkur eða stunda skyndikynni? Hvert er þessi heimur eiginlega að stefna? Jú elskurnar mínar það má gera allt sem allir vilja. Lykilatriðið er bara ALLIR VILJA ekki sumir. Ef annar aðilinn vill en hinn ekki þá flokkast það undir óumbeðið áreiti og hversu lítið og ómerkilegt sem það virðist vera þá er þetta langþreytt til lengdar. Það er ekki þitt að meta hvað sé saklaust og hvað ekki. Ég veit ekki um ykkur en ég myndi aldrei fara á deit með manni sem virðir ekki mín mörk í samtali. Þetta er svo stórt rautt flagg að það þarf ekkert að skoða það frekar.

En getur þú ekki hætt þessu væli og bara blokkað liðið. Auðvitað get ég það en er það mitt að blokka óumbeðnar sendingar? Er það ekki þeirra að senda þær ekki. Ég skil alveg að gervigreind geti sent frá sér skilaboð sem flokkast undir áreiti afþví að þetta er jú gervigreind og er að læra en lendir einhver einhvern tímann í því að senda óumbeðið áreiti. Þegar þú notar orð eins og að lenda í einhverju þá er þetta ekki þín ábyrgð heldur lendir þú óvart í aðstæðum sem þú ræður ekki við.

Stundum er betra að fá myndskýringu en mörg orð og því ákvað ég að setja inn link af uppáhaldsvideónu mínu um að virða mörk. - https://sexualrespect.columbia.edu/tea-and-consent-video

Hægt er að fylgjast með Ásdísi Ósk á instagram  


Einhleyp og endurnærð í Egyptalandi

Ég ákvað fyrir nokkru að skella mér í vorferð erlendis. Ég vissi samt ekki hvert mig langaði að fara. Planið var að fara í lok maí. Ég elska að ferðast á vorin og haustin. Það er yfirleitt ekki of heitt, hagstæðari verð og færri ferðamenn.

Eftir  hafa eytt góðum tíma í að googla eitthvað einhvers staðar án árangurs ákvað ég að það væri best að fá fagfólk í málið. Ég ákvað að leita til breskrar ferðaskrifstofu sem ég hafði notað árið 2016 með mjög góðum árangri. Þá fór ég í dásamlegt resort á St. Lucia sem heitir “the Body Holiday”. Þegar miðaldra kona sem á það til að ofhugsa málin ferðast ein þá koma upp allskonar kvíðahnútar eins og er þetta svæði öruggt. Ég á líka til að gleyma tímamismun og hef þurft að breyta flugi bara afþví að ég tók ekki eftir því að tengiflug má ekki vera sama dag og kvöldflugið sem lendir daginn eftir. Reyndar er ég miklu öruggari eftir að ég fór ein til Costa Rica um jól- og áramót þannig að næsta ferð verður örugglega kökubiti. Ég er á svo skemmtilegri vegferð að tengjast sjálfri mér og enduruppgvöta gömlu Dísu sem lét ekkert stoppa sig.

Þæfð lopapeysa í Playstationkassa

Ég ákvað því að senda mjög ítarlega þarfagreiningu á ferðaskrifstofuna til að það yrði enginn misskilningur. Ég vildi fara á sambærilegt resort og the Bodyholiday á St. Lucia. Myndi vilja hafa beint flug frá London en MJÖG opin fyrir svæðum. Myndi vilja adults only samt ekki of rómantískt, sjór, strönd, sundlaug, allt innifalið og frábært ef ég gæti stundað einhverja hreyfingu s.s. hlaup, göngur og sund. Setti líka 2.500 pund sem hámarksverð. Linda svaraði um hæl og fannst þetta gífurlega spennandi og langaði hreinlega með. Svo hélt ég áfram að vinna og beið spennt eftir því að Linda sendi mér ómótstæðileg tilboð í sólina. Eftir 2 daga var ég orðin eins og óþreyjufullt barn á aðventunni. Ég hlakkaði gífurlega til að komast að því hvert alheimurinn ætlaði að senda mig. Ég er mjög forlagatrúar og tel að allt gerist af ástæðu og þegar einar dyr lokast þá galopnast aðrar. Eftir 2 daga komu 3 tilboð frá Lindu:

  1. Sri Lanka: Hjólaferð en byrja á því að gista í höfuðborginni í nokkra daga og svo vika á ströndinni.
  2. Malasía: Gista í höfuðborginni í nokkra daga og svo vika á ströndinni
  3. Thailand: Gista í höfuðborginni í nokkra daga og svo vika á ströndinni.

Veit ekki með ykkur en stórar asískar höfuðborgir virka ekki eins og róandi retreat á konu sem er að ferðast ein. Allar þessar ferðir eru mjög spennandi og á bucketlistanum mínum er bakpokaferðalag um þessi svæði síðar en þetta var bara ekki það sem sálin mín þurfti núna. Sem ég er orðin pínu buguð á þessum hugmyndum sendir Linda póst og spyr hvernig mér lítist á hópferð. Ég hugsaði það gæti verið sniðugt ef ég þarf ekki að hanga með hópnum allan tímann. Hversu glatað yrði það t.d. að sitja í rútu með fólki sem þér líkar ekki við í 2 vikur.

Sem ég sleppi þessari hugsun lausri kemur næsta tilboð frá Lindu.

  1. Kyrgyzstan's Silk Road Journey Group Tour. Þarna fann Linda vinkona 13 daga rútuferð um Kyrgystan og Usbekistan, hópferð í 4WD rútu og gist í ódýrum hostelum og YURT.
  2. Síðasta tillagan frá Lindu var gönguferð um Jakobsveginn.

Nú þekki ég ekkert til Stanlandaanna en YURT og rútuferð virkar ekki eins og  5 stjörnu  retreat við ströndina og ég þekki nógu marga sem hafa gengið Jakobsveginn til að vita að það er hvorki 5* retreat né strönd við hann. Reyndar sagði Linda þegar ég sendi póstinn að þetta virkaði mjög spennandi og hún væri svo til í að fara í svona ferð. Mig grunar að hún hafi bara verið að skipuleggja fyrir sjálfa sig. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég væri alveg til í að fara í svona ferð seinna. Linda fór bara aðeins framúr sér.

Ég sendi póst til baka og sagði að þetta væri kannski ekki alveg það sem ég væri að leita að. Þá gafst Linda upp, sendi mér tilboð í the Body Holiday upp á rúm 6.000 pund sem á minni málabrautarstærðfræði er rétt rúmlega 2.500 pund.

Þarna greip frúna algjör bugun. Mér leið eins og barni á jólunum sem var búið að horfa á jólapakka alla aðventuna sem leit út eins Playstationkassi bara til að opna hann og sjá í honum þæfða ullarpeysu sem var bæði alltof lítil á mig og stakk mig í þokkabót. Ég ákvað að Linda væri ekki málið og hringdi í Sigrúnu Rósu vinkonu til að væla í henni með hvað þetta væri flókið.

Viltu vinna milljón

Sigrún Rósa er með ráð undir rifi hverju og sagði að eina vitið væri að heyra í Jonna. Hann hefur ferðast um allan heim og er auk þess frábær salsadansari þannig að hann gæti þekkt flott suðræn retreat. Ég heyrði í Jonna. Hann var líka einu sinni símavinur í Viltu vinna milljón og svaraði rétt þannig að ég var sannfærð um að hann myndi redda þessu. Jonni fékk mun minni upplýsingar en Linda vinkona. Beint flug frá London og retreat sem kostar ekki augun úr. Kona má nú ekki nota skósjóðinn sinn í ferðalög. Jonni stakk upp á Sharm El Sheikh. Sharm El Sheikh. Hvar er það og hvað er það?. Frábært svæði í Egyptalandi. Myndi henta þér fullkomnlega. Ég ákvað að gefa þessu sjens, ég meina Jonni svaraði rétt í Viltu vinna milljón. Kannski var þetta málið?  Ég googlaði þetta aðeins en var engu nær. Ég heyrði í Ásdís Rósu vinkonu. Hún átti vinkonu sem hafði farið oft til Egyptalands. Hún elskar þetta svæði en hún var í Hurghada. Á hennar hótelinu var mest miðaldra breskt fólk og óléttar konur sem mér fannst ekki virka nógu mikið stuð þannig að ég hélt áfram að leita svara. Þá mundi ég að Vignir ljósmyndarinn okkar í Fasteignaljósmyndun hefur farið oft til Egyptalands. Hann hefur farið á báða staðina. Hann fór með vinahóp sínum til Sharm El Sheikh og fjölskyldunni á hinn staðinn. Ég ákvað að taka sex and the City á þetta og velja staðinn sem sætu strákarnir mæltu með. Bæði svæðin eru samt frábær og líklega mun ég fara næsta til Hurghada einmitt af því að það er styttra í helstu ferðamannastaðina.

30 ára köfunarafmæli

Sem ég er að plana þetta þá fann ég köfunarskírteinið mitt. Ekki margir sem vita það en ég lærði köfun í Honduras og er hef Advance Padi Master Diver skírteini. Ég fékk skírteinið 27.maí 2003. Hvað er eiginlega meira viðeigandi en að fagna því með upprifjunarkúrs í Rauðahafinu. Ég hef einmitt ekki kafað neitt síðan 2003. Sýnist að alheimurinn sé bara spoton með þetta mál og svo sem bónus get ég kynnt mér arabíska eldamennsku og fengið nýjar og spennandi uppskriftir fyrir bloggið mitt www.cleanlife.is

Hvernig fer ég til Egyptalands?

Vignir hafði ráð undir rifi hverju og gaf mér ómetanleg ráð.

  1. Það er best að leita að flugi með Google Flights (ja há, ég vissi ekki einu sinni að það væri til). Það finnur bestu leiðina og ódýrustu flugin. Ég setti inn slaka upp á 3 daga á báðum leiðum og endaði með 11 daga þar sem það var 75.000 krónum ódýrara heldur en að vera í 8 daga.
  2. Bókaðu beint á vefsíðu hótelsins. Þú færð armband þegar þú kemur og það er merkt hvernig þú bókaðir og ef það var beint af vefsíðu hótelsins þá færðu betri þjónusta.
  3. Vertu dugleg að tipsa þegar þú mætir, ekki tipsa í lokin.

Ég fann nokkur hótel og hótelið sem ég valdi var með yfir 4.000 umsagnir á Google og ein setning skar sig út. Single travellers recommend it.

Ég fór á heimasíðuna og þá kom í ljós að þú gast skráð þig í vildarklúbb hótelsins og fengið góðan afslátt af verðinu, þetta var gert samhliða bókuninni. Ég fann svítu með allt innifalið, kona má nú ekki fá innilokunarkennd er það? Hótelið í 11 nætur, allt innifalið í sjávarsvítu var 320.000 og flugið 108.000, eða svipað eins og helgarferð fyrir 2 til Evrópu með flugi, gistingu, mat og drykkjum.

Þú verður að skoða Pýramýdana

Mér finnst alltaf jafnmerkilegt þegar fólk fer í frí að allir og amma þeirra hafa skoðun á því hvað þeir eiga að gera. Það fannst öllum að ég yrði að skoða Pýramýdana fyrst ég væri að fara til Egyptalands. Ég veit ekki með  ykkur en ég hélt að Eyptaland væri pínu stórt og ákvað að googla þetta. Egyptaland er 1.002.000 ferkílómetrar. Það er bara hellingur sko. Ég valdi líka Sharm El Sheikh af því að það er nógu langt frá Kairo og Pýramýdunum til að nenna ekki að skjótast, eða rétt rúmlega 500 km. Þetta er svipað og segja, já ertu að fara til Reykjavíkur, þú verður að skella þér í hvalaskoðun á Húsavík, algjört must.

Algjörlega fatalaus pía

Ég var fljót að átta mig á því að ég átti hreinlega engin föt fyrir þessa ferð. Samkvæmt veðurspánni var svona 35 stiga hiti á daginn. Ég neyddist því til að birgja mig upp af réttum fötum þar sem ég man hreinlega ekki hvenær ég fór síðast í svona mikinn hita. Allir kjólarnir mínir voru síðerma og frekar þykkir og ég er ferðast bara með handfarangur þannig að hver flík mátti ekki taka of mikið pláss. Ég er sem betur fer mjög skipulögð og tók mér frí einn mánudag þar sem ég bókaði flugið og hótelið og fór svo og keypti það sem mig vantaði af fötum. Ansi gott dagsverk en ekki laust við að ég fengi smá stress þar sem ég var hreinlega á leiðinni til Egyptalands í næstu viku. Ég ákvað líka að kaupa mér Babyfoot þar sem fæturnar á mér voru ansi þurrir og hælarnir sprungnir og myndu engan veginn sóma sér í nýju sandölunum. Það átti alveg að sleppa, vika í brottför og þetta ferli tekur max 10 daga.

Snákur í hamskiptum

Elsku Sigrún Rósa vinkona skutlaði mér á völlinn. Ég ákvað að skvísa mig upp fyrir flugið. Bæði til að spara töskupláss og svo er skemmtilegra að vera smart í flugi. Það leit samt ekki vel út með flugið. Það var gul veðurviðvörun og flugið mitt var seinni partinn. Upphaflega planið leit vel út. Flug um 16.00, lent í Milano kl. 22:30. Ég átti bókaða eina nótt á flugvallahótelinu og ætlaði að sofa vel, fara í góða sturtu og mæta svo algjörlega gordjöss til Egyptalands. Planið breyttist hressilega. Flugið fór ekki í loftið fyrr en löngu eftir kvöldmat, ég lenti ekki fyrr en um 4 og svo var næsta flug kl. 07:20. Þannig að það var ansi þreytt og framlág kona sem fór í flug. Ég hafði sofið illa nóttina áður þannig að ég var í raun ekki búin að sofa í 2 sólarhringa. Rauðeygð og með hárið í klessu leit ég meira út eins og óskilgetið afkvæmi Gollris úr Hringadrottinssögu og Garth Algar úr Wayne’s World. Ég huggaði mig þó við það að sandalarnir væru sjúklega flottir og sem ég leit niður á fæturna á mér þá var Babyfoot komið í fulla verkun þannig að fæturnir litu út eins og snákur í hamskiptum.

Þannig að fína fyrirfram greidda hótelherbergið mitt var ónotað. Ég mætti til Egyptalands ósofin, rauðeygð með hárið í klessu en ég gat amk glatt mig við það að í bakpokanum mínum var nýja bókin hennar Ásu Marin, Sjávarhjarta sem ég var svo heppin að fá daginn fyrir útgáfupartýið. Ég elska bækurnar  hennar, svo skemmtilegar ferðasögur en líka mannbætandi. Mér líður alltaf betur í sálinni þegar ég les þær. Mæli svo með því að lesa bækurnar hennar.

Hvernig er svo í Egyptalandi? Meira um það í næsta bloggi.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum Ásdísar í Egyptalandi á Instagramasdisoskvals


Dreymdi um að vera dánartilkynning

„Mamma getur þú komið og horft á mig keppa á Símamótinu í staðinn fyrir að vinna.“ Sigrún Tinna 6 ára

„Mamma, mér finnst svo þreytandi þegar þú ert í símanum þegar ég er að lesa fyrir þig á kvöldin“  Sigrún Tinna 7 ára

„Mamma, það mættu allir foreldrarnir á fimleikaæfinguna nema þú …“ Sigrún Tinna 8 ára

Ég þjáðist af mömmuviskubiti (samviskubiti mömmu sem er vinnualki) í mörg ár. Ég setti alltaf vinnuna í fyrsta sæti. Ég vinn sjálfstætt og mér fannst ótrúlega erfitt að segja nei við verkefnum. Mér fannst erfitt að setja mörk og ég hef ekki tölu á því hversu oft ég var ekki viðstödd einhvern atburð þó að ég væri á staðnum þar sem ég var með hugann við vinnuna eða jafnvel að sinna vinnunni.

Uppskrift af sjúklegri streitu

Ég var komin með öll einkenni sjúklegrar streitu þegar ég fór á fyrirlestur hjá David Goggins og hann mælti þessi fleygu orð: „Ef ég læsi ævisögu þína, myndi hún hafa áhrif á mig?“ Ég renndi stuttlega yfir síðustu ár og áratugi. Það var nú ekkert voðalega mikið sem myndi heilla manninn. Ég og vinnan vorum eitt. Ég var með mjög óheilbrigðan lífstíl. Ég borðaði á hlaupum í næstu sjoppu og eina æfingin sem ég fékk var að hlaupa á milli staða ef ég var að verða of sein á fund. Dæmigerður vinnudagur voru 10-12 tímar og svo þurfti að nota kvöldin til að svara tölvupóstum. Þær voru ófáar helgarnar þar sem ég vann eitthvað báða dagana og fór svo örþreytt inn í vinnuvikuna. Ég var þreytt, ég var orkulaus og það var ansi stuttur í mér þráðurinn og oftar en ekki kom ég heim úrill og pirruð og hafði enga þolinmæði í neitt meira. Vildi bara henda í mig mat og fleygja mér í sófann.

Þessi orð David Goggins fengu mig til að hugsa fram í tímann. Hvar verð ég eftir 10 ár ef ég held svona áfram. Sú framtíðarsýn var ekki spennandi og ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði að gera gífurlegar breytingar á mínu lífi, bæði á einkalífi sem og vinnu til að ég yrði ekki enn ein minningargreinin um duglega fólkið sem dó á besta aldri. Ég hugsaði meira að segja: Hvað ætli börnin mín myndu setja í minningargreinina. Mig grunaði að það yrði eitthvað á þessa leið. „Mamma var fínasta kona, höldum við. Við þekktum hana kannski ekkert svakalega mikið og hún var oft pirruð en hún var rosalega, rosalega dugleg að vinna.“

Draumur að vera Dánartilkynning

Ég segi oft að David Goggins hafi bjargað lífi mínu. Áður en ég fór á fyrirlesturinn hjá honum hafði ég ekki hugmynd um á hversu slæmum stað ég var. Þegar þú ert komin með stjórnlausa streitu þá hugsar þú ekki alltaf rökrétt. Ég man að það voru ófá skiptin sem ég las Morgunblaðið og sá dánartilkynningar og það fyrsta sem ég hugsaði: „Mikið svakalega er þetta friðsæll staður til að vera á. Það væri kannski bara ágætt að vera Dánartilkynning. Það er ekkert áreiti þarna, bara eilífur friður og ró“. Þegur þú ert komin á botninn þá færðu líka allskonar ranghugmyndir í kollinn eins og að það yrði líklega bara léttir fyrir aðra líka ef þú yrðir dánartilkynning. Það tók mig mörg ár að vinda ofan af mér og breytingar sem ég byrjaði 2017 eru ennþá í ferli. Ég náði þessu með því að setja mig í fyrsta sæti og hætta að hafa áhyggjur af því sem öðrum finnst því okkar á milli þá er í raun langflestum skítsama um þig og það besta sem þú getur gert fyrir þig er að hætta að hafa áhyggjur af skoðunum annara.

Stöðugt síreiti

Eftir að ég tók þá ákvörðun að setja mig í fyrsta sæti fylgdu því allskonar vaxtavextir eins og mér varð eiginlega bara alveg skítsama hvað öðrum finnst um mig (svona að mestu). Ég vinn aldrei á kvöldin og mjög sjaldan um helgar. Ég vakna klukkan 05:00 á virkum dögum til að æfa og fer snemma að stofa. Þegar ég bregð mér af bæ á kvöldin þá nenni yfirleitt ekki að ræða vinnumál og bið fólk að virða það. Það fer misvel í fólk. Ég hef aðeins verið að hugsa þetta. Hvers vegna á ég að þurfa að segja að ég nenni ekki að ræða vinnuna á kvöldin? Hvers vegna er ekki eðlilegt að spyrja hvort það sé í lagi að spyrja vinnutengdrar spurningar utan vinnutíma? Minn heitasti draumur núna er að þetta sé næsta bylting. Það verði skýr mörk á milli vinnu og einkalífs og það verði jafnfáránlegt að ætlast til þess að fólk svari vinnusímtali eða email á kvöldin eins og að reykja í bíó. Fyrir 20 árum þótti ekki taka því að kvarta yfir fulla kallinum í vinnustaðapartýinu sem var að káfa á öllum konum. „Æi, vertu ekki að þessu tuði, hann Jói er nú alltaf pínu fjölþreyfinn þegar hann er í glasi. Hann meinar nú ekkert með þessu.“ Í dag er fulli kallinn látinn víkja. Hver er með í næstu byltingu um að setja skýr mörk á milli vinnu og einkalífs og að það sé ekki eðlilegt að ætlast til þess að fólk sé aðgengilegt í vinnu allan sólarhringinn allt árið um kring?

Endalaust aðgengi í nútímalífinu

Ég fékk minn fyrsta gsm síma í 30 ára afmælisgjöf. Þetta var Nokia 5110 og með honum fylgdi einn símaleikur, sá magnaði leikur Snake. Hann var frábær því þú nenntir aldrei að spila hann lengi. Í dag erum við með síma sem eru ofurtölvur. Þeir eru stútfullir af allskonar öppum og leikjum og við gætum eytt ævinni með þeim og alltaf fundið eitthvað nýtt til að gera. Nýtt áreiti er bara eitt download away. Nokia 5110 var neyðarsími. Hann var notaður ef það þurfti að ná í mig í neyðartilfellum. Það var bæði mjög dýrt að hringja í hann sem og úr honum og svo fannst mér þetta vera mikil árás á einkalíf fólks að hringja í gsm símann þeirra. Ég notaði alltaf heimasímann og hringdi bara í gsm ef ég þurfti lífsnauðsynlega að ná í fólk. Núna á ég ekki heimasíma. Ég gerði tilraun um daginn. Ég slökkti á tilkynningum á öllum öppum í símanum og vá þvílíkur munur. Það næsta sem ég gerði var að slökkva á Messenger  yfir eina helgi og það gekk svona glimrandi vel. Engin áföll þannig að ég mun gera þetta reglulega héðan í frá.

Á mömmuviskubitið rétt á sér?

Þegar ég lít til baka þá er ekki hægt að gera allt. Það er ekki hægt að mæta á alla viðburði, vera alltaf til staðar og byggja upp fyrirtæki. Í dag hef ég náð að beisla vinnuna og finna jafnvægi milli einkalífs og vinnu og ég er til staðar fyrir krakkana eins og þarf.

Það sem ég er að vinna í núna er að í hvert skipti sem Facebook memories birtir minningu sem kveikir á Mömmuviskubitinu er að muna að það er ekki hægt að breyta fortíðinni. Þú getur bara lagað núið. Ég held að við séum of gjörn á að einblína á mistökin sem við gerðum í fortíðinni og bíða eftir framtíðinni í staðinn fyrir að lifa í núinu. Ég veit að ég var amk þar og það hefur verið mikil vinna að breyta því.  Ég þarf stöðugt að stoppa og minna mig á að dagurinn í dag er það eina sem er í hendi.

Mér varð hugsað til dánartilkynningatímabilsins um daginn þegar ég vaknaði og hugsaði, lífið er eiginlega 12 af 10. Það gengur allt frábærlega. Auðvitað koma dagar þegar ég er ekki 12, kannski meira 2 en það er eðlilegt. Lífið er ekki Lego Movie þar sem allt er Æðislegt (Everything is awesome). Það er hins vegar ekki eðlilegt að vera í stjórnlausri streitu og vera búin að missa stjórn á aðstæðum.

Ein í regnskógi um jólin

Eftir að ég fór að vinda ofan af mér þá hef ég ekki alveg nennt aðventunni. Mér finnst þetta alltof mikið aukaálag og  stress. Í  sumar tók ég því þá ákvörðun að sleppa bara jólunum og gera bara það sem ég nennti á aðventunni (lesist langar að gera). Ég pantaði mér 2ja vikna jógaferð til Costa Rica einhvers staðar í miðjum regnskógi. Ég fer alein og mér finnst það pínu, nei mjög stressandi. Ég kann ekki jóga en vona að þetta kveiki á mínum innri jóga. Ég veit ekkert hvað er býður mín og samkvæmt veðurspánni virðist eiga að rigna allan tímann. Ég keypti mér því helling af garni og prjónum og ætla að njóta þess að kjarna mig í 2 vikur og vera í núvitund. Ég hef nokkrum sinnum hætt við ferðina í hausnum á mér og einu sinni sagði ég við Viktor Loga son minn að ég væri hætt við að fara. Væri bara of stressuð fyrir þessa ferð. Hann var fljótur að sannfæra mig um að ég hefði mjög gott af því að fara í þessa ferð, sem er hárrétt, og núna hlakka ég gífurlega til. Ég velti því samt fyrir mér hvort að hann hafi verið svona sannfærandi þar sem hann fórnaði sér til að sjá um húsið og bílinn á meðan ég væri í burtu.

Mitt mottó fyrir 2023 er að gera bara það sem mig langar til að gera. Ekki gera neitt af skyldurækni eða kvöð. Halda áfram að minnka áreiti og lifa í núinu. Hver með memm í #Nessessu

Hægt er að fylgjast með Ásdísi Ósk á instagram  


Miðaldra konan elskar Lissabon

Í október fór ég til Portugal á fyrstu ráðstefnuna mína síðan fyrir Covid. Þetta er fasteignaráðstefna á vegum „Leading Real Estate Companies of the World“ sem er stærsta keðja sjálfstætt starfandi fasteignasala um alla heim með meðlimi í tæplega 80 löndum. Húsaskjól er eina íslenska fasteignasalan í keðjunni þar sem við erum á svo litlum. Ég var að fara út sem fyrirlesari til að ræða mikilvægi jafnvægis í vinnu og einkalífi og einnig til að taka upp hluta af seríu fyrir þjálfunarhluta Leading Re sem verður nýttur fyrir aðra meðlimi keðjunnar. Að lokum var Upplýsingakerfið mitt sem ég er hannaði og fjármagnaði keppa um bestu tæknilausnina í fasteignageiranum. Það er gífurlega mikilvægt að vera í alþjóðlegu samstarfi og að geta aðstoðað mína viðskiptavini að kaupa og selja fasteignir í tæplega 80 löndum, sérstaklega þar sem ég þekki persónulega mjög marga af þessum fasteignasölum.

Play flýgur beint til Lissabon á mánudögum og föstudögum og ráðstefnan var á fimmtudegi til laugardags. Þarna voru góð ráð dýr. Ef ég ætlaði að taka eitthvað annað flug þá færi hvort sem heill dagur í hvorn legg þannig að ég gat alveg eins farið aðeins fyrr og notið Lissabon með sjálfri mér.

Ég var pínu stressuð með þetta flug þar sem ég hafði aldrei flogið með Play og hafði heyrt misjafnar sögur um flugfélagið. Ég var nýkomin frá Ítalíu þar sem æfði mig í að pakka létt og fór með eina handfarangurstösku. Það gekk svona glimrandi vel og ég notaði ekki nema helminginn af því sem ég fór með að ég ákvað að ferðast líka létt til Portugal og tók með litla handfarangurstösku, svokallaða fluffu og einn lítinn bakpoka.

Það geta ekki allir meikað það

Þegar ég var í Verona á Ítalíu fann ég gömlu listagyðjuna vakna. Ég ákvað að virkja innri listaspíruna mína og verða duglegri að fara á tónleika, myndlistasýningar og leikhús. Eitthvað sem ég setti á ís í Covid. Það var löng röð í tékkin þannig að ég ákvað að spjalla aðeins við mennina fyrir aftan mig. Þeir voru líka á leiðinni til Lissabon eins og ég (eðlilega þar sem vélin var að fljúga þangað). Ég sagðist ætla að stoppa stutt þar sem ég var á leiðinni á ráðstefnu. Hvað ætlið þið að gera í Lissabon? Við erum að að fara að spila á tónleikum sagði annar þeirra. Áhugavert sagði ég, í hvaða hljómsveit eruð þið? Sigurrós, Já einmitt, ég kannast við hana. Tvítugur sonur minn er ennþá með hauspoka yfir menningarleysi móður sinnar. En þetta horfir nú allt til betri vegar. Ég ætla að taka menninguna á sama máta og lestarátakið mitt, fara reglulega á viðburði sem ég veit ekkert um og það verður aldrei að vita nema ég nái líka frama sem menningar- og listagagnrýnandi, rétt eins og bókmenntagagnrýnandi

Er ég utan marka hjá Play og taka þeir töskuna af mér?

Ég var pínu stressuð með þetta töskumál. Hvað ef hún er pínuogguponsulítið of stór. Þetta er nefnilega ekkert one size fits all hjá flugfélögum. Allar áhyggjur mínar reyndust vera óþarfi. Það var nóg pláss fyrir töskuna. Ég setti litlu fluffuna mína fyrir ofan sætið. Bakpokinn rann vel undir sætið fyrir framan og það var nóg pláss fyrir lappirnar á mér. Ég er að vísu ekki nema 165 sm en oft er ansi þröngt í þessum flugvélum og ég þakka alltaf fyrir að vera ekki atvinnukona í NBA. Flugið var mjög þægilegt og ég skildi hvert einasta orð af því sem flugstjórinn sagði. Það er sko ekki sjálfgefið. Stundum held ég að flugstjórar séu settir á talnámskeið hjá sama aðila og kennir læknum að skrifa. Flugliðarnir voru dásamlegir og ég er mjög hrifin af þessum búningum, virka mjög þægilegir. Eftir þetta flug hlakka ég til að fara aftur með Play og get ekki annað en glaðst yfir því að við eigum 2 frábær flugfélög á þessu litla landi okkar.

Óvissuferð á hótelið

Ég nota Booking mjög mikið og ég fékk tilkynningu um að ég væri komin á Genius 2 level og fengi afslátt af leigubíl. Ég gæti bókað hann fyrirfram og bílstjórinn myndi bíða eftir mér með skilti með nafninu mínu í móttökusalnum. Ég hef oft séð svona bílstjóra bíða eftir fólki en alltaf staðið í þeirri meiningu að þetta væri fyrir rokkstjörnur og ofurfyrirsætur, ekki okkur venjulega fólkið. Ég var fljót í gegnum flugvöllinn enda þurfti ég ekki að bíða eftir tösku úr vélinni og dreif mig að hitta bílstjórann minn. Fyrsti aðilinn sem ég sá var með spjald sem á stóð Sigurrós. Það var hins vegar enginn með spjald fyrir Ásdís Ósk. Ég fór á móttökustaðinn. Pöntunin hafði eitthvað klikkað þannig að ég neyddist til að fara í leigubílaröðina sem var álíka löng og biðröðin fyrir utan Apple þegar nýr Ipone kemur í sölu en sem betur fer gekk hún ansi greitt. Ég fékk eldri leigubílstjóra. Hann spurði hvort ég talaði portugölsku, nei reyndar ekki en ég tala spænsku. Já sagði kappinn þetta er nú meira og minna sama tungumálið. Eftir þessa bílferð get ég vottað að svo er ekki. Hann hafði mjög gaman af því að spjalla og spurði hvaðan ég væri. Frá Íslandi. Ja há sagði hann, er ekki landið að fylltast af rússum sagði hann, rússum nei ég kannast ekki við það sagði ég. Nú eruð þið ekki við landamærin við Rússland svo hugsaði hann aðeins og sagði, já nei það er víst Finnland, þið eruð þarna rétt hjá Ástralíu. Já nei, sagði ég, ertu ekki að meina Nýja Sjáland. Já kannski sagði hann og brosti. Hvað ertu svo að gera hérna í Lissabon. Ég er á leiðinni á fasteignaráðstefnu og vonaði að ég hefði munað rétt orð fyrir fasteignaráðstefnu. Ha, fordómaráðstefnu kom til baka frá kappanum. Á þessum tímapunkti stressaðist ég pínu upp og hafði áhyggjur af því að hann myndi fara með mig þráðbeint í leynilegar höfuðstöðvar Kukluxklan. Ég brosti mínu blíðasta þrátt fyrir stressuð og sagði  já nei ég er svona að selja hús. Ég komst á áfangastað og kvaddi karlinn með virktum að því marki sem ég gat.

Hvar á að gista?

Þegar ég ákvað að fara til Lissabon setti ég inn á Facebook hvernig væri best að fljúga og hvar ætti að gista. Þá kom í ljós að ansi margir höfðu farið til Lissabon og flestir mæltu með Play. Ein mælti svo með hótelinu Palácio das Especiarias. Ég kíkti á reviews á Bookings og þau áttu eitt sammerkt. Morgunmaturinn væri einn sá besti sem þau hefðu smakkað. Það er lykilatriði fyrir mig að fá góðan morgunmat. Ég ákvað því að bóka 2 nætur. Hótelið stóð svo sannarlega undir væntingum. Ég kom seint um kvöld og sú sem tékkaði mig inn fylgdi mér inn á herbergið til að sýna mér hvernig þetta virkaði. Herbergið var algjörlega frábært. Mjög mikil lofthæð, fallegar rósettur í loftinu og ljósakróna. Ég hafði pantaði herbergi með svölum og útsýni og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með það. Ég hlakkaði mikið til að fara í morgunmatinn daginn eftir og vá hvað hann stóðst allar væntingar. Þetta var svona eins og að fara í royal matarboð. Það eru nokkur herbergi og maturinn er á nokkrum svæðum, allt svo gott og þjónustan dásamleg. Sá næstum því eftir að hafa bara bókað 2 nætur.

Hvað á að gera?

Einu sinni var ég rosalega upptekin af því að gera allt þegar ég fór í styttri ferðir. Núna er ég meira í því að lalla um borgina og skoða mannlífið. Ég bað strákinn í móttökunni að gefa mér smá tips, mig langaði að rölta bara  niður að á, kíkja á skemmtilegar götur og lifandi mannlíf. Ég bað hann að skrifa bara niður á blað nokkrar ábendingar og ég myndi svo nota Google maps til að koma mér á milli staða. Ég er miklu meira með markmið að ganga ekki undir 10 km á dag í svona borgarferðum með reglubundnum drykkjar og pissupásum. Ég sá því enga ástæðu að taka með mér kort eða upplýsingar um hótelið. Það var ekki eins og ég ætlaði að fara upp á fjall, bara rölta um og svo heim aftur.

Hvað dundar miðaldra kona sér við?

Þetta gekk nú bara ansi vel til að byrja með. Ég beygði til hægri og sá strax mjög flott kaffihús sem ég mæli eindregið með.  Fábrica eru með mjög gott te og pottþétt líka kaffi (hef bara ekki náð tökum á því ennþá frekar en áfengi) og virkilega gott bakkelsi. Ég sá að áin var þarna beint framundan og rölti þangað niðureftir. Dásamlegt veður og allir kátir og hressir. Ég sá fullt af skemmtilegum stöðum og fann svo apótek og mundi að mig vantaði tannkrem þar sem ég gleymi að kaupa ferðatannkrem. Fann eitt lítið sem myndi smellpassa í handfarangur en ákvað að skoða það betur til öryggis. Það stóð endist í 12 tíma, sniðugt hugsaði ég, konan verður nú oft andfúl á svona ferðalögum. Ætli þetta sé ný tegund þar sem ég kannaðist ekkert við þetta. Á bakhliðinni sá ég mynd af tanngóm og lími, ah þetta er tannlím sem endist í 12 tíma og ákvað að það væri best að fá aðstoð.

Bacalau og dauður sími

Ég ákvað að fá mér saltfiski í hádegismat. Mæli ekki með því að borða saltfisk úti, það laðar að sér óheyrilegt magn af flugum sem vilja bara vera í partýi með þér. Eftir frábæran dag tók ég stefnuna heim, setti hótelið í Google Maps og var ekki í neinum vandræðum með að rata eða sko alveg þangað til að síminn dó. Ég hafði verið svo forsjál að taka með mér hleðslubanka en eina vandamálið var að hann var á hótelinu. Mæli eindregið með að taka svoleiðis með í dagsferðir, gerir meira gagn þar. Ég íhugaði að taka screenshot af Google Maps en fattaði nú að það myndi líklega ekki gagnast ef síminn dæi. Sem ég er orðin mjög stressuð átta ég mig á því að ég stend beint fyrir fasteignasölu. Ég vatt mér inn og kannaði hvort að þau gætu hlaðið fyrir mig símann sem dó akkúrat á þessum augnabliki sem reyndist meira en sjálfsagt.

Besti steikarstaðurinn í Lisbon?

Um kvöldið ákvað ég að forðast frekari ævintýri. Kíkti á Google Maps eftir stöðum sem væru í 5 mínútna göngufæri frá hótelinu. Ég datt inn á O Boteco, brasilískt steikhús sem var með það besta filet Mignon sem ég hef á ævinni smakkað. Næst þegar ég fer til Lisbon þá mun ég fara þangað aftur.

Óvissuferð til Cascais

Ég bað hótelið að bóka fyrir mig leigubíl þrátt fyrir síðastu reynslu. Kona getur nú ekki verið óheppin tvisvar eða hvað? Bílstjórinn spurði hvert ég væri að fara, ég gaf honum upp nafnið á hótelinu. Ég veit ekkert hvar þetta er, hvað er heimilisfangið sagði kappinn. Ég gaf honum það. Ég veit ekkert hvar þetta er. Getur þú ekki lánað mér símann þinn kom næst. Nei, ekki alveg til í það. Getur þú ekki bara googlað þetta. Nei ég er ekki með svoleiðis. Einmitt já. Ég ákvað því að það væri best að fá hótelið til að bóka annan bílstjóra sem kom mér áfallalaust á áfangastað.  Eftir spjall við heimamenn kom í ljós að flestir mæla með Uber frekar en leigubíl í Portugal.

Tips til að ferðast létt 

  1. Kaupa handfarangurstösku og passa að hún henti reglum hjá stærstu flugfélögunum
  2. Kaupa litla dalla t.d. í Tiger til að setja snyrtivörur í, s.s. sjampó, hárnæringu og dagkrem
  3. Íhuga hvort að það þurfi örugglega makeup vörur og hversu mikið af þeim
  4. Hafa léttan bakpoka sem dugar fyrir eitt skópar og aðrar nauðsynjar
  5. Setja upp lista yfir það sem á að fara með í ferðina
  6. Henda út 20% af listanum blákalt. Það er hægt að skola úr nærfötum og þess háttar
  7. Kaupa dryfit fatnað sem lítur samt ekki út eins og þú sért að fara í ræktina, mæli með að kíkja í Sportís, fékk þar bæði pils og buxur
  8. Ef þú ert að fara á ráðstefnu eða þarft spariföt. Taka með eitt skópar sem passar við öll ráðstefnufötin. Sparar gífurlega mikið töskupláss.

Hægt er að fylgj­ast með veg­ferð Ásdís­ar á In­sta­gram


Metnaðarlausar saumaklúbbskerlingar

Í október 2022 gerðist sá fáheyrði atburður að hópur karlmanna í alveg eins fötum, bara mismunandi á litinn, hittist til að henda á milli sín bolta. Það sem var enn merkilegra við þennan atburð var að þeir skiptu sér í 2 lið og annað liðið vann og hitt tapaði. Eitthvað sem virðist aldrei hafa gerst í alheimssögunni því að viðbrögð þjálfara liðsins sem tapaði urðu ansi ofsafengin. Eina skýringin sem hann hafði var að þetta væri augljóslega ekki hans lið heldur hefðu einhverjar kerlingar tekið yfir liðið á lævísan hátt. Þetta voru samt ekki engar random kerlingar sem voru þarna að verki heldur saumaklúbbskerlingar sem er að það versta sem hægt er að hugsa sér. Saumaklúbbbskerlingar eins og allir vita leggja sig aldrei fram af öllu sínu hjarta og það fer alveg ótrúlega mikið í taugarnar á þjálfaranum. 

Ég held reyndar að þetta hafi verið einhver misskilningur hjá þjálfaranum að þetta hafi verið kerlingar sem viltu á sér heimildir og reyndu að að troða sér í karladeild á fölskum forsendum. Ég held að þeir hafi bara verið svangir og þurft að fá Snickers

Sérfræðingur í boltaíþróttum

Ég er ekki mikil áhugamanneskja um boltaíþróttir en ég veit eitt og annað og yfirleitt nógu mikið til að geta spjallað yfirborðskennt um þær ef líf mitt liggur við. Ég á líka nokkra ása upp í erminni. Á HM 1995 í handbolta var ég fararstjóri fyrir spænska landsliðið og innsti koppur í búri, vissi t.d. öll herbergisnúmerin hjá liðinu. Ég sá Maradonna spila í Napoli og átti stórleik í Bandaríkjunum þegar ég var að spjalla við breskan mann sem sagðist vera frá Nottingham og ég spurði á móti hvort að hann héldi ekki örugglega með Nottingham Forest.

Þurfa allir að vera afreksíþróttamenn ?

Ég hef aldrei verið góð í íþróttum og í grunnskóla var ég aldrei valin í lið. Ég endaði meira svona ein af þeim sem voru eftir og þurfti að hafa í liðinu. Mér var líka alveg sama. Metnaður minn lá ekki þarna. Ég átti t.d. 70 pennavini allsstaðar að úr heiminum og safnaði frímerkjum. Það eru ekki nema 5 ár síðan ég byrjaði minn íþróttaferil og á þessum stutta tíma hef ég afrekað meira en mig dreymdi um væri mögulegt þegar ég byrjaði. Það var mín lukka að ég var umkringd fólki sem hvatti mig áfram. Engum datt í hug að segja mér hversu ömurleg ég væri og það færi í taugarnar á þeim hvað ég væri léleg. Ég var ekki einu sinni kölluð saumaklúbbskerling og samt er ég í einum. Ég hef tekið þátt í fullt af mótum. Einu sinni keppti ég á Þorláksmessusundmóti Breiðabliks. Þetta voru 1.500 m með frjálsri aðferð, held samt að flestir hafi synt skriðsund. Ég var langsíðust og var 49,31 mín að klára 1.500 m og fékk verðlaun fyrir að nýta brautargjaldið best af öllum. Siggi vinur minn í Greenfit vann mótið á 17,21 mínútu. Þrátt fyrir að ég hafi verið langlélegust var enginn sem sagði við mig að ég ætti ekki að fara aftur að synda. Þetta væri til skammar að horfa upp á mig vera svona lengi. Siggi hvatti mig áfram. Samt er Siggi íþróttamaður á heimsmælikvarða og gerði sér lítið fyrir og vann heilan Ironman í Barcelona. Hann er fyrsti íslendingurinn sem vinnur heilan Ironman þannig að þegar ég hugsa þetta betur þá er ég náttúrulega megatöffari að hafa keppt við Sigga í sundi þó að ég hafi verið ogguponsulítið lengur en hann að klára. Í raun munaði ekki nema rétt rúmum 30 mínútum á okkur sem er t.d. lítið ef þetta hefði verið maraþon.

Þríþrautafélagið Saumaklúbburinn

Það þurfa ekkert allir að vera afreksíþróttafólk en það eiga allir að geta tekið eins mikið pláss og þeir vilja á sínum forsendum. Það vilja ekkert allir vinna mót. Sumir vilja bara njóta þess að vera í ferðalaginu og æfa í góðra vina hópi. Þegar fólk er eins og ég, skítsæmilegt í mörgu en ekki gott í neinu er stundum erfitt að passa í ákveðinn hóp. Við tókum okkur því saman 4 vinkonur í vikunni og stofnuðum okkar eigins Þríþrautafélag. Það kom bara eitt nafn til greina. Saumaklúbburinn þar sem okkar markmið er ekki að leggja okkur allar fram. Alls ekki að fórna okkur í boltann eða reyna að ná í íþróttameiðsl heldur að hafa gífurlega gaman af, njóta þess að hreyfa okkur, stundum saman og stundum í sundur og fara svo saman sem liðsheild í hálfan járnkarl á næsta ári. Við eigum eftir að finna okkur sundkennara og eins búning,  að öðru leiti erum við klárar. Einn af kostunum að vera bara með 5 ára íþróttalíkama er að hann er alveg óskaddaður og ég á ekki við nein gömul íþróttameiðsl að stríða. Saumaklúbburinn ætlar að taka eins mikið pláss og við viljum og okkur er hreinlega alveg skítsama í hvaða sæti við lendum. Við byrjum formlega í næstu viku og það er opið fyrir umsóknir.  

Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

“Hvað er svona merkilegt við það, að vera karlmaður?

Hvað er svona merkilegt við það, að bor’ í vegg?

Hvað er svona merkilegt við það, að bera áburðarpoka?

Hvað er svona merkilegt við það, að tak’ úr vél?”

Þessi spurning brann á Grýlunum á sínum tíma. Ég velti því fyrir mér hvers vegna enginn gekk á þjálfarann og spurði hann hreinlega, „hvað meinar þú með saumaklúbbskerlingar? hvað eru saumaklúbbskerlingar í þínum huga og þekkir þú einhverjar kerlingar í saumaklúbb og finnst þér þær passa við þessa lýsingu“?

Núna segja margir, æi Ásdís vertu ekki með þessa viðkvæmni. Veistu, þetta er ekki viðkvæmni. Ég er bara svo hissa að við séum ekki komin lengra í orðræðunni en að stöðugt líkja karlmönnum sem tapa í íþróttum við konur. Er viðmiðið í alvörunni það að konur geta ekki verið bestar? Eru þær samnefnari þess að vera lélegur og undir lágmarkinu. Ætli það séu til einhverjir karlmenn sem hafa einhvern tímann verið lélegri en einhverjar konur? Það væri gaman að vita hversu margir karlmenn geta unnið Mari Järsk í hlaupi. Hún vann Bakgarðinn s.l. vor þegar hún hljóp 288 km á 43 klukkutímum eða Halldóru Gyðu vinkonu mína sem gekk þrjár 90 KM Vasaskíðagöngur á einni viku. Halldóra hleypur reglulega bæði maraþon sem og Ultramaraþon. Hún hljóp síðast UTMB Ultramaraþonið sem voru 170 km á 45 klukkutímum. UTMB er hringurinn í kringum Mont Blanc og hækkunin var 10.000 metrar eða eins og 15 ESJUR. Hún hefur líka synt yfir Ermasundið í boðsundi og þverað Vatnajökul á gönguskíðum. Hún er Ambassador fyrir „Free to Run“. Hún er búin að hlaupa svo mörg maraþon að hún er búin að missa töluna á þeim. Halldóra Gyða er einnig stoltur meðlimur 3ja saumaklúbba. Ég velti því fyrir mér hversu margir boltastrákar í fyrstu deild hafi jafnmikið úthald og hún. Hversu margir af þeim geta hlaupið 170 km í einu? Eða er það í alvörunni viðmiðið að vera ofur að geta kastað á milli sín bolta í 60 mínútur með því að fá góða pásu á milli og skipta reglulega við aðra leikmenn til að fá hvíld í leiknum. Kannski er kominn tími á að endurskoða okkar hugmyndir um íþróttahetjur og kannski er það bara málið að hlaupa eins og kona.

Fylgjast er að fylgjast með Ásdísi Ósk á Instagram


Eru kuntur neikvæðar?

Einu sinni var ég gífurlega mikill lestrarhestur. Á mínum yngri árum vildi ég bara bækur í jólagjöf og yfirleitt var ég búin að lesa þær allar fyrir áramót. Með hækkandi aldri og dvínandi hæfileika til að múltitaska datt lesturinn uppfyrir hjá mér og ég var góð ef ég náði að lesa 4 bækur á ári. Þær tengdust yfirleitt sólarlandaferðum þar sem það er nú fátt betra en að flatmaga við sundlaugina og lesa góða bók (nema þú sért við hliðina á barnalauginni þá verður hún ólæsileg eftir nokkrar skvettur). Ég ákvað því að ögra mér aðeins um áramótin og setti mér markmið að lesa allar íslenskar skáldsögur sem voru gefnar út 2021. Mér sýnist að ég þurfi líklega svona 2 ár í að klára þetta markmið en í dag er ég búin að lesa 16 bækur og nóg eftir. Mér fannst líka spennandi að ég myndi þá “neyðast” til að lesa allskonar bækur og stækka sjóndeildarhringinn með því að lesa bækur sem ég hafði engan áhuga á að lesa. Af þessum 16 bókum hafa nokkrar fengið 5 stjörnur og ég myndi segja að bækurnar “Fíkn” eftir Rannveigu Borg Sigurðardóttur og “Konan hans Sverris” eftir Valgerði Ólafsdóttur hafi komið mest á óvart. Bækur sem mér fannst frábærar en ég hefði ekki valið ótilneydd. “Elsku Sólir” eftir Ásu Marin kom líka skemmtilega á óvart. Ég ákvað að halda utan um bækurnar inn á Goodreads og gefa þeim einkunn eftir því hvernig mér fannst bækurnar og skrifa smá texta fyrir mig án þess að vera með ritdóm því ég er hvorki bókmenntafræðingur né gagnrýnandi og fyrir mér var Goodreads bara svona minnismiði fyrir mig. Eitt sem mér finnst frábært við Goodreads er að þú getur valið bækur sem þig langar að lesa og ég setti t.d. allar bækurnar eftir Ásu Marin á þann lista þó að ég komist ekki í þær fyrr en 2021 er búið.

Hver er þessi “Ásdís Valsdóttir”?

Ég hef umsagnirnar á Goodreads stuttar enda hugsaði ég þetta alltaf sem punkta fyrir mig. Ég byrjaði að lesa bókina hans Þórarins Leifssonar “Út að drepa túrista” og fannst hún alveg drepleiðinleg. Mér leið í alvörunni eins og ég væri komin í sögukennslu í grunnskólanum á Dalvík. Ég gaf henni eina stjörnu og setti í umsögn:
“Þessi höfðaði ekki til mín og ég gafst upp á henni. Leið eins og ég væri að lesa yfirborðskennda handbók um Ísland. Náði engum tengslum við persónurnar og ákvað að snúa mér að næstu bók.”

Mér fannst þetta alveg nógu dannað til að enginn fengi áfall yfir dónaskapnum. Ég reyni í alvörunni að vanda mig og set ekkert alveg allt inn sem ég er að hugsa. Ég var einu sinni mjög dónaleg á köflum og átti til að senda frá mér emaila sem voru mjög fúlir. Þegar ég byrjaði að taka mig í gegn þá var þetta eitt af því fyrsta sem ég valdi að breyta. Það má samt ekki missa málfrelsið og mér finnst einmitt svo þægilegt að búa hérna á Íslandi þar sem er bæði rit- og málfrelsi og að því best ég veit eru engar bækur bannaðar þannig að við upplifum ótrúlegt frelsi hvað þetta snertir.

Svo fékk ég skilaboð frá ritstjóra DV. Hann vildi kanna hvort að ég hefði skrifað þessa umsögn. Ég fékk smá áfall og það fyrsta sem flaug í gegnum hausinn á mér. “WTF hvað skrifaði ég eiginlega í þessari umsögn”. Jú umsögnin var akkúrat það mér fannst og ritstjórinn setti mig inn í málið. Þá hafði höfundi bókarinnar verið svo misboðið yfir þessari umsögn að hann var sannfærður um að einhver annar væri með leyniaðgang undir dulnefninu “Ásdís Valsdóttir” enda hver heitir líka Ásdís Valsdóttir. Augljóst að þetta er ekki raunveruleg manneskja. Ekki nóg með að þetta væri leyniaðgangur heldur vissi hann nákvæmlega hver stæði að baki þessari árás.

„Allar bækurnar mínar eru umdeildar. Þær eiga líka að vera það. En ég er á sama tíma 100% viss um að „Ásdís Valsdóttir“ er Jakob Bjarnar „blaðamaður“ að skrifa dóm um bækurnar mínar inni á Goodreads, gnístandi tönnum undir dulnefni. A cunt is a cunt is a cunt,“ skrifaði Þórarinn á Facebooksíðu sína

Hver er samt “Ásdís Valsdóttir” ef hún er ekki Jakob Bjarnar. Er hún kannski Stella Blómkvist að pönkast í öðrum rithöfundum í frítíma sínum og fannst nafnið Ásdís Valsdóttir það flippaðasta sem henni datt í hug.

I know what you did last Summer !!!

Ég gef samt ekki mikið af einni stjörnu umsögnum en þetta er samt önnur bókin í ár sem hefur fengið eina stjörnu.

Lestrarátakið gekk gífurlega vel til að byrja með. Ég fór á bókasafnið og tók 4 bækur í einu og hámlas þær. Sumar voru svo góðar að ég náði hreinlega ekki að leggja þær frá mér. Svo kom ein sem ég átti í gífurlegum vandræðum með. Hún hafði fengið flotta dóma. Gífurlega fyndin að mati lesenda og ég hlakkaði mikið til að lesa hana. Svo mikið að ég keypti hana á flugvellinum á leiðinni til Spánar í hjólafrí. Ég sá strax að ég var ekki á sama stað og þeim sem fannst hún fyndin. Mér fannst hún hreinlega drepleiðinleg og ógeðsleg. Lýsingar á samtímafólki voru niðrandi og ég sá ekkert jákvætt við þessa bók. Googlaði fleiri dóma. Las dóm eftir Kolbrúnu Halldórsdóttur og sá að ég hefði átt að googla hann áður en ég byrjaði á bókinni og kannski breyta markmiðinu í að ég mætti sleppa 3 bókum. Einn gagnrýnandi sagði að plottið í lokin kæmi á óvart og hvatti lesendur til að klára bókina sem ég og gerði. Endirinn varð ekkert betri og ég ákvað að gefa bókinni eina stjörnu með umsögninni leiðinlegasta bók sem ég hef lesið. Næsta sem gerist er að ég fæ tilkynningu á Facebook að höfundurinn (sem ég þekki ekki og tengist mér ekkert) hafði gert like á video sem ég hafði sett inn fyrir löngu. Ég velti fyrir mér skilaboðunum. Hvers vegna setti hann like á mitt Facebook nokkrum mínútum eftir að ég setti inn umsögnina mína?. Voru þetta svona skilaboð, “ég veit hver þú ert og ég fylgist með mér”. Mér fannst þetta reyndar pínu fyndið en ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig og skella þessu hérna inn í bloggið mitt ef ég skyldi óvart hverfa, trix sem ég lærði af einni af sögupersónum í bókinni sem skildi eftir bréf ef aðalsögupersónan myndi óvart stúta henni. Eina sem ég þarf að krossa fingur með er að lögreglan sem verður sett í rannsókn málsins verði aðeins hæfari en þessi í bókinni.

Bæði Mannlíf og DV birtu frétt um deilur Þórarins og Jakobs út af þessum ritdómi.

Mannlíf sagði: Jakob Bjarnar sagður vera Ásdís. Hvað þýðir það? Hver er ég og erum við síamstvíburar? Hvernig tengjumst við Jakob? ég hef aldrei hitt hann en núna er hann sagður vera ég?. Kári Stef, getur þú kíkt á málið fyrir mig?. Getur Jakob verið ég, er hann búinn að yfirtaka mig? Síðasta setning í greininni er “Enn eru menn engu nær um það hver er að baki Ásdísi….”

Þarna líður mér frekar mikið eins og ég sé á FBI most wanted list. Ég er búin að horfa á rosalega mikið af glæpaþáttum og aðalkrimmarnir eru alltaf á FBI most wanted list og enginn veit hverjir þeir eru í raun og veru. Nennir einhvern að hnippa í Mannlíf og láta þá vita að ég sé búin að gefa mig fram.

Þegar ég las þessa setningu … “Enn eru menn engu nær hver er að baki Ásdísi…  gat ég ekki annað en dáðst að hinum rithöfundinum. Það tók hann ekki nema svona 5 mínútur að finna út úr því hver ég var þrátt fyrir að það væri engin forsíðumynd komin á Goodreads. Ég setti hana bara inn þannig að fólk myndi þekkja okkur Jakob í sundur. Ég skoðaði mynd af Jakobi og ég sé að við erum sláandi lík, bæði dökkhærð.

DV fann út úr þessu frekar hratt líka. Ritstjórinn sendi einfaldlega skilaboð á allar konur á Facebook sem heita Ásdís Valsdóttir og leysti gátuna.  

Við erum sem betur fer eins ólík og við erum mörg. Ég hef tekið eftir því í þessu lestrarátaki mínu að það eru ákveðnar bækur sem höfða meira til mín en aðrar og sumar bækur sem ég elska fá vonda dóma hjá öðrum. Enda væri lífið frekar litlaust ef við hefðum öll sama smekk.

Þórarinn Leifsson getur andað léttar yfir því að leynikonan og kuntan "Ásdís Valsdóttir" skrifi fleiri vonda dóma. Hann segir reyndar að hún sé að skrifa dóm um bækurnar hans sem er held ég örugglega fleirtala en ef þú skoðar aðganginn minn á Goodreads þá hef ég bara skrifað einn dóm um eina bók eftir Þórarinn Leifsson og þeir verða aldrei fleiri því eins og Þórarinn segir svo fallega: “A cunt is a cunt is a cunt” og þessi kunta hefur akkúrat engan áhuga á að lesa fleiri bækur eftir hann.

Hægt er að fylgj­ast með veg­ferð Ásdís­ar á In­sta­gram


Æskileg morgunrútína samkvæmt internetinu

Ég las pistil frá Röggu Nagla um daginn og varð steinhissa hvað hún þekkir mig vel. Ég meina, við höfum aldrei hist og ég held að hún viti ekki einu sinni hver ég er. En vá hvað hún þekkir mig vel. Ég ákvað að taka þessu sem hrósi og las pistilinn spjaldanna á milli. Mér leið samt pínu eins og það væri verið að njósna um mig, þvílík líkindi sem voru með pistlinum og mínu lífi. Þannig að ég ákvað að fara í samanburðarrannsóknir á þessum pistli og mínu lífi. Setti í bold frá Röggu og mitt svar kemur svo beint þarna undir.

“Rumskar í rólegheitum klukkan fimm núll núll við vekjaraklukku sem lýsir rýmið smám saman og fuglasöngur ómar í hárréttu desibeli úr hátalaranum”

Ég vakna klukkan fimm núll núll á virkum dögum við vekjaraklukkuna sem ég keypti hjá Nova. Elska hana því að hún er svo einföld og nóg að snúa henni við til að slökkva á henni. Veit ekki hvort að hún hefur Snús takka þar sem ég vel að vakna þegar klukkan hringir. Finnst Snús heimskulegt þar sem þú ert að eyða klukkutíma í að vakna ekki í staðinn fyrir að stilla klukkuna á þann tíma sem þú vilt vakna.

“Býrð um rúmið og hendir rúmteppinu sem var keypt í jógaferðinni til Indlands”

Ég bý um rúmið og set rúmteppið sem ég keypti í Epal á rúmið og 4 púða úr Ikea. Ég mun líklega aldrei eiga teppi frá Indlandi þar sem mig hefur aldrei langað til Indlands. Það er hins vegar á óskalistanum að fara í Yogaferð til Thailands eða Bali og þegar ég fer þá mun ég pottþétt kaupa rúmteppi úr lífrænni bómull sem er handofið í nálægu búddaklaustri og selt á lókal markaði. Á hverjum morgni mun ég hlakka til að búa um rúmið mitt þar sem þetta teppi mun vera stútfullt af minningum um frábæra ferð. Mér finnst amk svo góð tilfinning að sjá umbúið rúm þegar ég labba framhjá svefnherberginu mínu. Lætur mér finnast að ég hafi byrjað daginn á því að klára eitthvað og að herbergið taki vel á móti þegar ég fer að sofa.

“Skokkar glaðlega fram á baðherbergi”

Ég geng inn á baðherbergi. Það væri kjánalegt að skokka þangað þar sem það eru ekki nema 3 skref frá herberginu mínu fram á baðið og ég tel það auka hættuna á meiðslum að skokka áður en þú ert komin í gang. Eina skiptið sem ég skokka innanhús er þegar ég vakna á undan vekjaraklukkunni minni og gleymi að snúa henni við. Ég veit að ég yrði seint valin vinsælasta mamman ef ég færi út að skokka og krakkarnir myndu vakna við hana fimm núll núll á miðvikudegi. Ég sef reyndar út um helgar. Þá vakna ég yfirleitt ekki fyrr en sjö núll núll nema það hafi verið eitthvað teiti kvöldinu áður þá sef ég stundum til átta núll núll eða jafnvel níu núll núll. Ég þarf ekkert að sofa lengur þar sem ég fer yfirleitt heim ekki seinna en eitt núll núll. Það gerist yfirleitt ekkert markvert eftir eitt núll núll um helgar hvort sem er.Gallinn við að drekka ekki áfengi er að þolmörkin fyrir þeim sem innbyrða áfengi í miklu magni eru yfirleitt gufuð upp uppúr eitt núll núll.

“Stórt glas af ísköldu vatni með kreistri sítrónu”

Ég byrja alltaf daginn á 2 glösum af köldu vatni, drekk svo 2 glös eftir að ég kem inn af æfingu og áður en ég fæ mér morgunmat þá drekk ég eitt glas með vítamínunum. Ég toppa ég þetta með því að fá mér sítrónuvatn, kreisti hálfa sítrónu ofan í vatnsglas. Ég byrjaði alltaf daginn á sítrónuvatni en svo áttaði ég mig á því að það er ótrúlega gott að hita vatnið aðeins og taka lýsið með volgu sítrónuvatni í staðinn fyrir að drekka djús. Mæli eindregið með því. Ég drekk yfirleitt 3-4 l af vatni á dag og með morgunrútínunni er ég yfirleitt hálfnuð með vatnið. Algjör óþarfi að stressa sig á því að þetta sé hættulegt. Ég er ennþá á lífi. Mögulega kemur samt í ljós að þetta á eftir að drepa mig. Ég las það hjá vini mínum Google að ALLIR sem drekka vatn munu á einhverjum tímapunkti deyja. ALLIR.

“Bursta tennur með kókostannbursta og lífrænu plastlausu tannkremi”

Þetta var ágætis áminning að fara í Vistvera og kaupa betri tannbursta og tannkrem. Það tekur líklega jafnlangan tíma að bursta tennurnar með betri vörum og það er betra fyrir umhverfið. Ég er þekkt fyrir mikla tímastjórnun og þegar ég þarf að fara í sértækar verslanir þá kaupi ég yfirleitt slatta og þarf því ekki að fara nema 2var á ári til að fylla á lagerinn.

“Hysja uppum sig þrýstibrækur og henda mannbroddum utanyfir splunkunýja Brooks hlaupaskó og strappa höfuðljósið utan um flísfóðraða buffið”

Ég nota ekki þrýstibrækur en á frábærar hlaupabuxur frá NikeAir. Þær eru fullkomnar, nógu hlýjar á veturna og samt nógu kaldar fyrir sumarið. 2 stórir vasar á hliðunum fyrir síma og annað og svo vasi að aftan fyrir lyklana. Einnig eru þær með böndum þannig að þegar ég er extra mjó detta þær ekki niður um mig. Ég á ekki alltaf splunkunýja Brooks skó en þegar ég er nýbúin að kaupa þá þá jú á ég splunkunýja skó. Ég nota alltaf Brooks hlaupaskó á malbiki þar sem þetta eru einu skórnir sem ég fæ ekki beinhimnubólgu af og styðja samt vel við iljarnar á mér. Ég þarf ekki að nota höfuðljós því að þó að ég hlaupi snemma á morgnana þá er ég með upplýstan hlaupastíg sem er fullkominn. Ég á ekki flísfóðrað buff, verður of kalt með buff en ég á fína húfu.

Þegar ég las þessa setningu “mannbrodda utanyfir hlaupaskó” rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Hvenær var þessi pistill skrifaður? Ætli það sé ennþá leyfilegt að vera á nagladekkjum á þessum árstíma eða yrði hlauparinn gripinn af Gísla Marteini á Ægissíðunni og tilkynntur til lögreglu? Ég þarf sem betur fer ekkert að hafa áhyggjur af því þar sem ég bý í Kópavogi og það má vera á nöglum í snjó. Hlaupaskórnir mínir hafa ákveðinn líftíma. Ég kaupi mér yfirleitt nýja utanvegaskó að vori og stundum duga þeir í 2 ár. Ég nota þá bæði í utanvegahlaup sem og fjallgöngur. Þegar botninn er farinn að grípa illa fer ég með þá í “Eins og Fætur Toga” og læt negla þá. Það er svo mikið snilld að eiga neglda hlaupaskó. Virkar jafnvel og broddar en miklu léttari og þægilegri.

“Út að skokka í hálftíma”

Eftir að ég fékk Covid hef ég þurft að breyta öllum æfingunum mínum og fór aftur til fortíðar. Ég þurfti að fara 3 ár aftur í tímann og bæði fækka æfingum sem og stytta þær og minnka álagið. Núna er rútínan þessi. Dagur 1 sund, dagur 2 hjól, dagur 3, hlaup og svo endurtekið út mánuðinn. Ég tók út lyftingar, ég tók út Yoga þar sem það var of mikið að taka 2 æfingar á dag. Mér finnst ég loksins vera komin á ágætisról og næ að lengja æfingarnar örlítið á hverjum degi. 

Ég er ennþá að æfa fyrir hálfan járnkarl en ég er ekkert að stressa mig á þessu. Annað hvort get ég hann eða ekki. Ef ég get hann ekki þá er framundan 10 daga stelpufrí á Ítalíu og ég get litið á ferðina sem undirbúning fyrir næsta járnkarl sem ég fer þá í eftir ár.Löngu hætt að stressa mig á svona smámunum eins og hvort að ég geti klárað eitthvað sem ég ætlaði að gera. Ef þetta er ekki rétti tíminn þá kemur hann bara síðar. Í júlí ætla ég að bæta við YogaTeygjum og einni fjallgöngu á viku og fara að taka göngur eftir hjólið til að venja líkamann við að hreyfa sig eftir hjól. Í ágúst ætla ég svo að bæta við dansappi þar sem dans er einfaldlega skemmtilegasta hreyfingin sem ég veit um.

“Taka ískalda sturtu eftir skokkið”

Tek ekki kalda sturtu en er búin að setja á listann að fara á Kælinámskeið hjá Andra í haust eftir að ég klára járnkarlinn og þá reikna ég með að kaldar sturtur verði hluti af mínum lífstíl. Ég fer hins vegar alltaf í kalda pottinn eftir sund og er komin í 2 mínútur með það að markmiði að geta setið í 10 mínútur í kalda pottinum. Fín æfing fyrir Kælinámskeiðið. Ég hitti konu í kalda pottinum. Við tókum upp spjall. Henni svelgist aðeins á þessu plani mínu. “10 mínútur er alls ekki hollt. Nú sagði ég, hvers vegna er það. Það er bara of mikið. Of mikið hvernig. Hún hafði heyrt um eina konu sem fékk held ég bara hjartaáfall við það að vera of lengi í kalda pottinum, nú sagði ég, var hún eitthvað veik fyrir. Nei alls ekki, fór reglulega í sund”. Jújú það er fullkominn mælikvarði á heilbrigði að fara reglulega í sund. Ég elska að heyra þessar sögur. Sögur af alheilbrigðu fólki sem dó þegar það fór út að hlaupa eða hjóla eða guð má vita hvað. Það var enginn sem hafði áhyggjur af því þegar ég var 95 kg. sófakartafla með óheilbrigðan lífstíl. Það kom enginn og sagði mér sögur af fólki sem var óheilbrigt og dó. Hins vegar þegar ég fer yfir strikið í hreyfingu eða einhverju sem öðrum finnst klikkað þá eru þessar sögur alltaf dregnar upp. Einu sinni heyrði ég sömu söguna þrisvar sinnum í sömu vikunni af manninum sem fór út að hlaupa og dó. Ég velti því stundum fyrir mér hver tilgangurinn sé með þessum sögum. Mér er samt alveg sama. Aðrir mega hafa allar þær skoðanir sem þeir vilja. Það er þeirra réttur. Ef þú ert hins vegar sérfræðingur í kulda og köldum pottum og getur komið með einhverja vísindalega sönnun þá hlusta ég sannarlega á þig. Þangað til brosi ég bara og segi: “mér er alveg sama” svo fór ég heim og googlaði þetta og Google segir að allt að 15 mínútur sé í fínu lagi.

“Smyrja handarkrikana með matarsóda og kókosolíu”

Hef ekki séð neina þörf á þessu, ég nota ekki einu sinni svitarolló.

“Löðra skrokkinn með möndluolíu”

Ég set oft góða olíu á mig beint eftir sturtu og þurrka hana svo af mér. Ég verð svakalega mjúk og fín eftir það og þetta tekur ekki nema eina mínútu. Ég keypti góða Avocado olíu í Krónunni sem kostar ekki mikið og er ekki í gleri. Mæli eindregið með því að prófa.

“Sötra sellerídjús macha dufti, hörfræjum, spírúlína, hveitigrasi og haframjólk úr nýja NutriNinja blandaranum”

Eitt af því fáa sem ég get ekki borðað er Sellerý. Finnst það eins og mold á bragðið. Ég fæ mér aldrei djús á morgnana. Ég byrja mína morgna annað hvort með góðri ommlettu eða Chiagraut. Ég æfi mikið og þarf að borða mikið. Ein stærstu mistök sem fólk gerir varðandi heilsuna er að borða of lítið. Eitt af því sem ég lærði í Clean hjá Greenfit var að drekka ekki ávextina mína heldur borða þá. Djúsar eru ekkert endilega hollir. Svo er líka spurning hvað þú borðar allan daginn. Ef þú byrjar daginn á því að fá þér sellerídjús og færð þér svo pylsu og kók í hádeginu og Pizzu um kvöldið er það þá sniðugt? Mín leið til að vera í lagi er að vera með ákveðið mataræði. Ég finn gífurlegan mun á bæði andlegri og líkamlegri heilsu ef ég vanda matarvalið. Það lærði ég hjá Greenfit og allar mælingar sýna það.

“Jógadýnan handofin úr örtrefjum af munkum í Nepal lögð á parketlagt gólfið”

Jógadýnan er keypt á Íslandi enda hef ég ekki ennþá farið til Nepal en ég er sannfærð um að þegar ég fer til Nepal þá mun ég kaupa mér eina handofna frá munkum. Á mínum bucketlista er að fara í klaustur í viku og stunda jóga, íhugun og þagnarbindindi. Það yrði líklega stærsta áskorunin sem ég get tekið, sleppa símanum og þegja í viku. Ef þú veist um gott klaustur máttu endilega senda á mig skilaboð.

“Kveikja í reykelsi og brenna myrru”

Ég þoli ekki reykelsi eða myrru þannig að það er no no

“Hugleiða í hálftíma”

Ég hugleiði ekki mikið. Mín hugleiðsla er yfirleitt fólgin í því að fara út að ganga eða hlaupa rólega og hlusta á gott Podcast nú eða prjóna. Það er frábær hugleiðsla fólgin í því að prjóna.

“Leggjast á nýju náladýnuna úr Eirberg”

Ég elska náladýnuna frá Eirberg. Nota hana reyndar ekki oft, bara þegar ég fer í nudd þar sem nuddarinn á svona dýnu og ég get vottað að hún losar ótrúlega mikið um allt saman.

“Öndunaræfingar eftir formúlu frá frægum hollenskum gúrú”

Þegar ég byrjaði að æfa hlaup hjá Greenfit þá var það fyrsta sem ég þurfti að bæta var öndun. Með því að nota neföndun þá bætti ég heilsuna á allan hátt. Ég sef betur, ég hleyp betur og mér líður betur. Neföndun er allra meina bót og ég mæli eindregið með því að kynna sér það. Fullt af góðum hljóðbókum um málið og einnig hægt að googla æfingar. Eftir síðasta test hjá Greenfit sendi Már mér nokkrar öndunaræfingar til að iðka. Þær eru reyndar ennþá á bucketlistanum, sorry Már en ég get bara gert fáar breytingar í einu.

“Hreyfiteygjur í lokin”

Hreyfiteygjur eru nauðsynlegur hluti af mínu lífi. Ég fann að þegar ég var farin að teygja reglulega varð nuddið ekki svona vont. Ég fór í hjólaferð til Spánar um daginn og nuddarinn var heilsunuddari sem var nýbúin að nudda danska hjólaliðið. Hún gaf mér toppeinkunn í liðleika og hreyfileika og sagði að ég væri með húð eins og þrítug kona. Ég er 53 ára og elsti sonur minn er 26 ára. Mér fannst þetta vera ansi góð meðmæli með mínum lífstíl.

“Skrifa þrjá hluti sem gefa lífinu gildi í þakklætisdagbókina”

Ég skrifa ekki þakkardagbók. Hins vegar er það síðasta sem ég geri áður en ég sofna er að þakka fyrir það sem var jákvætt í dag. Ég áttaði mig á því að ég sef miklu betur þegar ég er þakklát en þegar ég er stressuð og fylli hausinn á mér með neikvæðum hugsunum.

“Vekja síðan börnin blíðlega með kossi svo þau fari ekki í streituástand”

Börnin mín eru 13, 20 og 26. Strákarnir myndu líklega fara í streituástand ef ég færi inn til þeirra og vekti þá með kossi. Hins vegar tók ég eftir gífurlegum mun á krökkunum þegar þau voru minni hvort að ég vakti þau með VILJIÐI KOMA YKKUR Á FÆTUR eða færi inn til þeirra, vekti þau rólega með kossi og knúsi og byrjaði daginn vel (ég var mun meira í fyrri pakkanum og skildi ekkert í því hvað börnin voru öfugsnúin á morgnana). Mæli með að prófa seinni aðferðina og sjá hverju hún skilar.

“Öll fjölskyldan borðar hafragraut úr glúteinlausum höfrum, heimagerðri kasjúhnetumjólk, með kanil frá Sri Lanka, lífrænum eplum og chiafræjum”

Þegar krakkarnir voru yngri þá var hefðbundinn morgunmatur hjá þeim hafragrautur með eplum, kanil og rúsínum. Ég er nýhætt að kaupa vörur frá MS og þessi yngsta er alveg til í að nota haframjólk í staðinn. Ég sá einmitt að það er komin vél til að búa til sína eigins möndlumjólk og er gífurlega spennt að prófa hana.

“Engir símar við matarborðið”

Við borðum á mjög mismunandi tímum þannig að þessi regla hefur ekki alveg gengið upp.Ég nota yfirleitt síma við morgunverðarborðið en er alltaf á leiðinni að bæta mig. Það er bara drepleiðinlegt að sitja ein við morgunverðarborðið og tala við sjálfa sig.Samt var ég að lesa að við hefðum gott að því að láta okkur leiðast þannig að kannski ætti ég að henda þessu á Bucketlistann, sef á þessu.

“Nestið fyrir börnin tilbúið. Heimabakað rúgbrauð með avocado og harðsoðnu eggi pakkað í endurnýtanlegan vaxpappír”

Mín vill helst ávexti og grænmeti í nesti. Ég set það í nestisbox þar sem það er hægt að nota það aftur og aftur.

“Gengur frá leirtauinu í uppþvottavélina, þurrkar af borðinu, því það er svo gott að koma heim eftir vinnu í hreint eldhús”

Guð minn góður já, var það sem ég hugsaði þarna. Það er dásamlegt að koma heim í hreint eldhús.

“Villtur lax og brokkolí í kvöld”

Lax og brokkóli er frábær kvöldmatur

Svo kom seinni hlutinn og ég hreinlega tengdi ekki við neitt í honum. Ég veit alltaf hvar bíllyklarnir mínir eru, þeir eru í skúffunni. Ég set upp matseðil fyrir vikuna og við verslum inn samkvæmt innkaupalista. Ég klára meira að segja vinnudaginn með því að setja upp planið fyrir morgundaginn. Æfingarnar mínar eru líka í plani. Síðast þegar ég átti ekki hreinar nærbuxur var 1990 þegar ég og Rebekka vinkona mín fórum í sex mánaða bakpokaferðalag um Suður Ameríku og þvottaaðstaða var ekki á hverju strái. Reyndar er oft hægt að bjarga sér eins og í góðri á eða læk.

Ég fór út að ganga og hlustaði á Podcast með Tim Grover og Tom Ferry. Tim Grover er algjör snillingur. Ég hitti hann fyrst á ráðstefnu 2018. Hann hefur þjálfað gífurlega mikið af topp íþróttamönnum og ég tengi ansi vel við það sem hann hefur að segja. Mitt tengslanet samanstendur af fólki sem segir einfaldlega: “þú uppskerð eins og þú sáir. Þú getur orðið allt sem þú vilt ef þú einfaldlega leggur inn vinnuna”.  Ég veit hvað ég vil. Ég vil vera heilbrigð og hamingjusöm manneskja. Ég vil eiga gott samband við krakkana mína og mína nánustu. Ég vil ná mínum markmiðum hvort sem það er í vinnu eða einkalífi og ég vil eldast vel og geta gengið á Esjuna þegar ég verð áttræð. Ég næ ekki þeim markmiðum með því að snúsa vekjaraklukkuna mína eða fylgja planinu stundum. Ég þarf að fylgja því alltaf. Michael Jordan varð ekki bestur með því að mæta stundum á æfingar og gera lágmarkið. Hann varð bestur af því að hann ögraði sér og gerði meira en hann þurfti.

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 


Læknar líkamann með mataræði

Ég fór í mælingu hjá Greenfit um daginn. Svosum ekkert merkilegt, ég fer í mælingu hjá þeim á ca 6 mánaða fresti og þér að segja þá er líklega enginn viðskiptavinur hjá Greenfit sem hefur farið í jafnmargar blóðprufur og ég. Þarna sé ég að einhverjum svelgist á kaffinu. Æi þetta er svo dæmigerð Ásdís, þú ert svo manísk og ferð svo yfir strikið. Það þarf enginn að fara í mælingar hjá Greenfit á 6 mánaða fresti, ENGINN SEGI ÉG, eitthvað kostar það nú.

Ég er búin að vera á mínu lífstílsbreytingarferli í tæp 5 ár. Ég á 5 ára afmæli í ágúst. Það sem ég er búin að læra er að ég á einn líkama og það er enginn varalíkami. Þetta er lífið ekki tölvuleikur þar sem ég get gert reset all ef heilsan bilar. Það er ekkert RESET ALL í lífinu því miður. Þegar ég var í mínum yoyo lífstíl þá átti ég 3-4 stærðir af fötum inn í skáp. Fötin sem ég passaði í. AðeinsOfStóruÖryggisfötin mín til að nota þegar ég kem úr fríum og eftir jól og páska. Í fríum fannst mér tilvalið að tríta mig allan tímann því ég er jú í fríi og þá á að tríta sig. 3ja vikna frí á Spáni var skólabókardæmi um svona smá trít. Fötin sem voru í það þrengsta á mig sem ég var alveg að fara að passa í og svo fötin sem ég ætla pottþétt að komast í þegar allt gengur upp og lífið verður dásamlegt. Það kostar slatta að eiga 4 stærðir af fötum og það kostar líka helling að fara úr einni fatastærð í aðra, hvort sem það þarf að kaupa stærri eða minni föt. Síðustu 2 ár hef ég verið í jafnvægi. Ég er í sömu fatastærð og get leyft mér að kaupa mér nákvæmlega það sem mig langar í, ekki það sem ég passa í heldur það sem mig langar í og ég þarf miklu minna af fötum þar sem það er bara ein stærð af fötum í skápnum mínum. Það er gífurlegt frelsi sem fylgir því að vita að þú passar í fötin þín þó að þú skreppir til Spánar í 3 vikur (reyndar fer ég ekki í svona löng frí til Spánar lengur. Nenni ekki lengur að liggja á sólarbekk og tana í 3 vikur).

Eilífðarábyrð á bílnum

Þegar ég var 17 ára þá keypti ég mér bíl, glænýr úr kassanum. Gaurinn í umboðinu sagði: “Þetta er frábær bíll. Það þarf ekkert að hugsa um hann. Þú þarft aldrei að fara með hann í skoðun. Þú þarft aldrei að láta laga neitt og þú getur sett hvaða eldsneyti sem er á hann, bensín, dísel, metan eða jafnvel flugvélabensín, skiptir engu. Þessi bíll þolir allt. Eilífðarábyrg á honum og hann mun aldrei bila”. Hljómar þetta of gott til að vera satt. Það er hárrétt enda er þetta lygasaga frá upphafi til enda. Hins vegar kom ég fram við minn líkama í 48 ár eins og hann væri ódrepandi og myndi aldrei bila. Spáði voðalega lítið í því hvaða næringu ég setti ofan í hann og hvaða áreiti væri í gangi. Fannst samt allt ótrúlega ósanngjarnt ef líkami minn brást við næringu og hreyfingaleysi á annan hátt en ég vildi.

Verðskulda ég minni þjónustu en bíllinn minn?

Ég er á 4ra ára gömlum bíl. Ég er ekki mikil áhugamanneskja um bíla. Ég prófaði einu sinni að keyra Porsche jeppling. Ég fann ekki mikinn mun á mínum bíl og fína Porsche jepplingnum. Mögulega vantar bílagenið í mig. Þetta er 3ji bíllinn síðan 2004. Mér finnst að bílar þurfi að virka og keyra milli A-B áfallalaust. Hann þurfti að fara í þjónustuskoðun í vetur og það var kominn tími á eitthvað bremsudæmi þannig að það var lagað. Reikningurinn með þjónustuskoðun var í kringum 160.000. Stuttu seinna þurfti ég ný vetrardekk. Þar fauk annar 160.000 kall, svo þarf að smyrja hann reglulega og sitt lítið að hverju sem fellur til. Samt dettur engum í hug að spara sér þennan pening og keyra um á ósmurðum bíl með ónýtum vetrardekkjum og biluðum bremsum. Það gæti orðið vesen í vetur á leiðinni upp í Bláfjöll þegar það er glerhált á leiðinni, dekkin slitin og bremsurnar virka ekki. Ég þarf ekki að eiga bíl. Ég get tekið strætó, ég get tekið leigubíl en ég get ekki keypt annan líkama. Ef ég fer ekki með bílinn í þjónustuskoðanir þá fellur hann úr ábyrgð. Það er engin krafa um að ég fari í neina þjónustuskoðun. Samt hafa þessar 7 þjónustuskoðanir hjá Greenfit kostað minna en ég hef þurft að eyða í bílinn á einu ári. Kostnaður sem annars vegar er flokkaður undir nauðsyn en hins vegar lúxus og jafnvel eyðslusemi. Hvers vegna ætli það sé?

 

Fullkomið jafnvægi

Ég keyrði á vegg í fyrra, varð alveg orkulaus og brjálæðislega úrill. Eftir nokkra mánuði af því að reyna að finna út úr þessu skellti ég mér til læknis sem var fljótur að greina vandamálið. Frúin var komin á bullandi breytingarskeið. Hann vildi ekki setja mig á hormóna þar sem kólesterólið var svo hátt þannig að ég “neyddist” til að grípa til þeirra verkfæra sem Greenfit hafði kennt mér. Þegar ég byrjaði hjá Greenfit voru mín innri gildi í algjöru tjóni og ég tók 4ja mánaða Clean mataræði og svindlaði EKKERT. Ég var í fullkomnu jafnvægi bæði andlega og líkamlega. Ég svaf eins og engill og kolesterólið lækkaði úr 8.2 í 6.7 á 4 mánuðum. Þetta var því auðleyst. Ég þarf einfaldlega að lifa svona út lífið. Þann 13.maí 2021 ákvað ég að hætta að borða sykur út lífið.

Úps I did it again, söng Britney fyrir langa löngu. Já sko þann 13.maí 2021 hætti ég ekkert að borða sykur. Ég tók þessa ákvörðun en ég stóð ekki við hana. Ég og sykur erum í svona love-hate relationship. Ég elska að hata hann. Þetta gengur samt alltaf betur og betur og ég tek lengri og lengri tímabil þar sem ég er án sykurs. Ég hef komist að því að ég er best þegar ég sleppi sykri, hveiti, mjólkurvörur og geri. OMG Ásdís hvað borðar þú eiginlega þá, allt hitt. Ég borða t.d. ávexti, ABBBABBBABB segir þá góða fólkið. Ásdís þú veist að það sykur í ávöxtum. Ég drekk ekki gos en ég drekk Kristal, ABBBABBBABB segir þá góða fólkið, Sódavatn er líka gos. Það er allt í lagi. Góða fólkið má hafa alla þá skoðun sem það vill. Þetta snýst ekki um að fara eftir öllum þeim reglum og boðum og bönnum sem til eru. Þetta snýst um að finna mitt jafnvægi og ávextir í hófi eru aldrei að fara að valda mér sama tjóni og Pizza, kók og Snickers með smá snakki.

Svo ég geri orð Bon Jovi að mínum... It’s my life

It's my life
It's now or never
I ain't gonna live forever
I just want to live while I'm alive

PacMan mætir á svæðið

Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég ráðleggingu að til að ná ákveðnum árangri þá þyrfti ég að bæta kolvetnum við mataræðið. Ég ákvað að setja inn hrísgrjón og pasta. Á 3ja degi breyttist ég í PacMan og ryksugaði eldhúsið. Fyrst fékk ég mér eina kleinu og svo aðra. Fann múffu með sykurkremi sem ég gúffaði í mig með ískaldri mjólk og svo 1 hrískaka með súkkulaði og svo smá súkkulaði og svo döðlukaka og svo ís og niðursoðnir ávextir í eftirrétt og ekkert salat í kvöldmat. Daginn eftir þegar ég vaknaði með heilaþoku dauðans, þrútna liði, hálsbólgu og orkuleysi mundi ég hvers vegna ég forðast ákveðin kolvetni (s.s. hrísgrjón og pasta). Þetta var ekki ráðlegging frá Greenfit að bæta við kolvetnum og eftir þessa tilraun ákvað ég að það væri einfaldara að fylgja bara einum herra í mataræðinu.

Covid recovery

Ég fékk “loksins” Covid í lok janúar. Eins og með mælingar hjá Greenfit var ég mjög dugleg að láta kanna með Covid. Þríeykið talaði alltaf um að fara í test ef þú finndir fyrir einkennum og ég fann alltaf fyrir einkennum eftir sykur- og/eða hveitiát. Ég fann ekkert fyrir Covid en langtímaáhrifin urðu ansi hressileg. Núna er ég búin að vera í 4ra mánaða Covid Recovery. Ég er með gífurlega háan æfingapúls og hef nokkrum sinnum fallið í þá gryfju að halda að ég sé orðin góð og farið á fullt bara til að þurfa að leggja mig eftir æfingu og sleppa æfingu daginn eftir. Þegar ég sá að vinkona mín var með sama álagspúls eftir 3ja tíma 21 km PuffinRun og ég eftir 5 km á jafnsléttu sá ég að það þýddi ekkert að þrjóskast við þetta heldur fór 3 ár aftur í tímann og byrjaði upp á nýtt. Ég ræddi þetta við Má hjá Greenfit. Hann sagði mér að þau hefðu verið að koma af ráðstefnu um langtíma áhrif Covid og það væri komið í ljós að konur sem hefðu verið í mjög góðu formi fyrir Covid væru í meira mæli að glíma við langtíma áhrif en aðrir. Auðvitað var ég svo heppin að draga stutta stráið þarna. Ég ræddi við hann um járnkarlinn sem ég er skráð í í september. Við fórum yfir síðasta álagspróf. Það voru margir mjög jákvæðir þættir þarna.

Best í fitubrennslu

Ég er rosalega góð að brenna fitu. Hlutfall minna efnaskipta í hvíld er 81% fita og 19% kolvetni. Og ég er vel yfir meðaltali í efnaskiptahraða samanborið við aðra á sambærilegum aldri, hæð og þyngd og ég. Það stendur meira að segja að heilsa efnaskipta minna er mjög góð. Við skoðuðum síðasta hlaupaprófið sem ég tók hjá þeim. Það var líklega rólegasta prófið sem ég hef tekið þar sem ég þorði ekki að keyra mig út af ótta við að ég myndi þá vera orkulaus daginn eftir. Það er skrýtinn staður að vera á og stundum erfitt fyrir hausinn að minna sig stöðugt á að fara ekki of hratt, jafnvel þó að þér líði mjög vel á æfingunni þá er yfirleitt gjald að greiða eftir æfinguna. Samkvæmt síðasta hlaupaprófi þá er ég með frábæra fitubrennslu, svo góða að ég gæti næstum því tekið hálfan járnkarl án þess að næra mig, myndi bara fórna litlu fitubollunum mínum á altari járnkarlsins. Már benti á að ég væri mjög gott grunnform og ég ætti að fókusa á zone2 æfingar fram að járnkarli og reyna frekar að taka langar göngur um helgar frekar en harðar sprettæfingar.  Mér finnst þetta ágætisplan og stefni ennþá á hálfan járnkarl.

Það er bara ein spurning sem ég er með í sambandi við þessa fitubrennslu. Mér finnst alveg vanta að það sé hægt að stjórna henni. Ég er t.d. með fullt af svæðum sem fitubrennslan virðist sleppa, s.s. maginn, innri lærin og mjaðmir á meðan fitubrennslan virðist fókusa helst á rass og brjóst. Halló, það þarf ekkert að brenna meira af þeim svæðum. Þau eru lokuð fyrir frekari brennslu. Ég mæli með að Greenfit finni leiðina til að beisla þessa fitubrennslu frekar og gera hana svæðisbundna.

Innri gildin að batna

Ég byrjaði hjá Greenfit eftir að hafa fengið rauða spjaldið í heilsunni. Ég var komin með gífurlega hátt kólesteról og blóðsykur, svo hátt að heimilislæknirinn minn vildi setja mig á lyf. Ég er svo lítið fyrir lyf og langaði ekkert að fara á þau, þannig að þegar Lukka hjá Greenfit sagði mér frá Clean mataræðinu ákvað ég að ég hefði engu að tapa og allt að græða. Stutta útgáfa var að ég missti 11 kíló á 4 mánuðum (fann nokkur aftur sem söknuðu mín mikið) og öll innri gildin snarbötnuðu. Þau bötnuðu svo mikið að læknirinn mælti með því að ég myndi bara halda áfram á þessari braut í staðinn fyrir að smella mér á lyf. Fannst nú að heilbrigðiskerfið hefði átt að gefa mér einhver verðlaun fyrir stórfelldan sparnað í lyfjakaupum.

Við Lukka fórum fyrir síðustu skýrsluna mína. Hún benti á að langtímaheilsan mín væri alltaf að batna en það væri augljóst á sýnunum hvernig ég er ströng í mataræðinu og hvenær ekki. Ég er búin að fara í 7 próf (stundum fer ég oftar en á 6 mánaða fresti ég þegar mig langar að sjá hvort að það sem ég er að gera sé að skila árangri).  Blóðsykurinn minn er lægri en hann var í ágúst 2021 en hærri þegar ég var alveg Clean. Sama gildir um Kólesterólið. Það var við hættumörk þegar ég byrjaði en núna er það bara mjög hátt. Hins vegar er góða Kólesterólið búið að lagast það mikið að það er farið úr gulum í grænan og er til fyrirmyndar. Lifrin er í toppstandi og sama á við um D vítamín birgðirnar mínar. Hvítu blóðkornin skora til fyrirmyndar og bólgur í líkamanum hafa snarminnkað og komið úr hættumörkum í aðeins of hátt.  Þetta er ekkert flókið eina sem ég þarf að gera er að borða Clean og þá er líkaminn í lagi.

Sykurpúkinn minn og þinn

Ég er með innri sykurpúka sem á stundum bágt. Ég finn samt að ég á alltaf auðveldar og auðveldar að hunsa vælið í honum og í raun það eina sem ég þarf að gera er að leyfa mér ekki smá. Smá verður alltaf meira hjá mér. Gamla ég fékk sér alltaf trít. Ég fór kannski út að ganga og var ótrúlega dugleg, gekk alveg 2 km og fannst þá tilvalið að verðlauna mig með súkkulaðisnúð og kókómjólk. Þú færð jú kraft úr kókómjólk. Ég velti því stundum fyrir mér hvað er að fá sér smá trít. Er það virkilega smá trít að gúffa í sig nammi og snakki. Bætir það eitthvað lífsgæðin? Er það trít að setja dísel á bensínbíl?

Ég las á dögunum að Helgi í Góu framleiði 100 tonn af nammi á mánuði og mest fyrir innanlandsmarkað. 100 tonn er ótrúlega stór tala. Þetta er bara Góa, svo eru allir hinir framleiðendurnir eftir og kexið, kökurnar, eftirréttirnir, sykruðu drykkirnir, mjólkurvörurnar og snakkið. Ég velti því stundum fyrir mér ætli sá tími komi að framtíðarkynslóðum finnist jafn fáranlegt að geta keypt nammi í búðum eins og að hafa getað keypt sígarettur í búðum. Ég drekk ekki áfengi en ég spyr mig stundum hvort að allur þessi sykur sé minna skaðlegur heildinni en áfengið sem má ekki selja í búðum?

Cleanlife.is

Ég og Axel Valur sonur minn höldum úti uppskriftarvefnum Cleanlife.is þar sem við setjum inn einfaldar uppskriftir sem eru sykur-hveiti og mjólkurlausar. Ég set inn mikið af okkar efni en einnig ef ég prófa girnilegar uppskriftir þá set ég þær inn líka. Ég setti reyndar inn 2 um daginn sem pössuðu ekki við það en krökkunum fannst þetta svo gott að ég vildi geyma þær uppskriftir á vísum stað.

Ef þú ert að glíma við sykurpúkann eða vilt bara laga aðeins til þá mæli ég alltaf með því að byrja á því að heyra í Greenfit. Þau eru með frábær Clean námskeið þar sem þú getur lært tökin og núllstillt þig. Án þeirra væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag og gæti ekki núllstillt mig sjálf. Þú hefur engu að tapa nema kannski verri heilsu og það er jú mikils virði.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Orkuleysi eftir Covid

Ég fékk „loksins“ Covid í lok janúar. Greindist jákvæð þann 28.janúar. Veikindin urðu ekkert mál. Ég fékk hósta í einn dag eða svo og var slæm í hálsinum en engin önnur einkenni. Ég var ekkert smá fegin að sleppa svona vel frá þessu. Hálssærindin voru svipuð og ég fæ þegar ég borða mikinn sykur og vakna með hálsbólgu daginn eftir enda fór ég örugglega í 10 neikvæð Covid test vegna einkenna sem mátti reka til mataræðis. Ég hefði í raun ekki farið nema afþví að kærastinn greindist með Covid og ég fékk eins hósta og hann. Annars hefði ég verið algjörlega ómeðvituð um þessi veikindi.

Á 3ja degi var ég svo hress að ég ákvað að fara út að hlaupa. Þetta er stuttur hringur og þægilegur. Ég fór 3.84 km á rólegum hraða og leið mjög vel allan tímann. Svo kom ég heim og varð eitthvað skrýtin. Það var mjög mikil þreyta í lærunum. Það voru ekki strengir heldur meira svona vöðvarverkir eða hreinlega eins og þau væru stútfull af mjólkursýru eftir mikið álag. Hmm. Mikið álag, búin að vera heima í 3 daga og þetta var fyrsta alvöru hreyfingin.  Það tók mig sólarhring að ná mér góðri.

Ömurlegt að eiga afmæli í einangrun

Þeir sem þekkja mig vel vita að ég elska að eiga afmæli og það eru ákveðnar hefðir sem má ekki brjóta. Ein er að afmælisbarnið er alltaf vakið með söng, köku með kerti og pakka. Þegar afmælisbarnið er í einangrun er það víst ekki hægt. Það er ekki heldur hægt að fara út að borða með kæró eða vinkonum. Þetta er svokallað fyrstaheimslúxusvandamál. Að sögn annarra fjölskyldumeðlima greindist ekki vottur af jákvæðni í frúnni þennan dag.

Einangrunarfreslsishlaup

Ég var laus úr einangrun daginn eftir (talandi um lélega tímasetningu, hefði betur farið í test deginum áður 😊) og fagnaði því með 5.41 km rólegu hlaupi. Sá ekki ástæðu til að hvíla mig lengur enda algjörlega einkennalaus allan tímann og leið mjög vel yfir utan fýlukastið á afmælisdeginum. Hlaupið gekk ágætlega en púslinn rauk alltaf upp við minnsta álag. Ég skoðaði púlsinn þegar ég kom heim. Meðalpúlsinn var 157 slög og hámarkspúlsinn var 178 slög eða eins og í góðum sprettæfingum. Ég bar saman hlaup fyrir og eftir Covid og það var gífurlegur munur á púls. Þann 26. janúar tók ég sprettæfingar. Þá var meðalpúlsinn 137 slög og hámarkspúlsinn 172 slög. 27. janúar (daginn áður en ég greinist) þá tók ég 9.17 km hlaup og þá var meðalpúlsinn 139 slög og hámarkspúlsinn 154 slög.

Mjólkursýra, úthaldsleysi og púls á yfirsnúning

Ég tók nokkrar léttar hlaupaæfingar en það var alltaf sama staðan. Ég var ótrúlega lengi að jafna mig eftir hlaupin. Líkaminn var einfaldlega stútfullur af mjólkursýru og hlaupin urðu alltaf að hlabbi. Ég hljóp smá, púlsinn fór yfir maxið og ég gekk rólega til að ná honum niður. Stundum gat ég hlaupið milli 2ja ljósastaura áður en púlsinn rauk upp.

Sama gilti á hjólaæfingum. Hjóladeildin skoðaði þetta þar sem ansi margir voru að greinast með Covid á sama tíma og mjólkursýrumyndun var algengt einkenni eftir Covid. Besta leiðin til að ná sér væru rólegar zone1-zone2 æfingar í nokkrar vikur á eftir. Stóra spurningin er hvað þýðir nokkrar vikur. Eftir fjórar vikur var ég á sama stað og eftir Covid þannig að ég átti eiginlega bara 2 kosti. Hætta að pæla í þessu og eyðileggja á mér skrokkinn eða fara aftur til baka þegar ég var að byrja og hreinlega byrja upp á nýtt. Ég ákvað að velja seinni kostinn.

Að velja og hafna

Það er ansi erfitt að fara aftur til baka. Það er erfitt að sætta sig við að formið sem þú varst komin í er farið og hunsa þessa litlu rödd í hausnum sem segir. „Hvað ef Ásdís, hvað ef formið kemur aldrei aftur til baka? Hvað ef þú verður aldrei góð aftur? Hvað ef þú ert bara ekkert betri en þetta? Hvers vegna er þú miklu lengur að jafna þig en margir aðrir?.“

Kærastinn varð veikari en ég en hann varð líka miklu sprækari strax aftur. Ég hélt áfram að vera slæm í hálsinum (það er svæði sem ég er viðkvæm fyrir og sérstaklega fer sykur beint í hann) og ég ákvað að sleppa gönguskíðunum. Tilhugsunin um að fara upp í Bláfjöll í skítakulda, orkulaus, þreytt og kalt var engan veginn að heilla. Ég þakkaði fyrir að vinna heima og ég gat náð að leggja mig eftir hádegi. Ég breyttist í spánverja og tók siesta seinni partinn.  Ég ákvað að minnka æfingaálagið og tók út einkaþjálfun og setti inn heimateygjur og yoga í staðinn. Það reyndist vera mjög skynsamleg ákvörðun. Bakmeiðsli tóku sig upp aftur. Ég hafði fengið hnykk á bakið í haust og var orðin mjög góð eftir nudd og sjúkraþjálfun þegar það fór í sama farið aftur. Ég ræddi þetta við sjúkraþjálfarann sem sagði að veiran leitaði í veiku svæðin.

Lífið breytir alltaf þínum plönum

Ég set alltaf upp fullt af spennandi markmiðum og plönum fyrir hvert ár. Síðustu ár hafa þau flest verið tengd hreyfingu og keppnum. 2022 átti að verða BRJÓTUMGLERÞAKIÐMITT. Ég skráði mig í Meistaraæfingar hjá Einari Ólafs gönguskíðasnillingi og skráði mig í Fjarðagönguna, Strandagönguna og Fossavatnsgönguna.

Ég hélt áfram í hlaupahópnum hjá Greenfit og skráði mig í Kaupmannamaraþonið og svo skráði ég mig í hálfan járnkarl á Ítalíu af því að ég átti inneignarmiða í hann og svo afþví að ég vissi að ég gæti hann. 2022 var árið sem ég myndi hlaupa mitt fyrsta maraþon og klára minn fyrsta hálfa járnkarl. Mér fannst þetta ansi töff af 53 ára gamalli konu sem er bara búin að æfa íþróttir í nokkur ár. Þetta voru líka fyrstu keppnirnar sem ég skráði mig í án þess að „æla“ af stressi. Fyrstu keppnirnar sem ég vissi að ég gæti. Fyrstu keppnirnar sem ég yrði í raun og veru virkilega vel æfð fyrir og tilbúin að takast á við þær.

Hlaupaæfingar fyrir áramót gengu glimrandi vel og ég tók bæði löng róleg hlaup, styttri hlaup og sprettæfingar. 31. des s.l. náði ég mínu besta 10 km hlaupi 56:51 mínúta, markmiðið hafði reyndar verið 54.59 mínúta en Gamlárshlaupið hafði verið blásið af þannig að þetta var bara ég að keppa við sjálfa mig og að er alltaf aðeins erfiðara og ég ákvað að njóta þess að hafa bætt mig svona mikið.

Í janúar varð aðeins minna um æfingar. Ég hætti að mæta á hópæfingar út af Covid. Var á leiðinni til Tenerife, fyrsta utanlandsferðin í 2 ár þannig að ég setti mig í búbblu til að smitast ekki rétt áður en ég fær út. Naut þess svo að vera úti í sól og tók nokkur róleg hlaup. Kom svo heim og fékk Covid rúmri viku eftir heimkomu en hafði verið í sóttkví nokkra daga áður.

Alltaf á byrjendareit

Þegar ég lít til baka þá sé ég hvað þessi 2 ár hafa í raun og veru verið erfið. Ég var alltaf að byrja upp á nýtt. Þegar ég var komin í form þá breyttust Covid reglurnar. Sundlaugarnar lokuðu, hjólaæfingar féllu niður og ég var alltaf að byrja upp á nýtt. Breytingaskeiðið kom líka af fullum krafti og ég var þreytt og orkulaus fyrri partinn í fyrra.  

Það er ótrúlega erfitt að byrja endalaust upp á nýtt og síðustu 2 ár hefur mér ég fundist vera á byrjendareit aftur og aftur og aftur. Mér fannst léttir að greinast með Covid og ég fann að þetta hafði verið stressfaktor sem var undirliggjandi. Hvenær greinist ég? hversu veik verð ég?  hvað verð ég lengi frá vinnu?  Ég hafði alltaf sloppið með skrekkinn. Hafði ekki einu sinni lent í sóttkví einu sinni. Þegar þú vinnur hjá sjálfri þér er dýrt spaug að lenda ítrekað í sóttkví. Það er enginn sem borgar þér veikindadagana nema þú sjálf.

Er hægt að hjóla í rigningu?

Ég var búin að panta mér hjólaferð til Spánar. Hilda vinkona sem kom með mér í fyrri Landvættinn ákvað að skella sér með og ég hefði líklega afbókað ferðina ef hún hefði ekki verið bókuð líka. Það voru 2 ástæður fyrir því. Ég var skíthrædd um að ég myndi ekki ná að hjóla neitt að viti og svo var ömurleg veðurspá. Það var spáð rigningu í 5 daga af 7. Það var bara sól daginn sem við lentum og daginn sem við flugum heim. Sem betur fer fór ég í ferðina. Bæði var veðrið mun betra en spáin hafði sýnt (enda ekki tengd við veðurklúbbinn á Dalvík) og einnig gekk hjólið mun betur en ég reiknaði með en meira um það í næsta bloggi.

Veðrið var reyndar ekkert sérstakt á Tenerife í janúar heldur. Það var svo hvasst að sundlaugin lokaði og bókin sem ég reyndi að lesa á sólbekkinum fauk í burtu. Auðvitað lá ég á sólbekk þó að það væri hvasst, það glitti í sólina á milli skýjabakkana. Ég fór alltaf út að hlaupa í stuttbuxum og hlýrabol svo ég myndi ekki kafna og mætti ótrúlega mörgum í síðum svörtum dúnkápum með húfu. Ég er því að velta fyrir mér að bjóða mig fram á þurrkasvæði. Það virðist fylgja mér rigning og vindur og pottþétt einhver svæði í heiminum sem hefðu gott af smá úrkomu.

Sex vikur að verða skítsæmileg

Sex vikum eftir að ég greindist með Covid gat ég loksins hlaupið með næstum eðlilegan púls. Ég tók létta sprettæfingu og púlsinn var lægri í sprettunum en í ljósastaurahlabbinu þegar ég var að reyna að hlaupa. Það er slítandi að missa niður orku. Það er lýjandi að byrja upp á nýtt. Hausinn fer alveg í kleinu. Þú ert að reyna að sannfæra þig um að þetta verði allt í lagi og það taki allt sinn tíma. Það gekk vel fyrstu 2-3 vikurnar en á viku 4 var gleðin og sannfæringin alveg fokin út í veður og vind. Ég afbókaði maraþonið þar sem ég var ekki búin að ná að hlaupa neitt af viti í 2 mánuði. Það er líka skrýtin tilfinning að vera í góðu lagi. Ég missti aldrei bragð- eða lyktarskyn. Ég fékk ekki hita, beinverki eða nein almennileg einkenni. Ég var alveg ótrúlega hress meðan ég var veik. Það var bara æfingaorkan og mjólkursýran eftir æfingar sem var í algjöru rugli. Ég sá einhverja rannsókn sem sagði að heilinn minnkaði eða eitthvað eftir Covid en mig minnir að það hafi verið eitthvað tengt bragð- og lyktarskyninu þannig að ég ákvað að taka það ekki til mín. Mér finnst reyndar að það ætti að vera bannað að birta svona fréttir. Það er nógu stressandi að glíma við orkuleysið að þurfa ekki líka að hafa áhyggjur af því að þú sért að missa vitið í orðsins fyllstu merkingu. Heilinn sé bara að gufa upp. Það er samt ótrúlega gott að vita af því að ef ég man ekki eitthvað eða klúðra einhverju að það sé allt Covid að kenna. 

Að tapa á Zwift

Ég setti mér markmið að hreyfa mig 5.000 kílómetra á þessu ári. Til að ég gæti mætt í vinnu þá ákvað ég að telja innihjólið með. Besta leiðin til að gera það er að tengja hjólið við swift. Það er líka miklu skemmtilegra að hjóla þannig. Fyrsta æfingin gekk ekkert alltof vel. Ég valdi fyrstu brautina sem kom upp. Hún hét Innsbruck minnir mig. Ég náði 7.7 km á tæpum klukkutíma. Þetta er svokölluð brekkubraut. „Frábær“ til að ná upp kílómetrafjölda. Ég heyrði í Jóni Inga í hjóladeildinni. Hann mælti með Tempus Fugit fyrir kílómetrasöfnun. Þetta væri frábær braut til að ná upp góðum hraða og margir að hjóla þannig að það væri hægt að drafta vel í henni (sorry ég skil ekki ennþá hvernig ég á að drafta á zwift til að ná upp hraða). Fyrstu æfingarnar gengu ekkert rosalega vel á þessari braut. Heildarhallinn er í kringum 30 m. Það er nú bara eins og 13.8 Shaquille O‘Neal uppstaflaðir, ekkert voðalega mikið. Fyrstu vikurnar fóru allir framúr mér. Ég náði aldrei að hlýða Zwift sem sagði reglulega „Close the Gap“ já viltu þá ekki bara biðja aðra að hjóla hægar ef ég á að ná þeim. Þegar ég fór upp þessar „rosalegu brekkur“ þá var ég að hjóla undir 10 km á klst og meðalhraðinn var langt undir 20. Ég setti mér því markmið að ná að hjóla 20 km á klst á mánuði. Ég mallaði þarna í kringum 20 km á klst. Svo skrapp ég til Spánar og svo kom orkan og 29. mars náði ég fyrstu almennilegu hjólaæfingunni minni. Ég 34 km á 1.12 klst og meðalhraðinn 28.2 km.

Þakklæti stendur eftir

Ég er þrátt fyrir allt bullandi þakklát. Ég fór vel út úr Covid. Þetta var bara smá hnökri í æfingum og ég var hvort sem er ekkert á eitthvað Heimsmeistaramót. Það kemur annað maraþon að ári. Núna er ég í raun að njóta þess að vera komin á nýjan byrjunarreit. Ég bjó til nýtt æfingaplan og er bara að hjóla, hlaupa og synda. Svo setti ég inn Yoga- og styrktarteygjur og finn ótrúlegan mun á mér hvað ég er að styrkjast og verða liðugri.  Ég hlakka til að sjá hvert þetta ár leiðir mig og hvaða spennandi verkefni detta í fangið á mér. Ég hef þá trú að ef einar dyr lokast þá galopnast þær næstu. Eftir 2 ára biðtíma er kominn tími á að stökkva út úr þægindarammanum og ég ætla að endurhanna mig eina ferðina enn. Hvernig það endar kemur í ljós á næstu mánuði. Fylgist með smile

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband